Leita
Hreinsa Um leit

Velferðarráðuneyti

427/2013

Reglugerð um greiðslur öldrunarstofnana fyrir heilbrigðisþjónustu.

1. gr.

Öldrunarstofnanir sem átt er við í reglugerð þessari eru:

  1. Dvalarheimili, sérhönnuð fyrir þarfir aldraðra sem ekki eru færir um að annast heimilishald þrátt fyrir heimaþjónustu skv. 1. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga um málefni aldraðra, nr. 125/1999.
  2. Hjúkrunarheimili eða hjúkrunarrými á öldrunarstofnunum ætluð þeim sem eru of lasburða til að dveljast á dvalarheimilum, sambýlum eða í sérhönnuðum íbúðum skv. 1. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga um málefni aldraðra, nr. 125/1999.

2. gr.

Öldrunarstofnanir skulu tryggja að þeir sem þar dvelja eigi kost á heilbrigðisþjónustu sem stofnunin kostar að fullu, hvort sem þjónustan er veitt inni á stofnuninni eða utan hennar. Þjónusta sem hver einstaklingur nýtur fer eftir einstaklingsbundnu mati á þörf. Um er að ræða eftirfarandi heilbrigðisþjónustu:

  1. Almenna læknishjálp og sérgreinalæknishjálp. Sé þjónusta veitt utan öldrunar­stofnunar­innar skal stofnunin greiða samkvæmt gildandi samningi sem Sjúkra­tryggingar Íslands hafa gert um þjónustuna eða eftir atvikum samkvæmt sérstökum samningi sem öldrunarstofnunin hefur gert við lækna. Ef ekki hafa verið gerðir samningar um þjónustuna greiðir stofnunin þjónustuna.
  2. Lyf, þó ekki leyfisskyld lyf sem Sjúkratryggingar Íslands greiða.
  3. Rannsóknir og myndgreiningu.
  4. Endurhæfingu, til dæmis sjúkraþjálfun.
  5. Hjálpartæki, þó ekki gleraugu, heyrnartæki eða hjólastóla.
  6. Sjúkraflutning, annan en þann sem sjúkrahúsi ber að greiða skv. 28. gr. laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008. Sjúkraflutningur að ósk vistmanns eða aðstand­anda skal greiddur af þeim sem óskar flutningsins.

Ef einstaklingur sem býr á öldrunarstofnun er lagður inn á sjúkrahús dvelst hann þar á kostnað sjúkrahússins.

3. gr.

Öldrunarstofnunum er ekki skylt að kosta persónulega muni og aukaþjónustu, svo sem snyrtivörur, hársnyrtingu, fótsnyrtingu, fatnað eða fatahreinsun. Öldrunarstofnanir skulu hins vegar kosta hreinsun á fatnaði sem þvo má í þvottavél.

4. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 29. gr. laga um málefni aldraðra, nr. 125/1999, öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð um greiðslur öldrunarstofnana fyrir heilbrigðisþjónustu, nr. 422/1992.

Velferðarráðuneytinu, 2. maí 2013.

Guðbjartur Hannesson.

Sveinn Magnússon.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica