Samgönguráðuneyti

189/2002

Reglugerð um leigubifreiðar. - Brottfallin

189/2002

REGLUGERÐ
um leigubifreiðar.

I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til fólksbifreiða sem notaðar eru til leigubifreiðaaksturs. Bifreiðar sem skráðar eru fyrir fleiri en átta farþega falla þó ekki undir reglugerðina.

Leigubifreiðaakstur er þjónustugrein sem telst til almenningssamgangna og felst í að fólksbifreið er seld á leigu ásamt ökumanni fyrir tiltekið gjald til flutnings á farþegum og farangri þeirra. Farangur skal alla jafnan flytja í farangursgeymslu bifreiðar. Eigi er heimilt að flytja farangur án farþega nema um sé að ræða flutning bréfa, skjala, blóma eða neyðarsendinga fyrir sjúkrahús. Rísi ágreiningur um þessi mörk sker Vegagerðin úr.


2. gr.
Auðkenni.

Leigubifreið til fólksflutninga skal auðkennd með þakljósi samkvæmt ákvæðum reglugerðar um gerð og búnað bifreiða. Ennfremur skal leigubifreið, sem ekur frá bifreiðastöð, auðkennd með merki stöðvarinnar neðarlega fyrir miðju í framrúðu og stöðvarnúmeri á áberandi hátt ofarlega vinstra megin í afturrúðu bifreiðar.

Ökumaður leigubifreiðar skal ávallt hafa á sér skilríki skv. síðustu mgr. 6. gr. og 12. gr. sem sýnir að hann hafi tilskilin atvinnuleyfi eða heimild til aksturs í forföllum atvinnuleyfishafa.

Leigubifreiðastjóri skal sýna verðskrá sem í gildi er óski farþegi þess.


3. gr.
Námskeið.

Sá sem fullnægir öllum skilyrðum 5. gr. laga um leigubifreiðar getur fengið atvinnuleyfi. Halda skal námskeið fyrir alla þá sem óska eftir að fá að aka leigubifreið svo sem hér segir:

a. Grunnnámskeið skulu haldin fyrir forfallabílstjóra þegar fyrir liggja a.m.k. 20 staðfestar umsóknir.
b. Námskeið fyrir umsækjendur um atvinnuleyfi skulu haldin er þörf er talin.

Vegagerðin skal halda námskeið fyrir þá umsækjendur um atvinnuleyfi, sem fullnægja tilskyldum skilyrðum og stundað hafa leiguakstur á fólki í að minnsta kosti eitt ár. Jafnframt skal Vegagerðin halda námskeið fyrir forfallabílstjóra sem fullnægja tilskyldum skilyrðum. Vegagerðin skipuleggur slík námskeið, ákveður kennslutilhögun, námsefni, prófreglur og námskeiðsgjald.

Bifreiðastjóri skal, sé þess óskað, leggja fram læknisvottorð frá trúnaðarlækni Vegagerðarinnar sem staðfestir starfshæfni hans með tilliti til heilsufars.


4. gr.
Takmörkunarsvæði.

Takmarkanir á fjölda atvinnuleyfa í leiguakstri gilda á eftirtöldum svæðum:

I. Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ, Seltjarnarnesi, Mosfellsbæ og Bessastaðahreppi. Hámarkstala er 570 atvinnuleyfi.
II. Reykjanesbæ, Miðnes-, Gerða- og Vatnsleysustrandarhreppi. Hámarkstala er 40 atvinnuleyfi.
III. Akureyri. Hámarkstala er 22 atvinnuleyfi.
IV. Selfossi. Hámarkstala er 7 atvinnuleyfi.

Takmörkun er framkvæmd með útgáfu atvinnuleyfa svo sem hámarkstala segir til um. Vegagerðinni er þó heimilt að taka tillit til leyfa, sem liggja inni tímabundið, þó þannig að ekki verði endurúthlutað nema sem nemur helmingi leyfa sem eru innlögð tímabundið skv. 19. gr. Nú eru fleiri atvinnuleyfi í gildi en getur um að framan og er Vegagerðinni þá heimilt að úthluta þriðja hverju leyfi, sem úr gildi fellur, uns réttri tölu er náð.


II. KAFLI
Umsókn, úthlutun og nýting atvinnuleyfa.
5. gr.
Umsóknir um atvinnuleyfi.

Bifreiðastjóri, sem óskar eftir atvinnuleyfi, skal sækja um það á þar til gerðu eyðublaði Vegagerðarinnar. Umsókninni skulu fylgja öll þau gögn og vottorð, sem Vegagerðin gerir kröfu til sem staðfesta að umsækjandi uppfylli skilyrði sem lög nr. 134/2001, um leigubifreiðar kveða á um. Á takmörkunarsvæðum skal umsækjandi leggja fram vottorð um að hann eigi kost á afgreiðslu á bifreiðastöð sem hefur starfsleyfi.

Vegagerðin gefur út atvinnuleyfi til leiguaksturs fólksbifreiða bæði á takmörkunarsvæðum og utan þeirra.


6. gr.
Úthlutunarreglur.

Að uppfylltum öllum skilyrðum veitir Vegagerðin atvinnuleyfi á takmörkunarsvæðum á grundvelli starfsreynslu við akstur leigubifreiðar. Vegagerðinni er heimilt að taka sérstakt tillit til umsókna frá öryrkjum enda hafi þeir meðmæli Öryrkjabandalags Íslands og tryggingayfirlæknis um að leiguakstur henti þeim vel. Öryrkjar fá metna 260 daga í starfsreynslu við mat á atvinnuleyfisumsókn.

Sæki leyfishafi á einu takmörkunarsvæði um atvinnuleyfi á öðru takmörkunarsvæði skal hann jafnsettur öðrum umsækjendum að því er varðar aksturstíma. Atvinnuleyfi hans á svæðinu sem hann flytur frá fellur úr gildi þegar hann leysir nýja leyfið út. Atvinnuleyfishafi sem er með atvinnuleyfi utan takmörkunarsvæðis og sækir um atvinnuleyfi innan takmörkunarsvæðis fær 100 daga fyrir hvert ár metna í starfsreynslu. Vegagerðinni er þó heimilt að óska gagna er staðfesta starfsreynslu umsækjanda ef ástæða þykir til.

Atvinnuleyfi skulu tölusett og skal leyfishafi fá í hendur frumrit atvinnuleyfisins. Vegagerðin geymir samrit atvinnuleyfa.

Vegagerðin skal sjá um útgáfu skírteina til sönnunar á atvinnuleyfi. Þar skal koma fram mynd af leyfishafa, nafn, bifreiðastöð, stöðvarnúmer, atvinnuleyfisnúmer og gildistími.


7. gr.
Nýting atvinnuleyfis.

Leigubifreiðastjóra, sem öðlast atvinnuleyfi, ber að hefja nýtingu þess innan sex mánaða frá útgáfudegi leyfisins. Að öðrum kosti fellur atvinnuleyfið úr gildi. Þegar leyfishafi getur ekki leyst út atvinnuleyfi sitt vegna sjúkdóms eða slyss en gera má ráð fyrir m.v. læknisvottorð trúnaðarlæknis Vegagerðarinnar að hann muni ná fullnægjandi heilsu innan eins og hálfs árs frá því að leyfið var upphaflega veitt má gera undanþágu frá þessari reglu.

Leyfishafi skal nýta atvinnuleyfi sitt með eðlilegum hætti og stunda aksturinn sem aðalatvinnu. Akstur eigin leigubifreiðar telst aðalatvinna leyfishafa þegar hann að jafnaði stundar aksturinn eigi færri en 40 klst. á viku. Frá þessu má þó víkja á svæðum með færri en 10.000 íbúa. Eins má víkja frá þessu gagnvart þeim leyfishöfum sem geta sannanlega sýnt fram á að þeir hafi a.m.k. þriðjung tekna sinna vegna starfa fyrir bifreiðastöðvar eða félög leigubifreiðastjóra.


8. gr.
Framlenging atvinnuleyfis.

Atvinnuleyfi fellur úr gildi við lok 70 ára aldurs leyfishafa, þ.e. daginn áður en hann nær 71 árs aldri. Þó er heimilt að framlengja atvinnuleyfi til eins árs í senn þar til hann nær 76 ára aldri ef hann telst hæfur til að stunda leiguakstur á grundvelli hæfnisprófs og læknisskoðunar trúnaðarlæknis Vegagerðarinnar.

Hyggist atvinnuleyfishafi óska eftir framlengingu á atvinnuleyfi ber honum að sækja um það til Vegagerðarinnar ár hvert. Með umsókn þarf að fylgja læknisvottorð sem gefur ótvírætt til kynna að viðkomandi sé hæfur til að stunda leiguakstur. Læknisvottorð sem fylgir umsókn skal ekki vera eldra en tveggja vikna gamalt. Þá skal fylgja með staðfesting frá Umferðarráði um að viðkomandi sé hæfur til að aka leigubifreið er hann nær 71 árs aldri og eins er hann nær 74 ára aldri.

Umsókn um framlengingu atvinnuleyfis þarf að hafa borist Vegagerðinni a.m.k. einum mánuði fyrir afmælisdag leyfishafa ár hvert en þó eigi fyrr en tveimur mánuðum fyrir afmælisdag.

Atvinnuleyfi skal ekki framlengt ef viðkomandi leyfishafi hefur haft undanþágu frá akstri eigin bifreiðar vegna veikinda í samtals meira en sjö mánuði, síðustu tólf mánuði fyrir afmælisdag þann sem marka myndi ella upphafsdag framlengingar.


9. gr.
Eftirlifandi maki og dánarbú.

Vegagerðinni er heimilt að leyfa eftirlifandi maka leyfishafa að nýta atvinnuleyfi hans í allt að þrjú ár eftir andlát leyfishafa. Eftirlifandi sambýlismaður eða sambýliskona skoðast sem eftirlifandi maki hafi sambúðin staðið yfir í að minnsta kosti tvö ár samfleytt samkvæmt þjóðskrá.

Þegar maki er ekki til staðar er dánarbúi leyfishafa heimilt að nýta atvinnuleyfi hans í allt að þrjá mánuði eftir andlát leyfishafa en þó ekki eftir lok búskipta.


10. gr.
Svipting atvinnuleyfis.

Ef leyfishafi fer ekki að lögum og reglum um leigubifreiðar skal Vegagerðin tilkynna honum um það og veita leyfishafa frest til andmæla. Að loknum fresti til andsvara sem m.a. tekur tillit til gagna þeirra er leyfishafi þarf nauðsynlega að afla til stuðnings máli sínu skal Vegagerðin ákveða framhald málsins. Verði niðurstaða hennar að veita leyfishafa áminningu eða svipta hann leyfi sínu tímabundið eða endanlega skal hún tilkynna honum það og bifreiðastöð þeirri sem hann hefur afgreiðslu hjá. Ábyrgðarbréf skal vera fullnægjandi tilkynning um afgreiðslu máls skv. grein þessari. Um meðferð máls fer eftir ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Nú er bifreiðastjóri sviptur atvinnuleyfi sínu samkvæmt framangreindu og er þá leigubifreiðastöðvum óheimilt að veita honum afgreiðslu á meðan sviptingin varir.


III. KAFLI
Undanþágur frá akstri eigin bifreiðar.
11. gr.
Gagnagrunnur.

Vegagerðin sér um starfsrækslu gagnagrunns sem m.a. geymir upplýsingar um atvinnuleyfi og heimildir til undanþágu frá akstri eigin bifreiðar. Í hann skulu skráðar nauðsynlegar upplýsingar sem liggja verða til grundvallar við útgáfu atvinnuleyfis og réttinda forfallabílstjóra og veitingu undanþágna. Þessar upplýsingar eru m.a. nafn, kennitala, heimilisfang, bifreiðastöð og kallnúmer leigubifreiðastjóra; tegund atvinnuleyfis og hvort það sé virkt eða ekki. Vegagerðin veitir þeim bifreiðastjórafélögum eða bifreiðastöðvum sem hún metur hæfar heimild til að gefa út undanþágur.

Bifreiðastjórafélög og bifreiðastöðvar skulu eingöngu hafa aðgang að þeim upplýsingum sem eru nauðsynlegar vegna útprentunar undanþágna. Vegagerðin gerir kröfur um tiltekinn búnað sem þarf til að geta tengst gagnagrunninum og gefið út undanþágur.

Allar bifreiðastöðvar geta fengið heimild Vegagerðarinnar til lágmarksaðgangs að gagnagrunni til að geta sannreynt réttindi atvinnuleyfishafa og forfallabílstjóra.

Samgönguráðuneytið, að fenginni tillögu Vegagerðarinnar, setur reglur um aðgang að gagnagrunninum og afgreiðslutíma undanþágna. Við skráningu gagna í gagnagrunninn og meðferð þeirra skal gætt ákvæða laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.


12. gr.
Útgáfa skírteina.

Vegagerðin skal sjá um útgáfu skírteina til sönnunar á að ökumaðurinn hafi heimild til aksturs í forföllum atvinnuleyfishafa. Þar skal koma fram nafn ökumanns ásamt mynd, númer skírteinis og gildistími. Endurnýja ber skírteinin á fimm ára fresti.


13. gr.
Undanþágur.

Vegagerðinni er heimilt að fela félögum leigubifreiðastjóra og bifreiðastöðvum að veita leyfishöfum undanþágur frá akstri eigin leigubifreiðar vegna veikinda eða annarra forfalla, orlofs, vaktaskipta á álagstímum og viðgerðar eða endurnýjunar á bifreið.

Í öllum tilfellum er leyfishafi ræður forfallabílstjóra til aksturs skal hann áður fá undanþáguheimild. Áður en undanþága tekur gildi skal leyfishafi sjá til þess að afrit hennar berist viðkomandi bifreiðastöð til upplýsingar fyrir hana og trúnaðarmenn. Bifreiðastöð er óheimilt að afgreiða forfallabílstjóra nema að undanþága hafi borist henni.

Forfallabílstjóri sem akstursheimild tekur til skal hafa afrit undanþágu í viðkomandi bifreið. Leyfishafi varðveitir frumrit undanþágunnar. Útgefandi undanþágunnar skal varðveita eitt afrit.


14. gr.
Form og efni undanþágna.

Undanþágur skulu gefnar út á númeruðum tölvuprentuðum eyðublöðum í fjórriti. Á henni skal koma fram nafn og stöðvarnúmer og bifreiðastöð forfallabílstjóra og leyfishafa. Auk þess skal tilgreina bílnúmer, tegund undanþágu, gildistíma hennar og takmarkanir.

Vegagerðin skal halda saman upplýsingum um allar útgefnar undanþágur frá akstri eigin bifreiðar í gagnagrunni til þess m.a. að unnt sé að staðfesta starfsreynslu við útgáfu atvinnuleyfa.

Heimilt er að veita undanþágur um helgar, helgidaga og aðra frídaga þyki ástæða til. Vegagerðin skal í samráði við félög leigubifreiðastjóra og bifreiðastöðva í hverju umdæmi fyrir sig, samræma þessar undanþágur ásamt tímamörkum.

Undanþágur vegna veikinda og útgerðar skulu þó vara minnst einn sólarhring og hefjast kl. 08.00 eða kl. 20.00. Undanþágur vegna orlofs skulu hefjast kl. 08.00 eða kl. 20.00.


15. gr.
Undanþágur vegna örorku og aldurs.

Þegar leyfishafi nær 65 ára aldri eða er 65% öryrki er honum heimilt að fá undanþágu á bifreið sína frá kl. 20.00 til kl. 08.00 helgarnætur. Má leyfishafi ekki aka á milli kl. 20.00 á föstudegi og kl. 08.00 á sunnudegi þá helgi sem undanþágan stendur yfir.


16. gr.
Undanþágur vegna orlofs.

Leyfishafa er heimilt að gera út bifreið sína 35 daga í orlofi. Við hver 5 ár frá leyfisveitingu í samfelldu starfi bætast 7 dagar við orlofsheimildina. Þó má orlofsútgerð aldrei vara lengur en 63 daga á ári. Útgerð í orlofi er að lágmarki fjórir sólarhringar í hvert sinn nema þegar færri en 4 sólarhringar standa eftir af óteknu orlofi skulu þeir teknir út í einu lagi.

Orlofstímabil hefst 1. maí ár hvert og stendur til 30. apríl árið eftir. Heimilt er að færa allt að 20 orlofsdaga á milli tímabila


17. gr.
Undanþágur vegna veikinda.

Heimilt er Vegagerðinni að veita leyfishafa undanþágu frá akstri eigin leigubifreiðar í veikindum í allt að þrjá mánuði á ári sanni hann það með læknisvottorði að hann sé óvinnufær. Heimilt er að framlengja undanþáguna í allt að eitt ár í senn skv. vottorði trúnaðarlæknis Vegagerðarinnar enda liggi fyrir óvinnufærni. Undanþágan verður ekki veitt lengur en í 4 ár. Sækja þarf um heimildir til undanþágu vegna veikinda á þar til gerðu eyðublaði Vegagerðarinnar.

Þá skal undanþága skv. þessari grein einnig háð því að viðkomandi stundi ekki aðra atvinnu á því tímabili sem hún gildir.


18. gr.
Akstur á móti forfallabílstjóra.

Í undantekningartilfellum má veita leyfishafa heimild til að aka á móti forfallabílstjóra, óski hann þess vegna undangenginna alvarlegra veikinda, frá sunnudegi til föstudags. Leyfishafa er heimilt að aka í allt að sex tíma á dag. Tími þessi skal ákveðinn fyrirfram t.d. kl. 06.00 – 12.00. Forfallabílstjóri má hafa 12 klst. viðveru á dag, t.d. 12.00 – 24.00 mánudag til fimmtudags og frá kl. 20.00 – 08.00 aðfaranætur laugar- og sunnudaga.

Þessi undanþága er þó aldrei heimiluð nema þrjá mánuði á hverju almanaksári.


19. gr.
Innlögn atvinnuleyfa.

Vegagerðin getur heimilað leyfishafa að láta atvinnuleyfið ónotað í allt að fjögur ár á hverju 10 ára tímabili. Ekki er hægt að leggja atvinnuleyfið inn skemur en tvo mánuði.

Óski forseti Íslands, ráðherra eða sendiherra erlends ríkis að ráða leyfishafa sem einkabílstjóra á meðan þeir gegna embætti er þeim leyfishöfum heimilt að leggja atvinnuleyfið inn meðan á starfinu stendur. Framkvæmdastjórum bifreiðastöðva og formönnum bifreiðastjórafélaga, sem hafa a.m.k. þriðjung tekna sinna vegna þeirra starfa, er heimilt að leggja inn atvinnuleyfi sín meðan á starfinu stendur.


20. gr.
Gjaldtaka.

Gjald fyrir undanþágu skal innheimt af þeim sem heimild hefur frá Vegagerðinni til útgáfu undanþágna. Leigubifreiðastöðvar og leigubifreiðastjórafélög geta annast veitingu undanþágna á grundvelli upplýsinga í gagnagrunni sem Vegagerðin heldur.

Greiða skal kr. 700 fyrir hverja undanþágu sem veitt er enda sé gildistími hennar ekki lengri en 31 dagur. Fyrir hvert gildistímabil til viðbótar skal greiða sama gjald. Þeir aðilar sem heimild hafa til útgáfu undanþágna skulu halda tekjum af því sérgreindum frá annarri starfsemi.


21. gr.
Eigin bifreið.

Leyfishöfum er heimilt að fá afnot bifreiðar annars leyfishafa í sama umdæmi vegna endurnýjunar eða viðgerðar á bifreið sinni í allt að sex mánuði. Slíkt ber að tilkynna Vegagerðinni sem uppfærir gagnagrunn samkvæmt því.

Uppfylli leyfishafi ekki 2. tl. 5. gr. laga um leigubifreiðar að þeim tíma liðnum skal honum skylt að leggja inn atvinnuleyfi sitt tímabundið.


22. gr.
Eftirlit.

Bifreiðastöð eða bifreiðastjórafélag, sem hefur heimild Vegagerðarinnar til þess að annast framkvæmd á veitingu undanþágna skal gera það í samráði við Vegagerðina. Fyllsta jafnræðis skal gætt gagnvart leyfishöfum og forfallabílstjórum.

Bifreiðastöðvum, bifreiðastjórafélögum og Vegagerðinni er skylt að hafa eftirlit með því að reglum þessum um undanþágur sé framfylgt.

Bifreiðastjórafélag, sem fengið hefur framangreinda heimild Vegagerðarinnar skal ráða sér trúnaðarmenn. Tilkynna skal til Vegagerðarinnar hverjir eru trúnaðarmenn. Vegagerðin skal útbúa skilríki fyrir trúnaðarmenn. Skulu leyfishafar og forfallabílstjórar sýna trúnaðarmönnum undanþágur sé þess óskað. Telji trúnaðarmaður að lög eða reglur séu brotnar er honum skylt að tilkynna það til Vegagerðarinnar svo fljótt sem auðið er.

Eftirlitsmaður Vegagerðarinnar eða lögregla hafa heimild til að skoða skírteini og undanþáguheimildir atvinnuleyfishafa og forfallabílstjóra hvenær sem þess er óskað.


IV. KAFLI
Bifreiðastöðvar.
23. gr.
Hlutverk og skyldur.

Vegagerðin veitir bifreiðastöðvum starfsleyfi og hefur eftirlit með þjónustu þeirra. Leigubifreiðastöðvar skulu þann 1. júlí 2002 hafa uppfyllt öll ákvæði reglna sem Vegagerðin setur og eru staðfestar af samgönguráðuneytinu, til þess að stöðin geti öðlast starfsleyfi. Bifreiðastöð skal fá heimild til lágmarks aðgangs að gagnagrunni Vegagerðarinnar til þess að staðfesta lögmæti atvinnuleyfa og undanþáguheimilda.

Telji Vegagerðin bifreiðastjórafélag eða bifreiðastöð brjóta gegn reglum þeim er gilda um veitingu undanþágna ber henni að tilkynna viðkomandi félagi eða bifreiðastöð það ásamt áskorun um úrbætur. Verði ekki orðið við áskorun Vegagerðarinnar fellur heimild til útgáfu undanþágna niður. Vegagerðinni er þó heimilt að veita félagi leigubifreiðastjóra eða bifreiðastöð leyfi til útgáfu undanþágna á ný ef fyrir liggur staðfesting á úrbótum.

Leyfishafi skal hafa bifreið sína í afgreiðslu hjá bifreiðastöð sem fengið hefur starfsleyfi Vegagerðarinnar. Bifreiðastöð er óheimilt að taka bifreið í afgreiðslu fyrr en tilkynning um útgáfu atvinnuleyfis eða flutning á milli stöðva hefur borist frá Vegagerðinni. Vilji leyfishafi flytja sig á aðra stöð skal hann segja upp stöðvarleyfi sínu með eins mánaðar fyrirvara.


V. KAFLI
Ýmis ákvæði.
24. gr.
Eðalvagnaþjónusta.

Leyfi til reksturs eðalvagnaþjónustu skal að jafnaði veitt til tveggja ára í senn. Umsækjandi um slíkt leyfi skal uppfylla skilyrði 5. gr. laga um leigubifreiðar. Vegagerðin getur afturkallað leyfi ef leyfishafi brýtur gegn ákvæðum laga og reglugerða um leigubifreiðar.

Þjónusta eðalvagna er sérhæfður leiguakstur fólksbifreiða og fellur undir 2. mgr. 1. gr. laga um leigubifreiðar. Til eðalvagna teljast glæsilegar fólksbifreiðar sem flutt geta 4-8 farþega með skilrúmi á milli bílstjóra og farþegarýmis. Slíkar bifreiðar skulu búnar sérþægindum fyrir farþega. Eðalvagnar skulu ekki stunda almennan leiguakstur, heldur aðeins notaðir til sérstakrar viðhafnarþjónustu.

Eðalvagna má einungis nota til aksturs farþega gegn gjaldi samkvæmt fyrirfram gerðri pöntun á þjónustu þeirra. Eðalvagn skal ávallt leigja út með ökumanni.


25. gr.
Gjaldtaka vegna útgáfu atvinnuleyfa.

Greiða skal kr. 10.000 árgjald fyrir hvert atvinnuleyfi. Gjalddagar skulu vera tveir á ári, sá fyrri 15. mars og sá síðari 15. september og eindagar mánuði síðar. Fyrsti gjalddagi eftir gildistöku laga um leigubifreiðar skal vera 15. maí 2002.


26. gr.
Brot og gildistaka.

Brot gegn reglugerð þessari geta varðað sektum og/eða leyfissviptingu, sbr. 11. gr. laga nr. 134/2001, um leigubifreiðar.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum nr. 134/2001, um leigubifreiðar, öðlast þegar gildi og staðfestist hér með til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um leigubifreiðar, nr. 224/1995, með síðari breytingum og reglur nr. 542/2001 um undanþágur frá akstri eigin bifreiðar.


Bráðabirgðaákvæði.

Þau bifreiðastjórafélög sem hafa starfsleyfi, skv. reglum nr. 542/2001, við gildistöku reglugerðar þessarar, halda starfsleyfi sínu fram til 1. júlí 2002. Önnur bifreiðastjórafélög sem ekki hafa starfsleyfi verða að sækja um það til Vegagerðarinnar.


Samgönguráðuneytinu, 12. mars 2002.

Sturla Böðvarsson.
Jóhann Guðmundsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica