Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

422/1992

Reglugerð um greiðslur öldrunarstofnana fyrir heilbrigðisþjónustu. - Brottfallin

1. gr.

Öldrunarstofnanir sem átt er við í reglugerð þessari eru:

a. Þjónustuhúsnæði aldraðra skv. 18. gr. 1. tl. laga um málefni aldraðra nr. 82/1989, þ.e. íbúðir og dvalarheimili, hvort tveggja sérhannað fyrir þarfir aldraðra og ætlað þeim öldruðum sem ekki eru færir um að annast heimilishald þrátt fyrir heimaþjónustu. Þar skal vera varsla allan sólarhringinn, öryggiskerfi í hverri íbúð og völ á fjölbreyttri þjónustu, svo sem mat, þvotti, þrifum og félagsþjónustu.

b. Hjúkrunarrými á öldrunarstofnunum eða hjúkrunarheimili skv. 18. gr. 2. tl. laga um málefni aldraðra nr. 82/1989, ætluð öldruðum einstaklingum sem eru of lasburða til að dveljast í þjónustuhúsnæði aldraðra.

2. gr.

Öldrunarstofnanir skulu tryggja að þeir sem þar dvelja eigi kost á eftirfarandi heilbrigðisþjónustu sem stofnunin kostar að fullu, hvort sem þjónustan er veitt inni á stofnuninni eða utan hennar. Þjónusta sem hver einstaklingur nýtur fer eftir einstaklingsbundnu mati á þörf. Um er að ræða eftirfarandi þjónustu:

a. Almenn læknishjálp og sérfræðilæknishjálp. Sé þjónusta veitt utan öldrunarstofnunarinnar skal stofnunin greiða samkvæmt umsaminni gjaldskrá Tryggingastofnunar ríkisins og læknafélaganna eða skv. sérstökum samningi sem öldrunarstofnunin gerir við lækna.

b. Lyf.

c. Rannsóknir og röntgengreining.

d. Endurhæfing t.d. sjúkraþjálfun.

e. Hjálpartæki, þó ekki gleraugu, heyrnartæki eða hjólastólar.

f. Sjúkraflutningur, annar en sá sem sjúkrahúsi ber að greiða skv. 43. gr. 1. mgr. i.lið laga nr. 67/1971 um almannatryggingar. Þó skal sjúkraflutningur að ósk vistmanns eða aðstandenda greiddur af þeim sem óskar flutningsins.

Ef einstaklingur sem býr á öldrunarstofnun er lagður inn á sjúkrahús dvelst hann þar á kostnað sjúkrahússins.

3. gr.

Öldrunarstofnun er ekki skylt að kosta persónulega muni og aukaþjónustu svo sem fatnað, fatahreinsun, snyrtivörur, hársnyrtingu og fótsnyrtingu.

4. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 30. gr. laga um málefni aldraðra nr. 82/1989, öðlast gildi 1. janúar 1993.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 25. nóvember 1992.

Sighvatur Björgvinsson.

Páll Sigurðsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica