Fara beint í efnið

Prentað þann 19. apríl 2024

Ógild reglugerð

45/2003

Reglugerð um námskeið og próf til að öðlast leyfi til sölu notaðra ökutækja.

I. KAFLI Prófnefnd og próf.

1. gr.

Prófnefnd bifreiðasala, sem viðskiptaráðherra skipar, skal hafa yfirumsjón með námskeiði og prófi samkvæmt ákvæðum 6. tölul. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 28/1998, um verslunaratvinnu, sbr. einkum IV. kafli laganna um sölu notaðra ökutækja.

Viðskiptaráðherra skipar nefndina til tveggja ára í senn. Í henni eiga sæti þrír menn og skal einn þeirra vera fulltrúi bifreiðaeigenda og annar fulltrúi bifreiðasala. Þrír varamenn skulu valdir með sama hætti.

2. gr.

Prófnefnd heldur gerðabók. Í hana skal færa ákvarðanir nefndarinnar og niðurstöður prófa.

3. gr.

Prófnefnd tekur ákvörðun um efni sem prófað er úr. Við ákvörðun sína skal prófnefnd leggja til grundvallar að efnið krefjist þekkingar á:

  1. Réttarreglum um störf bifreiðasala og um kaup og sölu á notuðum ökutækjum.
  2. Fjármálalegum og hagnýtum atriðum sem reynt getur á við kaup og sölu á notuðum ökutækjum.
  3. Gerð skjala sem tengjast kaupum og sölum á notuðum ökutækjum.

4. gr.

Próf skal að jafnaði haldið í beinu framhaldi af námskeiði en þó er unnt að ákveða aðra skipan.

Prófnefnd ákveður fjölda prófa og hvar og hvenær próf skulu haldin. Próf skulu að jafnaði vera skrifleg. Við skrifleg próf skal nemandi hafa a.m.k. tvær klst. til að vinna að úrlausn sinni.

5. gr.

Prófnefnd stendur fyrir prófum. Heimilt er henni að fela kennara sem annast kennslu á námskeiði, sbr. 7. gr., að semja prófverkefni, fara yfir og gefa einkunn fyrir prófúrlausnir á sérsviði hans. Einkunnir á prófum skulu gefnar í heilum og hálfum tölum frá 0 til 10. Til þess að standast próf þarf nemandi að hljóta a.m.k. 7,0 í einkunn og a.m.k. 5,0 í hverju prófi ef um fleiri en eitt próf er að ræða. Nemandi á rétt á að fá útskýringar prófnefndar eða kennara á einkunn sinni ef hann æskir þess innan fimmtán daga frá birtingu hennar. Telji nemandi skýringar kennara ófullnægjandi getur hann skotið mati kennara á úrlausn sinni til prófnefndar til endurmats. Mat prófnefndar á úrlausn er í öllum tilvikum endanlegt.

Prófnefnd skal staðfesta með skírteini að nemandi hafi staðist próf.

6. gr.

Prófnefnd er skylt að gangast fyrir sjúkraprófi hafi nemandi ekki sótt próf vegna veikinda nema því aðeins að fyrirsjáanlegt sé að næsta reglulega próf verði haldið innan þriggja mánaða.

Ekki er skylt að halda sérstakt upptökupróf fyrir nemendur sem ekki ná tilskildri lágmarkseinkunn. Þeim er hins vegar heimilt að þreyta próf næst þegar reglulegt próf er haldið án þess að sækja námskeið, þó ekki oftar en tvisvar sinnum.

II. KAFLI Námskeið.

7. gr.

Prófnefnd stendur fyrir námskeiði til undirbúnings prófi og ákveður hvernig námskeiðshaldi skuli háttað. Námskeið skal haldið svo oft sem þurfa þykir. Eigi er skylt að halda námskeið nema þátttakendur á því verði tíu hið fæsta.

Prófnefnd ræður kennara og aðra sem tengjast námskeiðshaldinu. Ráningarkjör skulu staðfest af viðskiptaráðherra.

8. gr.

Á námskeiði skv. 7. gr. skal einkum fjallað um eftirfarandi atriði:

  1. Kauparétt.
  2. Samningsrétt.
  3. Veðrétt lausafjármuna og þinglýsingar.
  4. Viðskiptabréfareglur.
  5. Vátryggingar ökutækja.
  6. Opinber gjöld af ökutækjum og reglur um virðisaukaskattsbifreiðar.
  7. Reglur um skráningu ökutækja, skoðun o.fl.
  8. Mat á ástandi og verðmæti ökutækja, ráðgjöf við kaupendur.
  9. Fjármálaleg ráðgjöf við kaupendur.

III. KAFLI Námskeiðsgjald o.fl.

9. gr.

Viðskiptaráðherra ákveður námskeiðsgjald að fenginni tillögu prófnefndar. Námskeiðsgjald skal greitt fyrirfram áður en námskeið hefst. Við ákvörðun námskeiðsgjalds skal miða við það að nemendur greiði allan kostnað af námskeiði og prófi. Námskeiðsgjald er óendurkræft nema námskeið falli niður.

Nú nýtir nemandi sér heimild 2. mgr. 6. gr. og skal hann þá greiða helming námskeiðsgjalds.

10. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 6. tölul. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 28/1998, um verslunaratvinnu, sbr. einkum IV. kafla laganna um sölu notaðra ökutækja, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 407/1994, um námskeið og próf til að öðlast leyfi til sölu notaðra ökutækja.

Viðskiptaráðuneytinu, 15. janúar 2003.

Valgerður Sverrisdóttir.

Kristján Skarphéðinsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.