Samgönguráðuneyti

420/2003

Reglugerð um mönnunarnefnd skipa.

1. gr.

Nefndin heitir mönnunarnefnd skipa og heyrir stjórnarfarslega beint undir samgönguráðherra. Nefndin fjallar um mönnun fiskiskipa, varðskipa og annarra skipa eftir því sem nánar er kveðið á um í 19. og 20. gr. laga um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum, nr. 112/1984, með síðari breytingum og 6. og 7. gr. laga um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum, nr. 113/1984, með síðari breytingum.

Siglingastofnun Íslands annast skrifstofuhald og daglega afgreiðslu fyrir nefndina.


2. gr.

Ráðherra skipar formann nefndarinnar.

Aðrir nefndarmenn eru skipaðir samkvæmt tilnefningu eftirtalinna aðila:
Farmanna- og fiskimannasamband Íslands tilnefnir 2 menn til að fjalla um fjölda skipstjórnarmanna, og Vélstjórafélag Íslands tilnefnir 2 menn til að fjalla um fjölda vélstjóra. Samtök útvegsmanna tilnefna 2 menn í nefndina. Nægjanlegt er að einn frá hverjum samtökum fjalli um hvert mál.


3. gr.

Nefndin skal skipuð til þriggja ára í senn.


4. gr.

Samtök útvegsmanna, útgerð varðskipa og annarra skipa eða stéttarfélaga geta lagt fyrir nefndina til úrskurðar beiðni um breytingu á mönnun skips frá ákvæðum laganna.


5. gr.

Til að fjalla um ákveðin mál kveður formaður til fulltrúa þeirra samtaka yfirmanna sem málið varðar, ásamt jafn mörgum fulltrúum samtaka útgerða eða útvegsmanna. Tilkvaddir nefndarmenn hafa hver eitt atkvæði. Falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns. Varaformaður getur, eftir ákvörðun formanns, tekið þátt í umræðum um mál, en hefur ekki atkvæðisrétt.


6. gr.

Mönnunarnefnd heldur fundi eftir þörfum og formaður nefndarinnar boðar fundi og stjórnar þeim. Hann skal sjá um að mál, sem lögð eru fyrir nefndina, séu rekin án óþarfa tafa.


7. gr.

Sem fyrst að málsmeðferð lokinni, kveður nefndin upp rökstuddan úrskurð.

Úrskurðir skulu færðir í sérstaka gerðarbók og vera undirritaðir af formanni. Formaður sér um að úrskurðir séu kynntir málsaðilum, samgönguráðuneyti, Siglingastofnun, lögskráningarstjóra og öðrum þeim sem ástæða þykir til.

Úrskurði mönnunarnefndar er heimilt að kæra til samgönguráðuneytisins.


8. gr.

Nefndarmönnum, varamönnum þeirra, embættismönnum, sérfræðingum og öðrum þeim, sem tekið hafa þátt í störfum nefndarinnar, er óheimilt að skýra óviðkomandi aðilum frá því, sem þeir hafa komist að í störfum sínum fyrir nefndina eða á fundum hennar.


9. gr.

Mönnunarnefnd heldur gerðarbók um störf sín og skulu formaður og ritari skrifa undir bókanir í lok hvers fundar. Í fundargerðarbókina skal færa stað og stund fundar og skrá hverjir nefndarmanna eða varamanna sitja fundinn, númer máls og hver er umsækjandi, framlögð gögn, nöfn þeirra sem mæta fyrir aðila og annarra er kynnu að sitja fundinn. Jafnframt skal færa í fundargerðarbók stutta lýsingu á umræðum og/eða málflutningi, þar sem greint sé frá kröfum aðila, fullyrðingum og mótmælum að svo miklu leyti sem þetta kemur ekki fram í framlögðum gögnum. Skýringar og málflutningur til rökstuðnings kröfu, mótmæla eða athugasemdir skulu ekki færðar í fundargerðarbók, nema formaður ákveði það, þegar sérstaklega stendur á.


10. gr.

Ríkissjóður greiðir þóknun til nefndarmanna samkvæmt mati þóknananefndar.


11. gr.

Reglugerð þessi er sett skv. 20. gr. laga nr. 112 31. desember 1984 um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum og 7. gr. laga nr. 113 31. desember 1984 um atvinnuréttindi, vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum og tekur þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um mönnunarnefnd, nr. 64/1985, með síðari breytingum.


Samgönguráðuneytinu, 21. maí 2003.

Sturla Böðvarsson.
Ragnhildur Hjaltadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica