Sjávarútvegsráðuneyti

278/2002

Reglugerð um humarveiðar. - Brottfallin

278/2002

REGLUGERÐ
um humarveiðar.

1. gr.

Bátum, sem hafa aflamark í humri og eru 300 brl. eða minni er heimilt að stunda humarveiðar, enda séu þeir búnir 740 kílówatta aðalvél eða minni. Heimilt er að stunda veiðar fyrir Suður- og Suðvesturströndinni og markast svæðið að austan af línu sem dregin er réttvísandi suðaustur frá Eystrahorni. Að vestan markast svæðið af línu sem dregin er réttvísandi suðvestur frá Malarrifi.

Óheimilt er að stunda veiðar á grynnra vatni en 60 föðmum. Þó er heimilt milli 16°00'V og 18°00' V að stunda veiðar á dýpra vatni en 55 föðmum.

Heimild þessi gildir ekki þar sem allar togveiðar eru bannaðar með skyndilokunum eða reglugerð.


2. gr.

Slitinn humar í þriðja stærðarflokki 6-10 g að þyngd og óslitinn 20-33 g að þyngd, telst ekki með til aflamarks, enda fari hlutfall þess stærðarflokks ekki yfir 10% af humarafla skipsins í veiðiferð.

Löggiltur vigtarmaður staðfesti á vigtarnótu magn og hlutfall slitins og óslitins humars í ofangreindum stærðarflokki í afla hverrar veiðiferðar. Liggi slík staðfesting ekki fyrir telst humarinn að fullu metinn til aflamarks.

Þegar umreikna skal slitinn humar yfir í óslitinn skal margfalda vegið magn humarhala með 3,25. þegar umreikna skal óslitinn humar yfir í slitinn skal deila í vegið magn óslitins humars með 3,25.


3. gr.

Lágmarksmöskvastærð í netþaki humarvörpu skal vera 135 mm en 80 mm í öðrum hlutum vörpunnar. Auk þess er skylt að hafa tvö ferhyrnd netstykki á legg úr a.m.k. 200 mm riðli á efra byrði belgs vörpunnar. Fremra netstykkið skal vera a.m.k. 4 metrar að lengd og skal því komið fyrir fremst á efra byrði vörpunnar fyrir aftan netþak. Afturhorn netstykkisins skal festa ekki fjær hliðarleisum en nemur 20 möskvum. Aftara netstykkið skal vera a.m.k. 2 metrar að lengd og skal það staðsett u.þ.b. 2 metrum aftan við aftari rönd fremra netstykkisins. Afturhorn netstykkisins skal festa ekki fjær hliðarleisum en nemur 20 möskvum. Netstykki þessi skulu fest þannig að hver leggur stykkisins sé festur á móti 5 upptökum efra byrðisins.

Óheimilt er að nota nokkurn þann útbúnað sem þrengir, herpir eða lokar á nokkurn hátt möskvum eða umbúnaði af nokkru tagi til þess að koma í veg fyrir rennsli afla aftur í poka eða net eða annað til þéttingar poka að aftan. Þó er heimilt að festa undir pokann net, allt að 9 m að lengd, með 135 mm möskvastærð til þess að koma í veg fyrir slit.


4. gr.

Í upphafi hvers humarveiðitímabils, skal skipstjóri tilkynna til Landhelgisgæslu að skipið fari til humarveiða tiltekinn dag. Þá skal skipstjóri tilkynna til Landhelgisgæslu fyrirfram hvenær skipið hættir humarveiðum.

Á humarveiðitímabili skal óheimilt að hafa önnur veiðarfæri en humarvörpur um borð í veiðiskipinu.


5. gr.

Ílát undir humar um borð í veiðiskipi skulu greinilega merkt skipinu og skal veiðidagur tilgreindur á þeim.

Um meðferð afla um borð í veiðiskipi vísast til ákvæða reglugerðar nr. 233, 30. mars 1999, um hollustuhætti við meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafla og fiskafurða með síðari breytingum.


6. gr.

Um vigtun humars fer samkvæmt reglugerð nr. 522/1998, um vigtun sjávarafla með síðari breytingum.

Óheimilt er að frysta humar um borð í veiðiskipi.


7. gr.

Óheimilt er að stunda botnfiskveiðar með humarvörpu. Verði um óeðlilega botnfiskveiði að ræða að mati Fiskistofu er henni heimilt að svipta viðkomandi skip heimild til veiða í atvinnuskyni.


8. gr.

Skylt er að hirða allan humar og fiskafla, sem fiskiskip fær í humarvörpu og reiknast fiskafli til botnfiskaflamarks skipsins. Verði aðili uppvís að því að henda humri eða fiski frá fiskiskipi varðar það tafarlausri sviptingu leyfis til veiða í atvinnuskyni. Skal botnfiski haldið aðgreindum eftir tegundum og hann veginn á löndunarstað skv. ákvæðum reglugerðar nr. 522/1998, um vigtun sjávarafla.


9. gr.

Heimilt er hverju skipi að flytja allt að 20% af aflamarki sínu í humri frá yfirstandandi fiskveiðiári til þess næsta. Varðandi framsal aflamarks vísast til 12. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða.


10. gr.

Skipstjórum er skylt að halda afladagbækur, sem Fiskistofa leggur til, sbr. reglugerð nr. 303/1999, um afladagbækur.


11. gr.

Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum skv. lögum nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og laga nr. 57, 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.


12. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og laga nr. 57, 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar til þess að öðlast gildi 15. apríl 2002 og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð nr. 552, 3. ágúst 2000, um humarveiðar.


Sjávarútvegsráðuneytinu, 26. mars 2002.

Árni M. Mathiesen.
Jón B. Jónasson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica