Umhverfisráðuneyti

402/1994

Reglugerð um stjórn hreindýraveiða. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um stjórn hreindýraveiða.

1. gr.

Umhverfisráðuneytið fer með yfirstjórn þeirra mála sem um ræðir í reglum þessum.

2. gr.

Nú telur umhverfisráðuneytið, að fenginni umsögn veiðistjóra og hreindýraráðs skv. 3. gr., að hreindýrastofninn sé það stór, að honum stafi ekki hætta af veiðum, og skal veiðum þá hagað með þeim hætti sem segir í reglugerð þessari.

3. gr.

Umhverfisráðherra skipar 5 menn í hreindýraráð til fjögurra ára í senn og jafnmarga til vara. Þeir skulu skipaðir með þessum hætti:

Búnaðarsamband Austurlands tilnefnir tvo. Búnaðarsamband A.-Skaftafellssýslu tilnefnir einn. Samband sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi tilnefnir einn. Umhverfisráðherra skipar einn án tilnefningar, og er hann formaður hreindýraráðs. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.

Veiðistjóri situr fundi hreindýraráðs með málfrelsi og tillögurétt.

4. gr.

Hlutverk hreindýraráðs er að hafa fyrir hönd umhverfisráðherra umsjón með því að reglugerð þessari sé fylgt.

Þá er og hlutverk hreindýraráðs:

1. Að vera umhverfisráðherra til ráðgjafar við hvaðeina er við kemur friðun, vernd, nýtingu og rannsóknum á hreindýrastofninum, sbr. 2. gr.

2. Að sjá um sölu veiðileyfa, sbr. 9. gr.

3. Að útvega hæfa eftirlitsmenn með hreindýraveiðum, sbr. 13. gr.

4. Að skipta veiðiheimildum milli sveitarfélaga, sbr. 6. gr.

5. Að skipta arði af sölu veiðileyfa og afurða felldra dýra milli sveitarfélaga, sbr. 3. mgr. 10. gr.

Hreindýraráði er heimilt að semja við tiltekna aðila um skrifstofuhald fyrir ráðið þar sem sala veiðileyfa og önnur starfsemi á vegum ráðsins geti farið fram. Ef hentugra þykir getur ráðið sjálft starfrækt slíka skrifstofu

5. gr.

Veiðistjóraembættið stundar hagnýtar rannsóknir á vistfræði hreindýra og stofnstærð. Það leggur faglegt mat á landfræðileg mörk veiðisvæða og æskilegan fjölda dýra á hverju svæði.

6. gr.

Umhverfisráðherra ákveður og auglýsir fyrir 20. júlí ár hvert, hve mörg hreindýr megi veiða og hvernig veiðum skuli skipt eftir svæðum, aldri og kyni dýra, að fengnum tillögum veiðistjóra og hreindýraráðs.

Hreindýraráð skiptir veiðiheimildum milli sveitarfélaga með hliðsjón af ágangi hreindýra.

Veiðitími er frá 1. ágúst til 15. september ár hvert. Þó má veiða tarfa frá 20. júlí ef hreindýraráð og veiðistjóri telja það æskilegt. Þess skal vandlega gætt að þessar tarfaveiðar trufli ekki kýr né kálfa.

Ef ekki tekst á veiðitímanum að veiða nægilega mörg dýr til þess að stofnstærð verði innan fyrirhugaðra marka getur umhverfisráðherra heimilað hreindýraveiðar í nóvember og desember. Hreindýraráð sér alfarið um þær veiðar, ber af þeim allan kostnað og nýtur arðs ef einhver er.

Umhverfisráðherra getur heimilað veiðar utan veiðitíma í vísindaskyni að fenginni umsögn hreindýraráðs og veiðistjóra.

Veiðistjóri og hreindýraráð geta hvenær sem er látið fella sjúk eða særð dýr og dýr sem af einhverri annarri ástæðu eiga sér ekki lífs von.

7. gr.

Eignarréttur eða afnotaréttur á landi, þar sem hreindýr halda sig, veitir ekki rétt til veiða á dýrunum.

8. gr.

Sveitarfélag sem fengið hefur úthlutað veiðiheimildum skv. 6. gr. getur valið eina eða fleiri eftirtalinna leiða við ráðstöfun veiðiheimilda sinna:

1. Að ráða eftirlitsmann hreindýra, skv. 13. gr., til þess að veiða upp í heimildir.

2. Að skipta veiðiheimildum milli íbúa sveitarfélagsins með hliðsjón af ágangi hreindýra.

3. Að afhenda hreindýraráði veiðiheimildir sínar til sölu á almennum markaði.

Velji sveitarfélag 1. eða 2. kost skal það greiða hreindýraráði leyfisgjald af hverju veiðileyfi skv. ákvörðun umhverfisráðuneytis, til þess að standa straum af kostnaði við rannsóknir og starfsemi ráðsins.

Velji sveitarfélag 3. kost hlýtur það arð af sölu veiðileyfa að frádregnum kostnaði af starfsemi hreindýraráðs, sbr. 10. gr.

Veiðar samkvæmt veiðiheimildum hvers sveitarfélags, þ. á m. veiðiheimildum sem afhentar hafa verið hreindýraráði, geta farið fram hvar sem hreindýr á viðkomandi svæði halda sig á veiðitímanum, utan friðlanda hreindýra. Þó getur hreindýraráð takmarkað veiðisvæði frekar að fengnum tillögum viðkomandi sveitarstjórna.

9. gr.

Hreindýraráð skal kappkosta að selja þau veiðileyfi sem sveitarfélög afhenda því, gegn gjaldi sem það ákveður og getur það verið breytilegt eftir svæðum, kyni og aldri dýra.

Hreindýraráði er heimilt að gera ráðstafanir til þess að veiði dreifist sem jafnast á veiðitímann á hverju svæði.

Takist ekki að selja öll veiðileyfi skal hreindýraráð ráða eftirlitsmenn með hreindýraveiðum til þess að veiða upp í heimildir, ef kostur er og þurfa þykir.

10. gr.

Hreindýraráð sér um árlegt uppgjör tekna og gjalda vegna reksturs, sölu veiðileyfa og hreindýraafurða og vegna leyfisgjalda. Tekjur umfram gjöld teljast arður.

Umhverfisráðherra ákveður árlega, að fengnum tillögum veiðistjóraembættis og hreindýraráðs, hve stórum hluta arðs skuli varið til rannsókna á hreindýrastofninum, sbr. 5. gr. og greiðir hreindýraráð þá upphæð inn á reikning veiðistjóraembættis.

Að öðru leyti skiptir hreindýraráð arði milli sveitarfélaga í samræmi við fjölda veiðiheimilda, sem stjórnir þeirra hafa afhent hreindýraráði, í samræmi við verðlag á seldum veiðiheimildum úr viðkomandi hjörð svo og kostnað við að veiða þau dýr sem ekki nást með sölu veiðileyfa.

Skal sveitarstjórn fyrst og fremst láta þá bændur og aðra, sem fyrir mestum ágangi verða af hreindýrum á lönd sín, njóta arðs af veiðunum. Þó er óheimilt að láta arð af hreindýraveiðum ganga til þeirra eigenda eða umráðamanna, sem ekki heimila hreindýraveiðar á sínu landi skv. reglum þessum.

Ákveði sveitarstjórn að ráðstafa arði af hreindýrum fyrirfram með því að skipta veiðiheimildum milli íbúa sveitarfélagsins, getur íbúi falið sveitarstjórn að afhenda hreindýraráði veiðiheimildir sínar til sölu. Hlýtur hann þá arð í samræmi við það að frádregnu leyfisgjaldi til hreindýraráðs, sbr. 8. gr., sem sveitarsjóður þarf þá ekki að greiða. Taki íbúi út fyrirfram greiddan arð með því að veiða hreindýr sjálfur í fylgd hreindýraeftirlitsmanns eða fái hann eftirlitsmann til þess að gera það fyrir sig, er sveitarsjóði heimilt að krefja hann um þá upphæð er nemur leyfisgjaldi til hreindýraráðs.

Sveitarstjórnir skulu árlega senda hreindýraráði skýrslu um arðgreiðslur til landeigenda þar sem fram komi hvernig arði var skipt milli aðila og hverjar reglur hafi verið lagðar þar til grundvallar. Skal hreindýraráð ef þurfa þykir hlutast til um að koma reglu á arðgreiðslur einstakra sveitarstjórna.

hreindýraráð ef þurfa þykir hlutast til um að koma reglu á arðgreiðslur einstakra sveitarstjórna.

11. gr.

Sá einn getur fengið leyfi til þess að veiða hreindýr sem hefur veiðikort og heimild lögreglu til þess að nota skotvopn af réttri stærð, sbr. 12. gr.

Veiðileyfi skal gefið út á nafn veiðimanns og er ekki framseljanlegt til þriðja aðila, nema til hreindýraráðs. Veiðileyfishafa eru hreindýraveiðar óheimilar nema í fylgd eftirlitsmanns.

Fellt hreindýr er eign veiðileyfishafa og ber hann ábyrgð á að koma því til byggða með aðstoð eftirlitsmanns með hreindýraveiðum, sbr. 13. gr.

Hreindýraráði er heimilt að takmarka fjölda veiðileyfa sem seld eru hverjum veiðimanni.

Óheimilt er að selja hreindýrakjöt nema það haft verið heilbrigðisskoðað og stimplað af dýralækni.

12. gr.

Til veiða á hreindýrum má einungis nota riffla með hlaupvídd 6 mm eða meira. Kúluþyngd skal ekki vera minni en 6,5 g (100 grains) og slagkraftur ekki minni en 180 kgm (1300 pundfet) á 200 metra færi. Veiðikúlur skulu vera gerðar til veiða á stærri dýrum, þ.e.a.s. þenjast hæfilega út í veiðibráð. Óheimilt er að nota sjálfvirka eða hálfsjálfvirka riffla við hreindýraveiðar. Fyrir upphaf veiðiferðar skal gengið úr skugga um að riffill sé rétt stilltur.

Óheimilt er veiðimanni að skjóta frá vélknúnu farartæki og ekki má smala hreindýrum á ákveðinn veiðistað.

Sært dýr ber að aflífa svo fljótt sem auðið er.

13. gr.

Hreindýraráð veitir eftirlitsmönnum með hreindýraveiðum starfsleyfi til allt að þriggja ára í senn að fengnu samþykki veiðistjóra.

Til þess að geta fengið starfsleyfi sem eftirlitsmaður með hreindýraveiðum þarf umsækjandi að leggja fram eftirfarandi:

1. Skotvopnaleyfi í samræmi við 11. gr.

2. Staðfestingu a.m.k. tveggja eftirlitsmanna með hreindýraveiðum um reynslu umsækjanda af veiðum, fláningu og meðferð afurða hreindýra.

3. Staðfesting viðkomandi sveitarstjórna um staðgóða þekkingu á veiðisvæði þar sem sótt er um starfsleyfi.

4. Staðfestingu á þátttöku í námskeiðum í (a) líffræði, vistfræði og náttúruvernd með sérstöku tilliti til hreindýra, (b) náttúruverndarlögum, lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, reglugerð um hreindýraveiðar og öðrum lögum sem máli skipta, (c) leiðsögn, (d) skyndihjálp, (e) meðferð skotvopna og (f) veiði villtra dýra og siðfræði og siðareglum veiðimanna.

Ef þurfa þykir hlutast hreindýraráð til um að námskeið skv. 4. tl. verði haldin. Þátttaka í námskeiðum um skyndihjálp og meðferð skotvopna þarf að hafa átt sér stað á síðastliðnum þremur árum fyrir útgáfu starfsleyfis.

Í byrjun fær eftirlitsmaður starfsleyfi sem gildir í eitt ár.

Hreindýraráð getur fyrirvaralaust svipt eftirlitsmann starfsleyfi tímabundið ef grunur leikur á að hann hafi brotið gegn reglum þessum.

Hlutverk eftirlitsmanns með hreindýraveiðum er að fylgja veiðimanni um veiðisvæði, hjálpa honum til þess að þekkja þau dýr sem hann má veiða og sjá til þess að veiðimaður fari rétt að við veiðarnar.

Eftirlitsmaður með hreindýraveiðum skal aðstoða veiðimann við að gera að felldu dýri og koma því óskemmdu til byggða.

Eftirlitsmanni með hreindýraveiðum ber að sjá til þess að sært dýr sé fellt sem fyrst.

Eftirlitsmanni með hreindýraveiðum er skylt að gefa hreindýraráði og veiðistjóraembætti skýrslu um öll felld og særð dýr og skal skýrslan undirrituð af bæði eftirlitsmanni og veiðileyfishafa. Eftirlitsmanni með hreindýraveiðum er einnig skylt að afla sýna eða annarra líffræðilegra gagna fyrir veiðistjóraembættið sé farið fram á það.

Starfsleyfi eftirlitsmanns með hreindýraveiðum skal bundið við tiltekið veiðisvæði og getur hann mest fylgt þrem veiðimönnum í veiðiferð.

Eftirlitsmaður með hreindýraveiðum er trúnaðarmaður hreindýraráðs. Hreindýraráð innheimtir laun hans af veiðimanni eða sveitarfélagi ef hann óskar þess.

14. gr.

Brot gegn reglugerð þessari varða sektum eða varðhaldi. Mál út af slíkum brotum sæta meðferð opinberra mála.

15. gr.

Reglugerð þessi sem sett er skv. 14. gr. laga nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

Endurskoða skal reglur þessar með hliðsjón af fenginni reynslu og skal endurskoðun lokið eigi síðar en 1. júní 1996.

Umhverfisráðuneytið, 13. júlí 1994.

Össur Skarphéðinsson.

Ingimar Sigurðsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica