Umhverfisráðuneyti

806/2004

Reglugerð um takmörkun á krómi í sementi. - Brottfallin

806/2004

REGLUGERÐ
um takmörkun á krómi í sementi.

Markmið.
1. gr.

Markmið reglugerðar þessarar er að koma í veg fyrir heilsuskaða af völdum króms í sementi.


Gildissvið.
2. gr.

Reglugerð þessi gildir um framleiðslu, innflutning og notkun sements sem inniheldur sexgilt króm (króm (VI)).


Skilgreiningar.
3. gr.

Með markaðssetningu er í reglugerð þessari átt við dreifingu eða sölu efna og efnavöru.

Með sementi er í reglugerð þessari átt við portlandsement, hraðsement, blöndusement og hvers konar innflutt sement og óhörðnuð sementsbundin efni.


Takmarkanir.
4. gr.

Óheimilt er að framleiða, flytja inn, markaðssetja eða nota sement og vörur sem innihalda sement ef innihald uppleysanlegs sexgilds króms í vatnsblönduðu sementi er meira en 0,0002%, miðað við heildarþurrvigt sementsins.


Undanþágur.
5. gr.

Ákvæði 4. gr. á ekki við um markaðssetningu og notkun sements í lokuðum og sjálfvirkum ferlum þar sem sement og vörur með sementi eru eingöngu meðhöndlaðar í vélum og enginn möguleiki er á snertingu við húð manna.


Merkingar.
6. gr.

Þegar afoxunarmiðlar eru notaðir í sement skulu umbúðir merktar með læsilegum og óafmáanlegum merkingum um pökkunardag, geymsluskilyrði og hve langan tíma varan má geymast svo sexgilt króm haldist innan þeirra marka sem sett eru í 4. gr.

Um merkingu sements sem notað er skv. 5. gr. gilda sérákvæði um merkingar sements og sementsblandna í reglugerð um flokkun, merkingu og meðferð eiturefna og hættulegra efna og vörutegunda, sem innihalda slík efni.


Eftirlit.
7. gr.

Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga, undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar, hafa eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar.

Vinnueftirlit ríkisins hefur eftirlit með merkingum, notkun, geymslu og flutningi efna og efnavöru á vinnustöðum, sbr. lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.


Viðurlög.
8. gr.

Um brot gegn reglugerð þessari fer samkvæmt 26. gr. laga nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni.


Gildistaka.
9. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 18. gr. laga nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni, ásamt síðari breytingum.

Reglugerð þessi er sett með hliðsjón af ákvæðum tilskipunar 2003/53/EB um 26. breytingu á tilskipun varðandi takmörkun á sölu og notkun tiltekinna hættulegra efna og efnablanda (nónýlfenól, nónýlfenóletoxýlat og sement), sem vísað er til í 4. tl., XV. kafla, II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 173/2003, þann 6. desember 2003.

Reglugerðin öðlast gildi 17. janúar 2005.


Umhverfisráðuneytinu, 29. september 2004.

Sigríður A. Þórðardóttir.
Magnús Jóhannesson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica