Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

357/2005

Reglugerð um heimild Tryggingastofnunar ríkisins til að framlengja bótagreiðslur þrátt fyrir dvöl á sjúkrahúsi eða stofnun fyrir aldraða. - Brottfallin

1. gr.
Bætur frá Tryggingastofnun ríkisins falla niður.

Ef elli- eða örorkulífeyrisþegi dvelst lengur en í mánuð samfellt á sjúkrahúsi sem er á föstum fjárlögum fellur lífeyrir hans og bætur honum tengdar niður ef vistin hefur varað lengur en sex mánuði undanfarna tólf mánuði. Hið sama gildir þegar um er að ræða dvöl á hjúkrunarheimili fyrir aldraða eða hjúkrunarrými á öldrunarstofnunum sem ekki eru á föstum fjárlögum. Ef ljóst er frá upphafi að um varanlega dvöl á hjúkrunarheimili eða í hjúkrunarrými öldrunarstofnunar er að ræða falla bætur niður frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir upphaf dvalar.

Lífeyrir samkvæmt lögum um almannatryggingar og bætur honum tengdar til vistmanna sem eru á dvalarheimilum fyrir aldraða sem ekki eru á föstum fjárlögum fellur niður frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir upphaf dvalar.

Þrátt fyrir tímamörk í 1. og 2. mgr. er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að greiða lífeyri og bætur honum tengdar þegar sérstaklega stendur á í allt að sex mánuði til viðbótar í samræmi við reglugerð þessa. Við mat á framlengingu á bótagreiðslum skal hafa hliðsjón af tekjum skv. 10. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, með síðari breytingum.


2. gr.
Mánaðarleg greiðslubyrði.

Framlenging á bótagreiðslum skv. 3. mgr. 1. gr. skal heimiluð ef mánaðarleg greiðslubyrði umsækjanda er hærri en mánaðarlegar tekjur hans að frádreginni staðgreiðslu skatta og eftir að bætur frá Tryggingastofnun ríkisins hafa fallið niður.


3. gr.
Tekjur.

Ef heildartekjur umsækjanda eru lægri en sem nemur óskertum grunnlífeyri, tekjutryggingu og tekjutryggingarauka einhleypings skal heimila framlengingu skv. 3. mgr. 1. gr. Sé umsækjandi í hjónabandi eða skráðri sambúð er heimilt að framlengja bótagreiðslur ef sameiginlegar tekjur umsækjanda og maka hans eða sambúðaraðila eru ekki hærri en sem nemur tvöföldum grunnlífeyri, tekjutryggingu og tekjutryggingarauka á mánuði.


4. gr.
Eignir í peningum eða verðbréfum.

Framlengja skal bótagreiðslur skv. 3. mgr. 1. gr. ef umsækjandi eða maki eða sambúðaraðili hans á eignir í peningum eða verðbréfum undir þeim viðmiðunarmörkum sem notuð eru hverju sinni vegna frekari uppbótar á lífeyri skv. 10. gr. laga nr. 118/1993 um félagslega aðstoð, með síðari breytingum.


5. gr.
Sérstakar aðstæður.

Við afgreiðslu umsókna um framlengingu bótagreiðslna skv. 3. mgr. 1. gr. er heimilt að taka tillit til sérstakra aðstæðna umsækjanda og maka eða sambúðaraðila hans. Skal einkum litið til þess hvort framlenging bótagreiðslna sé nauðsynleg vegna afborgana eða annars rekstrarkostnaðar húsnæðis.


6. gr.
Framlenging í þrjá mánuði.

Ákvörðun um framlengingu bótagreiðslna skv. 3. mgr. 1. gr. getur náð til allt að þriggja mánaða í senn. Ef óskað er frekari framlengingar skal sækja um það sérstaklega.


7. gr.
Hvenær er hægt að leggja fram umsókn aftur.

Sá sem fær lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins og hefur þegar fengið framlengingu bótagreiðslna í samtals sex mánuði á kost á að sækja um framlengingu að nýju að liðnu einu ári frá samþykkt síðustu framlengingar.


8. gr.
Brottfall framlengingar.

Hafi framlengingartími bótagreiðslna ekki verið nýttur til fullnustu, t.d. vegna útskriftar af stofnun, fellur sá tími sem eftir er niður einu ári eftir að framlenging var veitt.


9. gr.
Umsóknir.

Sækja skal um framlengingu á eyðublöðum sem Tryggingastofnun ríkisins leggur til. Í umsókn skal gerð grein fyrir áætluðum legutíma, fjárhagslegum og félagslegum aðstæðum umsækjanda og öðrum þeim atriðum sem máli geta skipt varðandi afgreiðslu umsóknar.


10. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í lokamálsgrein 43. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, með síðari breytingum, og 29. gr., sbr. 21. gr., laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi. Frá sama tíma falla brott reglur tryggingaráðs nr. 968/2001 um afgreiðslu umsókna um framlengingu bóta, þrátt fyrir sjúkrahúsvist skv. 5. mgr. 43. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar.


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, 29. mars 2005.

Jón Kristjánsson.
Davíð Á. Gunnarsson.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica