Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

414/2007

Reglugerð um sóttvarnaráðstafanir. - Brottfallin

I. KAFLI

Göngudeildir sem sinna tilkynningarskyldum smitsjúkdómum.

1. gr.

Göngudeildir sem sinna tilkynningarskyldum smitsjúkdómum skulu vera á Landspítala - háskólasjúkrahúsi (LSH) og hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Göngudeild sem sinnir smitsjúkdómum hjá börnum skal vera á LSH. Þessar göngudeildir annast sjúklinga sem þangað er vísað eða þangað leita vegna tilkynningarskyldra smitsjúkdóma eða annarra alvarlegra smitsjúkdóma eða gruns um slíka sjúkdóma. Hlutverk deildanna er einnig að rekja smit manna á milli, hafa upp á þeim einstaklingum sem kunna að hafa smitast af tilkynningarskyldum sjúkdómum og hindra frekari sjúkdómsútbreiðslu, sbr. 1. og 2. mgr. 16 gr. laga nr. 19/1997.

Sýkingavarnir og sérstök aðstaða til einangrunar, afeitrunar og hreinsunar.

2. gr.

Á LSH skal vera þekking og viðbúnaður sem snýr að sóttvörnum vegna sérstakra ógna sem steðjað geta að vegna sýkla, eiturefna og geislavirkra efna. Sérstök aðstaða skal vera á LSH til einangrunar sjúklinga sem eru til rannsóknar eða meðferðar vegna smit­sjúkdóma eða gruns um smitsjúkdóm eða vegna afleiðinga eiturefna- eða geislavirkra efna. Þar skal einnig vera aðstaða til sótthreinsunar og afeitrunar sjúklinga, fatnaðar, áhalda og farartækja. Á heilsugæslustöðvum og öðrum heilbrigðisstofnunum skal vera til staðar þekking og grunnviðbúnaður sem snýr að sóttvörnum.

3. gr.

Á deildaskiptu sjúkrahúsi skal starfa sýkingavarnanefnd og eftir atvikum sýkingavarna­deild sem hefur það hlutverk að skrá aðgerðatengdar sýkingar og stuðla að sýkinga­vörnum innan stofnunarinnar.

II. KAFLI

Framkvæmd opinberra sóttvarnaráðstafana.

4. gr.

Göngudeildir sem sinna tilkynningarskyldum smitsjúkdómum.

Göngudeildir sem sinna tilkynningarskyldum smitsjúkdómum, heilsugæslustöðvar og aðrar heilbrigðisstofnanir skulu sinna opinberum sóttvarnaráðstöfunum í samræmi við IV. kafla og 14. gr. laga nr. 19/1997 og reglugerð nr. 162/2003 skv. nánari fyrirmælum sótt­varnalæknis.

5. gr.

Almannavarnir.

Opinberar sóttvarnaráðstafanir skv. 12. gr. laga nr. 19/1997 og undirbúningur þeirra skulu gerðar í samvinnu við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

6. gr.

Alþjóðlegar hafnir og flugstöðvar.

Landamærastöðvarnar á Keflavíkurflugvelli, Sundahöfn og Holtabakka og Seyðisfirði skulu vera sóttvarnastöðvar og uppfylla skilyrði alþjóðaheilbrigðisreglugerðarinnar um alþjóðlega landamærastöð.

7. gr.

Öryggisbirgðahald.

Sóttvarnalæknir skal hafa umsjón með öryggisbirgðum lyfja og annars nauðsynlegs búnaðar í landinu til að bregðast við heilbrigðisógnum á borð við farsóttir eða aðra vá. Sóttvarnalæknir skal birta lista yfir slíkar birgðir í landinu á hverjum tíma í samráði við heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið.

8. gr.

Læknisrannsókn á fólki sem flyst til landsins.

Göngudeildir samkvæmt 1. gr. og heilsugæslustöðvar annast læknisrannsókn á þeim sem koma til landsins og sækja um dvalarleyfi samkvæmt verklagsreglum sóttvarnalæknis sem miðast við sérstakt hættuástand vegna smitsjúkdóma farsótta á tilteknu landsvæði, sbr. 4. mgr. 14. gr. laga nr. 19/1997. Hafi umsækjandi fullgilt læknisvottorð samkvæmt verklagsreglum sóttvarnalæknis þarf viðkomandi ekki að sæta læknisrannsókn.

9. gr.

Læknisrannsókn á ferðamönnum við komu eða brottför.

Berist tilkynning frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni um að næm sótt sem ógnað getur almannaheill breiðist út og gæti borist til landsins eða frá því skulu þeir sem koma til landsins eða hyggjast yfirgefa það og gætu hafa orðið fyrir smiti sæta læknisrannsókn samkvæmt nánari fyrirmælum sóttvarnalæknis sbr. 13. gr. laga nr. 19/1997. Ferðamanni ber að veita upplýsingar um áfangastað, gangast undir læknisrannsókn sem er eins takmörkuð og auðið er en uppfyllir jafnframt markmið sóttvarna og heimila könnun á farangri.

III. KAFLI

Greiðslur og undanþágur frá greiðsluhlutdeild.

10. gr.

Dvalar- og atvinnuleyfi.

Læknisrannsókn sem gerð er vegna umsóknar um dvalar- og atvinnuleyfi og er í sam­ræmi við verklagsreglur sóttvarnalæknis skal greiðast af vinnuveitanda eða þeim sem sækir um dvalar- eða atvinnuleyfi. Leiði frekari læknisrannsókn í ljós þörf fyrir frekari sértækar rannsóknir þá greiðir viðkomandi eða sjúkratrygging hans kostnað við þau heilsufarslegu vandamál sem greinast fyrstu sex mánuðina sem dvalið er í landinu. Læknisrannsókn sem vinnuveitandi óskar sérstaklega eftir greiðist af vinnuveitandanum.

11. gr.

Tilkynningarskyldir smitsjúkdómar.

Greining, meðferð og eftirfylgni tilkynningarskyldra smitsjúkdóma, fyrir aðra en getið er um í 10. gr., sbr. reglugerð nr. 129/1999 um skýrslugerð vegna smitsjúkdóma, skal vera sjúklingi, sem leitar til göngudeilda sem sinna tilkynningarskyldum smitsjúkdómum skv. 1. gr. eða heilsugæslustöðva, að kostnaðarlausu. Sama gildir um þá sem kvaddir eru til rannsóknar til leitar að smiti.

12. gr.

Ákvæði vegna alþjóðaheilbrigðisreglugerðarinnar.

Ferðamenn sem að kröfu sóttvarnayfirvalda þurfa að leggja fram vottorð og sæta þurfa læknisrannsókn, bólusetningum, einangrun, afkvíun, eða heilbrigðisráðstöfunum vegna farangurs eru undanþegnir greiðsluhlutdeild.

Gildistaka.

13. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 18. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997, sbr. 12., 16. og 17. gr., öðlast þegar gildi. Samtímis fellur úr gildi reglugerð nr. 131/1999.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 25. apríl 2007.

Siv Friðleifsdóttir.

Davíð Á. Gunnarsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica