Sjávarútvegsráðuneyti

291/1994

Reglugerð um botn- og flotvörpur. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um botn- og flotvörpur.

1. gr.

Lágmarksmöskvastærð í botnvörpu og flotvörpu skal vera 155 mm.

Botnvarpa og flotvarpa merkir skv. 1. mgr. 1. gr. og 2. gr. vörpur sem notaðar eru til veiða á helstu botnfisktegundum hér við land og tekur ekki til varpna, sem notaðar eru til veiða á sérstökum nytjastofnum eins og humri, rækju, kolmunna, spærlingi og fleiri tegundum, sem háðar eru sérstökum leyfum.

Með poka skv. reglugerð þessari er átt við aftasta hluta vörpunnar. Allir pokar skulu jafn breiðir eftir endilangri lengd þeirra og skulu þeir annað hvort skornir á síðum eða legg, ef um leggpoka er að ræða sbr. þó A-lið 12. gr. Óheimilt er að nota umbúnað af nokkru tagi til að koma í veg fyrir rennsli fisks aftur í poka.

2. gr.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 1. gr. er skipum, sem stunda veiðar með botnvörpu og flotvörpu heimilt að nota riðil með lágmarksmöskvastærðinni 135 mm í allt að 25 öftustu metrum vörpunnar á svæði fyrir Vestur- og Suðurlandi utan línu, sem dregin er 320° réttvísandi frá stað 66°17'N og 24°00'V og 12 sjómílur utan grunnlínu, samkvæmt reglugerð nr. 299/1975, vestur og suður að línu, sem dregin er um eftirgreinda punkta:

1. 64°44'N - 24°27'V

2. 64°44'N - 24°12'V

og þaðan utan línu, sem dregin er 5 sjómílur utan við Geirfugladrang og þaðan utan 4ra sjómílna frá grunnlínupunktum suður og austur um að 18°00'V og þaðan í réttvísandi 180° í stað 63°17'N, 18°00'V og þaðan utan línu, sem dregin er um eftirgreinda punkta:

1. 63°41'N - 15°30'V

2. 64°19'N - 12°26'V

3. 64°25'N - 12°11'V

4. 64°40'N - 11°26'V

og þaðan utan línu, sem dregin er í réttvísandi norður út að mörkum fiskveiðilandhelginnar.

3. gr.

Lágmarksmöskvastærð humarvörpu skal vera 80 mm. Þó er skylt að hafa netstykki á legg úr a.m.k. 135 mm riðli fremst á efra byrði belgs vörpunnar fyrir aftan miðnet. Netstykki þetta skal vera a.m.k. 3 x 4 metrar að stærð. Hverjir tveir leggir þessa netstykkis skulu festast við sjö upptökur vörpunnar.

4. gr.

Lágmarksmöskvastærð rækjuvörpu skal vera 45 mm í vængjum aftur að þaki (miðneti) en 36 mm í öðrum hlutum rækjuvörpunnar.

Við veiðar á rækju á eftirgreindum svæðum skal nota net á legg í a.m.k. fjórum öftustu metrum vörpunnar:

A) Innan viðmiðunarlínu, á svæði frá Bjargtöngum norður og austur um að Rauðanúp.

B) Við úthafsrækjuveiðar fyrir Norðurlandi milli 14°V og 18°V. Austan Langaness

markast syðri mörk svæðisins af línu, sem dregin er réttvísandi austur frá Fonti á Langanesi.

C) Fyrir Suðvesturlandi sunnan 65°15'N og vestan 23°V.

Við notkun leggpoka er heimilt að nota þrjá síðumöskva fyrir framan kolllínumöskvana. Skal hver leggur leggpokans festast við eina upptöku vörpunnar.

5. gr.

Lágmarksmöskvastærð í botn- og flotvörpum, sem notaðar eru til veiða á loðnu, skal vera 16 mm, á spærlingi 20 mm, og á kolmunna 38 mm.

