Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 29. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 25. maí 2023

403/2012

Reglugerð um arðskrár veiðifélaga.

I. KAFLI Almennt um arðskrár.

1. gr. Arðskrá.

Veiðifélagi er skylt að láta gera skrá, arðskrá, er sýni hluta þann af veiði eða arð af veiði sem koma skal í hlut hverrar fasteignar, lögaðila eða einstaklinga er veiðirétt eiga í vatni á félagssvæði. Við gerð arðskrár skal horft til þeirra sjónarmiða sem rakin eru í 7. gr. þessarar reglugerðar.

Arðskrá skal sýna heildarfjölda eininga sem til úthlutunar eru á félagssvæðinu svo og arðshlut hverrar fasteignar í einingum talið.

2. gr. Samþykkt og staðfesting arðskrár.

Arðskrá skal leggja fram til samþykktar eða synjunar félagsmanna á löglega boðuðum félagsfundi. Um arðskrá skal greiða atkvæði og þarf atkvæði ⅔ hluta allra atkvæðisbærra félagsmanna til samþykktar henni. Sé fundarsókn ekki næg skal boða til annars fundar með sama hætti og að framan greinir, og ræður þá afl atkvæða.

3. gr. Matsgerð.

Ef arðskrá er ekki samþykkt ber stjórn veiðifélags að óska eftir mati skv. VII. kafla laga nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum, á þeim atriðum sem greinir í 1. mgr. 1. gr. þessarar reglugerðar. Einnig er sérhverjum félagsmanni rétt að krefjast mats með framangreindum hætti, enda komi sú krafa fram innan tveggja mánaða frá fundi þar sem arðskrá hefur verið samþykkt.

Komi fram krafa um mat gildir eldri arðskrá, ef henni er til að dreifa, þar til matsgerð skv. VII. kafla laga nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði liggur fyrir og arðskrá á grundvelli hennar hefur verið staðfest og birt.

II. KAFLI Matsbeiðnir, málsmeðferð við matsgerðir.

4. gr. Matsbeiðnir.

Beiðnir um matsgerðir skulu vera skriflegar og undirritaðar og efni þeirra skýrt afmarkað. Beiðnum skulu fylgja nauðsynleg gögn.

Matsbeiðandi skal senda beiðni um mat til matsnefndar skv. lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði og skal hún vera undirrituð af matsbeiðanda eða stjórnarmönnum í veiðifélagi, þegar veiðifélag óskar eftir mati eða endurskoðun. Beiðninni skal fylgja staðfest afrit af fundargerð veiðifélags þar sem samþykkt er að óska eftir mati ef veiðifélag óskar eftir mati eða endurskoðun.

Matsnefnd skal við upphaf mats gæta þess að a.m.k. átta ár séu liðin frá gildistöku síðustu matsgerðar ef henni er til að dreifa.

5. gr. Fyrirtaka máls.

Við upphaf málsmeðferðar skal matsnefnd gæta þess að sem flest grunngögn liggi fyrir, sbr. 9. gr.

Matsnefnd skal ákveða fyrirtöku máls með a.m.k. viku fyrirvara með skriflegri tilkynningu til veiðifélags og eigenda veiðiréttar, sem málið beinlínis varðar, með ábyrgðarbréfi, símskeyti eða með öðrum tryggilegum hætti.

Við fyrirtöku máls skal matsnefnd upplýsa aðila um hvaða þættir það eru sem geta varðað matskostnað og um heimildir matsnefndarinnar til að úrskurða um matskostnað og skiptingu hans á aðila. Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. getur matsnefnd óskað eftir því við hlutaðeigandi veiðifélag að það annist sjálft tilkynningu til allra eigenda veiðiréttar um fyrirtöku máls, og þá með sama hætti og málsgreinin kveður á um. Ef ekki þykir nægilega ljóst fyrirfram hvaða aðilar eigi beinna hagsmuna að gæta skal birta tilkynningu um fyrirtöku máls í Lögbirtingablaði.

Við fyrstu fyrirtöku máls skal kanna hæfi nefndarmanna og skora á aðila að upplýsa hvort þeir geri athugasemdir við hæfi þeirra til meðferðar máls. Þá skal og farið yfir afmörkun ágreiningsefnis sem til úrlausnar er og ákvarðar nefndin það nánar, sé ástæða til.

Matsnefnd skal ganga á vettvang að tilkvöddum málsaðilum samkvæmt ákvörðun nefndarinnar.

Matsnefnd skal bóka á fundi sínum ef ágreiningur er milli aðila um veiðirétt og hvers eðlis hann sé.

Vinna skal matsgerð svo fljótt sem unnt er og gæta þess að ekki verði tafir á málsmeðferð.

6. gr. Skriflegar greinargerðir.

Matsnefndin skal á fundi með veiðiréttareigendum gefa hverjum og einum þeirra kost á að leggja fram skriflegar greinargerðir og kröfur um þau atriði sem varðað geta mat á arði einstakra fasteigna. Hverjum og einum veiðiréttareiganda skal einnig gefinn kostur á að gera grein fyrir sínum sjónarmiðum fyrir nefndinni óski þeir þess.

Veiðiréttareigendum skulu kynnt fram komin atriði eða kröfugerðir sem kunna að varða hagsmuni þeirra sérstaklega þannig að koma megi að andmælum.

III. KAFLI Framkvæmd mats, úrskurðir o.fl.

7. gr. Matsþættir.

Við niðurjöfnun veiði eða úthlutun arðs af henni skal taka tillit til eftirfarandi meginþátta:

  1. aðstöðu til netaveiði og stangveiði,
  2. landlengdar að veiðivatni, vatnsmagns og stærðar vatnsbotns og
  3. hrygningar- og uppeldisskilyrða fisks.

Við mat á framangreindum þáttum skal m.a. horft til:

veiðitalna í stangveiði og netaveiði,
hvort breytt hafi verið um veiðiaðferðir sem áhrif hafi á veiði,
flatarmáls og gerðar vatnsbotns,
hvort þverár renni í veiðivatn,
hvort seiðasleppingar hafi áhrif á skiptingu arðs,
hvort laxastigar og/eða fiskvegir séu á veiðisvæðinu, sem og lokun slíkra mannvirkja,
framkvæmda á vegum veiðifélags sem áhrif hafa á veiðisvæði,
hvort veiðistöðum hefur verið spillt vegna framkvæmda á vegum veiðifélags,
annarra þátta sem matsnefnd telur að rétt sé að horfa til við úthlutun arðs eða niðurjöfnun veiði.

Við mat framangreindra þátta skal horft til vægis þeirra við verðmætasköpun veiðivatnsins.

8. gr. Sérfræðiaðstoð.

Heimilt er matsnefndinni að kveðja sérfræðinga sér til aðstoðar ef þörf þykir. Henni er einnig heimilt að leita eftir áliti eða rannsóknum sérfræðinga eða rannsóknastofnana á lífríki vatns þar sem það hefur þýðingu fyrir úrlausn máls.

9. gr. Gögn við mat.

Stjórn veiðifélags skal láta matsnefndinni í té öll gögn sem óskað er eftir og varðað geta matið. Matsnefnd skal leggja fyrir veiðifélag að framvísa þeim gögnum við upphaf mats sem varða sameiginlega hagsmuni veiðiréttareigendanna, s.s. mælingum á landlengd að veiðivatni, búsvæðamati ef þurfa þykir og veiðitölum sundurgreindum eftir veiðistöðum.

Matsmenn skulu hafa aðgang að rannsóknaskýrslum og öðrum gögnum sem veiðifélög og/eða opinberir aðilar hafa undir höndum.

10. gr. Úrskurður.

Matsnefnd skal í rökstuddum, skriflegum úrskurði gera grein fyrir niðurstöðu sinni. Form og efni úrskurðarins skal vera í samræmi við 31. gr. stjórnsýslulaga eftir því sem við getur átt.

11. gr. Birting úrskurðar fyrir aðilum.

Úrskurð skal birta aðilum með ábyrgðarbréfi, símskeyti eða með öðrum tryggilegum hætti. Ef það er ekki unnt skal birta úrskurðinn í Lögbirtingablaði.

IV. KAFLI Ýmis ákvæði.

12. gr. Málshöfðunarfrestur.

Matsnefnd skv. VII. kafla laga nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði er sjálfstæð í störfum sínum og verður úrskurðum hennar ekki skotið til annarra stjórnvalda. Vilji aðili bera úrskurð nefndarinnar undir dómstóla skal hann höfða mál innan sex mánaða frá því að honum var birtur úrskurður nefndarinnar. Málshöfðun frestar ekki réttaráhrifum úrskurðar.

13. gr. Kostnaður af matsgerð.

Í úrskurði matsnefndar skal kveðið á um kostnað af meðferð máls og skiptingu hans á aðila. Veiðifélag skal að jafnaði bera kostnað af endurskoðun arðskrár. Til málskostnaðar telst allur kostnaður af matinu, þ.m.t. laun matsmanna samkvæmt tímaskýrslu og laun sérfræðinga skv. 8. gr., ferðakostnaður og annar kostnaður, svo og laun starfsmanns nefndarinnar samkvæmt tímaskýrslu eftir því sem við á. Sundurliða skal einstaka kostnaðarþætti, m.a. vinnu einstakra matsmanna, aksturskostnað, annan útlagðan kostnað og aðra kostnaðarþætti eftir því sem við á.

14. gr. Birting arðskrár í B-deild Stjórnartíðinda og gildistaka.

Arðskrá sem gerð er og samþykkt hefur verið af veiðifélagi, sbr. 1.-2. gr. þessarar reglugerðar skal staðfest af Fiskistofu og birt í B-deild Stjórnartíðinda eftir að málskotsfrestur samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. er liðinn. Tekur arðskráin gildi tveimur mánuðum eftir slíka birtingu.

Ef arðskrá er byggð á úrskurði matsnefndar skv. VII. kafla laga nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, skal úrskurður nefndarinnar sendur Fiskistofu til staðfestingar og birtingar í B-deild Stjórnartíðinda, að lokinni birtingu úrskurðar fyrir eigendum veiðiréttar samkvæmt 11. gr. þessarar reglugerðar. Arðskráin tekur gildi daginn eftir birtingu hennar í Stjórnartíðindum, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 15/2005, um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

15. gr. Endurskoðun arðskrár.

Heimilt er veiðifélagi samkvæmt ákvörðun félagsfundar eða stjórnar, svo og einstökum félagsmönnum, að krefjast endurskoðunar á arðskrá, eða hluta hennar eftir atvikum, átta árum eftir gildistöku hennar.

V. KAFLI Refsiheimild, lagastoð og gildistaka.

16. gr. Refsiheimild.

Um brot gegn reglugerð þessari og viðurlög við þeim fer eftir VIII. kafla laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði.

17. gr. Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 7. mgr. 41. gr. laga nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi frá sama tíma reglugerð nr. 412/2007, um arðskrár veiðifélaga.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 12. apríl 2012.

F. h. r.

Sigurgeir Þorgeirsson.

Sigríður Norðmann.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.