Fara beint í efnið

Prentað þann 19. mars 2024

Stofnreglugerð

410/2008

Reglugerð um arsen, kadmíum, kvikasilfur, nikkel og fjölhringa arómatísk vetniskolefni í andrúmslofti.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að:

fyrirbyggja og draga úr skaðlegum áhrifum arsens, kadmíums, nikkels og benzó[a]pýrens á heilbrigði manna og umhverfið,

tryggja að loftgæðum verði viðhaldið hvað varðar arsen, kadmíum, nikkel og fjölhringa arómatísk vetniskolefni þar sem ástandið er gott en að gripið verði til úrbóta annars,

ákvarða almennar aðferðir og skilyrði svo meta megi styrk arsens, kadmíums, kvikasilfurs, nikkels og fjölhringa arómatískra vetniskolefna í andrúmslofti og ákomu sömu efna,

tryggja að útvega megi viðunandi upplýsingar um styrk arsens, kadmíums, kvikasilfurs, nikkels og fjölhringa arómatískra vetniskolefna í andrúmslofti og ákomu sömu efna og að þær upplýsingar verði gerðar aðgengilegar almenningi.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um eftirlit, mat, mælingar, upplýsingaskipti og upplýsingar til almennings vegna arsens, kadmíums, kvikasilfurs, nikkels og fjölhringa arómatískra vetniskolefna í andrúmslofti.

Reglugerðin gildir um atvinnurekstur hér á landi og í mengunarlögsögunni. Reglugerðin gildir einnig um athafnir einstaklinga eftir því sem við á.

Reglugerðin gildir ekki um vinnustaði, sbr. ákvæði laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

3. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking orða og orðasambanda sem hér segir:

Andrúmsloft er loft í veðrahvolfi að undanskildu lofti á vinnustöðum og innandyra.

Atvinnurekstur er hvers konar starfsemi og framkvæmdir.

Ákoma er massi mengunarefna sem flyst frá andrúmslofti til yfirborðs (t.d. jarðvegs, gróðurs, vatns, bygginga) á tilteknu svæði á tilteknu tímabili. Heildarákoma er heildarmassi mengunarefna.

Besta fáanlega tækni er framleiðsluaðferð og tækjakostur sem beitt er til að lágmarka mengun og myndun úrgangs. Tækni nær til framleiðsluaðferðar, tækjakosts, hönnunar mannvirkja, eftirlits og viðhalds búnaðarins og starfrækslu hans. Með fáanlegri tækni er átt við aðgengilega framleiðsluaðferð og tækjakost (tækni) sem þróuð hafa verið til að beita í viðkomandi atvinnurekstri og skal tekið mið af tæknilegum og efnahagslegum aðstæðum. Með bestu er átt við virkustu aðferðina til að vernda alla þætti umhverfisins.

Eftirlit er athugun á vöru, þjónustu, ferli eða starfsemi til að ákvarða samræmi þeirra við tilteknar kröfur.

Eftirlitsaðilar eru viðkomandi heilbrigðisnefnd og Umhverfisstofnun, svo og faggiltir skoðunaraðilar sem starfa samkvæmt reglugerð þessari með takmarkaðar heimildir í samræmi við 24. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Efri viðmiðunarmörk mats eru mörk sem eru tilgreind í II. viðauka, en neðan þeirra er unnt að nota samþættar aðferðir, sem byggjast á mælingum og reiknilíkönum til þess að meta gæði andrúmslofts í samræmi við 13. gr. reglugerðar um loftgæði.

Fastar mælingar þýða mælingar framkvæmdar á föstum mælistöðvum annaðhvort samfelldar eða af handahófi.

Fjölhringa arómatísk vetniskolefni eru lífræn efnasambönd sem samanstanda af a.m.k. tveimur tengdum arómatískum hringefnasamböndum sem eingöngu eru sett saman úr kolefni og vetni. Benzó[a]pýren er notað sem markefni til að meta krabbameinsvaldandi áhrif þessara efna.

Heildarmagn kvikasilfurs í gasfasa er kvikasilfursgufa (frumefni, Hg0) og hvarfgjarnt kvikasilfur á gasformi, þ.e. vatnsleysanleg kvikasilfurssambönd með nægilega háan gufuþrýsting til þess að geta verið í gasfasa.

Mat er aðferð til að mæla, reikna út, spá fyrir um eða meta stig mengunar í andrúmslofti.

Neðri viðmiðunarmörk mats eru mörk sem eru tilgreind í II. viðauka en neðan þeirra er unnt að nota aðferðir, sem byggjast annaðhvort eingöngu á reiknilíkönum eða hlutlægu mati, til þess að meta gæði andrúmslofts í samræmi við 13. gr. reglugerðar um loftgæði.

Mengun er þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta.

Mengunarvarnaeftirlit er eftirlit með þeim þáttum sem eiga að fyrirbyggja eða draga úr mengun lofts, láðs eða lagar, eftirlits með eiturefnum og hættulegum efnum og fræðslu um þessi mál. Vöktun umhverfisins telst til mengunarvarnaeftirlits.

PM10 er svifryk sem fer gegnum staðlað inntak sem með 50% skilvirkni skilur frá agnir sem hafa loftfræðilegt þvermál 10 mm.

Stig mengunar er styrkur mengunarefna í andrúmslofti eða ákoma þess á yfirborð á ákveðnum tíma.

Svæði er hluti landsins sem afmarkaður hefur verið til að meta loftgæði.

Umhverfismörk eru leyfileg hámarksgildi mengunar í andrúmslofti sett í því skyni að koma í veg fyrir eða draga úr skaðlegum áhrifum á heilsu manna og/eða umhverfið og stefna skal að því að ná þeim.

Þéttbýlissvæði er svæði þar sem þéttleiki byggðar er slíkur að nauðsynlegt er að meta og stjórna gæðum andrúmslofts.

4. gr. Hlutverk Umhverfisstofnunar og heilbrigðisnefnda.

Heilbrigðisnefndum og Umhverfisstofnun ber að sjá um að ákvæðum reglugerðar þessarar sé framfylgt. Auk þess gilda ákvæði um loftgæðarannsóknir og vöktun í reglugerð um loftgæði.

5. gr. Meginreglur.

Styrkur arsens, kadmíums, nikkels og benzó[a]pýrens í andrúmslofti skal eftir 31. desember 2012 ekki fara yfir þau umhverfismörk sem gefin eru upp í I. viðauka. Gripið skal til þeirra úrræða sem þessi reglugerð og reglugerð um loftgæði heimilar svo halda megi styrk ofangreindra efna innan þeirra marka.

Umhverfisstofnun skal halda skrá yfir svæði og þéttbýlissvæði þar sem gildin fyrir arsen, kadmíum, nikkel og benzó[a]pýren eru yfir umhverfismörkum. Það sama gildir um svæði þar sem styrkur efna er undir umhverfismörkum.

Á þeim svæðum þar sem mælingar sýna að styrkur fyrrgreindra efna sé innan umhverfismarka fyrir viðkomandi efni skal sjá til þess að loftgæði m.t.t. styrks fyrrgreindra efna viðhaldist.

Í ákvæðum starfsleyfa fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun skulu viðeigandi ráðstafanir gerðar til þess að hamla gegn loftmengun af völdum arsens, kadmíums, kvikasilfurs, nikkels og fjölhringa arómatískra vetniskolefna og beita skal til þess bestu fáanlegu tækni.

6. gr. Mælistöðvar.

Umhverfisstofnun skal sjá um að mælistöðvar séu settar upp sem veita nauðsynlegar upplýsingar svo fara megi að ákvæðum reglugerðarinnar. Þá skal stofnunin sjá um framkvæmd vöktunar. Umhverfisstofnun er heimilt að gera samninga við eitt eða fleiri sveitarfélög um uppsetningu og rekstur mælistöðvar. Í samningnum skal m.a. kveða á um framkvæmd vöktunar og kostnaðarskiptingu samningsaðila. Skilyrði og lágmarkskröfur um tíðni mælinga og gæði mæligagna skulu vera í samræmi við I. hluta IV. viðauka og um líkön til ákvörðunar loftgæða samkvæmt II. hluta IV. viðauka. Aðferðir til þess að mæla og greina mengunarefni í andrúmslofti skulu vera í samræmi við V. viðauka. Umhverfisstofnun getur samþykkt aðrar aðferðir sé það mat stofnunarinnar að þær séu sambærilegar.

Lágmarksfjöldi mælistöðva skal vera eins og segir í IV. hluta III. viðauka. Val á stöðvum skal ákveðið í samræmi við I. hluta og II. hluta III. viðauka og skal endurskoða staðarvalið reglulega í samræmi við III. hluta III. viðauka.

Þar sem sýnt hefur verið fram á að þörf er á föstum mælistöðvum vegna staðbundinnar uppsprettu, skal sá atvinnurekstur sem valdur er að menguninni kosta rekstur mælistöðva.

Rekstraraðilar mælistöðva skulu skila upplýsingum um rekstur stöðvanna og niðurstöðum mælinga fyrir 1. maí ár hvert.

Að minnsta kosti ein bakgrunnsmælistöð skal vera í dreifbýli til mælinga vísbendingargilda í andrúmslofti fyrir arsen, kadmíum, nikkel, benzó[a]pýren og heildarmagn kvikasilfurs í gasfasa auk þeirra fjölhringa arómatísku vetniskolefna sem talin eru upp í 2. mgr. 7. gr. Þar skal einnig afla vísbendingargilda með mælingu heildarákomu fyrir arsen, kadmíum, kvikasilfur, nikkel, benzó[a]pýren og fyrrgreind fjölhringa arómatísk vetniskolefni. Um val á staðsetningu mælistöðva skal fylgja fyrirmælum í I. og II. hluta III. viðauka.

7. gr. Mælingar og mat á styrk mengunarefna.

Meta skal loftgæði með tilliti til þeirra mengunarefna sem talin eru upp í 5. gr.

Viðbótarmælingar skulu fara fram á eftirtöldum fjölhringa arómatískum vetniskolefnum svo leggja megi mat á framlag benzó[a]pýrens til mengunar andrúmsloftsins: benzó[a]antrasen, benzó[b]flúoranten, benzó[j]flúoranten, benzó[k]flúoranten, indenó[1,2,3-cd]pýren og díbenz[a,h]antrasen á sömu mælistöðvum og benzó[a]pýren.

Mælingar skulu fara fram á föstum mælistöðvum annaðhvort með samfelldum mælingum eða með slembisýnatöku. Fjöldi mælinga skal vera nægilegur til þess að ákvarða megi mengunarstigið.

Reglulegar mælingar skal framkvæma á þeim mælistöðvum þar sem farið er yfir neðri viðmiðunarmörk í samræmi við skilgreiningu í II. viðauka. Þar sem niðurstöður mælinga sýna gildi á milli efri og neðri viðmiðunarmarka má til viðbótar við mælingar notast við útreikninga á grundvelli líkana til þess að meta loftgæði. Á mælistöðvum þar sem sýnt hefur verið fram á að mæligildi haldist undir neðri viðmiðunarmörkum er nægilegt að notast eingöngu við útreikninga á grundvelli líkana og annarra hlutlægra matsaðferða.

Taka má til greina vísbendingar um áhrif mengunarefna á lífríki við mat á staðbundnum áhrifum mengunar.

8. gr. Miðlun upplýsinga til almennings.

Upplýsingar fyrir almenning skulu vera á einföldu og skýru formi.

Umhverfisstofnun og eftir því sem við á hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd skulu reglulega kynna almenningi sem og hlutaðeigandi samtökum, svo sem umhverfissamtökum, neytendasamtökum og samtökum sem annast hagsmuni hópa sem eru viðkvæmir fyrir áhrifum þeirra efna sem reglugerð þessi tekur til sem og öðrum hlutaðeigandi aðilum á sviði heilsugæslu nýjustu upplýsingar um styrk arsens, kadmíums, kvikasilfurs, nikkels, benzó[a]pýrens og annarra mældra fjölhringa arómatískra vetniskolefna í andrúmslofti. Það sama á við um magn ákomu sömu mengunarefna. Aðgerðir vegna skráninga svæða sem lýst er í 5. gr. skulu kynntar framangreindum samtökum.

Taka skal saman árlegt yfirlit um þau skipti þar sem styrkur arsens, kadmíums, nikkels og benzó[a]pýrens fór yfir umhverfismörk sem tiltekin eru í I. viðauka.

Framangreindum upplýsingum skal komið á framfæri til dæmis í fjölmiðlum, með rafrænum hætti eða á annan viðeigandi hátt.

9. gr. Upplýsingagjöf.

Heilbrigðisnefndum ber að skila upplýsingum um niðurstöður mengunarvarnaeftirlits og mælinga á umhverfisgæðum til Umhverfisstofnunar í samræmi við leiðbeiningar stofnunarinnar. Á sama hátt ber Umhverfisstofnun að skila upplýsingum til heilbrigðisnefnda um niðurstöður vöktunar arsens, kadmíums, kvikasilfurs, nikkels og fjölhringa arómatískra vetniskolefna í andrúmslofti.

10. gr. Aðgerðaáætlanir.

Um aðgerðaáætlanir og ráðstafanir sem gilda á svæðum þar sem styrkur er yfir mörkum er vísað til ákvæða reglugerðar um loftgæði.

11. gr. Aðgangur að upplýsingum.

Um aðgang að upplýsingum fer samkvæmt lögum nr. 23/2006 um upplýsingarétt um umhverfismál, upplýsingalögum nr. 50/1996 og lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

12. gr. Þagnarskylda eftirlitsaðila.

Eftirlitsaðilar og aðrir sem starfa samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar eru bundnir þagnarskyldu um atriði sem varða framleiðslu- og verslunarleynd. Sama gildir um atriði sem þeir fá vitneskju um og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

Upplýsingar og tilkynningar eftirlitsaðila til fjölmiðla skulu vera efnislega rökstuddar og þess gætt að einstakar atvinnugreinar, stofnanir eða fyrirtæki bíði ekki tjón og álitshnekki að óþörfu.

13. gr. Valdsvið og þvingunarúrræði.

Til að knýja á um ráðstafanir samkvæmt reglugerð þessari skal fylgja þeim þvingunarúrræðum sem mælt er fyrir um í IX. kafla reglugerðar um mengunarvarnaeftirlit þegar við á. Að öðru leyti gilda ákvæði VI. kafla laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 um valdsvið og þvingunarúrræði.

14. gr. Viðurlög.

Um viðurlög við brotum gegn ákvæðum reglugerðar þessarar fer samkvæmt 33. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Sektir má ákvarða lögaðila þó að sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann.

15. gr. Lagastoð, gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 5. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað þátt sveitarfélaganna varðar, sbr. ákvæði 3. mgr. 9. gr. laganna.

Reglugerð þessi er sett til innleiðingar á tilskipun 2004/107/EB um arsen, kadmíum, kvikasilfur, nikkel og fjölhringa arómatísk vetniskolefni í andrúmslofti, sem vísað er til í tölulið 21ak., III. kafla, XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 34/2007, þann 28. apríl 2007.

Reglugerðin tekur þegar gildi.

Umhverfisráðuneytinu, 25. apríl 2008.

Þórunn Sveinbjarnardóttir.

Magnús Jóhannesson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.