Félagsmálaráðuneyti

376/1996

Reglugerð um atvinnumál fatlaðra

I. KAFLI

Gildissvið og markmið.

1.gr.

            Reglugerð þessi tekur til þeirra úrræða sem fram koma í lögum um málefni fatlaðra og ætluð eru til að styðja fatlaða í því að þjálfa og nýta vinnugetu sína og færni.

            Úrræðum í reglugerð þessari skal beitt þannig að stuðningur til starfa á almennum vinnumarkaði gengur framar öðrum kostum. Þeir kostir sem þessi reglugerð tekur til eru eftirfarandi:

 1. Starfsráðgjöf, atvinnuleit og vinnumiðlun.
 2. Aðstoð við fatlaða í vinnu á almennum vinnumarkaði.
 3. Hæfing og iðja.
 4. Verndaðir vinnustaðir.

 

II. KAFLI

Starfsráðgjöf. Atvinnuleit. Vinnumiðlun.

2.gr.

            Svæðisskrifstofur skulu sjá til þess að fötluðum verði veitt ráðgjöf um möguleika þeirra til starfa með hliðsjón af starfsgetu, áhugasviði og framboði starfa, jafnt almenn ráðgjöf sem og sérhæfð með tiltekin störf í huga.

3.gr.

            Svæðisskrifstofur skulu skipuleggja atvinnuleit þar sem henni er ekki sinnt af vinnumiðlun sveitarfélaga. Skal það gert með því að vinna kerfisbundið að því að finna störf við hæfi fatlaðra á svæðinu. Skal við það höfð nauðsynleg samvinna við atvinnurekendur, verkalýðsfélög og sveitarfélög.

4.gr.

            Svæðisskrifstofur skulu gera samninga við vinnumiðlun sveitarfélaga um að útvega fötluðum einstaklingum atvinnu, sbr. III. kafla laga um vinnumiðlun, nr. 18/1985.

            Svæðisskrifstofur skulu hafa umsjón með því að fötluðum verði útveguð vinna samkvæmt reglugerð um öryrkjavinnu nr. 159/1995. Sá sem fær vinnu samkvæmt reglugerð um öryrkjavinnu fellur einnig undir reglugerð þessa eftir því sem við á, þó ekki um kaup og kjör.

5.gr.

            Þar sem svæðisskrifstofa málefna fatlaðra hefur falið vinnumiðlun sveitarfélags að annast atvinnuleit fyrir fatlaða skal sú vinnumiðlun m.a. sinna þeim verkefnum sem svæðisskrifstofum hafa verið falin í 2., 3. og 4. gr.

III. KAFLI

Aðstoð við fatlaða í vinnu á almennum vinnumarkaði.

6.gr.

            Fötluðum starfsmönnum á almennum vinnumarkaði skal veitt eftirfarandi aðstoð:

 1. Sérstök liðveisla.
 2. Verkstjórn.
 3. Starfsþjálfun samkvæmt sérstökum samningi.
 4. Vinna í verndaðri vinnuaðstöðu.

Þar sem fötluðum manni er veitt sérstök liðveisla, verkstjórn eða starfsþjálfun á almennum vinnumarkaði skal gerður sérstakur samningur milli hans og atvinnurekanda þar sem tilgreint er sérstaklega vinnutími, kaup og kjör.

            Sérstök liðveisla er einstaklingsbundinn stuðningur við hinn fatlaða einkum í upphafi starfs í þeim tilgangi að aðstoða hann til að sinna störfum á almennum vinnumarkaði. Liðsmaður getur verið á vegum vinnumiðlunar, svæðisskrifstofu, verndaðs vinnustaðar eða fyrirtækisins. Einnig getur verið um að ræða sérstaka ráðningu til þess verkefnis. Vinnumiðlun, hafi verið við hana samið, eða svæðisskrifstofur sjá um greiðslur til atvinnurekenda eða liðsmanna eftir fyrirfram gerðum samningi.

            Í verkstjórn felst að fyrirtæki á almennum vinnumarkaði, sem ræður til sín fatlaða starfsmenn í þeim tilgangi að veita þeim atvinnu eða markvissa starfsþjálfun til ákveðins starfs, er veittur stuðningur með þeim hætti að ráðinn er sérstakur maður til að sjá um verkstjórn fatlaðra. Launakostnaður fyrir verkstjórnina er greiddur með rekstrarstyrk til fyrirtækisins samkvæmt sérstökum samningi.

            Með starfsþjálfunarsamningi er átt við samning um greiðslu ákveðins hluta af launum fatlaðs manns sem ráðinn er til starfa hjá fyrirtæki á almennum vinnumarkaði í þeim tilgangi að veita viðkomandi möguleika til starfs. Starfsþjálfun skal ætíð vera tímabundin. Vinnumiðlanir eða svæðisskrifstofa sjá um samningsgerð um vinnutíma og kaup go kjör.

            Svæðisskrifstofu er heimilt að koma á fót verndaðri vinnuaðstöðu hjá fyrirtæki á almennum vinnumarkaði til að veita fötluðum atvinnu. Heimilt er að veita fé úr Framkvæmdasjóði fatlaðra til stofnkostnaðar vegna nauðsynlegra breytinga á vinnustaðnum. Um samninga við einstaklinga gilda ákvæði 11. gr.

7.gr.

            Svæðisskrifstofur skulu sjá um að starfsfólki á þeim vinnustöðum þar sem fatlaðir vinna, sbr. 6. gr., séu veittar leiðbeiningar og fræðsla, svo sem þörf krefur.

IV. KAFLI.

Hæfing og iðja.

8.gr.

 1. Í hæfingu felst kerfisbundin og alhliða starfs- og félagsleg þjálfun. Með hæfingunni skal stuðlað að því að einstaklingur verði hæfari til iðju eða atvinnuþátttöku. Stefnt skal að því að hæfingin sé tímabundin. Ekki er skylt að greiða laun fyrir hæfingu.
 2. Iðja er fólgin í félagsþjálfun og einföldum vinnuverkefnum. Í iðju er lögð rækt við að ná tengslum við almennan vinnumarkað. Iðja getur orðið varanlegt úrræði. Ekki er skylt að greiða laun fyrir iðju.
 3. Starfshæfing er tímabundið úrræði með þáttöku á almennum vinnumarkaði að markmiði. Ekki er skylt að greiða laun í upphafi starfshæfingar. Að loknu ákveðnu starfsþjálfunartímabili og eftir prófun og mat á vinnuafköstum einstaklingsins, skulu greidd laun, sem verði ákveðið hlutfall launa á almennum vinnumarkaði. Skal um þetta samið sérstaklega.

9.gr.

            Fatlaðir skulu njóta hæfingar, starfshæfingar eða iðju, sbr. 8. gr., eftir því sem best hentar hverjum og einum. Getur sú þjálfun átt sér stað á hæfingar- eða endurhæfingarstöðvum, dagvistarstofnunum fatlaðra, vernduðum vinnustöðum eða á almennum vinnumarkaði; í síðastgreindu tilviki samkvæmt sérstökum, tímabundnum, samningi.

I. KAFLI.

Verndaðir vinnustðir.

10. gr.

            Heimilt er að koma upp vernduðum vinnustöðum til að mæta þörfum fatlaðra fyrir þjálfun, fasta eða tímabundna vinnu.

            Verndaðir vinnustaðir eru þjónustustofnanir fyrir fatlaða sem geta verið reknir af svæðisskrifstofu, sveitarfélögum eða félagasamtökum og er ætlað að stunda framleiðslu og/eða þjónustustarfsemi.

            Verksvið verndaðra vinnustaða er:

 1. Skapa atvinnutækifæri þar sem gerð er krafa um verulegt vinnuframlag gegn launum.
 2. Veita launuð störf þeim sem ekki ráða við sömu kröfur um framleiðni og fram kemur í A lið.
 3. Veita þjálfun, sbr. 8. og 9. gr.

11.gr.

            Þegar fatlaður maður ræður sig á verndaðan vinnustað skal rekstraraðili gera við hann samning þar sem tilgreind eru réttindi hans og skyldur. Nánar tiltekið skulu a.m.k. eftirtalin atriði koma fram í samningi:

 1. Lýsing á starfi og/eða þjálfun.
 2. Vinnutími.
 3. Kaup og kjör.
 4. Uppsagnarfrestur.

Samningar samkvæmt ákvæði þessu skulu gerðir við alla fatlaða einstaklinga á viðkomandi vernduðum vinnustöðum. Eldri samningar, eða starfskjör sem ákvörðuð voru með öðrum hætti, skulu endurskoðaðir innan sex mánaða frá gildistöku reglugerðar þessarar.

            Hlutaðeigandi rekstraraðili skal senda svæðisskrifstofu tilkynningu um alla gerða samninga samkvæmt ákvæði þessu.

12.gr.

            Á vernduðum vinnustöðum skal með skipulögðum hætti endurmeta getu einstaklinga og viðfangsefni í þeim tilgangi að starfgeta nýtist til annarra viðfangsefna eða annarra starfs, t.d. á almennum vinnumarkaði.

VI. KAFLI.

Kostnaður.

13.gr.

            Kostnaður vegna reglugerðar þessarar, þ.á.m. kostnaður af 6. gr., greiðist úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum hverju sinni.

Gildistaka.

14.gr.

            Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðra öðlast gildi þegar í stað. Jafnframt er úr gildi felld reglugerð um verndaða vinnustaði nr.329/1983.

Félagsmálaráðuneytinu, 6. júní 1996.

Páll Pétursson.

Þorgerður Benediktsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica