Sjávarútvegsráðuneyti

345/1992

Reglugerð um leyfisbindingu tiltekinna veiða. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um leyfisbindingu tiltekinna veiða.

1. gr.

Eftirfarandi veiðar eru óheimilar nema að fengnu sérstöku leyfi:

1. Staðbundnar rækjuveiðar. Til þessara veiða teljast allar rækjuveiðar innan við viðmiðunarlínu
sbr. lög nr. 81/1976 og rækjuveiðar á svæði við Eldey sem að sunnan markast af línu, sem dregin er réttvísandi 245° frá Reykjanesaukavita. Að vestan markast svæðið af 23°40'V og að norðan af 64°05'N.

2. Hörpudiskveiðar.

3. Kúfiskveiðar.

4. Veiðar á spærlingi, gulllaxi, kolmunna og aðrar veiðar með botn- eða flotvörpu með minni möskva en 135 mm, aðrar en humarveiðar.

2. gr.

Fiskistofa annast útgáfu leyfa skv. 1. gr. Ráðherra getur bundið úthlutun leyfa skv. 1. gr. þeim skilyrðum er þurfa þykir, m.a. að aðeins hljóti leyfi ákveðinn fjöldi skipa, skip af ákveðinni stærð og gerð eða skip, er tilteknar veiðar stunda eða hafa áður stundað. Þá getur ráðherra bundið leyfin skilyrðum, m. a. markað ákveðin staðbundin veiðisvæði og ákveðið að slík leyfi skuli háð því skilyrði, að bátur sé skráður frá verstöð við hlutaðeigandi veiðisvæði og útgerð bátsins eigi þar heimilisfesti.

3. gr.

Með mál sem rísa út af brotum á ákvæði reglugerðar þessarar og ákvæðum leyfisbréfa gefnum út samkvæmt henni skal farið að hætti opinberra mála og varða brot viðurlögum samkvæmt 19. gr. laga nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða. Jafnframt er heimilt að svipta skip heimild til veiða sbr. 2. mgr. 20. gr. laga nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða.

4. gr.

Reglugerð þessi er sett skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 38,15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð nr. 508, 21. desember 1990, um leyfisbindingu veiða, reglugerð nr. 78, 6. febrúar 1978, um skelveiðar og reglugerð nr. 143, 19. mars 1979, um veiðar á sandsíli.

Sjávarútvegsráðuneytið, 18. september 1992.

Þorsteinn Pálsson.

Árni Kolbeinsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica