Menntamálaráðuneyti

384/1996

Reglugerð um upplýsingaskyldu sveitarfélaga um skólahald - Brottfallin

1. gr.

Menntamálaráðherra fer með yfirstjórn málefna grunnskóla í landinu og hefur eftirlit með því að sveitarfélög og aðrir aðilar er heimild hafa til reksturs grunnskóla, uppfylli skyldur sínar samkvæmt grunnskólalögum, reglugerðum er gefnar eru út samkvæmt þeim og aðalnámskrá.

Menntamálaráðuneytið annast öflun upplýsinga um skólahald og skólastarf á grunnskólastigi á landinu, úrvinnslu slíkra upplýsinga og miðlun þeirra.

 

2. gr.

Sveitarstjórnum og forstöðumönnum einkaskóla er hlotið hafa löggildingu, sbr. 56. gr. laga nr. 66/1995 er skylt að gera menntamálaráðuneytinu, árlega eða oftar sé þess krafist, grein fyrir framkvæmd skólahalds í grunnskólum er reknir eru á vegum þeirra.

Samræmdum upplýsingum um skólahald er ætlað að skapa traustan grundvöll undir mat á skólastarfi á skyldunámsstigi og auðvelda eftirlit með framkvæmd skólahalds.

 

3. gr.

Innan árs frá gildistöku reglugerðar þessarar skulu allar sveitarstjórnir er aðild eiga að rekstri grunnskóla veita menntamálaráðuneytinu upplýsingar um aðstöðu skólanna, s.s. stærð skólahúsnæðis, íþróttaaðstöðu, búnað skóla, umhverfi, einsetningu, skólaakstur, aðstöðu til að matast og heimavistir.

Þá skal einnig gera grein fyrir fyrirhuguðum viðbótum eða breytingum á húsnæði eða aðstöðu þar sem um slíkt er að ræða.

 

4. gr.

Á þeim tíma er menntamálaráðuneytið tiltekur, skulu sveitarstjórnir ár hvert senda því upplýsingar um skólahald, s.s.:

 a.            Nemendur: Fjöldi barna á skólaskyldualdri í skólahverfinu, skipting í bekki og bekkjardeildir, skipting milli skóla þar sem um fleiri en einn skóla er að ræða, skólasókn, tómstunda- og félagsstörf nemenda, lengd viðvera utan reglulegs kennslutíma.

 b.            Starfsfólk: Fjöldi kennara, starfsheiti, stöðuhlutfall, grunn- og endurmenntun, starfsferill, aðrir starfsmenn skóla en kennarar, meginverkefni allra starfsmanna skóla.

 c.            Innra starf skóla: Skólanámskrá, námsgreinar og námsþættir í öllu skyldunámi, kennslumagn, stundaskrár, námsgögn, þróunarverkefni, kennslu- og matsaðferðir, gæðamat, starfstími skóla, sérstakur stuðningur við nemendur, íslenskukennsla nemenda með annað móðurmál en íslensku.

 d.            Störf sérfræðiþjónustu skóla: Almenn og greinabundin kennsluráðgjöf, námsráðgjöf, sérkennsluráðgjöf, sálfræðiþjónusta og ýmis önnur ráðgjöf við nemendur og starfsfólk skóla.

 e.            Foreldraráð, foreldrafélög, skólanefnd og upplýsingar um helstu verkefni þeirra.

 f.             Aðstæður: Breytingar á húsnæði, aðstöðu skóla eða öðru því er talið er í 3. gr.

 

5. gr.

Menntamálaráðherra getur krafist ofangreindra upplýsinga eða hluta þeirra svo og annarra upplýsinga um skólahald á grunnskólastigi er hann telur þörf á oftar en einu sinni á ári, beri nauðsyn til.

 

6. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 9. og 10. gr., sbr. 56. gr. laga nr. 66/1995 um grunnskóla og öðlast gildi 1. ágúst 1996.

 

Menntamálaráðuneytinu, 26. júní 1996.

 

Björn Bjarnason.

Guðríður Sigurðardóttir.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica