Umhverfisráðuneyti

521/1994

Reglugerð um þvotta- og hreingerningarefni. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um þvotta- og hreingerningaefni.

Gildissvið og skilgreiningar

1. gr.

Ákvæði reglugerðar þessarar taka til lífrænnar niðurbrotshæfni yfirborðsvirkra efna í þvotta- og hreingerningaefnum.

2. gr.

Þvotta- og hreingerningaefni eru efnablöndur sem sérstaklega eru framleiddar og notaðar vegna hreinsandi eiginleika þeirra. Þau eru samsett úr yfirborðsvirkum efnum og öðrum efnum, til dæmis hjálparefnum, magnandi efnum og fylliefnum.

Takmarkanir á framleiðslu og innflutningi

3. gr.

Þvotta- og hreingerningaefni má aðeins framleiða eða flytja inn ef lífrænt niðurbrot yfirborðsvirkra efna þeirra er að meðaltali meira en 90%, sjá þó 10. gr. Þessi krafa gildir um sérhvern eftirtalinna flokka yfirborðsvirkra efna: anjónísk, katjónísk, ójónísk og amfóterísk efni.

4. gr.

Yfirborðsvirk efni sem uppfylla ákvæði 3. gr. mega ekki, við eðlilega notkun, vera skaðleg heilsu manna og dýra.

Merkingar

5. gr.

Merkingar þvotta- og hreingerningaefna skulu vera með auðlæsilegu, sýnilegu og óafmáanlegu letri. Merkingar skulu vera á íslensku, ensku eða norðurlandamáli öðru en finnsku, sjá þó 7. gr. Þetta ákvæði kemur ekki í veg fyrir að upplýsingar séu gefnar á fleiri en einu tungumáli.

6. gr.

Skylt er að eftirfarandi upplýsingar komi fram á neytendaumbúðum þvotta- og hreingerningaefna:

a) Heiti vörunnar ásamt notkunarleiðbeiningum.

b) Nafn og heimilisfang innlends framleiðanda, innflytjanda eða umboðsaðila vörunnar.

Skylt er að sömu upplýsingar komi fram á öllum fylgiskjölum ef þvotta- og hreingerningaefni eru flutt í lausri vigt.

7. gr.

Þvotta- og hreingerningaefni sem innihalda efni sem falla undir ákvæði reglugerðar nr. 236/1990 um flokkun, merkingu og meðferð eiturefna, hættulegra efna og vörutegunda, sem innihalda slík efni, skal merkja á íslensku í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar.

Eftirlit og rannsóknir

8. gr.

Heilbrigðisnefndir, undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins, hafa eftirlit með því að farið sé að ákvæðum reglugerðar þessarar.

9. gr.

Beita skal þeim greiningaraðferðum sem getið er um í I. og II. viðauka reglugerðar þessarar til að sýna fram á að lífrænt niðurbrot yfirborðsvirkra efna sé í samræmi við 3. gr. Taka skal tillit til óvissu slíkra aðferða og ákveða hæfileg vikmörk, sbr. 10. gr.

Prófanir skulu framkvæmdar og vottaðar af viðurkenndum rannsóknarstofum.

10. gr.

Ef í ljós kemur, við mælingu með einni af greiningaraðferðunum í I. og II. viðauka reglugerðar þessarar, að lífrænt niðurbrot yfirborðsvirks efnis er minna en 80%, skal Hollustuvernd ríkisins banna framleiðslu, innflutning og sölu þvotta- og hreingerningaefna sem innihalda viðkomandi efni.

Kærufrestur

11. gr.

Kærum vegna banns við framleiðslu, innflutningi og sölu þvotta- eða hreingerningaefna er heimilt að vísa til stjórnar Hollustuverndar ríkisins.

Kærufrestur er fjórar vikur frá þeim degi sem tilkynning um bann var gefin út.

Ýmis ákvæði og gildistaka

12. gr.

Framleiðandi, innflytjandi eða umboðsaðili sem annast markaðssetningu þvotta- og hreingerningaefna hér á landi er ábyrgur fyrir því að vörur þessar séu í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar.

13. gr.

Með brot gegn reglugerð þessari skal farið samkvæmt lögum nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með síðari breytingum, sbr. og lög nr. 52/1988 um eiturefni og hættuleg efni, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.

Með mál sem rísa út af brotum gegn reglugerð þessari skal farið að hætti opinberra mála.

14. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í lögum nr. 24/1936 um eftirlit með matvælum og öðrum neyslu- og nauðsynjavörum, lögum nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með síðari breytingum og lögum nr. 52/1988 um eiturefni og hættuleg efni.

Einnig var höfð hliðsjón af ákvæðum samnings um Evrópskt efnahagssvæði, sem vísað er til í II. viðauka XV. kafla, 2. tl., tilskipun 73/404/EBE um þvottaefni, ásamt breytingum í tilskipun 82/242/EBE, 3. tl., tilskipun 73/405/EBE um aðferðir við að prófa lífrænt niðurbrot á anjónískum yfirborðsvirkum efnum, ásamt breytingum í tilskipun 82/243/EBE og 7. tl., tilskipun 82/242/EBE um aðferðir við að prófa lífrænt niðurbrot ójónískra yfirborðsvirkra efna.

Reglugerðin öðlast gildi við birtingu.

Umhverfisráðuneytið, 23. september 1994.

Össur Skarphéðinsson.

Ingimar Sigurðsson.

 

I. VIÐAUKI

Anjónísk yfirborðsvirk efni.

Tilskipun ráðsins 73/405/EBE frá 22. nóvember 1973 um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi aðferðir við að prófa lífrænt niðurbrot á anjónískum yfirborðsvirkum efnum, eins og henni var breytt með tilskipun ráðsins 82/243/EBE frá 31. mars 1982, bIs. 496 - 508.

II. VIÐAUKI

Ójónísk yfirborðsvirk efni.

Tilskipun ráðsins 82/242/EBE frá 31. mars 1982 um samræmingu aðildarríkjanna varðandi aðferðir við að prófa lífrænt niðurbrot á ójónískum yfirborðsvirkum efnum, bls. 584 - 600.

I. Viðauki og II. Viðauki eru birtir, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 31 / 1993, í sérriti; EES- gerðir, S 18. II. viðauki: Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun, XV. Hættuleg efni.

Viðaukarnir verða gefnir út í sérstakri handbók, sem hægt verður að fá hjá Hollustuvernd ríkisins.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica