Samgönguráðuneyti

377/2003

Reglugerð um flugráð. - Brottfallin

Felld brott með:

1. gr.

Flugráð er sjálfstætt ráð sem fer með tvíþætt hlutverk. Annars vegar hefur það lögbundna umsagnaraðild skv. 8. gr. laga nr. 60/1998 um loftferðir og hins vegar er flugráð samgönguráðherra og flugmálastjóra til ráðuneytis um flugmál.


2. gr.

Leita skal umsagnar flugráðs um stefnumarkandi ákvarðanir í flugmálum. Til slíkra ákvarðana heyra t.a.m. skipulagsbreytingar á verksviði flugmálayfirvalda, ráðgerðar breytingar á loftferðalögum og öðrum lögum um flugmál. Kynna skal nýja milliríkjasamninga er varða flugmál fyrir flugráði.


3. gr.

Innan fjárhagsramma sem samgönguráðherra setur, leggur flugmálastjóri drög sín að flugmálaáætlunarkafla samgönguáætlunar og fjögurra ára áætlunar hennar sbr. lög nr. 71/2002 fyrir flugráð í samræmi við ákvæði laga nr. 31/1987 um flugmálaáætlun og fjáröflun til framkvæmda í flugmálum með síðari breytingum.

Að lokinni umfjöllun sinni um tillögur flugmálastjóra sendir flugráð samgönguráðherra umsögn sína.

Samgönguráðherra skal senda flugráði til umsagnar tillögur samgönguráðs að samgönguáætlun og fjögurra ára áætlun hennar áður en þær eru lagðar fram til afgreiðslu Alþingis og skal flugráði ætlaður eðlilegur tími til slíkrar umfjöllunar.

Flugmálastjóri skal ávallt leita umsagnar flugráðs um tillögur að breytingum eða tilfærslum innan flugmálakafla samgönguáætlunar áður en slíkar tillögur eru sendar samgönguráðuneytinu.


4. gr.

Flugmálastjóri skal leggja fjárlagatillögur sínar fyrir flugráð til umsagnar áður en þær eru sendar samgönguráðuneytinu. Jafnframt skal hann leita umsagnar ráðsins um rekstraráætlanir stofnunarinnar ár hvert og gera ráðinu grein fyrir hvernig þær standast.

Þá skal flugmálastjóri ársfjórðungslega kynna rekstraruppgjör Flugmálastjórnar fyrir flugráði og kynna ársreikning stofnunarinnar fyrir lok maí ár hvert.


5. gr.

Drög að reglugerðum er varða flugmál, eru alla jafnan send flugrekendum og öðrum hagsmunaaðilum til umsagnar og hæfilegur frestur veittur til athugasemda. Jafnframt skal senda drögin til flugráðs. Þegar umsagnir hafa borist skulu þær sendar flugráði sem hefur þær til hliðsjónar við gerð umsagnar sinnar til ráðuneytis. Sama verklag skal gilda um útgáfu eða breytingar á gjaldskrám er varða flugmál.


6. gr.

Flugráð skal veita umsögn í þeim málum sem samgönguráðuneyti eða Alþingi senda því til umfjöllunar. Umsagnir flugráðs um mál sem Alþingi beinir til þess skulu jafnframt sendar samgönguráðuneyti.


7. gr.

Flugráð tekur til umfjöllunar önnur þau mál sem ráðið telur rétt að fjalla um, enda falli sú umfjöllun innan ramma 4. mgr. 8. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998, ásamt síðari breytingum.


8. gr.

Flugráð skal funda að jafnaði eigi sjaldnar en einu sinni í mánuði en heimilt er að halda aðeins einn fund á tímabilinu júní til ágúst. Fundi skal að öðru leyti halda eftir þörfum. Formaður boðar fundi og stýrir þeim. Skylt er formanni að boða til fundar, ef samgönguráðherra, flugmálastjóri eða tveir flugráðsmenn óska eftir því.

Flugmálastjóri situr fundi flugráðs með málfrelsi og tillögurétt ásamt þeim starfsmönnum Flugmálastjórnar, sem hann telur ástæðu til eða ráðið óskar eftir. Ennfremur skal fulltrúi samgönguráðuneytisins sem fer með flugmál, sitja fundi flugráðs með málfrelsi og tillögurétt. Flugvallarstjórinn á Keflavíkurflugvelli skal jafnan boðaður á fundi flugráðs þegar málefni sem snerta Keflavíkurflugvöll eru á dagskrá. Flugráð getur eftir því sem ástæða þykir til boðað aðra aðila á einstaka flugráðsfundi.


9. gr.

Flugráð velur ritara innan ráðsins, eða ræður mann sérstaklega til þess að færa í gerðabók ályktanir ráðsins og annað það sem miklu þykir skipta af því sem fram fer á fundum þess. Bóka skal tiltekin ummæli sé þess sérstaklega óskað af fundarmanni. Að loknum fundi skal svo fljótt sem auðið er, fundargerð send flugráðsmönnum, varamönnum þeirra, samgönguráðuneyti, utanríkisráðuneyti og Flugmálastjórn. Fundargerð flugráðs skal undirrituð af formanni ráðsins og ritara þess.

Flugráð skal í síðasta lagi í mars ár hvert skila samgönguráðherra ársskýrslu um störf þess fyrir liðið ár.


10. gr.

Fundarboði í flugráð skal fylgja dagskrá og fundur er lögmætur og ályktunarbær ef hann er löglega boðaður og meirihluti flugráðsmanna sækir fund. Ef flugráðsmaður forfallast skal kveðja til varamann hans. Ályktanir og/eða umsagnir flugráðs eru því aðeins lögmætar, að meirihluti flugráðsmanna taki þátt í atkvæðagreiðslu. Um afl atkvæða fer skv. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 60/1998 um loftferðir.


11. gr.

Flugráð getur skipt með sér verkum eftir því sem henta þykir, t.d. skipað starfshópa til að hafa með höndum undirbúning einstakra mála. Tillögur og ályktanir þeirra skulu lagðar fyrir flugráð til samþykktar.


12. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 8. gr. laga nr. 60/1998 um loftferðir og öðlast þegar gildi. Við gildistöku hennar falla úr gildi starfsreglur fyrir flugráð nr. 235/1976.


Samgönguráðuneytinu, 9. maí 2003.

Sturla Böðvarsson.
Halldór S. Kristjánsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica