Umhverfisráðuneyti

366/2003

Reglugerð um sykur og sykurvörur.

1. gr.
Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um sykur og sykurvörur sem skilgreindar eru í viðauka reglugerðarinnar. Hún gildir þó ekki um vörur sem þar eru skilgreindar þegar um er að ræða flórsykur, kandíssykur eða vörur sem ætlaðar eru til útflutnings til ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins.


2. gr.
Vöruheiti og merkingar.

Auk þess að uppfylla ákvæði reglugerðar nr. 588/1993 um merkingu, auglýsingu og kynningu matvæla með síðari breytingum skulu þær vörur sem skilgreindar eru í A-hluta viðauka 1 uppfylla eftirfarandi skilyrði:

a) Þau vöruheiti sem skráð eru í A-hluta viðauka 1 gilda einungis um þær vörur sem þar eru skilgreindar og skal nota þau í viðskiptum til að auðkenna þær, sbr. þó e-lið. Vöruheiti í 2. tölulið A-hluta viðauka 1 má einnig nota til að auðkenna þær vörur sem tilgreindar eru í 3. tölulið sama viðauka.
Auk framangreindra vöruheita er heimilt að:
- nota hefðbundið heiti til viðbótar við vöruheiti í A-hluta viðauka 1, að því tilskildu að það villi ekki um fyrir neytendum;
- nota vöruheitin í A-hluta viðauka 1 sem hluta af hefðbundnu heiti á annarri vörutegund að því tilskildu að það villi ekki um fyrir neytendum.
b) Þegar um er að ræða vörur í neytendaumbúðum sem eru undir 20 g þarf ekki að tilgreina nettóþyngd á umbúðamerkingu.
c) Þegar um er að ræða sykurslausn, lausn invertsykurs og invertsíróp skal tilgreina á umbúðamerkingu magn þurrefnis og invertsykurs.
d) Tilgreina skal á umbúðamerkingu heitið "kristallað" þegar invertsíróp inniheldur kristalla í lausninni.
e) Þegar vörurnar sem um getur í 7. og 8. tl. A-hluta viðauka 1 innihalda meira en 5% af frúktósa, miðað við þurrefni, skulu þær, að því er varðar vöruheiti þeirra og innihaldsefni, merktar annars vegar "frúktósa-glúkósasíróp" eða "glúkósa-frúktósasíróp" og hins vegar "þurrkað glúkósa-frúktósasíróp" eða "þurrkað frúktósa-glúkósasíróp", eftir því hvort glúkósa- eða frúktósaefnisþátturinn er stærri.


3. gr.
Ábyrgð framleiðenda.

Innlendur framleiðandi eða innflytjandi er ábyrgur fyrir því að þær vörur sem fram koma í viðauka 1 séu í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar.


4. gr.
Eftirlit.

Heilbrigðisnefndir hafa undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar, hver á sínum stað, eftirlit með því að ákvæðum þessarar reglugerðar sé framfylgt.


5. gr.
Þvingunarúrræði.

Með brot gegn reglugerð þessari skal farið samkvæmt lögum nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breytingum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.


6. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 18. gr. laga nr. 93/1995 um matvæli. Einnig var höfð hliðsjón af ákvæðum samningsins um Evrópskt efnahagssvæði, sem vísað er til í 7. tölul., XII. kafla, II. viðauka (tilskipun 2001/111/EB um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi tilteknar sykurvörur til manneldis).

Reglugerðin tekur gildi við birtingu og frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 426/1995 um sykur og sykurvörur.


Ákvæði til bráðabirgða.
I.

Vegna þeirra vörutegunda sem eru hér á markaði við gildistöku þessarar reglugerðar og sem ekki eru í samræmi við ákvæði hennar er veittur frestur til 12. júlí 2004 til að koma á nauðsynlegum breytingum. Markaðssetning vara, sem samræmast ekki þessari reglugerð en eru merktar fyrir 12. júlí 2004, er heimil uns birgðir eru þrotnar.


Umhverfisráðuneytinu, 9. maí 2003.

F. h. r.
Magnús Jóhannesson.
Sigríður Auður Arnardóttir.VIÐAUKI 1

A-hluti: Vöruheiti og skilgreiningar.
1. Hálfunninn sykur.

Hreinsaður og kristallaður gæðasúkrósi sem einkennist af eftirfarandi:

a) skautun >= 99,5° Z
b) invert sykur <= 0,1% miðað við þyngd
c) efnistap við þurrkun <= 0,1% miðað við þyngd

2. Sykur eða hvítur sykur.

Hreinsaður og kristallaður gæðasúkrósi sem einkennist af eftirfarandi:

a) skautun >= 99,7° Z
b) invert sykur <= 0,04% miðað við þyngd
c) efnistap við þurrkun <= 0,06% miðað við þyngd
d) litargerð <= níu punktar (sbr. a-lið B-hluta)

3. Fínhreinsaður sykur.

Vara sem hefur sömu einkenni og um getur í a-, b-, og c-lið 2. töluliðar með heildarpunktafjölda sem er ákvarðaður í samræmi við ákvæði B-hluta, mest 8 og ekki fleiri en:
- 4 fyrir litargerð
- 6 fyrir öskuinnihald
- 3 fyrir lit lausnar

4. Sykurlausn (*).
Vatnslausn súkrósa sem einkennist af eftirfarandi:

a) þurrefni >= 62% miðað við þyngd
b) invertsykur
(hlutfall frúktósa og glúkósa 1,0 ± 0,2)
<= 3% miðað við þyngd þurrefnis
c) aska (mælt með leiðni) <= 0,1% miðað við þyngd þurrefnis (sbr. b-lið B-hluta, viðauka 1)
d) litur í lausn <= 45-ICUMSA einingar (sbr. B-hluta viðauka 1)

5. Lausn invert-sykurs (*).

Vatnslausn súkrósa (að hluta til vatnsrofin) sem einkennist af eftirfarandi:

a) þurrefni >= 62% miðað við þyngd
b) invertsykur (hlutfall frúktósa
og glúkósa 1 ± 0,1)
Frá 3% og upp í 50% miðað við þyngd þurrefnis
c) aska (mælt með leiðni) <= 0,4% miðað við þyngd þurrefnis ákvarðar í samræði b-lið B-hluta

6. Umsnúið síróp (Invertsíróp) (*).

Vatnslausn, hugsanlega kristölluð, af súkrósa sem er að hluta til vatnsrofin, þar sem magn invertsykurs er meira en 50% af þurrefni og lausnin að öðru leyti í samræmi við a- og c-lið 5. töluliðar.

7. Glúkósasíróp.
Hreinsuð og þykkt vatnslausn sakkaríða, sem unnar eru úr sterkju og/eða inúlíni, og einkennist af eftirfarandi:

a) þurrefni >= 70% miðað við þyngd
b) dextrósajafngildi >= 20% miðað við þyngd þurrefnis, gefið upp sem D-glúkósi
c) aska (súlfateruð) <= 1% miðað við þyngd þurrefnis

8. Þurrkað glúkósasíróp.

Glúkósasíróp þurrkað að hluta með a.m.k. 93% þurrefni og að öðru leyti í samræmi við b- og c-lið 7. töluliðar.

9. Dextrósamónóhýdrat.
Hreinsaður og kristallaður glúkósi, kristallaður með einni sameind af vatni og sem einkennist af eftirfarandi:

a) dextrósi (D-glúkósi) >= 99,5% miðað við þyngd þurrefnis
b) þurrefni >= 90% miðað við þyngd
c) aska (súlfateruð) <= 0,25% miðað við þyngd þurrefnis

10. Dextrósaanhýdríð.

Hreinsaður og kristallaður glúkósi sem er ekki kristallaður með vatni, með a.m.k. 98% þurrefni og að öðru leyti í samræmi við a- og c-lið 9. töluliðar.

11. Frúktósi.
Hreinsaður og kristallaður D-frúktósi, sem einkennist af eftirfarandi:

Innihald frúktósa >= 98%
Innihaldi glúkósa að hámarki 0.5% <=0,5% miðað við þyngd
Efnistapi við þurrkun <=0,1% miðað við þyngd
Aska (mælt með leiðni) ákvarðað í samræmi við b-lið, B-hluta

(*) Orðið "hvítur" er eingöngu heimilt að nota um:
a) Sykurlausnir þegar litur þeirra fer ekki yfir 25 ICUMSA-einingar (International Commission for Uniform Methods of Sugar Analysis) sbr. c-lið B-hluta.
b) Invertsykurlausn og invertsíróp, sem inniheldur ekki meira en 0,1% ösku (mælt með leiðni) og litur lausnarinnar fer ekki yfir 25 ICUMSA-einingar (með aðferð tilgreind í c-lið B-hluta).


B – hluti: Litargerð, öskuinnihald og litur lausna af hvítum og fínhreinsuðum hvítum sykri, sem er skilgreindur í 2. og 3. tölulið A-hluta.


a) Litagerð.
Einn punktur svarar til 0,5 eininga, sem ákvarðaðar eru samkvæmt 2. mgr. A-hluta í viðauka við reglugerð Evrópusambandsins nr. 1265/69/EBE frá 1. júlí 1969, þar sem kveðið er á um aðferðir til að ákvarða gæði sykurs sem keyptur er fyrir milligöngu umboðsaðila (Stjtíð. EB l 163, 1.7.1969, bls. 1).
b) Aska.
Einn punktur svarar til 0,0018%, ákvarðað með aðferðum Alþjóðanefndarinnar um samræmdar aðferðir í sykurgreiningum (ICUMSA) sem um getur í 1. mgr. A-hluta í viðauka við reglugerð nr. 1265/69/EBE.
c) Litur.
Einn punktur svarar til allt að 7,5 eininga, sem ákvarðaðar eru með ICUMSA-aðferðinni sem um getur í 3. mgr. A-hluta í viðauka við reglugerð nr. 1265/69/EBE.

Reglugerð sem fellur brott:


Þetta vefsvæði byggir á Eplica