6. gr.

Við möskvamælingar skal nota möskvamæla, sem þannig eru gerðir:

A) Hlutar möskvamælis eru: Mælistika, aflmælir fyrir 0-6 kg átak og lóð með tveggja og fimm kg massa.

B) Mælistika, sem nota skal til að mæla möskvastærð samkvæmt reglugerð þessari skal vera 2 mm þykk úr traustu efni og þannig gerð, að hún aflagist ekki. Stikan skal mjókka fram á við í hlutfallinu 1 á móti 8 hvorum megin. Breidd stikunnar skal merkt á 1 mm bili. Á efri enda stikunnar skal vera gat nægilega stórt til að notast sem handfang og á neðri enda skal vera gat til að hengja í lóð. A efri enda skal ennfremur vera gat til að festa aflmæli við stikuna.

7. gr.

Við mælingu möskva skal mælistiku þannig beitt:

A) Netið skal strekkt svo að möskvar teygist eftir lengdarlínu þess.

B) Mjórri enda á stiku sbr. 6. gr. skal stungið í möskvann hornrétt á netið.

C) Stikunni skal stungið inn í möskvann, annað hvort með handafli eða með því að nota lóð eða aflmæli, þar til mælirinn stöðvast á skásettu hliðunum vegna viðnáms frá möskvanum.

D) Leggmöskvi skal teygður milli upptökuhnúta þegar stikunni er stungið í hann.

8. gr.

Við val á möskvum til mælingar skal eftirfarandi gætt:

A) Þeir möskvar sem mæla á skulu mynda röð af 20 samliggjandi möskvum, sem velja skal eftir lengdarási vörpunnar. Eigi skal mæla möskva sé hann viðgerður, slitinn eða eitthvað fest í hann.

B) Möskva skal ekki mæla nær leisum, burðarlínum og kolllínu en fjórum möskvum.

C) Eingöngu skal mæla net þegar þau eru blaut og ófrosin.

9. gr.

Stærð hvers möskva skal vera breidd mælistikunnar þar sem hún stöðvast þegar henni er beitt sbr. 7. gr.

10. gr.

Möskvastærð netsins, sem mælt er skv. 7.-9. gr. skal vera meðaltal mælinga einstakra möskva, gefið upp með 0.1 mm nákvæmni.

11. gr.

Eftirlitsmaður skal mæla eina röð af 20 möskvum, sem valdir eru skv. 8. gr. og skal hann stinga mælinum inn í möskvann með handafli án þess að nota lóð eða aflmæli. Síðan skal möskvastærðin reiknuð út samkvæmt 10. gr.

Sýni útreikningur á möskvastærðinni að möskvastærð sé ekki í samræmi við gildandi reglur, skal velja tvær raðir af 20 möskvum til viðbótar skv. 8. gr. og þær mældar. Þá skal reikna möskvastærð aftur skv. 10. gr. og taka með í útreikninginn þá 60 möskva sem þegar hafa verið mældir og skal þessi útreikningur skera úr um möskvastærð netsins.

Mótmæli skipstjórinn niðurstöðu mælingar, sem fengin er skv. 2. mgr., skal netið mælt að nýju. Við þá endurmælingu skal nota lóð eða aflmæli festan við stikuna og ræður eftirlitsmaður hvort notað er. Lóðið skal festa við gatið á mjórri enda stikunnar með króki. Aflmælinn skal festa við efri enda stikunnar.

Mæla skal þannig eina röð með 20 möskvum á ofangreindan hátt og skal meðaltalið gilda sem endanleg meðalmöskvastærð viðkomandi nets.

Við mælingu á vörpum, sem hafa möskvastærðina 45 mm eða minna skv. 4.-5. gr. skal nota 19.61 newtona afl (sem svarar til 2ja kg þyngdar), en á aðrar vörpur skal nota 49.03 newtona afl (sem svarar til 5 kg þyngdar).

12. gr.

Við veiðar er óheimilt að nota nokkurn þann útbúnað sem þrengir, herpir eða lokar á nokkurn hátt möskvum þeim sem getið er um í 1.-2 gr. reglugerðar þessarar og í ákvæði til bráðabirgða. Þó er heimilt að:

A) Slitnet. Festa undir allt að 25 öftustu metra botnvörpu net með sömu möskvastærð og er í pokanum í því skyni að draga úr sliti. Slitvara þessa má festa við pokann að framan og til hliðar og einnig er heimilt að festa slitvarana við styrktarnet efra byrðis að aftan sbr. C-lið þessarar greinar. Óheimilt er að nota meira en eitt byrði af slitneti.

B) Slitmottur. Festa undir slitvara þá er getið er í A-lið nautshúðir, mottur úr gerviefnum eða aðra sambærilega slitvara í því skyni að auka enn núningsþol pokans. Slitmottur þessar má aðeins festa að framan og á hliðunum.

C) Styrktarnet. Festa styrktarnet úr sama efni og varpan er gerð úr við allt að 18 öftustu metra efra byrðis botnvörpu og efra og neðra byrðis flotvörpu. Möskvastærð styrktarnetsins skal vera rúmlega tvöfalt stærri en möskvastærð vörpunnar þar sem það er fest við. Heimilt er að festa styrktarnet þetta við pokann að framan, á hliðum og að aftan sbr. A-lið þessarar greinar. Ganga skal þannig frá styrktameti þessu að hver möskvi þess falli saman við fjóra möskva pokans. Óheimilt er að nota meira en eitt byrði af slíku styrktaneti.

D) Styrktargjarðir. Nota styrktargjarðir utan um pokann á allt að 25 öftustu metra botnvörpu og flotvörpu. Bil á milli gjarða skal vera minnst 1.8 m en heimilt er að festa öftustu gjörðina nær kolllínunni. Lengd gjarða skal vera minnst 45% af strengdri lengd netsins á þeim stað sem gjörðin er.

E) Steinamottur. Festa innan á neðra byrði botnvörpu húð eða mottu til að auka núningsþol pokans vegna grjóts, sem berst í pokann. Stærð þessara hlífa má mest vera 4 m2 alls í hverri botnvörpu.

13. gr.

Þrátt fyrir ákvæði 1.-2. gr., ákvæðis til bráðabirgða og 12. gr. er heimilt við úthafskarfaveiðar að nota í 35 öftustu metrum vörpunnar minni möskva en í reglugerðinni segir og klæða þann hluta hennar með öðrum hætti.

Ákvæði 1. mgr. tekur aðeins til veiða á úthafskarfa með flotvörpu á svæði utan línu, sem dregin er milli eftirgreindra punkta:

1. 65°20'N - 29°45'V (við miðlínu milli Íslands og Grænlands)

2. 63°00'N - 26°00'V

3. 62°00'N - 27°00'V

og vestan línu, sem dregin er 180° réttvísandi frá 62°N- 27°N.

Ennfremur er heimilt við veiðar á blálöngu á "Franshóli" að klæða 25 öftustu metra vörpunnar styrktarneti með 135 mm möskvastærð eða nota í 25 öftustu metra vörpunnar net með 110 mm lágmarksmöskvastærð.

Ákvæði 3. mgr. tekur til veiða á svæði innan línu sem dregin er milli eftirgreindra punkta:

1. 61°03'N - 27°25'V

2. 60°57'N - 27°25'V

3. 60°57'N - 27°40'V

4. 61°03'N - 27°40'V

14. gr.

Við veiðar með botnvörpum og flotvörpum er óheimilt að nota nokkurn þann útbúnað sem þrengir, herpir eða lokar á nokkurn hátt möskvum þeim sem getið er um í 3.-5. gr. eða nota umbúnað af nokkru tagi til þess að koma í veg fyrir rennsli afla aftur í poka eða nota net eða annað til þéttingar poka að aftan. Þó er heimilt:

A) Við veiðar með botnvörpum og flotvörpum samkvæmt 4.-5. gr. að nota hlífðarpoka utan um pokann sjálfan. Lágmarksmöskvastærð slíks hlífðarpoka skal vera 135 mm. Þegar notaður er hlífðarpoki við innfjarðarækjuveiðar sbr. reglugerð um veiðar í atvinnuskyni er óheimilt að binda fyrir hlífðarpokann að aftan.

B) Að binda fyrir rækjupoka við innfjarðaveiðar allt að 20 cm fyrir ofan pokaendann og stinga lausa netinu inn í pokann til að þétta pokahnútinn.

C) Við veiðar með humarvörpum samkvæmt 3. gr. að festa undir pokann net allt að 9 m að lengd með 135 mm möskvastærð til þess að draga úr sliti.

D) Við veiðar með botnvörpum skv. 3.-5. gr. er heimilt að festa undir 8 öftustu metra vörpunnar nautshúðir eða mottur úr gerviefnum í því skyni að auka núningsþol pokans.

15. gr.

Eigi ná ákvæði þessarar reglugerðar til fiskveiða í þágu vísindalegra rannsókna. Ennfremur er ráðuneytinu heimilt að veita tímabundin leyfi til þess að nota vörpur með annarri möskvastærð eða öðrum útbúnaði en heimilt er samkvæmt reglugerð þessari. Leyfi þessi skulu bundin við veiðar á ákveðnum fisktegundum og ákveðin veiðisvæði.

16. gr.

Bannað er að henda í sjóinn veiðarfærum, netastykkjum svo og öðrum hlutum úr veiðarfærum. Týni skip veiðarfærum í sjó ber skipstjóra að reyna að slæða þau upp. Takist það ekki skal hann tilkynna það til Landhelgisgæslunnar og skýra frá staðsetningu veiðarfærisins, eins nákvæmlega og unnt er og hvenær það týndist.

17. gr.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt ákvæðum laga nr. 81, 31. maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og laga nr. 34, 17. maí 1976, um veiðar íslenskra skipa utan fiskveiðilandhelgi Íslands. Um ólögmætan afla fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 37, 27. maí 1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla.

18. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 81, 31. maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og laga nr. 34, 17. maí 1976, um veiðar íslenskra skipa utan fiskveiðilandhelgi Íslands til þess að öðlast gildi 1. júní 1994 og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli. Jafnframt er frá sama tíma felld úr gildi reglugerð nr. 191, 13. apríl 1994 um botn- og flotvörpur.

Ákvæði til bráðabirgða

I.

Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. gr. reglugerðar þessarar er heimilt að nota botn- og flotvörpu með lágmarksmöskvastærðinni 135 mm. Þó skal lágmarksstærð möskva í a.m.k. 8 öftustu metrum vera 155 mm þegar togveiðar eru stundaðar á eftirgreindum svæðum:

A) Á svæði fyrir Vestur- og Suðurlandi innan línu, sem dregin er 310° réttvísandi frá stað 66°00'N, 25°15'V, og innan línu, sem dregin er frá stað 66°00'N, 25°15'V, í stað 64°53'N, 25°15'V og þaðan í 90° réttvísandi í stað í 12 sjómílna fjarlægð frá grunnlínu suður og austur um að 19°50'V þaðan í stað 63°06'N, 18°00'V síðan í 65° réttvísandi að 10°00'V og þaðan 90° réttvísandi út að mörkum fiskveiðilandhelginnar.

B) Á tímabilinu 1. janúar til 31. ágúst á svæði milli 18°00'V og 21°00'V. Að norðan markast svæðið af línu, sem dregin er 6 sjómílur utan við grunnlínu samkvæmt reglugerð nr. 299/1975.

Sjávarútvegsráðuneytið, 31. maí 1994

F h. r.

Árni Kolbeinsson.

Jón B. Jónasson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica