Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 19. apríl 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 10. maí 2007

455/1993

Reglugerð um pappírslaust peningahappdrætti Happdrættis Háskóla Íslands.

1. gr.

Happdrætti Háskóla Íslands rekur sérstakt peningahappdrætti undir heitunum Gullnáman og Gullregn.

2. gr.

Rekstur happdrættisins skal byggður á notkun sjálfvirkra happdrættisvéla.

3. gr.

Happdrættisvélarnar skulu tengdar miðlægu tölvukerfi happdrættisins og mynda með þeim hætti efna heild.

Samvirkar happdrættisvélar geta haft aðgang að lukkupottum og átt hlutdeild í þeim. Þessar vélar geta hvort heldur sem er myndað kerfi á takmörkuðu svæði eða verið hluti of kerfi á landsvísu.

4. gr.

Stjórnendur happdrættisins ákveða hvar happdrættisvélunum verður komið fyrir.

Á hverjum stað þar sem happdrættisvélar eru í notkun skal vera umsjónarmaður sem þátttakendur geta snúið sér til.

5. gr.

Þátttaka í happdrættinu felst í því að þátttakandi greiðir að lágmarki eina einingu fyrir hvern einstakan leik. Einingin getur verið 1 kr., 2 kr., 5 kr., 10 kr., 25 kr. eða 50 kr. Greinilega skal koma fram á happdrættisvél hver grunneining leiks er.

Hámarksfjárhæð sem hægt er að nota í hverjum einstökum leik er 300 kr. Greiða skal fyrir þátttöku í happdrættinu með 50 kr. eða 100 kr. mynt, peningaseðlum eða með því að taka af uppsafnaðri inneign í happdrættisvél.

6. gr.

Útreiknað vinningshlutfall happdrættisvélanna skal að lágmarki vera 89%.

7. gr.

Á hverri happdrættisvél skal vera vinningaskrá sem með greinilegum hætti sýnir hverjir vinningar eru. Vinningar eru tvenns konar, fastar fjárhæðir og lukkupottar.

Vinningar skulu skilgreindir með samstæðum merkja, bókstafa, tölustafa og spila.

Lukkupottur er einn, Gullpottur. Fjárhæð hans skal háð þátttöku í happdrættinu og fara stöðugt hækkandi þar til einhver þátttakenda vinnur þá fjárhæð sem hverju sinni hefur safnast þar fyrir.

Í upphafi skal setja 1.000.000 kr. í Gullpottinn. Þegar fjárhæð Gullpotts hefur unnist og potturinn tæmst skal setja 1.000.000 kr. í pottinn á ný vegna frekari þátttöku.

8. gr.

Tölvukerfi happdrættisins skal byggt á miðlægum stjórntölvum sem tengdar skulu með símalínum við samskiptabúnað og tölvuvæddar happdrættisvélar á hverjum sölustað. Hugbúnaður sem notaður er í tölvukerfinu skal:

a. tryggja að útborgað vinningshlutfall nemi til jafnaðar a.m.k. 89%;

b. tryggja að innan mjög þröngra marka sé það tilviljun sem ráði því hvernig vinningar falla og að ekki sé unnt að hafa nein áhrif á það hver hlýtur vinning né hvenær vinningar falla;

c. sjá til þess að nákvæmlega sé skráð í tíma með óbreytanlegum hætti fyrir hve háa fjárhæð hefur verið spilað í hverri einstakri happdrættisvél og hversu mikið vélin hefur borgað út í vinningum;

d. sjá til þess að nákvæmlega sé skráð í tíma hvenær einstakar happdrættisvélar hafa verið opnaðar og þeim lokað:

e. sjá til þess að í tölvumiðstöð séu stöðugt gefnar upplýsingar í prentuðu formi um stöðu heildarkerfisins og þá sérstaklega ef vart verður við einhverja óreglu í kerfinu, t.d. bilun einstakra véla eða truflun á símboðum:

f. sjá til þess að hvenær sem er sé unnt að fá útprentun á þeim upplýsingum sem geymdar eru í tölvukerfinu.

9. gr.

Til að tryggja að kröfum, sem greinir í 8. gr., sé fullnægt skal liggja fyrir vottorð um að tölvukerfið, þ.m.t. hugbúnaður, fullnægi þeim kröfum. Vottorð þessa efnis skulu gefin út af rannsóknastofnun sem hlotið hefur alþjóðlega viðurkenningu á hæfni til að framkvæma úttekt á slíkum kerfum. Happdrættisráð fær sérfróða menn til að fylgjast með úttekt kerfisins. Happdrættisráðið staðfestir heimild til notkunar kerfisins.

10. gr.

Vinningshafar skulu að jafnaði fá vinninga sína greidda úr happdrættisvélinni á sjálfvirkan hátt. Vinningar eru greiddir út í 50 kr. eða 100 kr. peningum. Nú eru ekki nægilega margir peningar í vél til að borga út vinning, eða inneign í happdrættisvél er lægri en 100 kr. og skal þá vinningshafi snúa sér til umsjónarmanns vélarinnar sem greiðir vinningshafa það sem upp á vantar.

Þátttakandi sem vinnur lukkupott eða vinningsfjárhæð sem er 50.000 kr. eða hærri skal fá í hendur skriflega staðfestingu þess efnis frá umsjónarmanni. Aðalskrifstofa happdrættisins greiðir síðan vinningshafa vinninginn gegn framvísun staðfestingarinnar.

Allar happdrættisvélarnar skulu búnar sérstöku ljósi sem auðveldar vinningshafa að ná sambandi við umsjónarmann vélar.

11. gr.

Aðgangur að happdrættisvélunum skal takmarkaður við þá sem eru 18 ára og eldri.

Umsjónarmaður happdrættisvélanna á hverjum stað skal halda uppi fullnægjandi eftirliti með aldri þátttakenda.

12. gr.

Vinnings skal vitja innan árs frá því til hans var unnið. Að þeim fresti liðnum verður vinningurinn eign happdrættisins.

13. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum um happdrætti Háskóla Íslands, nr. 13 13. apríl 1973, sbr. lög nr. 23 5. maí 1986, öðlast þegar gildi.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.