Leita
Hreinsa Um leit

Viðskiptaráðuneyti

437/2009

Reglugerð um e-merktar forpakkningar.

1. gr.

Gildissvið.

Þessi reglugerð tekur til e-merktra forpakkninga sem innihalda vörur, sem eru ætlaðar til sölu í föstum stærðum með nafnmagni sem er:

jafnt gildum sem pökkunaraðili ákveður fyrirfram,
gefið upp í einingum fyrir þyngd eða rúmmál,
ekki minna en 5 g eða 5 ml og ekki meira en 10 kg eða 10 l.

Reglugerðin gildir ekki um framleiðsluvörur samkvæmt viðauka III sbr. 5. gr., þegar þær eru seldar í tollfrjálsum verslunum til neyslu utan EES.

2. gr.

Skilgreiningar.

Forpakkning í skilningi þessarar reglugerðar er vara ásamt umbúðunum sem hún er forpökkuð í.

Vara telst forpökkuð þegar hún er sett í hvers konar umbúðir án þess að kaupandinn sé viðstaddur og þegar magn vörunnar sem í umbúðunum er hefur fyrirfram ákvarðað gildi sem ekki er hægt að breyta án þess að opna umbúðirnar eða breyta þeim svo sjáanlegt sé.

3. gr.

e-merking.

Forpakkningar, sem eru í samræmi við þessa reglugerð og viðauka I við hana, mega hafa e-merkið, sem um getur í tl. 3.3 í viðauka I.

Þær skulu háðar mælifræðilegu eftirliti Neytendastofu samkvæmt skilyrðum 5. tl. viðauka I og skilyrðum viðauka II.

4. gr.

Magnupplýsingar.

Á öllum e-merktum forpakkningum sbr. 3. gr. skal tilgreina þyngd eða rúmmál vörunnar, svonefnda nafnþyngd eða nafnrúmmál, sem krafist er að þær innihaldi í samræmi við viðauka I.

Á forpakkningar sem innihalda vökva skal merkt nafnrúmmál og á forpakkningar sem innihalda annars konar vöru skal merkt nafnþyngd nema annað leiði af lögum, reglum eða viðskiptavenjum.

Nú er mismunur á reglum eða viðskiptavenjum varðandi tiltekinn vöruflokk eða tiltekna gerð forpakkninga hér á landi og í því aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu þar sem forpakkning vörunnar fer fram þá skulu að lágmarki koma fram á pakkningunni þær mælifræðilegu upplýsingar sem svara til innlendu viðskiptavenjunnar eða hinnar innlendu reglu. Hið sama gildir varðandi mælifræðilegar upplýsingar sem fram koma á forpakkaðri vöru sem pakkað er hér á landi, flutt er út og markaðssett í öðrum aðildarríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu.

Nafnþyngd eða nafnrúmmál innihalds sem sýnt er í SI-mælieiningum, í samræmi við tl. 3.1 í viðauka I við þessa reglugerð, skal einnig vera í samsvarandi breskum mælieiningum ef Bretland eða Írland óska þess á yfirráðasvæðum sínum. Mælieiningarnar skulu reiknaðar á grunni eftirfarandi breytistuðla:

1 g = 0,0353 únsur (avoirdupois),
1 kg = 2,205 pund,
1 ml = 0,0352 únsur (vökva),
1 l = 1,760 hálfpottar (pints) eða 0,220 gallon.

Á úðabrúsum skal tilgreina heildarnafnrúmtak ílátsins. Tilgreiningin má ekki vera þannig úr garði gerð að hún valdi ruglingi við nafnrúmmál innihaldsins. Ekki er nauðsynlegt að framleiðsluvörur, sem eru seldar í úðabrúsum, séu merktar með nafnþyngd innihaldsins.

5. gr.

Takmarkanir á nafnmagni.

Framleiðsluvörur skv. 2. tl. viðauka III sem eru forpakkaðar innan stærðarmarka skv. 1. tl. viðaukans, má aðeins setja á markað ef þær eru forpakkaðar með nafnmagninu sem er tilgreint í 1. tl. viðaukans.

Ef safnpakkningar samanstanda af tveimur eða fleiri einstökum tilbúnum pakkningum, gildir nafnmagnið í 1. tl. viðauka III, um hinar einstöku pakkningar.

Ef forpakkning samanstendur af tveimur eða fleiri einstökum pakkningum, sem ekki eru ætlaðar til sölu hver í sínu lagi, gildir nafnmagnið í 1. tl. viðaukans, um forpakkninguna.

6. gr.

Frjáls för vöru.

Óheimilt er að hafna, banna eða takmarka markaðssetningu forpakkninga sem standast kröfur og prófanir sem mælt er fyrir um í þessari reglugerð, af ástæðum er varða merkingar sem slíkar pakkningar skulu hafa samkvæmt reglugerð þessari, ákvörðun þyngdar eða rúmmáls, aðferðir notaðar við mælingar eða prófanir eða tilgreint magn pakkninga.

7. gr.

Lokaákvæði.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 16. gr. laga nr. 91/2006 um mælingar, mæligrunna og vigtarmenn og með hliðsjón af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 22/2008 frá 14. mars 2008, um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn og til að taka upp í innlendan rétt ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2007/45/EB frá 5. september 2007, um reglur um tilgreint magn forpakkaðrar vöru, um niðurfellingu á tilskipun ráðsins 75/106/EBE og 80/232/EBE og um breytingu á tilskipun ráðsins 76/211/EBE.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi og frá sama tíma falla úr gildi reglugerðir nr. 131/1994 um tilgreint rúmmál tiltekins forpakkaðs vökva, nr. 132/1994 um tilgreint magn og rými sem leyfilegt er fyrir forpakkaðar vörur og nr. 133/1994 um tilgreinda vigt eða rúmmál tiltekinnar forpakkaðrar vöru.

Viðskiptaráðuneytinu, 4. maí 2009.

Gylfi Magnússon.

Jónína S. Lárusdóttir.

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)
Þetta vefsvæði byggir á Eplica