Leita
Hreinsa Um leit

Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

453/2009

Reglugerð um ættleiðingarfélög.

I. KAFLI

Löggilding ættleiðingarfélags.

1. gr.

Dómsmálaráðherra getur veitt félagi löggildingu til að annast milligöngu um ættleiðingar á börnum frá erlendum ríkjum.

Löggilding félags er veitt til þriggja ára í senn. Heimilt er að veita löggildingu til styttri tíma.

Í löggildingarskjali skal koma fram til hvaða ríkja löggilding taki.

2. gr.

Löggilding verður aðeins veitt félagi sem vinnur að ófjárhagslegum markmiðum og hefur hagsmuni barnsins að leiðarljósi í allri starfsemi sinni.

Fullnægi löggilt ættleiðingarfélag ekki lengur skilyrðum laga eða reglna sem um slík félög gilda, og sinnir ekki áskorun ráðuneytisins um úrbætur, skal ráðherra afturkalla lög­gildingu þess.

II. KAFLI

Hlutverk löggilts ættleiðingarfélags.

3. gr.

Hlutverk löggilts ættleiðingarfélags er að sjá til þess að ættleiðing barns frá erlendu ríki fari því aðeins fram að tryggt sé að gætt hafi verið íslenskra laga og reglna um ættleiðingar auk laga og reglna upprunaríkis og ákvæða þeirra alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að og snerta ættleiðingar.

Félaginu ber að upplýsa væntanlega kjörforeldra um meginákvæði íslenskra og alþjóð­legra reglna um ættleiðingar á börnum milli landa.

4. gr.

Aðstoð um milligöngu má einungis veita þeim sem búsettir eru á Íslandi, sem hyggjast ættleiða barn sem ekki á ríkisfang í eða er búsett í hinum norrænu ríkjunum.

Löggiltu ættleiðingarfélagi er skylt að veita þeim aðstoð um milligöngu sem fullnægja skil­yrðum sem íslensk lög setja fyrir útgáfu forsamþykkis og ættleiðingu á barni frá ríki sem löggilding félagsins tekur til og fullnægja skilyrðum þeim sem upprunaríkið, sem óskað er eftir barni frá, setur.

5. gr.

Félagið ber ábyrgð á að væntanlegir kjörforeldrar, sem félagið annast milligöngu fyrir, sæki námskeið til undirbúnings ættleiðingu á erlendu barni. Upplýsingar um tilhögun námskeiðs skal senda dómsmálaráðuneytinu til staðfestingar.

6. gr.

Félaginu er óheimilt að stuðla að því að erlent barn sé flutt til Íslands, með það að mark­miði að barnið verði ættleitt, áður en sýslumaður hefur gefið út forsamþykki til ættleiðingar.

7. gr.

Ef um ættleiðingu er að ræða á grundvelli Haagsamningsins um vernd barna og sam­vinnu varðandi ættleiðingu milli landa frá 1993 skal félagið veita samþykki samkvæmt c-lið 17. gr. samningsins.

8. gr.

Löggilt ættleiðingarfélag skal sjá til þess að í upprunaríki barns séu gerðar þær ráðstafanir, þ. á m. varðandi samþykki til ættleiðingar og um brottför barns úr landi, sem eru nauðsynlegar samkvæmt lögum upprunaríkisins og íslenskum reglum um ætt­leið­ingar. Félagið skal aðstoða umsækjendur, sem hyggjast sjálfir sækja barn, við ferðir til og frá upprunaríki barns og dvöl þar, enda séu umsækjendur og barn nægilega tryggð að mati félagsins, eða sjá til þess með öðrum hætti að barn njóti fullnægjandi fylgdar á ferðalaginu til Íslands. Félagið skal ennfremur aðstoða umsækjendur vegna aðgerða dómstóla eða stjórnvalda í upprunaríkinu í tilefni af ættleiðingu barns.

9. gr.

Félagið skal sinna ráðgjafarþjónustu um ættleiðingar og veita félagsmönnum sínum þjónustu eftir að ættleiðing hefur verið veitt, sbr. 9. gr. c Haagsamningsins.

10. gr.

Félagið ber ábyrgð á að skýrslur um stöðu barns eftir komu þess til landsins (follow up reports) séu sendar upprunaríki barns í samræmi við þær reglur sem um það gilda í ríkinu.

11. gr.

Um verkefni löggiltra ættleiðingarfélaga fer að öðru leyti samkvæmt lögum um ætt­leið­ingar og Haagsamningnum.

III. KAFLI

Meðferð ættleiðingarmála.

12. gr.

Hið löggilta ættleiðingarfélag sendir sýslumanni umsóknir væntanlegra kjörforeldra um for­samþykki til ættleiðingar barns frá erlendu ríki, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 30. gr. laga um ættleiðingar. Fylgigögn þau, sem getið er á eyðublöðum ráðuneytisins, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 30. gr., skulu fylgja umsóknum til sýslumanns.

Ef forsamþykki er gefið út sendir sýslumaður hinu löggilta félagi frumrit þess. Sýslumaður tilkynnir félaginu ef synjað er útgáfu forsamþykkis.

Félagið sendir forsamþykki ásamt viðeigandi fylgigögnum til upprunaríkisins.

Félagið tekur við upplýsingum um tiltekið barn frá upprunaríkinu og rannsakar fylgigögn. Læknisfræðilegar upplýsingar skulu kynntar lækni sem gefur félaginu álit sitt á þeim. Telji félagið gögnin fullnægjandi kynnir það væntanlegum kjörforeldrum málið og aflar samþykkis þeirra til áframhaldandi málsmeðferðar og veitir samþykki samkvæmt c-lið 17. gr. Haagsamningsins ef við á.

13. gr.

Þegar barn er komið hingað til lands skal félagið senda sýslumanni umsókn væntanlegra kjörforeldra um ættleiðingu þess og nafnbreytingu, ef hennar er óskað, hafi ættleiðing ekki verið veitt í upprunaríki barnsins.

Umsókn skal fylgja leyfi þar til bærs stjórnvalds eða dómstóls í upprunaríki barnsins til væntanlegra kjörforeldra þess til að fara með barnið úr landi til Íslands í því skyni að það verði ættleitt hér á landi. Vegabréf barnsins og önnur gögn frá upprunaríki þess sem tengjast fyrirhugaðri ættleiðingu skulu og fylgja umsókn.

14. gr.

Ef upprunaríki barns er aðili að Haagsamningnum skal félagið, þegar barnið er komið til landsins, senda sýslumanni umsókn kjörforeldra um skriflega viðurkenningu íslenskra stjórnvalda á gildi ættleiðingar sem veitt hefur verið í upprunaríkinu, um nafn barns og um staðfestingu á því að barnið öðlist íslenskt ríkisfang, ef þess er óskað. Skal umsókn kjörforeldra fylgja staðfesting þar til bærs stjórnvalds í upprunaríki barnsins um að ættleiðingin hafi farið fram, sbr. 1. mgr. 23. gr. samningsins, ásamt vegabréfi barnsins og öðrum gögnum frá upprunaríki þess, sem tengjast ættleiðingunni.

IV. KAFLI

Stjórn og starfshættir ættleiðingarfélags.

15. gr.

Stjórn löggilts ættleiðingarfélags skal skipuð 7 mönnum hið minnsta. Í stjórninni skulu eiga sæti læknir og lögfræðingur, en verði því ekki við komið skal stjórn félagsins, í sam­ráði við dómsmálaráðuneytið, leita samstarfs við lækni og/eða lögfræðing sem skal vera félaginu til ráðgjafar.

Félagið skal setja sér lög um starfsemi sína. Lögum félagsins má ekki breyta án samþykkis dómsmálaráðuneytisins.

Breytingar á stjórn félagsins skal tilkynna dómsmálaráðuneytinu áður en 14 dagar eru liðnir frá breytingu stjórnar.

Ráðning og lausn starfsmanns, sem hefur umboð til að koma fram fyrir hönd félagsins, skal tilkynna dómsmálaráðuneytinu áður en 14 dagar eru liðnir frá ákvörðun þess efnis.

16. gr.

Stjórnarmenn félags, starfsmenn og aðrir sem kunna að vinna í þágu félagsins, skulu hafa þekkingu á þeim málum er varða ættleiðingar á erlendum börnum. Þeim ber einkum að hafa góða þekkingu á ákvæðum Haagsamningsins og íslenskum lögum og reglum um ættleiðingar en einnig á lögum samstarfsríkja félagsins.

17. gr.

Stjórnarmenn félags, starfsmenn og aðrir sem kunna að vinna í þágu félagsins, eru bundnir þagnarskyldu um hvaðeina er þeir fá vitneskju um varðandi einkahagi manna við störf sín fyrir félagið. Þagnarskylda helst þótt látið sé af störfum.

Þeir sem nefndir eru í 1. mgr. mega ekki taka þátt í meðferð ættleiðingarmáls ef þeir eða menn þeim nákomnir eru aðilar málsins.

18. gr.

Félagið skal hafa opna skrifstofu í tiltekinn tíma í viku hverri. Þann tíma sem skrifstofan er opin skal auglýsa á heimasíðu félagsins eða á annan aðgengilegan hátt.

19. gr.

Félagið skal eftir þörfum og að eigin frumkvæði tilkynna dómsmálaráðuneytinu um breyttar aðstæður í sambandi við meðferð ættleiðingarmála sem félagið annast.

20. gr.

Félagið skal tilkynna ráðuneytinu um fjárhæð þess gjalds sem félagsmenn inna af hendi til félagsins. Fjármuni þessa má eingöngu nýta til verkefna sem tengjast ættleiðingum, sbr. 3. mgr. 35. gr. ættleiðingarlaga og 32. gr. Haagsamningsins.

Félagið má einungis inna af hendi fjárgreiðslur til mannúðarmála, fyrir utan nauðsynlegar fjárgreiðslur vegna kostnaðar við ættleiðingar barna til Íslands.

21. gr.

Gera skal ársreikning um starfsemi félagsins að ættleiðingarmálum og um aðra starfsemi er fram fer á vegum félagsins. Ársreikningur skal endurskoðaður og áritaður af löggiltum endurskoðanda og eitt eintak hans sent dómsmálaráðuneytinu áður en 14 dagar eru liðnir frá áritun.

Félagið skal, ef þess er óskað, veita dómsmálaráðuneytinu upplýsingar um fjármál þess, starfsmenn og annað er lýtur að starfsemi félagsins, þ. á m. um meðferð einstakra ættleið­ingar­mála.

Haga skal rekstri félagsins með þeim hætti að öruggt sé að unnt verði að ljúka ættleiðingarmálum, er kunna að vera til meðferðar á vegum þess, ef það verður lagt niður.

V. KAFLI

Samstarfsaðilar, erlend miðstjórnvöld og viðurkenndar stofnanir.

22. gr.

Þegar ættleiðingarfélag óskar eftir löggildingu til að starfa í ríki þar sem það hefur ekki starfað áður skal það veita dómsmálaráðuneytinu upplýsingar um starfsemi hinna erlendu aðila sem það hyggst starfa með og upplýsingar um lög og reglur ríkisins.

Hafi félagið þegar fengið heimild þar til bærra yfirvalda til að starfa í ríkinu skal stað­festing þess efnis lögð fyrir ráðuneytið.

Þegar félag hefur lagt fullnægjandi gögn fyrir ráðuneytið leitar ráðuneytið með form­legum hætti eftir samstarfi við hið erlenda ríki sem í hlut á.

23. gr.

Löggilt ættleiðingarfélag má einungis eiga samstarf við einstaklinga, viðurkenndar stofnanir og yfirvöld sem annast milligöngu í öðrum ríkjum í eftirfarandi tilvikum:

  1. ef starfsemi þeirra er í samræmi við lög þess ríkis,
  2. ef þau eru reiðubúin til að starfa í samræmi við þau skilyrði sem sett eru um milligöngu á Íslandi og ætla má að þau geti það,
  3. ef starfsemi þeirra er rekin á siðferðilegum og faglegum grundvelli.

Félagið skal kynna hinum erlendu aðilum sem það á í samskiptum og samstarfi við íslensk lög og aðrar reglur um ættleiðingar.

Félagið má ekki hefja samstarf við erlendan aðila ef sá aðili á þegar samstarf við annað íslenskt ættleiðingarfélag, nema með samþykki dómsmálaráðuneytisins.

24. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 3. mgr. 34. gr. og 41. gr. laga um ættleiðingar nr. 130 31. desember 1999, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 11. maí 2009.

Ragna Árnadóttir.

Kristrún Kristinsdóttir.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica