Fjármálaráðuneyti

470/1991

Reglugerð um endurgreiðslu virðisaukaskatts til sendimanna erlendra ríkja. - Brottfallin

1. gr.

Við kaup á vörum eða þjónustu innanlands ber erlendum sendiráðum og sendierindrekum að greiða virðisaukaskatt og aðra óbeina skatta eftir þeim reglum sem almennt gilda á Íslandi um þau viðskipti.

Erlend sendiráð og sendierindrekar (diplomatic agents) fá endurgreiddan virðisaukaskatt af vörum, þó ekki matvælum, enda sé því lýst yfir að viðkomandi vara sé eingöngu ætluð til notkunar fyrir erlent sendiráð eða til persónulegra nota sendierindreka og þeirra venslamanna hans er teljast til heimilisfólks.

2. gr.

Umsókn um endurgreiðslu skal beina til utanríkisráðuneytisins og fylgi umsókn frumrit af þeim reikningum sem endurgreiðslubeiðni er byggð á. Reikningar skulu vera í samræmi við ákvæði 20. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum. Eftir að utanríkisráðuneytið hefur gengið úr skugga um að í hlut eigi aðilar er undir reglurnar falla sendir það ríkisendurskoðun endurgreiðslubeiðni ásamt þeim reikningum er umsókn fylgja. Að lokinni endurskoðun sendir ríkisendurskoðun reikninga til viðkomandi sendiráðs með áritun um endurgreiðslu en sendir endurgreiðslubeiðni til ríkisféhirðis til afgreiðslu.

Ekki verður um endurgreiðslu að ræða nema heildarfjárhæð hvers einstaks reiknings nemi a.m.k. 10.000 kr., með virðisaukaskatti, og einungis ef viðkomandi reikningur ber það greinilega með sér að virðisaukaskattur hafi verið greiddur.

3. gr.

Um innflutning gilda ákvæði 3. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum.

4. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 47. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, til að öðlast gildi hinn 1. október 1991. Jafnframt er úr gildi felld reglugerð nr. 532/1989, um sama efni.

Fjármálaráðuneytið, 23. september 1991.

Friðrik Sophusson

Guðrún Ásta Sigurðardóttir


Þetta vefsvæði byggir á Eplica