Félagsmálaráðuneyti

431/1997

Reglugerð um notkun tækja. - Brottfallin

Felld brott með:

 

Reglugerð

um notkun tækja.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Efni og gildissvið.

1. Í reglugerð þessari eru gerðar lágmarkskröfur um öryggi og hollustu þegar starfsmenn nota tæki á vinnustöðum, sbr. skilgreiningu í 1. og 2. mgr. 2. gr.

2. Reglugerðin gildir um tæki sem ætluð eru til notkunar á vinnustöðum og sem lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, gilda um.

2. gr.

Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

a.             Tæki: Vél eða vélbúnaður, áhald, verkfæri eða þess háttar búnaður sem notaður er á vinnustöðum;

b.             notkun tækja: Allar athafnir sem tengjast tækjum, svo sem að ræsa þau eða stöðva, beiting þeirra, flutningur, viðgerðir, breytingar, viðhald og umhirða, þar með talin þrif;

c.             hættusvæði: Öll svæði innan eða umhverfis tæki þar sem heilsu eða öryggi starfsmanns er hætta búin;

d.             starfsmaður í hættu: Hver sá starfsmaður sem að einhverju eða öllu leyti er á hættusvæði;

e.             stjórnandi: Starfsmaður eða starfsmenn sem hafa notkun tækis með höndum.

II. KAFLI

Skyldur atvinnurekenda.

3. gr.

Almennar skyldur.

1. Atvinnurekandi skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að tæki sem starfsmönnum eru látin í té innan fyrirtækis henti til þeirra verka sem vinna á eða séu hæfilega löguð að þeim, þannig að starfsmenn geti notað þau án þess að öryggi þeirra eða heilsu stafi hætta af. Þegar tæki eru valin til notkunar skal atvinnurekandi hafa í huga þau sérstöku vinnuskilyrði, aðstæður og þá áhættu gagnvart öryggi og heilsu starfsmanna sem fyrir hendi eru innan fyrirtækisins. Einkum skal hann hafa í huga áhættu á þeim stað þar sem vinnan fer fram og ennfremur aðra áhættu sem notkun viðkomandi tækis kann að hafa í för með sér.

2. Þegar ekki er að fullu unnt að tryggja að starfsmenn geti notað tækið án þess að hætta öryggi sínu eða heilsu, skal atvinnurekandi gera nauðsynlegar ráðstafanir til að áhættunni sé haldið í lágmarki.

4. gr.

Aðrar reglur eða reglugerðir.

1. Með fyrirvara um 3. gr. er atvinnurekanda skylt að afla sér eða nota:

a.             Tæki sem uppfylla, ef starfsmenn innan fyrirtækis fá þau til afnota í fyrsta sinn eftir gildistöku þessarar reglugerðar:

-               Ákvæði allra viðeigandi reglna Vinnueftirlits ríkisins sem í gildi eru;

-               lágmarkskröfur sem gerðar eru í I. viðauka þessarar reglugerðar, að því leyti sem engar aðrar reglur Vinnueftirlitsins eiga við eða ef þær eiga aðeins við að nokkru leyti;

b.             tæki sem uppfylla, ef starfsmenn innan fyrirtækisins hafa þegar fengið þau til afnota fyrir gildistöku þessara reglna, lágmarkskröfur sem gerðar eru í I. viðauka eigi síðar en 1. janúar 1998.

c.             Með fyrirvara um fyrsta undirlið a-liðar og þrátt fyrir annan undirlið a-liðar og b-lið skulu sérstök tæki sem eru háð kröfum 3. liðar í I. viðauka, ef þau koma í hendur starfsmanna í fyrirtækinu eða stofnuninni fyrir 5. desember 1998, uppfylla lágmarkskröfur I. viðauka eigi síðar en fjórum árum eftir það.

2. Atvinnurekandi skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að tækjum sé haldið þannig við að þau uppfylli, svo lengi sem þau endast, ákvæði a- og b-liða 1. mgr., eftir því sem við á.

3. Að höfðu samráði við aðila vinnumarkaðarins og að teknu tilhlýðilegu tilliti til gildandi reglna og venju setur Vinnueftirlitið reglur til að öryggi komist á það stig sem svarar til þeirra markmiða sem fjallað er um í II. viðauka.

               

5. gr.

Eftirlit með tækjum á vinnustöðum

1. Ef öryggi við notkun tækis á vinnustað er undir uppsetningu þess komið skal vinnuveitandinn sjá til þess að það sé skoðað í upphafi (eftir að tækið er sett upp og áður en það er tekið í notkun) af aðila sem er til þess bær samkvæmt lögum eða venju. Sama á við eftir að tæki hefur verið sett saman á nýjum vinnustað eða í nýju húsnæði svo að tryggt sé að tækið hafi verið rétt sett upp og vinni rétt.

2. Til að tryggja að öryggi og hollustu sé gætt og unnt sé að finna skemmdir og gera við þær í tæka tíð skal vinnuveitandi sjá til þess að tæki sem geta skemmst af völdum utanaðkomandi áhrifa þannig að hættuástand skapist af, séu:

-               Skoðuð reglulega og þegar við á prófuð af þar til bærum mönnum samkvæmt gildandi reglum og venjum,

-               skoðuð sérstaklega og þegar við á prófuð af þar til bærum mönnum samkvæmt gildandi reglum og venjum, í hvert sinn sem sérstakar aðstæður hafa skapast sem gætu haft áhrif til hins verra á öryggi tækjanna, t.d. ef þeim hefur verið breytt, slys eða náttúruhamfarir borið að höndum eða þau hafa staðið ónotuð lengi.

3. Skylt er að skrá niðurstöður af skoðunum og halda þeim til haga handa viðkomandi yfirvöldum. Þær skulu geymdar hæfilega lengi. Þegar tæki er notað utan fyrirtækis skulu pappírar sem staðfesta síðustu skoðun fylgja því.

6. gr.

Tæki sem sérstök áhætta fylgir.

Þegar líkur eru á að notkun tækja hafi í för með sér sérstaka áhættu fyrir öryggi og heilsu starfsmanna skal atvinnurekandi gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að:

-               Þeir starfsmenn einir noti tækin sem það hefur verið falið;

-               viðgerðir, breytingar, viðhald og umhirða sé á hendi starfsmanna sem sérstaklega eru útnefndir til slíkra verka.

7. gr.

Vinnuvistfræði og hollustuhættir á vinnustöðum.

Þegar framfylgt er lágmarksákvæðum um öryggi og hollustuhætti skal vinnuveitandinn taka fullt tillit til vinnuaðstæðna starfsmanns og líkamsstöðu hans við notkun tækja auk þess sem honum ber að taka mið af meginhugmyndum vinnuvistfræðinnar.

8. gr.

Upplýsingar til starfsmanna.

1. Atvinnurekandi skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að starfsmenn hafi handbærar nægilegar upplýsingar og, þar sem við á, ritaðar leiðbeiningar um tæki þau sem notuð eru á vinnustað.

2. Upplýsingarnar og skriflegar leiðbeiningar verða að minnsta kosti að fela í sér nægilegar ábendingar um öryggi og hollustu er snerta:

-               Notkunarskilyrði tækjanna,

-               óvenjulegar aðstæður sem hægt er að sjá fyrir,

-               ályktanir sem hægt er að draga af reynslu við notkun tækjanna, þar sem það á við.

Starfsmönnum skal bent á hættur sem þeim getur stafað af tækjum í nánasta vinnuumhverfi og allar breytingar sem skipta máli og geta haft áhrif á tæki sem eru í næsta nágrenni við vinnusvæði þeirra eða vinnustað, jafnvel þótt þeir noti þau ekki beinlínis sjálfir.

3. Upplýsingarnar og skriflegar leiðbeiningar verða að vera skiljanlegar fyrir hlutaðeigandi starfsmenn.

9. gr.

Þjálfun starfsmanna.

Atvinnurekandi skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að:

-               Starfsmenn sem falið er að nota tæki á vinnustað fái nægilega þjálfun, þar með taldar leiðbeiningar um hvernig bregðast skuli við hættu sem notkunin kann að hafa í för með sér,

-               starfsmenn sem um getur í öðrum undirlið 6. gr. fái nægilega sérþjálfun.

10. gr.

Samráð við starfsmenn og þátttaka þeirra.

Hafa ber samráð við starfsmenn og fulltrúa þeirra og tryggja þátttöku þeirra í framkvæmd þessarar reglugerðar eftir því sem við á og í samræmi við gildandi reglur um framkvæmd vinnu, á því sviði sem reglugerð þessi tekur til, að viðaukum meðtöldum.

III. KAFLI

Ýmis ákvæði.

11. gr.

Áfrýjun úrskurða.

Um áfrýjun á ákvörðunum og úrskurðum sem byggjast á þessari reglugerð gilda ákvæði 98. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

IV. KAFLI

Refsiákvæði.

12. gr.

Brot á þessari reglugerð varða viðurlögum samkvæmt 99. gr. laga nr. 46/1980.

 

V. KAFLI

Gildistaka.

13. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 73. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og með hliðsjón af tilskipun 89/655/EBE í 10. tölul. XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og henni var breytt með tilskipun 95/63/EB, öðlast þegar gildi.

Félagsmálaráðuneytinu, 3. júlí 1997.

Páll Pétursson.

Sigríður Lillý Baldursdóttir.

I. VIÐAUKI

Lágmarkskröfur sem um getur í öðrum undirlið a-liðar og b-lið 1. mgr. 4. gr.

1.             Almenn athugasemd.

                Þær skyldur sem mælt er fyrir um í þessum viðauka gilda með hliðsjón af ákvæðum reglugerðarinnar þegar hætta er fyrir hendi í tengslum við þau tæki sem um er að ræða. Að því marki sem eftirfarandi lágmarkskröfur gilda um tæki sem eru í notkun er ekki alltaf nauðsynlegt að gera sömu ráðstafanir og gert er ráð fyrir samkvæmt grunnkröfum um ný tæki.

2.             Almennar lágmarkskröfur um tæki á vinnustöðum.

2.1.          Stjórnbúnaður tækja sem varðar öryggi skal vera greinilegur og auðséður og merktur á viðeigandi hátt þar sem við á.

                Stjórnbúnaði skal komið fyrir utan hættusvæða nema þegar um er að ræða sérstakan búnað sem óhjákvæmilegt er að koma fyrir annars staðar, og skal það gert þannig að notkun hans hafi ekki aukna hættu í för með sér. Engin hætta má stafa af óviljandi gangsetningu hans.

                Ef nauðsyn krefur verður stjórnandi að geta gengið úr skugga um það frá aðalstjórnstöð að enginn sé á hættusvæðunum. Ef það er ekki unnt skal öryggisbúnaður, svo sem varúðar hljóð- og/eða ljósmerki, ávallt virka sjálfkrafa rétt fyrir gangsetningu. Starfsmaður sem er í hættu vegna gangsetningar eða stöðvunar tækja verður að hafa nægan tíma og tækifæri til að víkja sér fljótt undan henni.

                Eftirlitskerfi þurfa að vera áreiðanleg og við val á þeim skal hafa fyrirsjáanlegar bilanir, galla og álag við fyrirhugaða notkun í huga.

2.2.          Einungis skal vera kleift að setja tæki í gang með því að beita stjórnbúnaði sem til þess er ætlaður.

Hið sama gildir þegar:

-               Tæki er sett í gang á ný eftir stöðvun, hver sem ástæða stöðvunarinnar er,

-               verkun tækis er breytt í mikilvægum atriðum (hraða, þrýstingi o.s.frv.), nema þegar endurgangsetningin eða breytingin hefur ekki í för með sér neina hættu fyrir starfsmenn.

                Ofangreind krafa á ekki við um endurgangsetningu eða breytingu á verkun tækis sem er hluti af eðlilegu vinnuferli sjálfvirkra tækja.

2.3.          Með öllum tækjum skal vera stjórnbúnaður til að stöðva þau að fullu og tryggilega.

                Á hverjum vinnustað skal vera stjórnbúnaður til að stöðva öll tæki eða sum þeirra, eftir því hver hættan er, svo ástand tækjanna sé þannig að engin hætta stafi af þeim. Stöðvunarboð skal hafa forgang umfram gangsetningarboð. Þegar tækin eða hinir hættulegu hlutar þeirra hafa verið stöðvaðir skal loka fyrir orkuflutning til viðkomandi hreyfihluta.

2.4.          Sé þess þörf skulu tæki búin neyðarbúnaði til stöðvunar sem miðast við hættuna sem af þeim stafar og þann tíma sem venjulega tekur að stöðva þau.

2.5.          Ef hætta stafar af notkun tækis vegna þess að hlutir geta fallið eða þeyst í sundur skal hafður á því viðeigandi öryggisbúnaður í samræmi við það hvers eðlis hættan er.

                Ef hætta stafar af notkun tækis vegna útstreymis á lofttegundum, gufu, vökva eða ryki skal hafður viðeigandi einangrunar- eða útblástursbúnaður nærri þeim stað þar sem hættan á upptök sín.

2.6.          Þegar öryggi og heilbrigði starfsmanna krefst þess skal tryggja stöðugleika tækja eða hluta þeirra með festingum eða á annan hátt.

2.7.          Gera skal viðeigandi verndarráðstafanir ef hætta er á að tækjahlutar geti rifnað eða sundrast þannig að öryggi eða heilsu starfsmanna stafi veruleg hætta af.

2.8.          Þegar hætta er á viðkomu við tækjahluta á hreyfingu þannig að slys getur af hlotist skulu hafðar á þeim hlífar eða annar verndarbúnaður sem hindrar að unnt sé að komast á hættusvæði eða stöðvar hreyfingu þeirra hluta áður en á hættusvæði er komið.

Búnaður til hlífðar eða verndar:

-               Skal vera traustlega gerður,

-               má ekki sjálfur valda annarri hættu,

-               má ekki vera þannig að auðvelt sé að nema hann burt eða gera hann óvirkan,

-               skal vera nægilega langt frá hættusvæði,

-               má ekki byrgja sýn meðan unnið er, nema að því leyti sem ekki verður hjá komist,

-               skal gerður þannig að unnt sé að koma fyrir íhlutum, skipta um þá eða annast viðhald, eftir því sem bráðnauðsynlegt er, en aðgangur skal takmarkaður við það svæði þar sem sú vinna fer fram, og skal unnt að framkvæma hana að sem mestu leyti án þess að hlífðar- eða verndarbúnaðurinn sé fjarlægður.

2.9.          Þau svæði og þá staði á tækjum þar sem komist er að þeim til vinnu eða viðhalds skal lýsa eins og þörf er á til að framkvæma það verk sem um er að ræða.

2.10.        Þeir tækjahlutar sem eru mjög heitir eða kaldir skulu eftir því sem við á búnir hlífum svo starfsmenn komi ekki við þá eða of nærri þeim.

2.11.        Viðvörunarmerki á tækjum skulu vera ótvíræð, greinileg og auðskilin.

2.12.        Aðeins má nota tæki til þeirra þarfa sem þau eru ætluð og við þau skilyrði sem þau eru gerð fyrir.

2.13.        Viðhald á tækjum verður að vera unnt að framkvæma meðan þau eru ekki í gangi. Sé það ekki hægt skal vera unnt að gera viðeigandi öryggisráðstafanir meðan á viðhaldsaðgerðum stendur eða að framkvæma þær utan hættusvæða.

                Ef viðhaldsdagbók fylgir tæki skal hún ávallt uppfærð um leið og viðhald fer fram.

2.14.        Á hverju tæki skal vera greinilega merktur búnaður til að rjúfa orkuflutning til þess.

                Aðeins má opna aftur fyrir orku til tækis ef það veldur starfsmönnum engri hættu.

2.15.        Tæki skulu áletruð með viðvörunum og merkt eftir því sem þörf er á vegna öryggis starfsmanna.

2.16.        Þegar tæki eru notuð við framleiðslu eða þegar vinna skal við stillingu þeirra eða viðhald skulu starfsmenn hættulaust geta farið um og dvalið alls staðar þar sem þörf krefur.

2.17.        Öll tæki skulu þannig útbúin að starfsmenn séu verndaðir fyrir hættu af völdum bruna eða ofhitnunar, útstreymis lofttegunda, ryks, vökva, gufu eða annarra efna sem þau framleiða eða safnast fyrir í þeim.

2.18.        Öll tæki skulu þannig útbúin að ekki sé nein hætta á að sprenging verði í þeim eða í efnum sem þau framleiða, nota eða safnast fyrir í þeim.

2.19.        Öll tæki skulu þannig útbúin að starfsmenn séu verndaðir fyrir hættu sem getur stafað af beinni eða óbeinni snertingu við rafmagn.

3.             Viðbótarlágmarkskröfur sem gilda um sérstakar gerðir tækja á vinnustöðum.

3.1.          Lágmarkskröfur um hreyfanleg tæki, hvort sem þau eru sjálfknúin eða ekki.

3.1.1.       Tæki sem getur borið einn eða fleiri starfsmenn skal vera þannig búið að dregið sé úr áhættu starfsmanna á meðan tækið er á ferð.

                Meðal þessara áhættuþátta er nánd við hjól eða belti eða hætta á að lenda í þeim.

3.1.2.       Ef drifbúnaður milli hreyfanlegs tækis og aukabúnaðar þess og/eða einhvers sem dregið er gæti læst í ógáti og skapað sérstaka hættu skal slíkt tæki hafa búnað til að koma í veg fyrir að það geti gerst.

                Ef ekki er unnt að hindra slíkt þarf að gera allar hugsanlegar varúðarráðstafanir til að koma í veg fyrir óheppilegar afleiðingar fyrir starfsmenn.

3.1.3.       Ef drifsköft sem flytja orku milli hreyfanlegra hluta tækisins geta óhreinkast eða skemmst við að dragast með jörðu skal búnaður til að festa þau vera fyrir hendi.

3.1.4.       Hreyfanlegt tæki með starfsmönnum sem getur borið einn eða fleiri starfsmenn skal vera þannig búið að við raunveruleg notkunarskilyrði sé takmörkuð hætta á að það velti eða því hvolfi:

-               Annaðhvort með veltigrind sem kemur í veg fyrir að tækið hallist meira en 45 gráður,

-               eða með grind sem skapar nægilegt rými umhverfis starfsmann eða -menn á tækinu ef hallinn verður meiri en 45 gráður,

-               eða með öðrum búnaði sem hefur sömu áhrif.

                Veltigrindur geta verið óaðskiljanlegur hluti af tækinu.

                Ekki eru gerðar kröfur um veltigrindur þegar tækið stendur stöðugt við notkun eða er sjálft þannig hannað að það getur ekki oltið.

                Ef hætta er á að starfsmaður sem er á tækinu geti kramist milli hluta tækis og undirlags, ef tækið veltur, skal vera á því öryggisbúnaður til að koma í veg fyrir slíka hættu.

3.1.5.       Gaffallyftarar sem geta borið einn eða fleiri starfsmenn verða að vera hannaðir eða með búnað til þess að draga úr hættu ef þeir velta, til dæmis:

-               Grind utan um ökumanninn, eða

-               grind sem kemur í veg fyrir að gaffallyftarinn velti, eða

-               grind sem tryggir að ef gaffallyftarinn veltur, verði samt nægilegt rými fyrir starfsmenn, sem á tækinu eru, milli undirlags og vissra hluta gaffallyftarans, eða

-               grind sem starfsmenn í ökumannssæti eru festir í til að þeir kremjist ekki undir hlutum úr gaffallyftaranum ef hann veltur.

3.1.6.       Sjálfknúið tæki sem á hreyfingu getur verið hættulegt mönnum skal uppfylla eftirfarandi skilyrði:

a)             Það skal hafa búnað sem kemur í veg fyrir að það geti farið óvart í gang;

b)            ef fleiri en eitt tæki á brautarspori eru samtímis á hreyfingu þarf tækið að hafa viðeigandi búnað til að draga úr afleiðingum af árekstri;

c)             á tækinu skal vera búnaður til að hægja á því og stöðva. Sé þess krafist, af öryggisástæðum, skal neyðarbúnaður til að hægja á tækinu eða stöðva það vera vel aðgengilegur eða sjálfstýrður, bregðist aðalstjórnbúnaður;

d)            þegar sjónsvið ökumanns er ekki nægjanlegt til að tryggja öryggi skal setja upp viðeigandi hjálparbúnað til að bæta úr því;

e)             tæki sem er ætlað til notkunar á nóttunni eða þar sem dimmt er skal hafa ljósabúnað sem hæfir vinnuaðstæðum og tryggir öryggi starfsmanna svo viðunandi sé;

f)             ef eldhætta stafar af tæki, hvort sem er af tækinu sjálfu eða af því sem það ber eða hefur í togi og sem gæti stofnað starfsmönnum í hættu skal það búið viðeigandi eldvarnarbúnaði, ef slíkur búnaður er ekki fyrir hendi nógu nálægt staðnum þar sem það er notað;

g)            fjarstýrð tæki skulu stöðvast undir eins ef þau fara út fyrir stjórnsviðið;

h)            ef fjarstýrð tæki geta skapað hættu á árekstri eða að menn geti kramist við venjulegar aðstæður skulu þau hafa búnað þessu til varnar, nema annars konar viðeigandi búnaður sé þegar fyrir hendi til að afstýra slíkri hættu.

3.2.          Lágmarkskröfur um tæki til að lyfta byrði.

3.2.1.       Ef tæki til að lyfta byrðum er fest varanlega niður, skal tryggja að það hafi bæði nægilegt burðarþol og stöðugt á meðan það er í notkun, einkum með tilliti til byrðarinnar sem lyfta þarf og álags sem það skapar á þeim stöðum sem það er hengt upp eða fest á.

3.2.2.       Vélar til að lyfta byrði skulu hafa nafnþyngd greinilega áletraða. Ef við á skal einnig vera á þeim lyftitafla með nafnþyngd eftir innbyrðis afstöðu.

                Aukalyftibúnaður skal vera merktur þannig að unnt sé að átta sig á eiginleikum hans og nota hann án þess að hætta stafi af.

                Ef tæki er ekki ætlað til að lyfta fólki, en kynni að vera til þess notað af misgáningi, skal vera á því skilti sem sýnir greinilega að það er ekki ætlað til slíkra nota.

3.2.3.       Varanlegur tækjabúnaður skal vera þannig upp settur að byrðin skapi ekki slysahættu og:

a)             Sláist ekki í starfsmenn;

b)            renni ekki af stað eða falli niður;

c)             losni ekki óvart.

3.2.4.       Tæki til að lyfta starfsmönnum eða flytja þá skulu hönnuð þannig að:

a)             Með viðeigandi búnaði sé komið í veg fyrir að karfan eða ámóta búnaður, ef slíkt er fyrir hendi, geti fallið niður;

b)            komið sé í veg fyrir að notandi geti fallið úr körfunni eða ámóta búnaði, ef slíkt er fyrir hendi;

c)             komið sé í veg fyrir að notandi geti kramist, klemmst eða fengið högg á sig, einkum við óviljandi snertingu við hluti;

d)            tryggt sé að menn sem sitja fastir ef slys verður séu ekki í hættu og náist út.

                Ef ekki er unnt, vegna staðsetningar og hæðarmismunar, með sérstökum öryggisbúnaði að koma í veg fyrir slysahættu sem um getur í a-lið, skal nota sérstaklega styrkta öryggislínu sem er skoðuð á hverjum vinnudegi.

II. VIÐAUKI

Ákvæði er varða notkun tækja á vinnustöðum

sem um getur í 3. mgr. 4. gr.

1.             Almenn ákvæði er gilda um öll tæki á vinnustöðum.

1.1.          Tæki skal sett upp, staðsett og notað þannig að sem minnst hætta stafi af fyrir þá sem nota það og aðra starfsmenn. Til dæmis með því að tryggja að nægilegt rými sé á milli þeirra hluta tækisins sem hreyfanlegir eru og fastra eða hreyfanlegra hluta í umhverfinu og þannig að unnt sé að bæta á það eða fjarlægja á öruggan hátt hvers kyns orku og öll efni sem eru notuð eða myndast.

1.2.          Tæki skal sett upp og tekið niður við öruggar aðstæður, einkum er nauðsynlegt að fara eftir öllum leiðbeiningum frá framleiðanda.

1.3.          Tæki sem eldingu gæti slegið niður í á meðan það er í notkun skal búið eldingarvara sem ver það gegn áhrifum frá eldingu.

2.             Ákvæði er varða notkun hreyfanlegra tækja, hvort sem þau eru sjálfknúin eða ekki.

2.1.          Sjálfknúnum tækjum skal einungis ekið og stjórnað af starfsmönnum sem hafa fengið viðeigandi þjálfun til að aka þeim og stjórna af fyllsta öryggi.

2.2.          Ef tæki er á ferð á vinnusvæði þarf að setja viðeigandi ökureglur og fylgja þeim.

2.3.          Gera skal ráðstafanir til að skipuleggja vinnu þannig að gangandi starfsmenn séu ekki á ferli inni á svæði þar sem sjálfknúin tæki eru notuð.

                Ef ekki er unnt að vinna verkið svo vel sé nema með því að gangandi starfsmenn komi þar að skulu gerðar viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir að þeir hljóti skaða af tækinu.

2.4.          Því aðeins er heimilt að flytja starfsmenn á vélknúnu, hreyfanlegu tæki að örugg aðstaða sé til þess. Eigi að vinna á leiðinni skal haga ökuhraða eftir því.

2.5.          Ekki má nota hreyfanlegt tæki með brunahreyfli á vinnusvæðum nema nóg loft sé þar og öryggi og heilsu starfsmanna stafi engin hætta af.

3.             Ákvæði um notkun tækja sem lyfta byrðum.

3.1.          Almenn atriði.

3.1.1.       Tæki sem eru hreyfanleg eða má taka sundur og eru ætluð til að lyfta byrði skulu notuð þannig að stöðugleiki tækisins sé tryggður meðan á notkun stendur við allar fyrirsjáanlegar aðstæður og að tekið sé mið af því hvernig undirlagið er.

3.1.2. Einungis má lyfta mönnum með tækjum og búnaði sem er til þess ætlaður.

                Í undantekningartilvikum má nota tæki til að lyfta mönnum, þó þau séu ekki sérstaklega hönnuð til þess, að því tilskildu að viðeigandi varúðarráðstafanir hafi verið gerðar í samræmi við gildandi reglur og venjur og ákvæði um viðeigandi eftirlit.

                Á meðan starfsmenn eru á tækjum sem eru hönnuð til að lyfta byrði skulu stjórntæki þeirra ávallt mönnuð. Menn sem verið er að lyfta skulu hafa fjarskiptatæki sem má treysta. Ef hættuástand skapast skal vera tryggt að unnt sé ná þeim í burtu.

3.1.3. Gera skal ráðstafanir til þess að tryggja að starfsmenn séu ekki staddir undir byrði sem verið er að lyfta nema verkið sem unnið er krefjist þess.

                Ekki má lyfta byrði yfir óvarið vinnusvæði þar sem starfsmenn eru venjulega við vinnu.

                Ef slíkt er samt sem áður óhjákvæmilegt og ekki er hægt að vinna verkið með öðru móti þarf að setja viðeigandi vinnureglur og fylgja þeim.

3.1.4.       Velja ber lyftibúnað með hliðsjón af því að hann henti fyrir þá byrði sem á að meðhöndla, með tilliti til festistaða, festibúnaðar svo og veðurskilyrða og afstöðu stroffa. Lyftibúnaður skal vera greinilega merktur svo að notendur geti áttað sig á eiginleikum hans, ef hann er ekki tekinn í sundur eftir notkun.

3.1.5.       Ganga þarf frá lyftibúnaði þannig að tryggt sé að hann hvorki skemmist né eyðileggist.

3.2.          Tæki sem eru notuð til að lyfta byrði sem er ekki stýrt.

3.2.1. Ef sett eru upp tvö eða fleiri tæki á sama vinnustað sem eru notuð til að lyfta byrðum sem er ekki stýrt, með þeim hætti að vinnuradíus þeirra skarast, þarf að gera viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir að byrðarnar og/eða hlutar á tækjunum sjálfum rekist saman.

3.2.2. Þegar hreyfanleg tæki eru notuð til að lyfta byrði sem er ekki stýrt, þarf að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir að þau hallist, þau velti eða, eftir atvikum, færist til eða renni. Nauðsynlegt er að skoðun fari fram til að tryggja að ráðstafanirnar séu framkvæmdar eins og vera ber.

3.2.3. Ef stjórnandi tækis sem hannað er til að lyfta byrði sem er ekki stýrt sér ekki, annaðhvort með eigin augum eða með hjálp aukabúnaðar sem veitir honum nauðsynlegar upplýsingar, yfir allt svæðið sem byrðinni er lyft yfir skal hann hafa þar til bæran aðstoðarmann sem gefur honum merki. Ber að skipuleggja verkið þannig að komist verði hjá árekstrum sem geta stefnt starfsmönnum í hættu.

3.2.4. Verkið skal skipulagt á þann veg að starfsmaðurinn geti af fyllsta öryggi fest eða leyst byrði með handafli um leið og hann stýrir tækinu beint eða óbeint.

3.2.5. Allar lyftingar þarf að skipuleggja og framkvæma rétt svo að öryggis starfsmanna sé gætt.

                Setja skal vinnureglur og fylgja þeim svo að tryggt sé að góð samhæfing náist milli þeirra sem vinna verkið, einkum ef tvö eða fleiri tæki eiga samtímis að lyfta byrði sem ekki er stýrt.

3.2.6. Ef tæki sem hannað er til að lyfta byrði sem er ekki stýrt missir hald á byrðinni, vegna þess að það missir algjörlega eða að hluta til afl, þarf að gera viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsmönnum sé hætta búin af völdum þessa.

                Byrði sem hangir í lausu lofti má ekki skilja eftir eftirlitslausa nema girt sé fyrir aðgang að hættusvæðinu og tryggt að hún hangi örugglega, rækilega fest.

3.2.7. Tæki sem eru notuð utan dyra, hönnuð til að lyfta byrði sem er ekki stýrt, skal stöðva þegar veður spillist svo mjög að það teflir öryggi við notkun tækjanna í tvísýnu og stofnar starfsmönnum í hættu. Gera þarf nauðsynlegar varúðarráðstafanir til að koma í veg fyrir að tækin velti og bægja slysahættu frá starfsmönnum.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica