Viðskiptaráðuneyti

397/2000

Reglugerð um rafræna eignarskráningu verðbréfa í verðbréfamiðstöð. - Brottfallin

I. KAFLI
Gildissvið, o.fl.
1. gr.

Verðbréfamiðstöð sem hlotið hefur leyfi samkvæmt lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa er einni heimilt að annast útgáfu rafbréfa, vörslu þeirra og varðveita skráð réttindi yfir þeim.

Ákvæði þessarar reglugerðar eiga við um rafræna útgáfu verðbréfa í verðbréfamiðstöð og skráningu réttinda til þeirra (eignarskráningu), vörslur (þeirra), gerð reikninga, reikningsyfirlita og aðra framkvæmd við eignarskráningu svo og réttindi og skyldur reikningsstofnana, sbr. 2. gr.

Ákvæði þessarar reglugerðar eiga einnig við um innköllun réttinda samkvæmt áþreifanlegum verðbréfum og eignarskráningu þeirra í verðbréfamiðstöð(rafræn skráning verðbréfa), sbr. VII. kafla.


2. gr.

Heimild til milligöngu um eignarskráningu í verðbréfamiðstöð hafa fyrirtæki í verðbréfaþjónustu sem lögum samkvæmt er heimilt að eiga viðskipti með verðbréf fyrir eigin reikning, viðskiptabankar, sparisjóðir, lánastofnanir aðrar en viðskiptabankar og sparisjóðir, Lánasýsla ríkisins og Seðlabanki Íslands. Skilyrði þess að mega hafa milligöngu um eignarskráningu er að fyrir liggi fullgildur aðildarsamningur við verðbréfamiðstöð. Aðili sem gert hefur aðildarsamning samkvæmt þessari grein telst vera reikningsstofnun í skilningi þessarar reglugerðar.

Nánari reglur og skilyrði fyrir aðild reikningsstofnunar og um réttindi hennar og skyldur við milligöngu um eignarskráningu í verðbréfamiðstöð fer eftir aðildarsamningi hennar og stjórnar verðbréfamiðstöðvar, sé ekki annað ákveðið í lögum, reglugerðum eða reglum settum samkvæmt þeim.

Nú óskar erlendur aðili sem heimild hefur til fjárvörslu og heimilt er að hafa milligöngu um eignarskráningu verðbréfa, sbr. 12. gr. laga nr. 131/1997, eftir aðild að innlendri verðbréfamiðstöð og skal þá stjórn verðbréfamiðstöðvar leita eftir samþykki Fjármálaeftirlitsins, áður en aðild er samþykkt. Hið sama á við ef verðbréfamiðstöð óskar eftir að annast milligöngu um eignarskráningu í annarri verðbréfamiðstöð hér á landi eða erlendis.


3. gr.

Í reglum sem stjórn verðbréfamiðstöðvar setur og ráðherra hefur staðfest, skal kveðið á um hvers konar verðbréf verði tekin þar til rafrænnar eignarskráningar. Í reglum verðbréfamiðstöðvar skal gætt hlutleysis varðandi tegund þeirra verðbréfa sem tekin eru til eignarskráningar þar og jafnræðis milli útgefenda sem leita eftir skráningu verðbréfa hjá henni.

Reglur samkvæmt þessari grein skulu birtar opinberlega og vera aðgengilegar almenningi. Hið sama á við um gjaldskrá og reglur um fyrirkomulag gjaldtöku verðbréfamiðstöðvar fyrir umsýslu verðbréfa (rafbréfa) sem þar eru skráð.


II. KAFLI
Um útgáfu rafbréfa.
4. gr.
Beiðni um útgáfu rafbréfa.

Reikningsstofnun fyrir hönd útgefanda sem óskar eftir að gefa út rafbréf skal senda hlutaðeigandi verðbréfamiðstöð útgáfulýsingu þar um. Í henni skulu koma fram helstu auðkenni útgáfunnar, nafnverð svo og önnur skilyrði sem varða útgáfuna og skuldbinda útgefanda. Í reglum sem stjórn verðbréfamiðstöðvar setur skal kveðið nánar á um þær upplýsingar sem að lágmarki skulu koma fram í útgáfulýsingu.

Óheimilt er að gefa út rafbréf nema að fyrir liggi samþykkt útgáfulýsing hjá verðbréfamiðstöð.

Á grundvelli samþykktrar útgáfulýsingar skulu rafbréf gefin út í verðbréfamiðstöð á reikning í eigin nafni útgefanda. Rafbréf skulu gefin út í einingum sem hafa sama nafnverð ef um sama flokk er að ræða og má tilgreina sem margfeldi eininga á nafnverði.


5. gr.

Stjórn verðbréfamiðstöðvar er heimilt þrátt fyrir ákvæði 4. gr. með sérstökum aðildarsamningi að veita útgefanda markaðsverðbréfa heimild til að hafa milligöngu um útgáfu og fyrsta framsal á rafbréfum sem hann gefur út í samræmi við starfsheimildir hans á fjármagnsmarkaði.

Ákvæði laga, reglugerða og reglna settra samkvæmt þeim, um réttindi og skyldur reikningsstofnana, skulu að öllu leyti gilda um útgefendur sem öðlast rétt til útgáfu og fyrsta framsals rafbréfa samkvæmt þessari grein.


6. gr.

Verðbréfamiðstöð ber að tilkynna reikningsstofnun og útgefanda ef hún hafnar beiðni um útgáfu rafbréfa og um rétt aðila til að skjóta ágreiningi til úrskurðarnefndar samkvæmt 25. gr. laga nr. 131/1997.


III. KAFLI
Um stofnun reikninga, o.fl.
7. gr.
Almenn ákvæði.

Fyrsta framsal af reikningi útgefanda fer fram á þann reikning sem fyrsti framsalshafi hefur stofnað og vísað á til varðveislu þeirra.
Við innköllun áþreifanlegra hlutabréfa og rafræna skráningu þeirra í verðbréfamiðstöð skal útgefandi, fyrir milligöngu verðbréfamiðstöðvar, stofna reikninga á nafni hluthafa í samræmi við hlutaskrá félagsins og skrá þar réttindi til þeirra, sbr. nánari ákvæði VII. kafla þessarar reglugerðar.


8. gr.
Stofnun reikninga.

Eigandi rafbréfs velur sér reikningsstofnun, sbr. 2. gr., sem hefur milligöngu um eignarskráningu á rafbréfi á reikningi í hans nafni, nema annað sé sérstaklega ákveðið í lögum eða reglum settum samkvæmt þeim. Eigandi rafbréfs getur stofnað reikninga hjá fleiri en einni reikningsstofnun.

Eiganda rafbréfs er ávallt heimilt að óska eftir því að rafbréf á reikningi hans hjá verðbréfamiðstöð verði færð á reikning hans í umsjón annarrar reikningsstofnunar, enda standi ákvæði 15. og 30.-32. gr. því ekki í vegi.


9. gr.

Á reikningi skal að minnsta kosti koma fram:

1. Reikningsstofnun.
2. Auðkenni bréfs (ISIN).
3. Fjöldi eininga (nafnverð).
3. Nafn, kennitala og heimilisfang reikningseiganda.
4. Nafn, kennitala og heimilisfang þeirra sem eiga réttindi til rafbréfs sem skráð er á reikninginn.
5. Nafn, heimilisfang og kennitala á löglegum viðtakanda á greiðslum sem verðbréfamiðstöð er rétt að miðla greiðslum til samkvæmt greiðslufyrirmælum er berast til verðbréfamiðstöðvar og númer á bankareikningi hans.


10. gr.

Skilyrði til stofnunar reiknings fyrir einstakling er að hann sanni á sér deili og leggi fram skilríki sem viðurkennd eru að lögum sem fullgild persónuskilríki, þ.e. ökuskírteini, vegabréf eða staðfesting frá þjóðskrá Hagstofu Íslands, sem gild er að lögum, og sýni nafn, kennitölu og heimilisfang reikningseiganda. Auk þess ber reikningsstofnun að sannreyna og afla frá reikningseiganda, og öðrum sem kann að vera veittur réttur til ráðstöfunar á reikningnum, undirritunar sem rituð er með eigin hendi eða er á annan hátt viðurkennd að lögum sem staðfesting um að löggerningur stafi í reynd frá þeim sem heimild hefur til ráðstöfunar samkvæmt þessari grein.

Skilyrði til stofnunar reiknings fyrir félag eða annan aðila sem átt getur réttindi eða borið skyldur að lögum er að reikningsstofnun kanni nafn, heimilisfang og kennitölu félagsins og óski eftir staðfestu afriti af reglum sem gilda um undirritun (prókúru) fyrir það. Reikningsstofnun skal afla eiginhandaráritunar þeirra sem rétt hafa til að skuldbinda félagið og til að ráðstafa rafbréfum sem eru skráð á nafni félagsins. Reikningsstofnun getur jafnframt krafist annarra upplýsinga telji hún þess þörf.

Skilyrði fyrir stofnun reiknings fyrir einstakling sem hvorki hefur lögheimili hér á landi né íslenska kennitölu er að hann leggi fram gilt vegabréf, sbr. 1. mgr. Skilyrði til stofnunar reiknings fyrir félag eða aðila sem átt getur réttindi og borið skyldur að lögum, en hvorki hefur skráða starfsstöð á Íslandi né íslenska kennitölu, er að lögð séu fram skilríki um stofnun og skráningu í heimaríki lögaðilans og afrit af reglum sem gilda um undirritun (prókúru) fyrir það. Um eiginhandaráritun þeirra sem skuldbinda mega félagið, o.fl. fer að öðru leyti eftir ákvæðum 2. mgr.

Reikningsstofnun er heimilt að hafa milligöngu um stofnun kennitölu fyrir aðila sem nefndir eru í 3. mgr. en um stofnun kennitölu fer að öðru leyti eftir reglum Hagstofu Íslands.


11. gr.
Fjarsala rafbréfa.

Reikningsstofnun er heimilt að stofna reikninga í verðbréfamiðstöð án könnunar persónuskilríkja skv. 10. gr. enda hafi reikningseigandi þegar stofnað reikning í lána- eða fjármálastofnun sem uppfyllir ákvæði 4. gr. laga nr. 80/1993, um aðgerðir gegn peningaþvætti, ásamt síðari breytingum á þeim lögum og hann er jafnframt löglegur viðtakandi á öllum greiðslum sem verðbréfamiðstöð er rétt að miðla greiðslum til samkvæmt greiðslufyrirmælum sem berast til hennar, sbr. 5. tölul. 9. gr. Leiki grunur á að viðskiptin tengist broti samkvæmt 2. gr. laga nr. 80/1993 er stofnun reiknings samkvæmt þessari grein óheimil.


12. gr.

Reikningsstofnun ábyrgist gagnvart verðbréfamiðstöð og skal ef óskað er eftir því sýna fram á:

1. Að nauðsynleg könnun á persónuskilríkjum, eða löglegum skilríkjum (vottorðum) um stofnun lögaðila, ef það á við, hafi farið fram við stofnun reiknings, sbr. 10. gr. og 11. gr., og veita henni aðgang að þeim gögnum sem þar liggja til grundvallar.
2. Að lögð hafi verið fram fullnægjandi gögn sem sanna réttindi rétthafa að rafbréfi.
3. Tilgreiningu þeirrar stundar þegar beiðni um eignarskráningu var veitt viðtaka.
4. Hvenær hún hafi óskað eftir leiðréttingu á eignarskráningu, sbr. 22. gr. laga nr. 131/1997, og að andmælaréttur hafi verið virtur.
5. Hvaða takmarkanir hún hefur sett um fjölda staða (útibúa) sem taka við beiðnum um eignarskráningu og hvort hún takmarki þjónustu sína að einhverju leyti og veiti aðeins þjónustu varðandi tiltekin rafbréf.

