Menntamálaráðuneyti

362/1995

Reglugerð um Vetraríþróttamiðstöð Íslands.

I. KAFLI 

 Hlutverk.

1. gr.

Vetraríþróttamiðstöð Íslands, VMÍ, er þjónustustofnun sem hefur það meginhlutverk að efla vetraríþróttir, íþróttafræðslu og útivist og stuðla þannig að heilbrigðu lífi og heilsurækt meðal almennings, svo sem skólafólks, fatlaðra og keppnis- og afreksfólks í íþróttum með hefðbundnar vetraríþróttir, íþróttafræðslu og útivist að leiðarljósi.

II. KAFLI 

 Markmið.

2. gr.

Vetraríþróttamiðstöð Íslands veitir einstaklingum og hópum aðstöðu til æfinga, keppni, funda, námskeiða og ráðstefnuhalds og veitir þjónustu á þessu sviði.

Vetraríþróttamiðstöðin leiðbeinir og fræðir um vetraríþróttir, heilsurækt og félagsmál á eigin vegum eða í samvinnu við aðra, og hvetur einstaklinga og félagasamtök til aukinnar þátttöku og samstarfs í vetraríþróttum, jafnt fyrir almenning sem keppnisfólk.

III. KAFLI 

 Samstarf.

3. gr.

Starfsemi og uppbygging VMÍ er samstarfsverkefni menntamálaráðuneytisins, Akureyrarbæjar, Íþróttasambands Íslands og Íþróttabandalags Akureyrar, samkvæmt þessari reglugerð.

IV. KAFLI 

 Stjórnun.

4. gr.

Menntamálaráðherra skipar 5 menn í stjórn VMÍ til fjögurra ára í senn að fengnum tillögum frá eftirtöldum aðilum: Menntamálaráðuneyti 1 fulltrúi; Akureyrarbær 2 fulltrúar; Íþróttasamband Íslands 1 fulltrúi; Íþróttabandalag Akureyrar 1 fulltrúi. Annar fulltrúi Akureyrarbæjar er formaður stjórnar og fulltrúi menntamálaráðuneytis varaformaður.

5. gr.

Hlutverk stjórnar er að móta markmið og stefnu VMÍ, vinna að uppbyggingu starfseminnar og vera til ráðgjafar um uppbyggingu mannvirkja fyrir Vetraríþróttamiðstöð Íslands.

Stjórnin skal gera samninga um afnot af landi, íþróttamannvirkjum, húsnæði og annarri aðstöðu sem starfsemin þarfnast. Jafnframt verðleggur stjórnin þátttökugjöld og þjónustu sem hún lætur í té sbr. gr. 1-2.

Stjórninni er heimilt að ráða starfsmann og setja honum starfslýsingu.

V. KAFLI 

 Rekstur.

6. gr.

Stjórnstöð VMÍ er á Akureyri, enda miðast reksturinn við að nýta þau mannvirki sem þar eru ætluð til vetraríþrótta, auk annarra íþróttamannvirkja, skóla og félagsaðstöðu samkvæmt samningi þar um.

7. gr.

Tekjur VMÍ eru eftirfarandi:

Tekjur af seldri aðstöðu og þjónustu.

Framlög frá íþróttahreyfingunni.

Framlög frá Akureyrarbæ samkvæmt ákvörðun bæjarstjórnar.

Framlög frá ríkissjóði samkvæmt því sem stjórnvöld ákveða hverju sinni.

Framlög frá öðrum aðilum.

8. gr.

Reikningsár VMÍ skal vera almanaksárið. Ársreikningur VMÍ, endurskoðaður af löggiltum endurskoðanda, skal lagður fyrir stjórnina eigi síðar en 31. mars ár hvert og sendur ríkisendurskoðun.

Menntamálaráðuneytið, 18. mars 1995.

Ólafur G. Einarsson.

Guðríður Sigurðardóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica