Viðskiptaráðuneyti

351/1993

Reglugerð um starfsemi faggiltra prófunarstofa.

Gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um almenn skilyrði fyrir starfsemi prófunarstofa sem faggiltar eru af faggildingardeild Löggildingarstofunnar.

Notkun þessarra reglna á að tryggja að faggilt prófunarstofa uppfylli hið minnsta ákvæði sem lýst er í staðlinum ÍST EN 45001 Almennar reglur um rekstur prófanastofa ásamt viðeigandi ákvæðum sem lýst er í ÍST EN 45002 Almennar reglur um mat á prófanastofum og ISO/IEC Leiðarvísi 25, Almennar kröfur um hæfni kvörðunar- og prófunarstofa.

2. gr.

Í reglugerð þessari hafa eftirfarandi orð merkingu sem hér greinir:

Prófun: Tæknileg framkvæmd sem felur í sér ákvörðun á einu eða fleiri einkennum tiltekinnar vöru, ferlis eða þjónustu samkvæmt fyrir fram tilgreindum verklagsreglum.

Prófunarstofa: Aðili sem framkvæmir prófanir.

Prófunarskýrsla: Skj al þar sem settar eru fram niðurstöður prófunar og aðrar upplýsingar sem tengjast prófun.

Kvörðun: Röð aðgerða sem staðfesta, við tilgreindar aðstæður, sambandið milli gilda sem mælitæki eða mælibúnaður sýnir eða gilda sem áþreifanlegur mælikvarði táknar og tilsvarandi þekktra gilda þess sem mælt er

Kvörðunarstofa: Prófunarstofa sem framkvæmir kvarðanir.

Vísun í staðla.

3. gr.

Faggilt prófunarstofa skal uppfylla öll ákvæði í íslenska staðlinum ÍST EN 45001, Almennar reglur um rekstur prófanastofa.

4. gr.

Faggilt prófunarstofa skal uppfylla öll ákvæði í eftirtöldum köflum í íslenska staðlinum ÍST EN 45002, Almennar reglur um mat á prófanastofum:

- kafla 4 um umfang faggildingar;

- kafla 10 um hæfnisprófanir;

- kafla 14 um undirverktaka.

Ýmis ákvæði

5. gr.

Faggilt prófunarstofa skal uppfylla eftirfarandi ákvæði í ISO/IEC Leiðarvísi 25, Almennar kröfur um hæfni kvörðunar- og prófunarstofa:

- kafla 4.2 h um staðgengla;

- kafla 5.4 um rýni gæðakerfisins;

- kafla 5.6 um ýmsar athuganir;

- kafla 8.3 um merkingu búnaðar og efna;

- kafla 9.1 um kvörðun;

- kafla 10.2 um aðferðir;

- kafla 10.7 um tölvur og sjálfvirkan búnað;

- kafla 11.2 um móttöku prófhluta;

- kafla 13.2 um auðkenni og ástand prófhluta;

- kafla 13.3 um niðurstöður frá undirverktökum;

- kafla 13.7 um flutning gagna til viðskiptamanna;

- kafla 14 um undirverktaka.

6. gr.

Prófunarstofa skal uppfylla ákvæði 4. kafla staðalsins ÍST EN 45001 um hlutleysi, sjálfstæði og ráðvendni. Þegar um er að ræða prófunarstofur á sviði lögmælifræði eða annarra skyldubundinna prófana skal enginn einn aðili eða hópur aðila sem hefur hagsmuni af niðurstöðum skoðana eða prófana eiga meira en 40% af heild eða hafa ráðandi atkvæðaafl í stjórn prófunarstofunnar, eignarhaldsfélögum eða öðrum tengdum félögum.

7. gr.

Faggilt prófunarstofa hefur rétt á að nota faggildingarmerki. Merkið má einungis nota á skjölum sem að öllu leyti eða hluta varða prófunarstarfsemina.

Faggilt prófunarstofa getur aldrei framselt rétt til notkunar faggildingarmerkis.

8. gr.

Faggilding gildir til allt að fimm ára og skal í síðasta lagi að þeim tíma liðnum fara fram mat á prófunarstofu, eins og um fyrsta mat sé að ræða. Eftirlit af hálfu faggildingardeildar Löggildingarstofunnar með faggiltri prófunarstofu skal fara fram a.m.k. einu sinni á ári.

9. gr.

Þegar faggilt prófunarstofa vísar til faggildingar sinnar skal hún tryggja að enginn vafi sé á umfangi faggildingarinnar né því í hverju hún felst.

Faggilt prófunarstofa skal tilkynna faggildingardeild Löggildingarstofunnar skriflega og án tafar allar þær breytingar og frávik sem geta valdið því að faggildingarkröfur séu ekki uppfylltar. Prófunarstofan skal tilnefna starfsmann sem annast samskipti við faggildingardeild Löggildingarstofunnar.

Ef faggilt prófunarstofa uppfyllir ekki gildandi reglur, þá er faggildingardeild Löggildingarstofunnar heimilt að krefja prófunarstofuna tafarlausra úrbóta, breyta umfangi faggildingar eða afturkalla faggildingu. Sé faggilding prófunarstofu afturkölluð, skal hún í framhaldi af því þegar hætta allri tilvísun til áður faggiltrar stöðu sinnar. Kostnaður sem af hlýst greiðist af prófunarstofunni.

10. gr.

Ef faggilt prófunarstofa óskar eftir að segja faggildingu sinni upp, þá skal það gert með a.m.k. þriggja mánaða fyrirvara. Sé uppsögn tilkynnt með skemmri fyrirvara er prófunarstofu skylt að greiða gjald sem nemur 50% af síðast greiddu eftirlitsgjaldi.

11. gr.

Kostnað við faggildingu, árlegt eftirlit o.fl. sem tilgreindur er í gjaldskrá Löggildingarstofunnar, og viðskiptaráðherra setur, skal prófunarstofan greiða á gjalddaga.

12. gr.

Faggilt prófunarstofa skal hafa fullnægjandi ábyrgðartryggingar.

Gildistaka.

13. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er skv. 12. gr. laga nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu, öðlast gildi þegar við birtingu.

Viðskiptaráðuneytið, 20. ágúst 1993.

F. h. r.

Björn Friðfinnsson.

Sveinn Þorgrímsson


Þetta vefsvæði byggir á Eplica