Varðveita skal gögn samkvæmt þessari grein í tíu ár frá því að réttindum á viðkomandi reikningi lýkur.


IV. KAFLI
Eignarskráning.
13. gr.
Um framkvæmd eignarskráningar.

Verðbréfamiðstöð sér um lokafærslur og heldur reikninga fyrir eigendur rafbréfa þar sem breytingar eða niðurfellingar á réttindum yfir rafbréfum skulu eignarskráðar.
Í lokafærslu verðbréfamiðstöðvar skal koma fram nákvæm tilgreining þeirrar stundar sem eignarskráning samkvæmt 1. mgr. nýtur réttarverndar og skal eiganda rafbréfs veitt staðfesting á henni, óski hann eftir því.


14. gr.

Reikningsstofnun tekur við beiðni um eignarskráningu, breytingu, eða niðurfellingu réttinda að rafbréfi. Reikningsstofnun er skylt að afhenda þeim, er þess óskar og hefur lögvarða hagsmuni, staðfestingu um tilgreiningu þeirrar stundar sem skráning réttindanna átti sér stað.

Reikningsstofnun og verðbréfamiðstöð ber að taka við beiðni um eignarskráningu á venjulegum afgreiðslutíma alla virka vikudaga þó ekki á helgidögum sbr. ákvæði b.-liðar 2. tölul. 4. gr. laga nr. 32/1997 um helgidagafrið.

Tímasetning (dagsetning og stund) samkvæmt þessari reglugerð eða reglum settum í samræmi við ákvæði hennar skal miðuð við íslenskan staðartíma.


15. gr.

Áður en reikningsstofnun gerir leiðréttingu á eignarskráningu, sbr. 22. gr. laga nr. 131/1997, skal hlutaðeigandi rétthöfum tilkynnt um hvaða leiðréttingar eigi að gera og veita þeim kost á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum. Þegar leiðréttingin hefur verið gerð skal senda hlutaðeigandi aðilum tilkynningu um hana, sbr. 18. gr. laga nr. 131/1997.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er reikningsstofnun heimilt að leiðrétta augljós mistök eða villufærslur enda sé send tilkynning, sbr. 18. gr. laga nr. 131/1997, til hlutaðeigandi aðila eftir að leiðrétting hefur verið gerð.


16. gr.

Hafi engin rafbréf verið á reikningi í 1 ár er reikningsstofnun heimilt að loka reikningnum.


17. gr.

Verðbréfamiðstöð ákveður það tímabil sem samkvæmt 2. mgr. 14. gr. er unnt að senda færslur til eignarskráningar. Réttaráhrif eignarskráningar skulu miðast við lokafærslu í verðbréfamiðstöð, sbr. 4. mgr. 16. gr. laga nr. 131/1997.

Verðbréfamiðstöð ákveður í samvinnu við Seðlabanka Íslands þau tímamörk sem miða skal lokafærslu við:

1. Vegna viðskipta sem fara inn í nettógreiðslujöfnun.
2. Vegna viðskipta sem eru gerð upp samtímis við brúttójöfnun.

Verðbréfamiðstöð og Seðlabankinn geta í sérstökum tilvikum frestað eða ógilt eina, eða fleiri, nettógreiðslujöfnun, sbr. 1. tölul. 2. mgr., og þar með frestað eða ógilt réttaráhrif sem tengjast viðkomandi viðskiptum, vegna uppgjörs og efndaloka á viðskiptum.

Verðbréfamiðstöð í samráði við Seðlabanka Íslands ákveður minnstu tímaeiningu þar sem viðskiptum samkvæmt 2. tölul. 2. mgr. er lokið og réttaráhrif þeirra miðast við.
Við lokafærslu nýtur réttur sem fyrr er skráður forgangs fram yfir rétt sem síðar er skráður.


18. gr.

Verðbréfamiðstöð skal í samvinnu við Seðlabanka Íslands, sbr. 15. gr. laga nr. 131/1997, setja nánari reglur um efndalok á viðskiptum með rafbréf sem fram fara í kauphöll, svo og um tryggingar- og veðréttindi sem gilda um lokafærslur og eignarskráningu.


19. gr.
Beiðni og eignarskráning.

Beiðni um eignarskráningu skal beint til reikningsstofnunar. Staðfesta skal tímamark á móttöku beiðni um eignarskráningu ef óskað er eftir því.

Við móttöku á beiðni um eignarskráningu ber reikningsstofnun að kanna rækilega hvort hin tilkynntu réttindi stafi örugglega frá þeim sem réttindin á og að nauðsynlegar upplýsingar liggi fyrir um eignarskráninguna með því að krefjast þeirra skilríkja sem nefnd eru í 10. gr., sbr. 2. tölul. 12. gr., eða á annan öruggan hátt.


20. gr.

Í færslu um eignarskráningu skal að minnsta kosti koma fram:

1. Kennitala rétthafa, sem jafnframt vísar til nafns og heimilisfangs hans.
2. Tegund og tilgreining þeirra rafbréfa sem beiðnin tekur til, s.s. auðkenni og fjöldi eininga.
3. Nafn reikningsstofnunar.
4. Kennitala á löglegum viðtakanda á greiðslum sem verðbréfamiðstöð er rétt að miðla greiðslum til samkvæmt greiðslufyrirmælum sem henni berast, sem jafnframt vísar til nafns og heimilisfangs eiganda svo og númers á bankareikningi hans.


21. gr.

Til þess að unnt sé að skrá réttindi er það skilyrði að þau staðfesti, stofni, breyti eða felli niður réttindi yfir rafbréfi sem beiðnin tekur til og með þeim réttaráhrifum sem skráningunni fylgja.


22. gr.
Veðsetningar, o.fl.

Reikningsstofnun skráir veð samkvæmt veðsamningi og önnur skráningarhæf réttindi yfir rafbréfi, s.s. vegna gjaldþrots, haldlagningar, o.fl., að undangenginni könnun á nafni, heimilisfangi og kennitölu, skv. 10. gr., sbr. 2. tölul. 12. gr., eða á annan öruggan hátt.

Við skráningu á réttindum samkvæmt 1. mgr. ber að skrá á reikning með færslu sem tengd er reikningi upplýsingar um:

1. Tímamark, sem rétturinn miðast við, og nafn reikningsstofnunar þar sem grunngögn skráningar eru varðveitt, s.s. veðsamningur eða aðrir löggerningar sem eru grundvöllur skráningar.
2. Til hvaða rafbréfa rétturinn tekur til.
3. Nafn, heimilisfang og kennitölu rétthafa.
4. Kennitölu á löglegum viðtakanda á greiðslum sem verðbréfamiðstöð er rétt að miðla greiðslum til samkvæmt greiðslufyrirmælum sem henni berast, sem jafnframt vísar til nafns og heimilisfangs eiganda svo og númers á bankareikningi hans, ef það á við.

Reikningsstofnun annast varðveislu veðsamninga og annarra gagna er kveða á um þau réttindi að rafbréfi sem nefnd eru í 1. mgr. í samræmi við ákvæði gildandi laga svo og ákvæði þessarar reglugerðar.


23. gr.
Aðgangur að upplýsingum.

Stjórn verðbréfamiðstöðvar er skylt að veita hlutafélögum sem þar hafa fengið hlutabréf sín útgefin upplýsingar um skráða eigendur hluta í viðkomandi hlutafélagi. Hið sama gildir að því er varðar rekstrarfélög og vörslufyrirtæki verðbréfasjóða og upplýsingar um eigendur hlutdeildarskírteina í viðkomandi verðbréfasjóði.

Verðbréfamiðstöð er heimilt að veita stofnanafjárfestum og útgefendum stórra flokka rafbréfa rétt til þess að sækja upplýsingar varðandi eigin reikning beint til verðbréfamiðstöðvar enda liggi fyrir aðildarsamningur þar sem nánar skal kveðið á um réttindi og skyldur samkvæmt þessari málsgrein.


24. gr.

Verðbréfamiðstöð er skylt að veita hlutafélagi upplýsingar um nafn nýs eiganda að hlut sem þar er skráður og færður skal í hlutaskrá félagsins þegar lokafærsla hefur átt sér stað. Á reikningi skal koma fram hvenær og hvaða upplýsingar hafa verið tilkynntar samkvæmt þessari grein.

Nánar skal kveðið á um upplýsingagjöf skv. 1. mgr. í samningi verðbréfamiðstöðvar og útgefanda rafbréfa.


25. gr.
Skráning réttinda á grundvelli dóms eða annars konar opinberrar réttargerðar.

Við skráningu réttinda á grundvelli úrskurðar dómstóls eða annars konar opinberrar réttargerðar skal beiðandi um eignarskráningu leggja fram yfirlýsingu þess stjórnvalds eða endurrit dóms, eða úrskurðar, sem beiðni um skráningu réttindanna grundvallast á.


26. gr.

Skráning réttinda á grundvelli laga nr. 90/1989, um aðför, og laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., skal gerð á grundvelli staðfests endurrits um fjárnám, kyrrsetningu eða lögbann, eftir því sem við getur átt.

Skráning réttinda vegna setu maka í óskiptu búi svo og vegna einkaskipta skal gerð á grundvelli leyfis sem sýslumaður veitir samkvæmt lögum nr. 20/1991, um skipti dánarbúa o.fl.

Skráning réttinda vegna opinberra skipta á dánarbúum og gjaldþrotabúum skal gerð á grundvelli úrskurða sem kveðnir eru upp í samræmi við ákvæði laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl., svo og úrskurða um gjaldþrot sem kveðnir eru upp á grundvelli laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.

Skráning um sviptingu lögræðis, takmarkaða lögræðissviptingu eða aðrar takmarkanir á fjárforræði skal gerð á grundvelli staðfests endurrits frá þeim dómstól er kveðið hefur upp úrskurð um sviptingu þeirra réttinda sem grein þessi tekur til, sbr. að öðru leyti ákvæði lögræðislaga nr. 71/1997, um réttindi og skyldur yfirlögráðanda o.fl.


V. KAFLI
Um grundvöll og forsendur eignarskráningar.
27. gr.
Könnun reikningsstofnunar á forsendum til eignarskráningar.

Reikningsstofnun skal áður en hún skráir réttindi á reikning í verðbréfamiðstöð kanna hvort skilyrði eignarskráningar séu fyrir hendi, þar með talin skilyrði 19. - 21. gr.


28. gr.

Reikningsstofnun er rétt að vísa frá beiðni um eignarskráningu þegar:

1. Beiðnin varðar verðbréf sem ekki hefur verið skráð í verðbréfamiðstöð.
2. Rafbréfið er ekki skráð á reikning er reikningsstofnun hefur umsjón með.
3. Ekki er unnt að skrá efni þeirra réttinda sem beiðnin fjallar um.
4. Ekki eru í beiðninni þær upplýsingar sem taldar eru upp í 19. gr.
5. Réttindin hafa þegar verið skráð.

Reikningsstofnun ber ábyrgð á því að beiðanda um eignarskráningu sé tilkynnt án ástæðulauss dráttar um ástæður þess að ekki er unnt að skrá réttindin og um rétt til þess að mega skjóta ágreiningi til úrskurðarnefndar samkvæmt 25. gr. laga nr. 131/1997.


29. gr.

Þegar beiðni um eignarskráningu samkvæmt 22. gr. varðar aðeins hluta þeirra rafbréfa sem á reikningnum eru skal það koma skýrt fram á reikningnum.


30. gr.
Eignarskráning til bráðabirgða.

Hafi ekki verið lögð fram fullnægjandi gögn skv. 10. gr., sbr. 2. tölul. 12. gr., eða samkvæmt reglum sem gilda um skráningu réttinda á grundvelli dóms eða annarra opinberra réttargerða, sbr. 25. og 26. gr., eða upplýsingar samkvæmt 1. og 4. tölul. 20. gr. eru ófullnægjandi, þá er reikningsstofnun heimilt að veita allt að 14 daga frest til þess að leggja fram öll nauðsynleg gögn svo eignarskráning megi fara fram. Beiðnin er skráð til bráðabirgða og skal koma skýrt fram að um eignarskráningu til bráðabirgða sé að ræða og tímalengd þess frests sem veittur hefur verið. Unnt er að framlengja frestinn um allt að 14 daga ef sérstaklega stendur á.

Ef staðfesting kemur ekki fram innan þess frests sem veittur hefur verið þá skal afmá eignarskráninguna af reikningnum í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar.


31. gr.

Telji reikningsstofnun að vafi leiki á um staðreyndir eða atriði sem hafa áhrif á lögvarinn rétt samkvæmt eignarskráningunni, sbr. 17. gr. laga nr. 131/1997, ber henni að hafa milligöngu um að réttindin verði einungis skráð til bráðabirgða.

Verðbréfamiðstöð er heimilt að óska eftir öllum nauðsynlegum upplýsingum frá reikningsstofnun þegar hún tekur endanlega ákvörðun um hvort réttindi sem skráð hafa verið samkvæmt þessari grein skuli færð í eignarskrá hennar. Verðbréfamiðstöð skal hraða ákvörðun eins og kostur er.

Reikningsstofnun ber að tilkynna um eignarskráningu til bráðabirgða samkvæmt þessari grein, enda séu skilyrði 21. gr. uppfyllt. Um tilkynningar vegna eignarskráningar fer eftir ákvæðum 35. gr. eftir því sem við getur átt.


32. gr.
Úrskurðarnefnd.

Ágreiningur um eignarskráningu eða önnur atriði sem falla undir gildissvið laga nr. 131/1997 sætir málskoti til úrskurðarnefndar verðbréfamiðstöðva. Kæra vegna ágreinings í tilefni af eignarskráningu í verðbréfamiðstöð skal send til úrskurðarnefndar innan 12 vikna frá því að skráning fór fram í verðbréfamiðstöð. Um störf og ákvarðanir úrskurðarnefndar fer að öðru leyti eftir lögum og reglum settum samkvæmt þeim.


33. gr.
Lokafærsla og skráning réttinda.

Skráning réttinda fer fram á reikning reikningseiganda með lokafærslu í verðbréfamiðstöð. Eignarskráning rafbréfs veitir skráðum eiganda þess lögformlega heimild fyrir þeim réttindum sem hann er skráður eigandi að og skal gagnvart útgefanda jafngilda skilríki um eignarrétt að rafbréfinu.

Hafi reikningsstofnun þrátt fyrir ákvæði 28. gr. sent beiðni um eignarskráningu getur verðbréfamiðstöð vísað beiðni frá á grundvelli 28. gr. ef það á við.


34. gr.

Öll réttindi sem skráð hafa verið á reikning skulu koma fram á honum.


35. gr.
Tilkynningar um eignarskráningu í verðbréfamiðstöð.

Reikningsstofnun er skylt, sbr. 18. gr. laga nr. 131/1997, að tilkynna öllum hlutaðeigandi aðilum um sérhverja eignarskráningu sem hún hefur haft milligöngu um, þ.m.t. breytingar á áður skráðum réttindum. Í tilkynningu skal koma fram nafn og kennitala reikningsstofnunar sem annast hefur milligöngu um eignarskráninguna, nafn og kennitala verðbréfamiðstöðvar þar sem réttindin eru eignarskráð, efni réttindanna, hvort önnur réttindi yfir rafbréfinu séu skráð á reikninginn svo og tilgreining þeirrar stundar sem réttaráhrif eignarskráningarinnar miðast við.

Verðbréfamiðstöð skal setja nánari reglur um tilkynningar sem senda skal rétthöfum skráðra réttinda í verðbréfamiðstöð. Verðbréfamiðstöð skal kynna Fjármálaeftirlitinu með góðum fyrirvara reglur sem hún setur samkvæmt þessari grein, svo og breytingar á þeim.

Reikningsstofnun og verðbréfamiðstöð er heimilt að semja nánar um fyrirkomulag við sendingar á tilkynningum sem skylt er að senda rétthöfum samkvæmt lögum, reglugerð þessari eða reglum verðbréfamiðstöðvar.

Þrátt fyrir ákvæði þessarar greinar er ekki skylt að senda tilkynningar í eftirtöldum tilvikum:

1. Skráningu á veðtryggingum Seðlabanka Íslands skv. ákvæðum 15. gr. laga nr. 131/1997 með áorðnum breytingum, sem fram fara til tryggingar á efndalokum viðskipta reikningsstofnana með rafbréf, sbr. og 22. gr. þessarar reglugerðar.
2. Hafi reikningseigandi samið um á grundvelli reglna sem verðbréfamiðstöð setur sbr. 2. mgr. þessarar greinar og skráð að tilkynningar skulu aðeins sendar honum með jöfnu millibili eða afþakkað að sér verði sendar tilkynningar um breytingar á réttindum sem hann er skráður fyrir, sbr. þó 37. gr.


36. gr.

Tilkynningar samkvæmt 35. gr. skulu sendar hlutaðeigandi aðilum þegar í stað og eigi síðar en tveimur dögum eftir að beiðni um eignarskráningu barst reikningsstofnun, sbr. 14. gr., nema að eigandi reiknings hafi sérstaklega samið um aðra tilhögun samkvæmt reglum sem verðbréfamiðstöð hefur sett.


37. gr.
Reikningsyfirlit.

Verðbréfamiðstöð skal senda sérhverjum reikningseiganda að minnsta kosti einu sinni á ári reikningsyfirlit er sýni þau rafbréf sem hann er skráður eigandi að við dagsetningu yfirlitsins. Hið sama á við um eigendur takmarkaðra eignarréttinda yfir rafbréfi.

Árleg og skyldubundin reikningsyfirlit samkvæmt þessari grein skulu send reikningseigendum í janúar ár hvert og sýna þau réttindi sem eigandi er skráður fyrir 31. desember næstliðins árs.

Í aðildarsamningi verðbréfamiðstöðvar og reikningsstofnunar, svo og útgefanda ef það á við, er heimilt að kveða nánar á um reikningsyfirlit sem skylt er að senda rétthafa að rafbréfi samkvæmt ákvæðum laga, reglugerða eða reglna settra samkvæmt þeim.


38. gr.

Á reikningsyfirliti skal koma fram:

1. Dagsetning og stund yfirlitsins.
2. Nafn, kennitala og heimilisfang reikningseiganda.
3. Tilgreining, tegund og fjöldi eininga (nafnverð) rafbréfa sem þar eru skráð.
4. Skráðar takmarkanir á ráðstöfunarrétti eiganda.
5. Nafn reikningsstofnunar sem heimild hefur til eignarskráningar á reikninginn, svo og nafn verðbréfamiðstöðvar þar sem réttindin eru skráð.
6. Allar lokafærslur sem átt hafa sér stað á reikningnum, sbr. 4. mgr. 16. gr. laga nr. 131/1997.


39. gr.

Reikningsstofnun ber við gerð tilkynninga og reikningsyfirlita að leggja til grundvallar skrá verðbréfamiðstöðvar yfir lokafærslur þeirra réttinda sem þar eru skráð. Heimilt er henni þó að setja inn nánari upplýsingar sem hún telur að kunni að vera til gagns fyrir eigendur rafbréfa.


40. gr.
Afmáning réttinda og lokun reikninga.

Útgefanda rafbréfs skv. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 131/1997 er heimilt samkvæmt nánari ákvæðum í útgáfusamningi við verðbréfamiðstöð að afmá eða færa á milli reikninga rafbréf sem hann sjálfur á.


41. gr.

Verðbréfamiðstöð er heimilt að afmá rafbréf þegar réttindum samkvæmt þeim er lokið.


42. gr.

Verðbréfamiðstöð annast afmáningu réttinda þegar rafbréf eru dregin út og greidd upp samkvæmt hlutkesti eða á annan hátt eru uppgreidd á gjalddaga eða samkvæmt ákvörðun útgefanda.


43. gr.

Verðbréfamiðstöð er heimilt samkvæmt 23. gr. laga nr. 131/1997 að afmá réttindi sem telja má að hafi ekki lengur þýðingu eða um er að ræða réttindi sem eru 20 ára gömul, eða eldri, og sem telja má að sannanlega séu úr gildi fallin eða sannanlega enginn rétthafi fundist að réttindunum.

Verðbréfamiðstöð skal senda reikningsstofnun tilkynningu um þau réttindi sem fyrirhugað er að afmá og óska eftir upplýsingum um hinn skráða eiganda að reikningnum. Að fenginni umsögn birtir verðbréfamiðstöð innköllun í Lögbirtingablaðinu til þeirra sem telja sig eiga rétt til hinna skráðu réttinda og skal innköllunarfrestur vera þrír mánuðir.

Hafi enginn gefið sig fram áður en innköllunarfrestur er liðinn skal verðbréfamiðstöð afmá réttindin.

Ákvæði 12. gr. skulu eiga við um afmáningu réttinda, eftir því sem við getur átt.


44. gr.

Rafbréf skulu skráð í verðbréfamiðstöð á meðan útgefandi uppfyllir skilyrði er um skráninguna gilda nema að hann óski eftir að eignarskráningu sé hætt, sbr. 40. gr., enda standi ákvæði laga, reglugerða eða reglur verðbréfamiðstöðar því ekki í vegi að eignarskráningu bréfanna sé hætt.


45. gr.

Við gjaldþrot, innlausn, samruna eða aðrar sambærilegar aðgerðir sem leiða til þess að skráningu rafbréfs skuli hætt, er verðbréfamiðstöð skylt að halda skráningunni áfram þar til starfsemi útgefanda er endanlega slitið eða breytt.


46. gr.

Þegar réttindum sem skráð hafa verið í verðbréfamiðstöð er lokið, þau felld niður og afmáð, ber að senda tilkynningar samkvæmt ákvæði 35. - 37. gr., sbr. 18. gr. laga nr. 131/1997.


47. gr.

Áður en afmáning réttinda fer fram og skráningu þeirra hætt skal verðbréfamiðstöð tilkynna hlutaðeigandi rétthöfum og reikningsstofnun um það fyrirfram og tilgreina það tímamark sem skráningunni verður hætt. Auk þess skal auglýsa afmáningu réttinda í Lögbirtingablaðinu með 4 vikna fyrirvara. Þegar afhenda á rétthöfum áþreifanleg skjöl í stað þeirra réttinda sem afmáð eru úr eignarskrá verðbréfamiðstöðvar ber að taka það sérstaklega fram í auglýsingu samkvæmt þessari grein svo og önnur atriði sem skipta máli um afhendingu þeirra.


48. gr.

Án ástæðulauss dráttar og í síðasta lagi 8 virkum dögum eftir að afmáning fer fram skal verðbréfamiðstöð senda reikningsstofnun:

1. Yfirlit um þá reikningseigendur sem höfðu réttindi skráð á reikningi sem verðbréfamiðstöð hefur afmáð.
2. Reikningsyfirlit fyrir sérhvern reikningseiganda þar sem afmáning réttinda hefur farið fram.
3. Gögn sem varða afmáningu réttindanna á þeim reikningum sem reikningsstofnun hefur milligöngu um eignarskráningar og tilmæli til reikningsstofnana með hvaða hætti þær eigi að afhenda gögn sem varða afmáningu réttindanna, ef það á við.


49. gr.

Reikningsstofnun skal án ástæðulauss dráttar og eigi síðar en 8 virkum dögum frá því að henni berast upplýsingar og gögn samkvæmt 48. gr. senda þeim rétthöfum sem eiga að fá afhent gögn tilkynningu um hvar afhending þeirra fari fram.


VI. KAFLI
Um fræðslu og réttindi starfsmanna
reikningsstofnana til eignarskráningar, o.fl.
50. gr.

Reikningsstofnun ber ábyrgð á að starfsmenn hljóti fullnægjandi fræðslu um framkvæmd eignarskráningar í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar og reglur verðbréfamiðstöðvar sem hlotið hefur starfsleyfi til útgáfu rafbréfa og skráningar réttinda yfir þeim.

Einstaklingi er óheimilt að hefja störf við eignarskráningu áður en hann hefur hlotið til þess fullnægjandi þjálfun og þekkingu.


51. gr.

Reikningsstofnunum ber að tilnefna sérstakan tengilið er hefur umsjón og ber ábyrgð á starfsháttum innan stofnunarinnar vegna eignarskráningar sem hún hefur milligöngu um. Tengiliðurinn skal hafa lokið embættisprófi í lögfræði (cand. jur.).


VII. KAFLI
Um innköllun áþreifanlegra verðbréfa
og rafræn skráning þeirra í verðbréfamiðstöð.
52. gr.
Rafræn skráning hlutabréfa.

Útgefandi áþreifanlegra hlutabréfa, að fenginni samþykktri útgáfulýsingu frá verðbréfamiðstöð, sbr. II. kafla, innkallar þau með því að birta auglýsingu í Lögbirtingablaðinu um að stjórn félagsins hafi ákveðið að ógilda með innköllun útgefin hlutabréf vegna rafrænnar skráningar þeirra í verðbréfamiðstöð í samræmi við ákvæði laga nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa, ásamt síðari breytingu á þeim lögum og reglum settum samkvæmt þeim.
Hafi félag fengið skráningu á skipulegum verðbréfamarkaði er heimilt að nota þá skráningarlýsingu enda uppfylli hún að lágmarki þau skilyrði sem verðbréfamiðstöð hefur ákveðið í útgáfulýsingu fyrir sambærilegar tegundir verðbréfa.

Nú hefur útgefandi áþreifanlegra hlutabréfa tekið ákvörðun með löglegum hætti um rafræna skráningu þeirra og útgáfulýsing verið samþykkt í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar og skal hann þá ákveða í samráði við verðbréfamiðstöð tímasetningu (dagsetningu og stund) rafrænu skráningarinnar og þar með frá hvaða stundu hin áþreifanlegu hlutabréf eru ógild.


53. gr.

Innköllun skal ekki birt fyrr en 6 mánuðum áður en rafræn skráning hlutabréfa hefst í verðbréfamiðstöð og þó aldrei síðar en 3 mánuðum áður en rafræna skráningin fer fram.

Jafnframt því að auglýsa innköllun tvisvar í Lögbirtingablaði ber útgefandi ábyrgð á að birta a.m.k. þrjár auglýsingar um innköllun réttindanna í öllum helstu fjölmiðlum með áberandi hætti, s.s. dagblöðum og öðrum miðlum sem ástæða þykir til að nota svo upplýsingar um innköllun komist til eigenda útgefinna hlutabréfa í félaginu.


54. gr.

Í auglýsingu, sbr. 52. gr., skal að lágmarki tekið fram:

1. Tilgreining þeirra hlutabréfa sem innköllun tekur til, s.s. tilgreining á útgefanda svo og aðrar þær upplýsingar sem nauðsynlegar má telja svo að unnt sé að þekkja og greina réttindi samkvæmt hlutabréfinu, t.d. raðnúmer eða aðrar sérgreiningar á bréfinu eða önnur skilyrði er varða arðgreiðslur af bréfinu og á hvaða ári réttindum er ætlað að ljúka, ef um tímabundin réttindi er að ræða.
2. Hvenær (dagsetning og stund) réttindi samkvæmt hinum áþreifanlegu hlutabréfum verði rafrænt skráð í verðbréfamiðstöð og hin áþreifanlegu hlutabréf þar með ógild.
3. Tilvísun til þeirrar einingar sem rafbréf skulu gefin út í eftir rafræna skráningu, sbr. 1. tölul.
4. Hvort útgefandi hafi ákveðið að eftir að rafræn skráning hefur átt sér stað í verðbréfamiðstöð og innköllunarfrestur er liðinn skuli greiðslur til eiganda réttindanna, s.s. arðgreiðslur, o.s.frv., einungis fara fram í gegnum kerfi verðbréfamiðstöðvarinnar.
5. Með hvaða hætti eigendum réttinda samkvæmt hlutabréfum sé rétt og skylt að fá staðfest reikningsyfirlit frá verðbréfamiðstöð er sýni á óyggjandi hátt hvaða réttindi hafa þar verið skráð þegar rafræn skráning hefur átt sér stað, sbr. og 56. gr.
6. Nafn verðbréfamiðstöðvar þar sem bréfin verða skráð.


55. gr.

Verðbréfamiðstöð annast og ber ábyrgð á því að stofnaður sé reikningur fyrir sérhvern eiganda að hlut sem tilkynntur hefur verið til hlutaskrár félagsins á þeirri stundu sem innköllunarfresti samkvæmt 52. gr. lýkur og rafræn skráning á sér stað. Verðbréfamiðstöð er heimilt að krefjast þess að viðskipti með bréf félags skuli stöðvuð þann dag sem rafræn skráning þeirra fer fram í tölvukerfi miðstöðvarinnar. Framsal og aðrar skráningar á reikninginn eru óheimilar fyrr en eigandi hefur valið sér reikningsstofnun, sbr. ákvæði III. kafla þessarar reglugerðar og skilyrði hennar eru uppfyllt að öðru leyti.


56. gr.

Reikningsstofnanir skulu varðveita afrit af öllum gögnum sem lágu til grundvallar fyrsta framsali og skráningu réttinda á reikning eiganda rafbréfs, sbr. 55. gr. svo og að öðru leyti ákvæði laga og reglugerðar þessarar. Hið sama gildir um önnur gögn sem stuðst hefur verið við vegna skráningar réttindanna. Reikningsstofnun ber samkvæmt ósk rétthafa hinna skráðu réttinda að gefa út reikningsyfirlit er sýni með ótvíræðum hætti þau réttindi sem hafa verið skráð í verðbréfamiðstöð á reikning reikningseiganda í samræmi við gildandi reglur þar um.


57. gr.
Rafræn skráning skuldabréfa.

Útgefanda skuldabréfa eða skuldabréfaflokks er heimilt að auglýsa einhliða að áþreifanleg skuldabréf verði tekin til rafrænnar skráningar.

Í auglýsingu skal tilgreina þær reikningsstofnanir þar sem tekið er við skuldabréfum í áþreifanlegu formi til rafrænnar skráningar í verðbréfamiðstöð. Um auglýsingu samkvæmt þessari málsgrein fer að öðru leyti eftir 54. gr. og um geymslu gagna og útgáfu reikningsyfirlits fer samkvæmt 56. gr., svo og öðrum ákvæðum þessarar reglugerðar eftir því sem við getur átt.


58. gr.

Afhending áþreifanlegra skuldabréfa er einungis heimil til þeirra reikningsstofnana sem hafa gert fullgildan aðildarsamning við verðbréfamiðstöð þegar afhendingin fer fram.


59. gr.

Reikningsstofnun sem veitir áþreifanlegu skuldabréfi viðtöku skal, að undangenginni könnun samkvæmt 10. gr., sbr. 2. tölul. 12. gr., árita bréfið um rafræna skráningu og ógilda það.

Í áritun skal að lágmarki koma fram:

1. Dagsetning rafrænu skráningarinnar.
2. Númer reiknings í verðbréfamiðstöð þar sem réttindin hafa verið skráð.
3. Kennitala síðasta handhafa skuldabréfsins svo og kennitala framsalshafa ef skuldabréfið er framselt við rafræna skráningu.

Að lokinni eignarskráningu og áritun samkvæmt þessari grein er hið áþreifanlega skuldabréf ógilt og skal sent útgefanda til varðveislu.


60. gr.
Rafræn skráning hlutdeildarskírteina.

Um rafræna skráningu hlutdeildarskírteina fer eftir ákvæðum 52. – 56. gr. svo og öðrum ákvæðum þessarar reglugerðar eftir því sem við getur átt.


61. gr.
Almenn ákvæði er varða rafræna skráningu.

Réttindum samkvæmt áþreifanlegum verðbréfum skal breyta í rafbréf í samræmi við samning útgefanda og verðbréfamiðstöðvar um útgáfuna, s.s. nafnverð, auðkenni bréfa, o.fl.

Nafnverð einingar er ekki unnt að tilgreina í hærri fjárhæð en sem svarar til lægsta nafnverðs á verðbréfi þegar innköllun réttindanna á sér stað.

Nú hefur rafræn skráning átt sér stað og falla þá úr gildi öll fyrri einkennisnúmer verðbréfaflokksins svo og önnur einkenni hans.


62. gr.

Eins skjótt og verða má en þó aldrei síðar en þremur mánuðum eftir að rafræn skráning hefur átt sér stað skulu hlutaðeigandi reikningsstofnanir senda reikningsyfirlit til eiganda réttindanna svo og annarra rétthafa eftir því sem við getur átt. Reikningsyfirlitið skal að lágmarki fullnægja ákvæðum 13. gr., sbr. 38. gr. þessarar reglugerðar.

Ákvæði 1. mgr. stendur því þó ekki í vegi að eigandi eða rétthafi að rafbréfi geti hvenær sem er óskað eftir því við reikningsstofnun að hún afhendi afrit reikningsyfirlits yfir réttindi sem sannanlega varða hann.

Við eignarskráningu áþreifanlegra verðbréfa í verðbréfamiðstöð fyrir milligöngu reikningsstofnunar skal senda tilkynningu í samræmi við ákvæði 35. gr. þessarar reglugerðar.


63. gr.

Réttindi samkvæmt áþreifanlegu verðbréfi sem hefur verið innkallað og skráð í samræmi við ákvæði laga nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa, og reglugerð þessa, njóta réttarverndar frá og með þeirri stundu sem lokafærsla réttindanna hefur farið fram í verðbréfamiðstöð.


VIII. KAFLI
Gildistaka, o.fl.
64. gr.

Brot á reglugerð þessari varða sektum eða fangelsi allt að einu ári nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Sé brot framið í þágu lögaðila er heimilt að beita stjórnendur lögaðilans framangreindum viðurlögum og einnig er heimilt að gera lögaðila að sæta sviptingu starfsréttinda.

Tilraun til og hlutdeild í brotum eru refsiverðar samkvæmt almennum hegningarlögum.


65. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í lögum nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 32/2000, og öðlast þegar gildi.


Viðskiptaráðuneytinu, 25. maí 2000.

Valgerður Sverrisdóttir.
Þorgeir Örlygsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica