Samgönguráðuneyti

348/2007

Reglugerð um notkun öryggis- og verndarbúnaðar í ökutækjum.

1. gr.

Markmið.

Reglugerð þessari er ætlað að stuðla að auknu öryggi ökumanna og farþega með því að kveða á um skyldubundna notkun öryggis- og verndarbúnaðar í ökutækjum sem ætluð eru til aksturs á vegum.

Sérstaklega skal þess gætt að öryggis- og verndarbúnaður fyrir börn hæfi þeim miðað við þyngd þeirra og stærð og sé í samræmi við gerð og búnað viðkomandi ökutækis.

2. gr.

Skilgreiningar.

Öryggisbelti: Samsetning af ólum með lássylgju, stillingarbúnaði og festingum sem unnt er að festa við vélknúið ökutæki, hannað til að draga úr hættu á áverkum á þeim er það notar við árekstur eða þegar mjög snögglega er dregið úr hraða ökutækis þannig að notandinn hreyfist úr stað.

Öryggis- og verndarbúnaður barna í ökutækjum:

 1. Barnabílstóll, sem festur er í ökutæki með beltum ökutækis eða barnabílstóll inn­byggður í sæti ökutækis. Belti barnabílstólsins festir barnið í stólnum. Barna­bílstólar eru ýmist gerðir fyrir aftur- eða framvísandi stöðu.
 2. Beltispúði með eða án baks. Beltispúðinn og barnið er fest í ökutækið með belti ökutækis. Beltispúðar eru eingöngu gerðir fyrir framvísandi stöðu.
 3. Annar viðurkenndur öryggis- og verndarbúnaður sem ætlað er að tryggja öryggi barna í ökutækjum á ferð.

3. gr.

Notkun öryggisbelta í ökutækjum.

Sá sem situr í sæti ökutækis, sem búið er öryggisbelti, skal nota það meðan ökutæki er á ferð, með þeim undantekningum sem leiðir af ákvæðum 5. gr.

Ökumaður skal sjá til þess að farþegi yngri en 15 ára noti lögbundinn öryggis- og verndarbúnað þegar ökutæki er á ferð.

4. gr.

Upplýsingar um notkun öryggisbelta í hópbifreiðum.

Farþegar hópbifreiðar skulu fá upplýsingar um skyldu til að nota öryggisbelti í upphafi ferðar frá ökumanni hópbifreiðarinnar, leiðsögumanni eða fararstjóra eða með hljóð- eða myndbandsupptöku. Þó skal ökumaður ganga úr skugga um að farþegar í framsætum hópbifreiðar og fremstu röð farþegasæta noti öryggisbelti.

Í hópbifreiðum skal auk þess komið fyrir táknmynd með myndrænum upplýsingum um skyldu til að nota öryggisbelti, sbr. I. viðauka, sem sjá má greinilega úr öllum sætum hópbifreiðarinnar.

Við skólaakstur skal ökumaður eftir föngum kynna fyrir farþegum mikilvægi þess að nota öryggisbúnað og leita í því efni eftir samstarfi við skólayfirvöld þegar börn eru farþegar í hópbifreið, sem skráð er til að aka skólabörnum.

5. gr.

Undanþága frá notkun öryggisbeltis.

Ekki er skylt að nota öryggisbelti í ökutæki í eftirfarandi tilvikum:

 1. Þegar ekið er aftur á bak eða við akstur á bifreiðastæði, við bensínstöð, viðgerðar­verkstæði og við sambærilegar aðstæður.
 2. Við erfiðar eða hættulegar aðstæður utan þéttbýlis, svo sem í mikilli ófærð eða þar sem hætta er á skriðuföllum eða snjóflóðum.
 3. Í lögreglubifreiðum við flutning handtekinna manna eða annarra, sem hætta kann að stafa af, svo og við sérstaka öryggisgæslu.
 4. Í leigubílaakstri við flutning farþega í atvinnuskyni.
 5. Þegar ekið er í atvinnuskyni þar sem hraði er jafnan lítill og fara þarf úr og í öku­tæki með stuttu millibili.
 6. Þegar heilsufars- eða læknisfræðilegar ástæður valda því að ökumaður eða farþegi ökutækis er undanþeginn notkun öryggisbeltis á grundvelli læknisvottorðs. Læknisvottorði skal framvísað sé þess óskað.

6. gr.

Öryggi barna í ökutækjum.

Ökumaður skal sjá til þess að barn yngra en þriggja ára sem ferðast í ökutæki noti viðurkenndan öryggis- og verndarbúnað ætlaðan börnum í samræmi við þyngd þess, sbr. II. viðauka.

Á sama hátt skal ökumaður sjá um að í stað öryggisbeltis eða ásamt öryggisbelti noti barn þriggja ára eða eldra, en lægra en 150 cm að hæð viðurkenndan barnabílstól, beltispúða eða annan sérstakan öryggis- eða verndarbúnað ætlaðan börnum. Í hópbifreið er þó leyfilegt að nota þann öryggis- og verndarbúnað fyrir börn sem er til staðar í bif­reiðinni.

Barn í barnabílstól sem vísar aftur og barn undir 150 cm að hæð má ekki vera í farþega­sæti með öryggispúða fyrir framan.

Þess skal ávallt gætt að notaður sé öryggisbúnaður sem er í samræmi við þyngd barns, sbr. II. viðauka.

7. gr.

Markaðssetning öryggisbúnaðar barna í ökutækjum.

Einungis má markaðssetja og selja öryggis- og verndarbúnað barna til notkunar í ökutækjum að uppfylltar séu kröfur til slíks búnaðar í samræmi við III. viðauka í reglugerð þessari.

8. gr.

Innleiðing.

Með reglugerð þessari öðlast gildi hér á landi eftirtaldar tilskipanir framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af XIII. viðauka EES-samningsins, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans:

 1. Tilskipun ráðsins nr. 91/671/EBE frá 16. desember 1991 um skyldubundna notkun öryggisbelta og aðhaldsbúnaðar fyrir börn í ökutækjum samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn nr. 7/1994 frá 21. mars 1994 sem birtist í EES-viðauka nr. 17, 1994, bls. 68.
 2. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2003/20/EB um breytingu á tilskipun ráðsins nr. 91/671/EBE um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi skyldu­bundna notkun öryggisbelta í ökutækjum innan við 3,5 tonn, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn nr. 155/2003 frá 7. nóvember 2003 sem birtist í EES-viðauka nr. 7, 2004, bls. 35.

9. gr.

Viðaukar.

Eftirfarandi viðaukar fylgja reglugerðinni og eru hlutar hennar:

I. viðauki - Táknmynd sem tilgreinir skyldu til að nota öryggisbelti í hópbifreiðum.
II. viðauki - Flokkun öryggis- og verndarbúnaðar fyrir börn í ökutækjum.
III. viðauki - Kröfur til gerðar öryggis- og verndarbúnaðar fyrir börn í ökutækjum.

10. gr.

Viðurlög.

Brot á reglugerð þessari varða refsingu samkvæmt XIV. kafla umferðarlaga nr. 50/1987.

11. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 71. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og öðlast þegar gildi.

Jafnframt falla úr gildi reglur um undanþágu frá notkun öryggisbeltis nr. 204/1993.

Samgönguráðuneytinu, 19. apríl 2007.

Sturla Böðvarsson.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

VIÐAUKAR.
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica