Fara beint í efnið

Prentað þann 19. apríl 2024

Stofnreglugerð

441/2010

Reglugerð um vigtarmannanámskeið.

I. KAFLI Gildissvið og skilgreiningar.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til námskeiða til löggildingar vigtarmanna sem haldin eru á ábyrgð Neytendastofu ásamt prófum, endurnýjunar réttinda, endurmenntunarnámskeiða og starfshátta vigtarmanna.

2. gr. Skilgreiningar.

Nota skal eftirfarandi skilgreiningar um vigtarmannanámskeið, sbr. 1. gr.:

  1. Almennt vigtarmannanámskeið: Grunnnámskeið fyrir þá sem óska eftir réttindum til löggildingar vigtarmanna.
  2. Endurmenntunarnámskeið: Námskeið fyrir þá sem hafa verið með gild réttindi sem löggiltir vigtarmenn.
  3. Löggilding vigtarmanns: Formleg staðfesting á að einstaklingur uppfylli skilyrði laga og reglna settra samkvæmt þeim um menntun og önnur skilyrði til að starfa sem vigtarmaður, meðal annars að hafa skilað inn fullnægjandi gögnum.
  4. Prófnefnd: Þriggja manna prófnefnd sem ráðherra skipar til fimm ára í senn. Neytendastofa tilnefnir einn fulltrúa, Fiskistofa einn, en ráðherra skipar einn fulltrúa án tilnefningar og er hann jafnframt formaður nefndarinnar.

II. KAFLI Réttindi og endurnýjun réttinda.

3. gr. Réttindi.

Réttindi til að starfa sem löggiltur vigtarmaður skulu vera eftirfarandi:

1. A-réttindi: Full réttindi. Veita vigtarmönnum réttindi til að taka að sér störf sem löggiltum vigtarmönnum einum eru falin samkvæmt ákvæðum í lögum eða reglum settum samkvæmt þeim, þ.m.t. rétt til að vigta sjávarafla.
2. B-réttindi: Takmörkuð réttindi. Veita vigtarmönnum réttindi til að taka að sér störf sem löggiltum vigtarmönnum einum eru falin samkvæmt ákvæðum í lögum eða reglum settum samkvæmt þeim, að undanskildum rétti til að vigta sjávarafla.

4. gr. Reglur um endurnýjun réttinda.

Sá sem óskar endurnýjunar á réttindum skal sækja endurmenntunarnámskeið. Skilyrði fyrir setu á endurmenntunarnámskeiði er að umsækjandi hafi áður öðlast réttindi og að sótt hafi verið um endurnýjun réttinda innan þriggja ára frá því að réttindi féllu úr gildi. Prófnefnd getur veitt manni heimild til að sækja endurmenntunarnámskeið í stað almenns námskeiðs sé þess óskað innan fimm ára frá því að löggilding féll úr gildi. Prófnefnd metur slíka umsókn m.a. með tilliti til þess hvort umsækjandi hefur unnið við vigtun og öðlast hæfni og reynslu á þeim tíma sem réttindi hans voru í gildi.

III. KAFLI Námskeið.

5. gr. Reglur um námskeið.

Þeir sem sækja um réttindi til að starfa sem löggiltir vigtarmenn í fyrsta skipti og þeir sem hafa ekki endurnýjað réttindi sín innan þeirra tímamarka sem 4. gr. reglugerðarinnar gerir ráð fyrir skulu sækja almennt vigtarmannanámskeið. Endurmenntunarnámskeið eru haldin fyrir þá sem endurnýja réttindi sín.

Námskeiðum skal skipt í tvo hluta. Annars vegar hluta Neytendastofu og hins vegar hluta Fiskistofu. Til að öðlast A-réttindi, sem veita réttindi til vigtunar sjávarafurða, er nauðsynlegt að standast próf í báðum hlutum námskeiðs. Þeir sem taka einungis hluta Neytendastofu fá B-réttindi sem eru takmörkuð réttindi og veita ekki leyfi til vigtunar sjávarafla.

Kröfur eru gerðar um íslenskukunnáttu, bæði í lestri og ritun. Öll kennsla fer fram á íslensku og spurningum á prófum skal svarað á íslensku.

Óheimilt er að veita þátttakendum utanaðkomandi aðstoð.

6. gr. Reglur um almenn vigtarmannanámskeið.

Þeir sem óska eftir að fá löggild B-réttindi (takmörkuð réttindi) skulu að lágmarki sitja 10 kennslustundir á námskeiði. Þátttakandi skal öðlast þekkingu á lögum, reglum og reglugerðum er varða vigtarmenn, löggildingarskyldu og löggildingartíma mælitækja, sérstaklega voga.

Þeir sem óska eftir að fá löggild A-réttindi (full réttindi) skulu að auki sitja að lágmarki 10 kennslustundir á námskeiði er varðar vigtun sjávarafla.

7. gr. Reglur um endurmenntunarnámskeið.

Þeir sem óska eftir að fá endurnýjaða löggildingu B-réttinda (takmörkuð réttindi) skulu að lágmarki sitja 4 kennslustundir á námskeiði. Þátttakandi skal öðlast þekkingu á lögum, reglum og reglugerðum er varða vigtarmenn, löggildingarskyldu og löggildingartíma mælitækja, sérstaklega voga.

Þeir sem óska eftir að fá endurnýjaða löggildingu A-réttinda skulu að auki sitja að lágmarki 4 kennslustundir á námskeiði er varðar vigtun sjávarafla.

IV. KAFLI Próf og framkvæmd prófa.

8. gr. Reglur um próf.

Neytendastofa ber ábyrgð á prófum.

Vigtarmaður skal standast próf sem haldið er í lok námskeiðs til að hljóta réttindi til að starfa sem löggiltur vigtarmaður.

9. gr. Prófnefnd og prófkröfur.

Prófnefnd skal setja reglur varðandi framkvæmd námskeiða. Einnig skal prófnefnd ákveða lágmarksárangur á prófi. Prófnefnd ákveður önnur atriði varðandi framkvæmd prófa og námskeiða eftir því sem við á. Prófnefnd getur skipað prófdómara til að endurskoða prófúrlausnir próftaka sé þess óskað.

V. KAFLI Vigtarmenn.

10. gr. Starfshættir vigtarmanna.

Löggiltur vigtarmaður ber ábyrgð á vigtun sem hann vottar í samræmi við viðurkennda starfshætti þeirrar vigtunaraðferðar sem notuð er hverju sinni. Í því felst að löggiltur vigtarmaður skal sjálfur vera viðstaddur vigtun, hann tryggir alla framkvæmd hennar og staðfestir hana með undirritun sinni á vigtarvottorð sem hann ber ábyrgð á í samræmi við lög og reglur settar samkvæmt þeim.

VI. KAFLI Gildistaka.

11. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 23. og 24. gr. laga nr. 91/2006, um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn, öðlast þegar gildi.

Dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu, 19. maí 2010.

Ragna Árnadóttir.

Bryndís Helgadóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.