Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

367/2006

Reglugerð um notkun tækja.

I. KAFLI Gildissvið og markmið.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um notkun tækja á vinnustöðum sem lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, gilda um, sbr. þó strangari ákvæði í sérlögum og sérreglum um notkun tækja.

2. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að tryggja öryggi og vernda heilsu starfsmanna þegar þeir nota tæki á vinnustöðum.

3. gr. Orðskýringar.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

  1. tæki: vél eða vélbúnaður, áhöld, verkfæri eða þess háttar búnaður sem notaður er á vinnustöðum;
  2. notkun tækja: hvers konar athafnir sem tengjast tækjum, svo sem að ræsa þau eða stöðva, beiting þeirra, flutningur, viðgerðir, breytingar, viðhald og umhirða, þar með talin þrif;
  3. hættusvæði: öll svæði umhverfis tækin eða innan þeirra þar sem heilsu eða öryggi starfsmanns er hætta búin;
  4. starfsmanni sem er hætta búin: hver sá starfsmaður sem er á hættusvæði;
  5. stjórnandi: starfsmaður eða starfsmenn sem falið er að nota tæki.

II. KAFLI Skyldur atvinnurekenda.

4. gr. Áhættumat.

Atvinnurekandi ber ábyrgð á að gert sé áhættumat á vinnustaðnum, sbr. 65. gr. a. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.

Áhættumatið skal hafa sérstaka hliðsjón af störfum innan fyrirtækis þar sem fyrirsjáanlegt er að heilsu og öryggi þeirra starfsmanna sem sinna þeim sé meiri hætta búin en öðrum vegna notkunar tækja.

5. gr. Forvarnir.

Atvinnurekandi skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að tæki sem starfsmönnum er ætlað að nota innan fyrirtækisins hæfi verkinu sem inna skal af hendi eða sé hæfilega lagað að verkinu, þannig að starfsmenn geti notað tækið án þess að öryggi þeirra eða heilsu sé hætta búin.

Við val á tæki skal atvinnurekandi hafa til hliðsjónar þau sérstöku vinnuskilyrði, aðstæður og áhættu sem fyrir hendi er innan vinnustaðar, þar á meðal áhættu á vinnusvæði og þá áhættu sem notkun viðkomandi tækis hefur í för með sér.

Þegar ekki er að fullu unnt að tryggja að starfsmenn geti notað tæki án þess að öryggi og heilsu þeirra sé hætta búin, skal atvinnurekandi gera nauðsynlegar ráðstafanir til að draga úr áhættunni eins og kostur er.

6. gr. Tæki sem sérstök áhætta fylgir.

Þegar líkur eru á að notkun tækis hafi í för með sér sérstaka áhættu fyrir öryggi og heilsu starfsmanna skal atvinnurekandi gera nauðsynlegar ráðstafanir sem tryggja að:

  1. notkun tækis sé einungis á hendi þeirra starfsmanna sem falin hefur verið notkun þess;
  2. viðgerðir, breytingar, viðhald og umhirða tækis sé á hendi þeirra starfsmanna sem sérstaklega eru þjálfaðir til þeirra starfa.

7. gr. Upplýsingar til starfsmanna.

Atvinnurekandi skal meðal annars upplýsa starfsmenn sína um notkunarskilyrði tækja, óvenjulegar aðstæður sem eru fyrirsjáanlegar og þá reynslu sem fengist hefur við notkun hlutaðeigandi tækja. Enn fremur skal atvinnurekandi sjá til þess að skriflegar leiðbeiningar, eftir því sem við á, liggi frammi á vinnustaðnum þar sem framangreindar upplýsingar skulu koma fram.

Atvinnurekandi skal jafnframt upplýsa starfsmenn um þau tæki sem eru á vinnustaðnum og kunna að hafa áhrif á önnur tæki sem staðsett eru í nánasta starfsumhverfi starfsmannanna, án tillits til þess hvort þeir noti sjálfir umrædd tæki.

Upplýsingar skv. 1. og 2. mgr. skulu settar fram með þeim hætti að starfsmenn geti skilið efni þeirra.

8. gr. Þjálfun starfsmanna.

Atvinnurekandi skal sjá um að starfsmenn fái nauðsynlega kennslu og þjálfun við að framkvæma störf sín á þann hátt að ekki stafi hætta af. Starfsmenn skulu meðal annars fá þjálfun í viðbrögðum við hættu sem notkun tækis kann að hafa í för með sér.

Atvinnurekandi skal jafnframt tryggja að starfsmönnum sem hafa verið faldar viðgerðir, breytingar, viðhald eða umhirða tækja, sbr. b-lið 6. gr. reglugerðar þessarar, fái nægjanlega starfsþjálfun.

9. gr. Samráð við starfsmenn um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi.

Atvinnurekandi skal hafa samráð við starfsmenn eða fulltrúa þeirra og tryggja að samstarf um aðbúnað, hollustuhætti og öryggismál á því sviði sem reglugerð þessi tekur til verði sem best.

Atvinnurekandi skal jafnframt taka fullt tillit til vinnuaðstæðna starfsmanna og líkamsstöðu við notkun tækja þegar ákvæðum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggismál er framfylgt. Enn fremur ber honum að líta til meginreglna vinnuvistfræðinnar.

10. gr. Eftirlit með tækjum á vinnustað.

Þegar uppsetning tækis getur haft áhrif á öryggisskilyrði við notkun tækis á vinnustað skal atvinnurekandi sjá til þess að tækið sé skoðað áður en það er notað í fyrsta skipti eftir uppsetningu þess og áður en tækið er tekið í notkun á nýjum vinnustað eða í nýju húsnæði. Slík skoðun skal gerð í því skyni að tryggja að tækið sé rétt sett saman og að það starfi eðlilega. Skoðunin skal framkvæmd af starfsmanni eða öðrum aðila sem hefur sérþekkingu á því sviði.

Þegar öryggi tækja kann að minnka við tilteknar aðstæður þannig að áhætta á vinnustað eykst skal atvinnurekandi sjá til þess að sá sem annast skoðun tækis skv. 1. mgr. skoði og þegar við á prófi tækið með reglulegu millibili til að tryggja að öryggis og hollustuhátta sé gætt og unnt sé að gera við skemmdir í tíma. Enn fremur skulu fara fram sérstakar skoðanir í þeim tilvikum þegar atvik eiga sér stað sem geta haft áhrif á öryggi tækjanna, svo sem ef breytingar á tæki hafa verið gerðar, slys eða náttúruhamfarir hafa átt sér stað eða tækin hafa staðið lengi ónotuð.

Þegar tæki er notað utan fyrirtækis skulu gögn sem staðfesta síðustu skoðun fylgja því.

Sá sem sinnir skoðun tækis skv. 1. mgr. skal halda skrá yfir niðurstöður skoðana tækja samkvæmt ákvæði þessu og skulu þær vera aðgengilegar starfsmönnum Vinnueftirlits ríkisins, sbr. 11. gr.

III. KAFLI Ýmis ákvæði.

11. gr. Eftirlit.

Vinnueftirlit ríkisins hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar, sbr. 82. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.

12. gr. Kæruheimild.

Um kæruheimild á grundvelli reglugerðar þessarar fer skv. 98. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.

13. gr. Refsiákvæði.

Brot á ákvæðum reglugerðar þessarar geta varðað ákvæði 99. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.

IV. KAFLI Gildistaka.

14. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 38., 47., 65. gr., 65 gr. a og 66. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, að fengnum tillögum stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, til innleiðingar á tilskipun nr. 89/655/EBE, um lágmarkskröfur varðandi öryggi og hollustu er starfsmenn nota tæki á vinnustöðum, tilskipun nr. 95/63/EB, um breytingu á tilskipun nr. 89/655/EBE, um lágmarkskröfur varðandi öryggi og hollustu er starfsmenn nota tæki á vinnustöðum, sem vísað er til í 10. lið XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 66/1996, og tilskipun nr. 2001/45/EB, um breytingu á tilskipun ráðsins nr. 89/655/EB, um lágmarkskröfur varðandi öryggi og hollustu er starfsmenn nota tæki á vinnustöðum, sem vísað er til í 10. lið XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 39/2002.

15. gr.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi. Enn fremur fellur úr gildi reglugerð nr. 431/1997, um notkun tækja.

Félagsmálaráðuneytinu, 18. apríl 2006.

Jón Kristjánsson.

Hanna Sigr. Gunnsteinsdóttir.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.