Umhverfisráðuneyti

187/1999

Reglugerð um halónslökkvikerfi. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um halónslökkvikerfi.

Markmið.

1. gr.

Markmið reglugerðar þessarar er að minnka losun halóns út í andrúmsloftið og draga þannig úr eyðingu ósonlagsins.

Skilgreiningar og gildissvið.

2. gr.

Reglugerðin nær til slökkvikerfa með halón 1301 (brómtríflúormetan, CF3Br).

Takmörkun á notkun halóna.

3. gr.

Óheimilt er að setja upp og endurhlaða halónslökkvikerfi. Notkun halónslökkvikerfa er bönnuð frá og með 1. október 2000. Þann dag skal vera búið að setja viðurkenndan slökkvibúnað í öll vélarrúm skipa sem reglur þessar ná til. Lokið skal við að fjarlægja halónslökkvikerfi fyrir 1. júní 2001.

Bann við notkun eða endurhleðslu með endurunnu halóni, sbr. 1. mgr., á ekki við um flugvélar og skip allt að 60 m að lengd.

Prófun halónslökkvikerfa.

4. gr.

Ekki er heimilt að prófa halónslökkvikerfi þannig að losun halóns eigi sér stað.

Undanþágur.

5. gr.

Umhverfisráðherra er heimilt að veita skipum sem eru 60 m eða lengri, sem skipta eiga um slökkvikerfi fyrir 1. október 2000, sbr. 3. gr., frest til endurnýjunar á slökkvibúnaði allt til 1. janúar 2003 ef fyrirhugaðar eru breytingar í vélarrúmi skipsins innan þessa tíma, svo sem aðalvélaskipti og stækkun vélarrúms, sem hefur í för með sér uppsetningu á nýju slökkvikerfi.

Ef sérstakar ástæður mæla með því getur umhverfisráðherra veitt tímabundnar undanþágur frá ákvæðum 3. gr. að fenginni umsögn Hollustuverndar ríkisins og Siglingastofnunar Íslands þegar við á. Í umsóknum um undanþágur skal gerð grein fyrir notkun efnisins og hvers vegna ekki er unnt að nota efni sem eru minna skaðleg umhverfinu.

Eftirlit með slökkvikerfum.

6. gr.

Þeir aðilar sem hafa halónslökkvikerfi sem þessi reglugerð nær til skulu fyrir 1. nóvember 1999 skila inn til Hollustuverndar ríkisins áætlun um fyrirhugaða endurnýjun slökkvikerfisins, hvaða slökkvikerfi eða búnaður verði settur upp í staðinn og við hvaða tíma er miðað. Þar skal gera grein fyrir aldri og gerð slökkvikerfis og magni halóns sem bundið er í kerfinu svo og í varabirgðum.

Þegar slökkvikerfi eru tekin niður skal tryggja að ekki eigi sér stað losun á halóni út í umhverfið. Jafnframt skal tryggja að halón sem var á kerfinu verði fargað á viðurkenndan hátt eða það endurnýtt. Tilkynna skal Hollustuvernd ríkisins að kerfið hafi verið tekið niður og hvernig halóninu hafi verið ráðstafað. Samþykki Hollustuverndar ríkisins þarf fyrir fyrirhugaðri endurnotkun efnisins og fyrir flutningi þess úr landi.

Eigi sér stað losun halóns, hvort sem er vegna elds eða óhapps, skal tilkynna það innan 2 vikna til Hollustuverndar ríkisins.

Eftirlit.

7. gr.

Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga, undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins, hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar, sbr. þó eftirlit sem er í höndum Flugmálastjórnar, Siglingastofnunar Íslands og Brunamálastofnunar ríkisins.

Viðurlög.

8. gr.

Með mál sem kunna að rísa út af brotum á reglugerð þessari skal fara með að hætti opinberra mála.

Brot gegn reglugerðinni varða sektum. Nú er brot ítrekað eða stórfellt og getur þá refsing varðað varðhaldi eða fangelsi allt að tveimur árum. Tilraun til brota eða hlutdeild í brotum er refsiverð eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Gildistaka.

9. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í ákvæði 2. mgr. 29. gr. laga nr. 52/1988 um eiturefni og hættuleg efni, með síðari breytingum, og samkvæmt 4. tl. 5. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað varðar skyldur sveitarfélaga, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 7/1998, og samgönguráðuneytið um þátt Siglingastofnunar Íslands og Flugmálastjórnar.

Reglugerð þessi hefur verið tilkynnt í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 534/1995, um gildistöku tiltekinna tilskipana Evrópubandalagsins, um tilhögun upplýsingaskipta vegna setningar tæknilegra staðla og reglugerðar, sbr. 1. tölul. XIX. kafla II. viðauka EES-samningsins, sbr. tilskipun ráðsins nr. 83/189/EBE.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.

Umhverfisráðuneytinu, 10. mars 1999.

Guðmundur Bjarnason.

Sigurbjörg Sæmundsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica