Menntamálaráðuneyti

414/2000

Reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra lokaprófa í 10. bekk í grunnskólum. - Brottfallin

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um samræmd lokapróf í 10. bekk grunnskóla. Með samræmdu prófi er í reglugerð þessari átt við sama próf sem nemendum 10. bekkjar gefst kostur á að þreyta við lok grunnskóla á sama tíma og við sömu eða sambærilegar aðstæður. Sambærilegar aðstæður við próf gegna því hlutverki að gera niðurstöður prófanna samanburðarhæfar.


2. gr.

Nemendum í 10. bekk grunnskóla skal gefast kostur á að þreyta samræmd próf í allt að sex námsgreinum sem menntamálaráðherra ákveður. Þeir nemendur í 9. bekk, sem að mati skólastjóra og umsjónarkennara, hafa staðist þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt aðalnámskrá við lok grunnskóla í einstökum námsgreinum, geta, með samþykki forsjáraðila, valið að þreyta samræmd lokapróf í þeim námsgreinum.

Nemendum er óheimilt að þreyta samræmt lokapróf tvisvar sinnum í sömu námsgrein.


3. gr.

Skráning í samræmd lokapróf 10. bekkjar fer fram á tímabilinu 1. september til 15. janúar ár hvert. Skólastjóri ber ábyrgð á að nemendur skrái sig til prófs og sér til þess að staðfesting forsjáraðila fylgi skráningu.

Skólastjórar skulu sjá til þess að nemendalistar með nöfnum og kennitölum allra nemenda 10. bekkjar ásamt bekkjarheiti berist framkvæmdaaðila prófanna eigi síðar en 1. október. Eigi síðar en 1. febrúar ár hvert skulu skólastjórar senda nöfn þeirra nemenda sem skrá sig í hvert samræmt próf til framkvæmdaaðila á þar til gerðum nemendalistum sem framkvæmdaaðili leggur þeim til.


4. gr.

Menntamálaráðherra leggur grunnskólum til samræmd lokapróf í 10. bekk. Grunnskólum er skylt að halda samræmd lokapróf og fylgja reglum um framkvæmd þeirra. Framkvæmdaaðili prófanna setur ítarlegar reglur um framkvæmd og fyrirlögn prófanna. Við fyrirlögn samræmdra prófa ber að fara nákvæmlega eftir þeim fyrirmælum sem fylgja prófi.

Frávik frá reglum um fyrirlögn eru ekki heimil nema með samþykki þess aðila sem ber ábyrgð á framkvæmd prófanna. Menntamálaráðherra ákveður með auglýsingu með árs fyrirvara hvenær samræmd lokapróf verða haldin.


5. gr.

Nemendur sem velja að gangast undir einhver samræmd lokapróf en eru samkvæmt læknisvottorði veikir á prófdegi, skulu eiga kost á að þreyta sjúkrapróf sem skólunum eru lögð til og menntamálaráðherra ákveður með auglýsingu hvenær fari fram.


6. gr.

Samræmd lokapróf skulu haldin í 10. bekk í a.m.k. sex námsgreinum: íslensku, stærðfræði, ensku, dönsku, náttúrufræði og samfélagsgreinum. Tilgangur samræmdra lokaprófa í 10. bekk er að:
a. veita nemendum og forsjáraðila þeirra upplýsingar um námsárangur og námsstöðu nemenda

b. vera viðmið fyrir inntöku nemenda á mismunandi námsbrautir framhaldsskóla

c. athuga eftir því sem kostur er, hvort námsmarkmiðum aðalnámskrár í viðkomandi námsgrein hafi verið náð

d. veita upplýsingar um hvernig skólar standa í þeim námsgreinum sem prófað er úr, miðað við aðra skóla landsins.

7. gr.

Menntamálaráðherra felur Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála eða öðrum aðila framkvæmd samræmdra lokaprófa í 10. bekk grunnskóla með sérstökum samningi og ber stofnunin/aðilinn ábyrgð á samningu og framkvæmd prófanna samkvæmt þessari reglugerð. Í samningi þessum skal m.a. kveðið á um samningu, fyrirlögn og úrvinnslu samræmdra prófa. Ekki er heimilt að ráða kennara til að semja samræmt próf ef hann kennir sömu námsgrein í viðkomandi árgangi. Kennarar skulu ekki meta úrlausnir nemenda úr þeim skóla þar sem þeir stunda kennslu. Trúnaðar- og þagnarskylda hvílir á þeim sem sjá um og taka þátt í að semja og meta úrlausnir á samræmdum prófum. Þeim er óheimilt að fjalla um eða birta að hluta eða í heild úrlausnir einstakra nemenda.


8. gr.

Samræmd lokapróf skulu vera markmiðsbundin eftir því sem aðalnámskrá gerir kleift. Jafnframt skulu þau vera áreiðanleg og réttmæt. Mat úrlausna á samræmdum lokaprófum skal vera hlutlægt. Framkvæmdaaðili prófanna skal í upphafi skólaárs senda skólum upplýsingar um fyrirkomulag samræmdra lokaprófa.


9. gr.

Heimilt er að víkja frá almennum reglum um fyrirlögn samræmdra lokaprófa þegar um er að ræða líkamlega fötlun, langvarandi veikindi eða aðra erfiðleika af líffræðilegum orsökum, s.s. lesblindu, enda séu þessar aðstæður nemandans staðfestar af sérfræðingi á viðkomandi sviði. Slíkar umsóknir um frávik frá reglum um fyrirlögn skal skólastjóri senda þeim aðila sem ber ábyrgð á framkvæmd samræmdra prófa í síðasta lagi tveimur mánuðum fyrir próf. Umsóknir skulu undirritaðar af skólastjóra og staðfestar af nemanda og forsjáraðila hans.


10. gr.

Framkvæmdaaðila er óheimilt að veita öðrum en skólastjóra viðkomandi grunnskóla, þar sem nemandi stundar nám, nemanda og forsjáraðilum hans upplýsingar um einkunnir einstakra nemenda á samræmdum prófum í 10. bekk nema í rannsóknarskyni, enda sé þá farið að lögum um skráningu og meðferð persónuupplýsinga nr. 121/1989 eða lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þó er framkvæmdaaðila heimilt að veita skólameistara framhaldsskóla upplýsingar um einkunnir einstakra nemenda á samræmdum prófum vegna innritunar nemenda, enda liggi samþykki viðkomandi nemanda fyrir.

Innan þriggja mánaða frá því að niðurstöður samræmdra lokaprófa hafa verið sendar grunnskólum, samanber 12. gr., getur nemandi sem þreytti samræmt lokapróf og/eða forsjáraðili hans krafist þess að fá úrlausn sína afhenta. Öðrum úrlausnum skal eytt á tryggilegan hátt að þeim tíma liðnum og er sá aðili er umsjón hefur með prófinu ábyrgur fyrir þeirri framkvæmd. Um varðveislu upplýsinga sem unnar eru upp úr prófúrlausnum á samræmdu lokaprófi í grunnskóla fer eftir ákvæðum laga um Þjóðskjalasafn Íslands.


11. gr.

Eigi síðar en 24 dögum eftir síðasta samræmt lokapróf í 10. bekk skal sá aðili er annast framkvæmd prófanna senda skólastjórum niðurstöður þeirra í ábyrgðarpósti eða á annan tryggan hátt. Hverjum nemanda skal gefa heildareinkunn fyrir hvert próf og skilgreinda prófþætti þeirra á þeim einkunnastigum sem kveðið er á um í 13. gr.


12. gr.

Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála eða annar aðili sem falið er að sjá um framkvæmd samræmdra lokaprófa, skal eigi síðar en þremur mánuðum eftir að próf eru haldin, gefa út yfirlit um heildarniðurstöður prófanna og dreifa til grunnskóla, foreldraráða við grunnskóla, framhaldsskóla og fræðsluyfirvalda. Þar skal koma fram fjöldi og hlutfall nemenda sem þreyta prófin í hverjum skóla, fjöldi nemenda með frávik, meðaltöl einstakra skóla og á landsvísu og fjöldi nemenda með hverja einkunn. Framkvæmdaaðili skal jafnframt senda hverjum skóla þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru við túlkun á einkunnum nemenda. Láta skal öðrum aðilum í té upplýsingar um niðurstöður samræmdra prófa ef þeir óska þess en ætíð skal gæta trúnaðar gagnvart einstökum nemendum.


13. gr.

Nemendur skulu fá heildareinkunnir fyrir hvert próf og auk þess einkunnir er gefa yfirlit yfir árangur sinn í skilgreindum prófþáttum. Heildareinkunn beri heitið samræmd einkunn og einkunn á prófþáttum beri heitið námsþáttaeinkunn. Samræmdar einkunnir og námsþáttaeinkunnir skulu gefnar í heilum og hálfum tölum á einkunnakvarðanum 1-10. Til stuðnings við túlkun á frammistöðu nemenda getur framkvæmdaaðili birt og notað einkunnakvarða er veita gagnlegar og túlkanlegar upplýsingar um kunnáttu og stöðu nemenda til viðbótar við samræmdar einkunnir og námsþáttaeinkunnir. Einkunnum á samræmdum prófum skulu fylgja upplýsingar um áreiðanleika þeirra.


14. gr.

Námi í grunnskóla telst lokið í 10. bekk eða þegar nemandi í 9. bekk hefur staðist þær kröfur sem gerðar eru samkvæmt aðalnámskrá við lok grunnskóla. Í skírteini sem nemendur fá þegar grunnskólanámi lýkur, skal skrá einkunnir á samræmdum lokaprófum, sem nemandinn hefur þreytt ásamt vitnisburði í öllum þeim námsgreinum er nemandinn lagði stund á í 10. bekk.


15. gr.

Menntamálaráðherra skipar skólum trúnaðarmenn til eftirlits og aðstoðar við framkvæmd samræmdra lokaprófa í 10. bekk. Trúnaðarmenn þessir eru fulltrúar menntamálaráðuneytisins á prófstað og skulu hafa eftirlit með því að próf fari fram samkvæmt þeim reglum sem settar eru um framkvæmd þeirra. Menntamálaráðherra setur trúnaðarmönnum erindisbréf og greiðist kostnaður af störfum þeirra úr ríkissjóði.


16. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 46. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla með síðari breytingum og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 516/1996 um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra prófa í grunnskólum.

Ákvæði til bráðabirgða.

Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. og 6. gr. verða samræmd lokapróf fjögur í stað sex vorið 2001.


Menntamálaráðuneytinu, 6. júní 2000.

Björn Bjarnason.
Árni Gunnarsson.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica