Umhverfisráðuneyti

465/1998

Reglugerð um viðbrögð við bráðamengun sjávar. - Brottfallin

I. KAFLI.

Almenn ákvæði.

1. gr.

Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að samræma þær aðgerðir sem beita þarf þegar sjór og strendur mengast skyndilega vegna olíuslyss eða sambærilegra óhappa í höfnum landsins og utan hafnarsvæða og reyna að draga úr tjóni, eða koma í veg fyrir hugsanlegt tjón vegna bráðamengunar eftir því sem kostur er.

Reglugerð þessi fjallar um ábyrgð og verksvið þeirra sem eiga að bregðast við bráðamengun sjávar og um gerð viðbragðsáætlana innan sem utan hafnarsvæða í samræmi við 17. og 18. gr. laga um varnir gegn mengun sjávar nr. 32/1986.

Innan hafnarsvæða fjallar reglugerð þessi ennfremur um notkun mengunarvarnabúnaðar í umsjón hafnanna, rekstur hans og endurnýjun, þjálfun starfsmanna og samræmingu milli svæða og aðila sem vinna að þessum málum.

Utan hafnarsvæða fjallar reglugerð þessi um notkun búnaðar, þjálfun starfsmanna og samræmingu milli aðila sem vinna að þessum málum.

Skipurit sem skýrir aðkomu helstu aðila þegar bráð mengunaróhöpp verða á sjó fylgir hér sem fylgiskjal 1.

2. gr.

Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking hugtaka sem hér segir:

Hafnarsvæði: Svæði sem skilgreind eru sem slík í viðkomandi hafnarreglugerðum.

Bráðamengunaróhapp: Atburður, eða röð atburða sem leiða af sama atburði, sem hefur eða getur haft í för með sér losun mengandi efna og sem veldur hættu eða getur valdið hættu fyrir umhverfi hafsins, eða fyrir strendur eða skaðað hagsmuni tengda þeim og sem krefst neyðarráðstafana eða annarra tafarlausra úrræða.

Mengunarvarnabúnaður: Búnaður til að bregðast við bráðamengunaróhöppum einkanlega olíumengunaróhöppum. Hann samanstendur yfirleitt af flotgirðingum, olíuupptökutækjum, dreifiefnum og öðrum skyldum búnaði.

Olíumengunaróhapp: Atburður, eða röð atburða sem leiða af sama atburði, sem hefur eða getur haft í för með sér losun olíu og sem veldur hættu, eða getur valdið hættu, fyrir umhverfi hafsins, eða við strendur eða skaðað hagsmuni tengda þeim og sem krefst neyðarráðstafana eða annarra tafarlausra úrræða.

II. KAFLI.

Viðbrögð og búnaður innan hafnarsvæða.

3. gr.

Skipting landsins og flokkun hafna.

Landinu er skipt í fimm svæði eftir landshlutum og höfnum skipt í 3 flokka, hvað varðar mengunarvarnir og búnað.

Skipting hafna eftir mengunarvarnabúnaði:

Aðalhöfn:              Ein aðalhöfn er í hverjum landshluta. Þar skulu vera a.m.k. 300 m af flotgirðingum og eitt upptökutæki.

Svæðishöfn:          Að jafnaði eru 1-3 svæðishafnir í hverjum landshluta, sbr. skiptingu hér að neðan. Þar skulu vera a.m.k. 150 m af flotgirðingum.

Almenn höfn:        Þær hafnir sem eru hvorki aðalhafnir eða svæðishafnir teljast almennar hafnir. Þar er tekin ákvörðun um búnað eftir aðstæðum.

                Allar hafnir á hverju svæði eiga hlut í mengunarvarnabúnaði svæðisins.

                Skipting landsins í svæði:

 a)            Svæði 1 nær frá Stokkseyri til Stykkishólms. Aðalhöfn er í Reykjavík. Svæðishöfn er í Ólafsvík. Almennar hafnir á svæði 1 eru tilgreindar í fylgiskjali 2.

 b)           Svæði 2 nær frá Brjánslæk til Hólmavíkur. Aðalhöfn er Ísafjörður. Svæðishafnir eru á Patreksfirði og Hólmavík. Almennar hafnir á svæði 2 eru tilgreindar í fylgiskjali 3.

 c)            Svæði 3 nær frá Hvammstanga til Vopnafjarðar. Akureyri er aðalhöfn. Svæðishafnir eru á Sauðárkróki, Siglufirði og Þórshöfn. Almennar hafnir á svæði 3 eru tilgreindar í fylgiskjali 4.

 d)           Svæði 4 nær frá Borgarfirði eystra til Hafnar í Hornafirði. Aðalhöfn er Reyðarfjörður. Svæðishafnir eru á Seyðisfirði og Höfn. Almennar hafnir á svæði 4 eru tilgreindar í fylgiskjali 5.

 e)            Svæði 5 er Vestmannaeyjar sem er aðalhöfn. Almennar hafnir á svæði 5 eru tilgreindar í fylgiskjali 6.

4. gr.

Svæðisráð.

                Á hverju svæði skal starfa svæðisráð, kosið til 4 ára í senn að afloknum sveitarstjórnarkosningum af fulltrúum frá öllum höfnum hvers landshluta.

                Í svæðisráðinu skulu vera 3-5 menn eftir því sem aðildarhafnirnar ákveða. Formaður skal vera frá aðalhöfninni. Auk þess skal vera í ráðinu heilbrigðisfulltrúi sem tilnefndur skal af viðkomandi heilbrigðiseftirlitssvæðum. Falli atkvæði jöfn í svæðisráðinu ræður atkvæði formanns. Formaður skal kalla ráðið saman eftir þörfum en ekki sjaldnar en einu sinni á ári. Kostnaður vegna starfsins greiðist af viðkomandi aðilum.

                Aðalhöfn sér um reikningshald fyrir svæðisráðið, þ.m.t. rekstur mengunarvarnabúnaðarins, og gerir grein fyrir því á ársfundum þess. Þegar aðrar hafnir, t.d. svæðishafnir, sjá um hluta af búnaðinum, skulu þær gera aðalhöfn grein fyrir árlegu reikningshaldi, eigi síðar en 15. janúar fyrir næstliðið ár.

5. gr.

Hlutverk svæðisráðs.

                Hlutverk svæðisráðs samkvæmt 4. gr. er að hafa umsjón með rekstri, viðhaldi og endurnýjun mengunarvarnabúnaðarins.

                Ráðið skal sjá um að umsjónarmaður og annar til vara verði skipaðir með hverjum mengunarvarnabúnaði. Umsjónarmaður búnaðarins sér um rekstur, viðhald og endurnýjun hans. Hann er einnig yfirmaður aðgerða á mengunarstað, undir stjórn hafnarstjóra, þegar búnaðurinn er notaður.

                Svæðisráð skal halda æfingar að fenginni tillögu frá mengunarvarnaráði, sbr. 6. og 7. gr., og sjá um þjálfun þeirra sem koma til með að vinna með mengunarvarnabúnaðinn. Æfingar skulu haldnar í samvinnu við Hollustuvernd ríkisins og Landhelgisgæslu Íslands og fyrirkomulag þeirra ákveðið í samráði við þessa aðila.

                Ráðið skal samræma og koma upp viðbragðsáætlunum í höfnunum í samvinnu við Hollustuvernd ríkisins. Viðbragðsáætlanir skulu gerðar fyrir hverja höfn og taka mið af aðstæðum á hverjum stað. Áætlanirnar skulu m.a. benda á hvað er í húfi og hvað eigi að reyna að verja. Þær skulu greina frá tiltækum mengunarvarnabúnaði og hugsanlegum aðgerðum. Þær skulu ennfremur innihalda nöfn á tengiliðum sem hafa þarf samband við komi til bráðamengunaróhapps. Nöfn á tengiliðum skulu uppfærð a.m.k. árlega. Viðbragðsáætlanir fyrir almennar hafnir skulu fela í sér leiðbeiningar um lágmarksbúnað í þeim höfnum.

                Svæðisráðið skal fyrir 1. febrúar ár hvert skila eigendum og Hollustuvernd ríkisins skýrslu um störf sín, notkun mengunarvarnabúnaðarins, mat á ástandi hans og þörf á endurnýjun og bráðamengunaróhöpp sem orðið hafa á svæðinu og hvernig við þeim var brugðist.

                Svæðisráðið skal veita almennum höfnum leiðbeiningar um lágmarksútbúnað.

6. gr.

Mengunarvarnaráð hafna.

                Mengunarvarnaráð hafna skal skipað formönnum svæðisráða og fulltrúa Hollustuverndar ríkisins sem er formaður þess.

                Formaður skal kalla ráðið saman að minnsta kosti einu sinni á ári og skulu fundir haldnir á svæðunum til skiptis. Óski einn ráðsmanna eftir að fundur verði haldinn skal formaður verða við því.

7. gr.

Hlutverk mengunarvarnaráðs hafna.

                Hlutverk mengunarvarnaráðs hafna er að vera tengiliður milli svæðisráðanna og hlutaðeigandi eftirlitsaðila. Ráðið skal skipuleggja hvar æfingar skulu haldnar í samráði við Landhelgisgæslu Íslands. Kostnaður af störfum ráðsins greiðist af hlutaðeigandi aðilum, sbr. 6. gr.

8. gr.

Notkun mengunarvarnabúnaðar hafna.

                Hver höfn getur kallað eftir mengunarvarnabúnaði þegar ástæða þykir til.

                Allur kostnaður við flutninga og notkun á mengunarvarnabúnaðinum greiðist af þeirri höfn sem óskar eftir honum og notar hann. Höfnin krefur síðan mengunarvaldinn um greiðslu í samræmi við lög og reglur.

                Með mengunarvarnabúnaðinum skulu fylgja sérþjálfaðir umsjónarmenn hans og skulu þeir hafa umsjón með notkun hans allan tímann sem hún stendur yfir.

                Um gjald fyrir notkun mengunarvarnabúnaðarins fer samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur að fenginni tillögu mengunarvarnaráðs. Við gerð gjaldskrárinnar skal m.a. miðað við notkun á tækjum og útselda vinnu umsjónarmanna mengunarvarnabúnaðarins.

                Mengunarvarnabúnaðurinn skal þannig gerður að honum verði með skjótum hætti komið í flutningstæki, bíla eða flugvélar. Um mengunarvarnabúnaðinn fer að öðru leyti samkvæmt leiðbeinandi reglum í fylgiskjali 7.

9. gr.

Endurnýjun mengunarvarnabúnaðar hafna.

                Hafnirnar eiga og reka mengunarvarnabúnaðinn.

                Sjóður vegna reksturs og endurnýjunar mengunarvarnabúnaðar skal vera í umsjá hvers svæðisráðs. Til sjóðsins falla greiðslur fyrir notkun búnaðarins að frádregnum kostnaði við rekstur.

                Standi endurnýjunarsjóðurinn ekki undir kostnaði við kaup á nýjum mengunarvarnabúnaði skiptist kostnaðurinn á milli aðildarhafnanna á viðkomandi svæði eftir fjölda íbúa í sveitarfélögunum.

10. gr.

Stjórn á vettvangi.

                Í höfn þar sem bráðamengun hefur orðið ber hafnarstjóri ábyrgð á að aðgerðir gegn mengun hefjist og segir til um þegar þeim er lokið, sbr. fylgiskjal 1. Við ákvörðun um hvort og hvenær hefja skal eða ljúka aðgerðum skal eftir því sem kostur er hafa samráð við heilbrigðisfulltrúa. Ákvæði um samráð skulu þó ekki hindra hafnarstjóra í að hefja tafarlausar aðgerðir meti hann aðstæður þannig. Komi upp ágreiningur um valdmörk og framkvæmd milli hafnarstjóra og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga sker umhverfisráðherra úr.

                Hafnarstjóri stjórnar aðgerðum í samráði við umsjónarmann mengunarvarnabúnaðarins.

                Umsjónarmaður mengunarvarnabúnaðar hefur umsjón með búnaðinum og gefur hafnarstjóra ráð um heppilegustu notkun hans. Komi til ágreinings milli hafnarstjóra og umsjónarmanns mengunarvarnabúnaðar um notkun búnaðarins skal ákvörðun hafnarstjóra gilda, enda ber höfnin ábyrgð á greiðslu fyrir notkun búnaðarins og skemmdum sem á honum verða.

                Sé óskað eftir búnaði Hollustuverndar ríkisins á staðinn stjórnar umsjónarmaður búnaðar Hollustuverndar ríkisins notkun hans á mengunarstað eftir fyrirmælum hafnarstjóra. Umsjónarmaður ákveður hvernig búnaðurinn skuli notaður en komi upp ágreiningur sker Hollustuvernd ríkisins úr.

                Berist mengun út fyrir hafnarsvæði eða ef líkur eru á slíku að mati hafnarstjóra skal hann halda áfram aðgerðum þar til Hollustuvernd ríkisins hefur ákveðið annað. Hafnarstjóri skal jafnframt tilkynna Hollustuvernd ríkisins um stöðu mála. Hollustuvernd ríkisins sker úr um, eftir að hafa kannað aðstæður, hvort stofnunin eigi að taka við stjórn á mengunarstað eða óska eftir því við hafnarstjóra að hann stjórni aðgerðum áfram. Hafnarstjóra er heimilt að fela mengunarvaldinum sjálfum framkvæmd hreinsunar þegar trygging liggur fyrir um að hann muni greiða fyrir það tjón sem hann hefur valdið. Í slíkum tilvikum verður mengunarvaldurinn að leggja fram áætlun um hvernig hann muni standa að hreinsuninni. Hafnarstjóri hefur eftirlit með hreinsiaðgerðum og ákveður í samráði við hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd og Hollustuvernd ríkisins hvenær árangur af hreinsuninni er nægur.

III. KAFLI.

Viðbrögð og búnaður utan hafnasvæða.

11. gr.

Samráð stofnana.

                Hollustuvernd ríkisins, Landhelgisgæsla Íslands, Siglingastofnun Íslands og Almannavarnir ríkisins skulu gera með sér skriflegt samkomulag um samvinnu, verkaskiptingu og viðbrögð við bráðamengun í samræmi við ákvæði 17. gr. laga um varnir gegn mengun sjávar.

12. gr.

Samkomulag stofnana.

                Í samkomulagi stofnananna sem taldar eru upp í 11. gr. skal fjalla um ábyrgð og verkefni stofnananna og gildissvið samkomulagsins, svo sem:

-               skipsskaða/strand - engin merkjanleg mengun vegna olíu eða vökva sem fluttir eru í geyma (hætta á bráðri mengun);

-               skipsskaða/strand - sýnileg mengun af völdum olíu eða vökva sem fluttir eru í geyma;

-               siglingu skips í var eða til viðgerða eftir að óhapp hefur orðið.

                Samkomulagið skal enn fremur ná yfir eftirfarandi:

-               gerð sameiginlegra viðbragðsáætlana utan hafnarsvæða. Slíkar viðbragðsáætlanir skulu unnar í náinni samvinnu við Hafrannsóknastofnunina, Náttúrufræðistofnun Íslands, Geislavarnir ríkisins og aðra sambærilega aðila;

-               gerð leiðbeininga um viðbragðsáætlanir innan hafnarsvæða. Slíkar áætlanir skulu unnar í náinni samvinnu við Hafnasamband sveitarfélaga;

-               æfingar og þjálfun verkefnisstjóra mengunarvarna;

-               yfirferð yfir atburðarás eftir mengunaróhöpp til að meta árangur og gera tillögur um það sem betur má fara.

                Hver aðili að samkomulaginu skal sjá til þess að viðkomandi stofnun hafi a.m.k. einn þjálfaðan starfsmann til að stýra aðgerðum á vettvangi.

13. gr.

Hlutverk Hollustuverndar ríkisins.

                Hollustuvernd ríkisins skal sjá um:

-               gerð viðbragðsáætlana utan hafnarsvæða, sbr. 2. mgr. 12. gr. Við gerð slíkra áætlana skal haft samráð við Almannavarnir ríkisins. Viðbragðsáætlanir skulu taka mið af aðstæðum á hverjum stað, eftir því hvað er í húfi. Ef umfang eða eðli slyss er slíkt að ætla megi að almenningi stafi hætta af skal nota neyðarskipulag Almannavarna. Nöfn á tengiliðum vegna áætlananna skulu uppfærð árlega;

-               æfingar á tiltækum búnaði utan hafnarsvæða. Æfingarnar skal halda a.m.k. árlega;

-               rekstur mengunavarnabúnaðar, sbr. 16. gr;

-               æfingar og þjálfun verkefnisstjóra mengunarvarna;

-               samráð við aðra aðila sem kunna að koma að málum. Hollustuvernd ríkisins og viðkomandi rannsóknarstofnanir, svo sem Náttúrufræðistofnun Íslands, Hafrannsóknarstofnunin og Geislavarnir ríkisins skulu gera með sér skriflegt samkomulag um hvernig þessar stofnanir koma að málum.

                Þá skal Hollustuvernd ríkisins vinna leiðbeiningar um viðbragðsáætlanir innan hafnarsvæða í samráði við mengunarvarnaráð hafna, sbr. 6. gr.

14. gr.

Reglubundið eftirlit úr lofti.

                Landhelgisgæsla Íslands annast eftirlit úr lofti með hafsvæðinu umhverfis Ísland. Eftir hvert flug skal eftirlitsblað fyllt út samkvæmt tilmælum Kaupmannahafnarsamkomulagsins.

                Landhelgisgæsla Íslands skal taka saman fyrir 1. ágúst á hverju ári tölfræðiupplýsingar um flugtíma og annað sem Kaupmannahafnarsamkomulagið krefst og leggja skal fram á árlegum fundum samningsaðila þess.

15. gr.

Tilkynning um bráðamengunaróhöpp.

            Tilkynna skal um bráðamengunaróhöpp til stjórnstöðvar Landhelgisgæslu Íslands. Gefi fyrstu fréttir til kynna að ólíklegt sé að um verulegt óhapp sé að ræða eða ekki sé bráð hætta á ferðum skal Landhelgisgæslan hafa samband við viðkomandi heilbrigðisfulltrúa sem metur aðstæður.

                Telji tilkynnandi ótvírætt að veruleg hætta sé á ferðum, eða það er mat þeirra sem kannað hafa aðstæður, sbr. 1. mgr., skal Landhelgisgæsla Íslands kalla til vakthafandi aðila innan Hollustuverndar ríkisins sem gerir viðeigandi ráðstafanir til að fá nánari upplýsingar.

                Þegar ekki næst í viðkomandi heilbrigðisfulltrúa hefur Landhelgisgæsla Íslands samband við vakthafandi aðila innan Hollustuverndar ríkisins.

16. gr.

Notkun mengunarvarnabúnaðar Hollustuverndar ríkisins.

                Hollustuvernd ríkisins sér um rekstur og endurnýjun mengunarvarnabúnaðarins í samræmi við fjárveitingar á fjárlögum.

                Allur kostnaður við flutninga og notkun á búnaðinum greiðist af Hollustuvernd ríkisins fyrir hönd ríkissjóðs. Hollustuvernd ríkisins krefur síðan mengunarvaldinn fyrir hönd ríkissjóðs um greiðslu í samræmi við gildandi lög og reglugerðir og í samræmi við gjaldskrá sem ráðherra staðfestir.

                Ákvörðun um notkun búnaðarins og aðrar aðgerðir skal tekin af Hollustuvernd ríkisins eftir samráð við umhverfisráðuneytið.

                Með búnaðinum skulu fylgja sérþjálfaðir umsjónarmenn og skulu þeir hafa umsjón með honum allan tímann sem búnaðurinn er á staðnum.

17. gr.

Stjórn á vettvangi þegar notaður er búnaður Hollustuverndar ríkisins.

                Verkefnisstjóri mengunarvarna, skipaður af Hollustuvernd ríkisins, ákveður í samráði við umhverfisráðuneytið hvenær hefja skuli aðgerðir gegn mengun og segir til um þegar þeim er lokið, sbr. fylgiskjal 1. Við ákvörðun um hvenær hefja skuli eða ljúka aðgerðum skal leita álits viðkomandi heilbrigðisfulltrúa og heilbrigðisnefndar eftir því sem kostur er og aðstæður krefjast. Ákvæði um samráð skulu þó ekki hindra verkefnisstjóra mengunarvarna í að hefja aðgerðir, meti hann aðstæður svo brýnar.

                Vettvangsaðgerðir skulu eftir því sem kostur er taka mið af fyrirliggjandi viðbragðsáætlunum. Þannig skal neyðarskipulag Almannavarna ávallt notað þegar ætla má að almenningi stafi bráð hætta af menguninni.

                Hollustuvernd ríkisins er heimilt að fela mengunarvaldinum sjálfum framkvæmd hreinsunar þegar trygging liggur fyrir um að hann muni greiða fyrir það tjón sem hann hefur valdið. Í slíkum tilvikum verður mengunarvaldurinn að leggja fram áætlun um hvernig hann muni standa að hreinsuninni. Hollustuvernd ríkisins hefur eftirlit með hreinsiaðgerðum og ákveður hvenær árangur af þeim er nægur.

                Þegar líkur eru á að mengun berist á hafnarsvæði skal Hollustuvernd ríkisins tilkynna viðkomandi hafnarstjóra það tafarlaust. Þessir aðilar skulu samræma aðgerðir þar sem valdsvið skarast.

18. gr.

Gildistaka.

                Reglugerð þessi er sett með stoð í lögum um varnir gegn mengun sjávar nr. 32/1986 með síðari breytingum, og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað varðar skyldur sveitarfélaga, sbr. 3. mgr. 9. gr. laganna, og dómsmálaráðuneytið um þátt Landhelgisgæslu Íslands og Almannavarna ríkisins.

                Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.

Umhverfisráðuneytinu, 20. júlí 1998.

Guðmundur Bjarnason.

Sigurbjörg Sæmundsdóttir.

Fylgiskjal 1

Verksvið þeirra sem koma að bráðum mengunaróhöppum.

1. Viðbragðsaðilar.

Innan hafnarsvæða:

Viðkomandi hafnarstjórar, samanber meðfylgjandi flæðirit. Hollustuvernd ríkisins er ráðgefandi (sjá meðfylgjandi flæðirit).

Utan hafnarsvæða:

Hollustuvernd ríkisins í nánu samstarfi við Landhelgisgæslu Íslands og í samráði við Siglingastofnun Íslands (sjá meðfylgjandi flæðirit).

2. Eftirlit með viðbrögðum og mat á því hvenær nóg er að gert.

Innan hafnarsvæða:

Viðkomandi heilbrigðisnefndir. Hollustuvernd ríkisins er ráðgefandi.

Utan hafnarsvæða:

Hollustuvernd ríkisins. Viðkomandi heilbrigðisfulltrúi er ráðgefandi.

3. Forvarnir, samræming og vöktun á árangri aðgerða.

 

Aðili

 

Hlutverk

Skil til

Innan hafnarsvæða:

Mengunarvarnaráð

 

SAMRÆMING MILLI LANDSHLUTA

 

 

·

Búnaður

Hollustuverndar

 

·

Gjaldskrá

Svæðisráða

 

·

Æfingar

 

 

 

 

 

Svæðisráð

 

SAMRÆMING INNAN LANDSHLUTA

 

 

·

Rekstur búnaðar

Hollustuverndar

 

·

Æfingar

Einstakra hafna

 

·

Viðbragðsáætlanir

 

 

·

Æfing og þjálfun verkefnisstjóra

 

 

 

mengunarvarna

 

 

·

Leiðbeiningar til hafna

 

 

 

 

 

Utan hafnarsvæða:

Hollustuvernd, -

 

SAMRÆMING VERKA STOFNANANNA

Umhverfisráðherra

Landhelgisgæslan,

·

Gerð viðbragðsáætlana utan hafnarsvæða

 

Siglingastofnun og Almanna-

·

Samræming við svæðisráð

 

varnir ríkisins í samræmi við

·

Æfing og þjálfun verkefnisstjóra mengunar-

 

samkomulag

 

varna

 

 

 

 

 

Fylgiskjal 2

Hafnir í landshluta 1

AÐALHÖFN:

                REYKJAVÍK

SVÆÐISHAFNIR:

                SNÆFELLSBÆR

  Arnarstapi

  ÓLAFSVÍK (búnaður)

  Rifshöfn

ALMENNAR HAFNIR:

                AKRANES

                BORGARNES

                GARÐABÆR

                GRINDAVÍK

                GRUNDARFJÖRÐUR

                GRUNDARTANGI

                HÓLMAVÍK

                KEFLAVÍK / NJARÐVÍK

                                  Hafnir

                                  Garður

                SANDGERÐI

                SELTJARNARNES

                STOKKSEYRI

                STYKKISHÓLMUR

                VOGAR

                ÞORLÁKSHÖFN

 

Fylgiskjal 3

Hafnir í landshluta 2

AÐALHÖFN:

                ÍSAFJÖRÐUR

                                  Flateyri

                                  ÍSAFJÖRÐUR (búnaður)

                                  Suðureyri

                                  Þingeyri

SVÆÐISHAFNIR:

                HÓLMAVÍK

                PATREKSFJÖRÐUR

ALMENNAR HAFNIR:

                BOLUNGARVÍK

                VESTURBYGGÐ

                                  Patreksfjörður

                                  Bíldudalur

                                  Brjánslækur

                TÁLKNAFJÖRÐUR

Fylgiskjal 4

Hafnir í landshluta 3

AÐALHÖFN:

                HAFNASAMLAG NORÐURLANDS

                                  AKUREYRI (búnaður)

                                  Hjalteyri

                                  Svalbarðseyri

SVÆÐISHAFNIR:

                SAUÐÁRKRÓKUR

                - Hofsós

                SIGLUFJÖRÐUR

                ÞÓRSHÖFN

ALMENNAR HAFNIR:

                BLÖNDUÓS

                BAKKAFJÖRÐUR

                GRÍMSEY

                HAFNARSAMLAG EYJAFJARÐAR

                                  Árskógssandur, Hauganes

                                  Dalvík

                                  Ólafsfjörður

                HRÍSEY

                HÚSAVÍK

                HVAMMSTANGI

                KÓPASKER

                RAUFARHÖFN

                SKAGASTRÖND

                VOPNAFJÖRÐUR

Fylgiskjal 5

Hafnir í landshluta 4

AÐALHÖFN:

                REYÐARFJÖRÐUR

SVÆÐISHAFNIR:

                HÖFN

                SEYÐISFJÖRÐUR

ALMENNAR HAFNIR:

                BORGARFJÖRÐUR EYSTRI

                BREIÐDALSVÍK

                DJÚPIVOGUR

                ESKIFJÖRÐUR

                FÁSKRÚÐSFJÖRÐUR

                NESKAUPSTAÐUR

                STÖÐVARFJÖRÐUR

Fylgiskjal 6

Höfn í landshluta 5

AÐALHÖFN:

                VESTMANNAEYJAR

Fylgiskjal 7

Leiðbeinandi reglur um viðhald búnaðarins.

Þessar leiðbeinandi reglur eru gerðar með það að markmiði að allur búnaður sem á að vera í gámum sé í lagi þegar grípa þarf til hans í neyðartilvikum.

Vélar:

Allar vélar skal ræsa á minnst þriggja mánaða fresti.

                -  prófa dælur;

                -  kveikja á ljósum;

                -  setja í gang loftpressu.

Annar búnaður:

Útbúa skal gátlista þar sem farið er yfir hvort allt sé til staðar sem á að vera, svo sem:

                -  hlífðarfatnaður,

                -  verkfæri,

                -  hreinsiefni,

                -  dreifiefni.

Til að unnt sé að bregðast við með skjótum og ódýrum hætti er lagt til að útbúin verði kerra, eða öruggur aðgangur tryggður að kerru, sem rúmar lágmarkshluta af búnaðinum úr gámnum.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica