Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

382/2017

Reglugerð um leyfisskyldar frístundaveiðar.

Birta efnisyfirlit

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um leyfisskyldar frístundaveiðar, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

2. gr.

Aðilum sem reka ferðaþjónustu og hyggjast nýta við þann rekstur báta til frístundaveiða er skylt að sækja um leyfi til Fiskistofu fyrir hvern bát sem fyrirhugað er að nota í því skyni. Skilyrði útgáfu leyfis er að rekstraraðili báts hafi leyfi Ferðamálastofu, sem gefið er út með stoð í 8. gr. laga nr. 73/2005, um skipan ferðamála.

Við veitingu leyfa til frístundaveiða koma aðeins til greina bátar sem hafa haffærisskírteini og skrásettir eru á skipaskrá Samgöngustofu eða sérstaka skrá stofnunarinnar fyrir báta undir 6 metrum. Skulu eigendur þeirra og útgerðir fullnægja þeim skilyrðum til að stunda veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands sem kveðið er á um í lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri og í lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands.

3. gr.

Frístundaveiðar er einungis heimilt að stunda með sjóstöng og handfærum án sjálfvirknibúnaðar. Leyfi til veiðanna eru tvenns konar:

  1. Leyfi til að veiða tiltekinn fjölda fiska af kvótabundnum fisktegundum á hvert handfæri eða sjóstöng dag hvern og reiknast sá afli ekki til aflamarks viðkomandi báts.
    Um borð í báti sem tekur færri en 20 farþega er heimilt að hafa allt að 7 sjóstangir eða handfæri samtímis enda fari heildarafli fiska af kvótabundnum fisktegundum ekki yfir 49 fiska dag hvern. Um borð í báti sem tekur farþega á bilinu 20-49 er heimilt að hafa allt að 15 sjóstangir eða handfæri samtímis enda fari heildarfjöldi fiska af kvótabundnum fisktegundum ekki yfir 60 fiska dag hvern. Þá er heimilt að hafa um borð í báti sem tekur 50 farþega eða fleiri allt að 25 sjóstangir eða handfæri samtímis enda fari heildarfjöldi fiska af kvótabundnum fisktegundum ekki yfir 75 fiska dag hvern. Óheimilt er að selja eða fénýta á annan hátt afla sem fæst við veiðar samkvæmt leyfi þessu.
  2. Leyfi til veiða sem takmarkast af aflamarki eða krókaaflamarki viðkomandi báts.
    Allur afli þessara báta skal veginn í samræmi við gildandi reglur um vigtun og skráningu sjávarafla. Um afla þessara báta gilda ekki ákvæði laga nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins. Ekki skal leitað staðfestingar Verðlagsstofu skiptaverðs vegna flutnings aflamarks til þessara báta. Heimilt er að selja og fénýta á annan hátt þann afla sem fæst við veiðar sem heimilar eru samkvæmt þessum tölulið.

Ekki er skylt að halda afladagbækur vegna afla báta er stunda frístundaveiðar.

Leyfi til frístundaveiða skulu veitt til eins fiskveiðiárs í senn og er einungis heimilt að veita báti leyfi annaðhvort samkvæmt 1. tl. eða 2. tl. Frístundaveiðiskip skv. 2. tl. 1. mgr., sem jafnframt hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni skulu tilkynna Fiskistofu með viku fyrirvara um upphaf og lok tímabils sem skipinu er haldið til veiða í atvinnuskyni.

4. gr.

Rekstraraðili frístundaveiðibáts, sem ekki hefur aflaheimildir, skal mánaðarlega skila til Fiskistofu skýrslu, í því formi sem Fiskistofa ákveður, yfir veiddan afla. Skila skal sérstakri skýrslu fyrir afla hvers báts. Í aflaskýrslu frístundaveiðibáts skal færa eftirfarandi upplýsingar:

  1. Nafn og kennitölu rekstraraðila.
  2. Nafn báts.
  3. Skipaskrárnúmer.
  4. Löndunarstað.
  5. Löndunardag.
  6. Fisktegund.
  7. Fjölda fiska og áætlaða þyngd þeirra.
  8. Fjölda sjóstanga og/eða færarúlla.

Upplýsingar um afla skal færa í aflaskýrslu svo skjótt sem verða má. Í lok hverrar veiðiferðar og áður en lagst er að bryggju skal veiðiferðin vera að fullu færð á aflaskýrslu mánaðarins.

Skipstjóra er skylt að veita eftirlitsmönnum Fiskistofu og starfsmönnum Landhelgisgæslu Íslands aðgang að aflaskýrslunni og aðstoð við að sannreyna upplýsingar sem færðar hafa verið í aflaskýrsluna.

Aflaskýrsla skal ávallt vera um borð í fiskiskipi á meðan á frístundaveiðum stendur og þar til löndun er lokið.

Rekstraraðili skal eigi síðar en 15. hvers mánaðar senda Fiskistofu skýrslur vegna afla undanfarandi mánaðar.

5. gr.

Rekstraraðili báts skal með sannanlegum hætti kynna fyrir áhöfn báts reglur um takmarkanir sem kunna að vera á veiðum á þeim svæðum þar sem líklegt má telja að báturinn stundi frístundaveiðar og ennfremur reglur um bann við brottkasti afla og reglur um meðferð afla.

6. gr.

Brot gegn reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt 8. mgr. 6. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

7. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum 6. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur reglugerð nr. 549/2009, um leyfisskyldar frístundaveiðar úr gildi.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 4. maí 2017.

F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,

Hinrik Greipsson.

Erna Jónsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.