Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

347/2000

Reglugerð fyrir Byggðastofnun.

I. KAFLI Hlutverk og skipulag.

1. gr. Stjórnsýsluleg staða.

Byggðastofnun er sérstök stofnun í eigu íslenska ríkisins og heyrir undir yfirstjórn iðnaðarráðherra.

2. gr. Hlutverk.

Hlutverk Byggðastofnunar er að vinna að eflingu byggðar og atvinnulífs á landsbyggðinni. Til að stuðla að vexti, nýsköpun og umbreytingu í atvinnulífi veitir stofnunin m.a. lán og ráðgjöf, fjármagnar og skipuleggur verkefni og stuðlar að öflugri atvinnuráðgjöf. Til að stuðla að eflingu byggðar gerir stofnunin tillögur og áætlanir sem grundvallaðar eru á gagnaöflun og rannsóknum.

3. gr. Ársfundur.

Halda skal ársfund Byggðastofnunar fyrir 1. júlí ár hvert. Stjórn Byggðastofnunar ákveður fundardag, fundarstað og dagskrá fundarins. Á ársfundi skal fjalla um aðgerðir og horfur í byggðamálum og starfsemi Byggðastofnunar.

Ársfundinn sitja iðnaðarráðherra og stjórn og stjórnendur Byggðastofnunar. Ennfremur skal bjóða til fundarins fulltrúum atvinnuþróunarfélaga og sveitarfélaga, alþingismönnum, fulltrúum annarra stofnana og aðila sem vinna að atvinnu- og byggðarþróunarmálum, fjölmiðlum og öðrum sem málið varðar.

4. gr. Verkefni stjórnar.

Stjórn Byggðastofnunar mótar stefnu fyrir stofnunina og sér til þess að henni sé framfylgt. Formaður stjórnar boðar til funda.

Stjórnin getur falið lánanefnd sem forstjóri veitir forstöðu að taka ákvarðanir um einstakar lánveitingar samkvæmt reglum sem stjórn setur. Í þeim reglum skal m.a. koma fram markmið lánastarfseminnar, lánskjarastefna og hámark láns og áhættuframlags vegna einstaks fyrirtækis. Ennfremur skipan og starfsskipulag lánanefndar, viðmiðun við ákvarðanatöku, ferill umsókna, upplýsingagjöf til umsækjenda og svartími. Þá skal kveðið á um reglulega upplýsingagjöf til stjórnar vegna eftirlitshlutverks hennar.

Byggðastofnun skal við ákvarðanir sínar gæta jafnræðis milli aðila sem eru í sambærilegri stöðu. Þess skal sérstaklega gætt að fyrirgreiðsla stofnunarinnar til fyrirtækja og einstaklinga raski sem minnst samkeppnisaðstöðu annarra atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni.

5. gr. Verkefni forstjóra.

Iðnaðarráðherra skipar forstjóra Byggðastofnunar til fimm ára í senn að fenginni tillögu stjórnar. Forstöðumaður fyrirtækjasviðs skal vera staðgengill forstjóra. Forstjóri annast framkvæmdastjórn og daglegan rekstur stofnunarinnar og skal í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem stjórnin hefur gefið. Hann gerir tillögur til stjórnar um skipulag og stefnu. Forstjóri veitir lánanefnd jafnframt forstöðu. Að öðru leyti en mælt er fyrir um í lögum um Byggðastofnun og reglugerð þessari fer um verkefni forstjóra samkvæmt lögum um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði.

II. KAFLI Starfsemi.

6. gr. Skipulag starfseminnar.

Starfsemi Byggðastofnunar skal, auk skrifstofu forstjóra, skiptast í eftirtalin svið:

  1. Fyrirtækjasvið sem annast m.a lánsbeiðnir, ráðgjöf, útborgun lána, verkefnafjármögnun, athuganir og þróunarverkefni vegna fyrirtækja og atvinnulífs.
  2. Þróunarsvið sem annast samstarf við atvinnuþróunarfélög og stofnanir, gagnasöfnun og úrvinnslu upplýsinga og hefur umsjón með úttektum, rannsóknum og öðru þróunarstarfi á sviði byggðamála og atvinnulífs.
  3. Lögfræðisvið sem annast m.a. lögfræðileg verkefni, innheimtu og yfirstjórn skjalagerðar.
  4. Rekstrarsvið sem annast m.a. rekstur stofnunarinnar, bókhald, innheimtu lána, ásamt gerð rekstrar- og greiðsluáætlana.

7. gr. Áætlun.

Í upphafi hvers árs skal stjórn Byggðastofnunar láta gera áætlun um starfsemi stofnunarinnar á viðkomandi ári. Áætlun þessi skal vera í tveimur hlutum: Starfsáætlun og áætlun fyrir lánastarfsemi. Lánastarfsemin skal greiða þann kostnað í rekstri stofnunarinnar sem til hennar má rekja. Áætlanir skulu sendar iðnaðarráðherra til kynningar eigi síðar en 15. febrúar ár hvert.

Í starfsáætlun skal fjallað um þau verkefni sem stjórn stofnunarinnar vill að unnið sé að og ekki teljast til venjubundinna verkefna. Þar skal einnig vera rekstraráætlun fyrir annað en lánastarfsemina. Gera skal grein fyrir hvernig framlögum á fjárlögum og öðrum tekjum skal ráðstafað í kostnað við rekstur, þátttöku í kostnaði vegna starfsemi atvinnuþróunarfélaga, fjármögnun verkefna og kaupa á hlutafé.

Í áætlun fyrir lánastarfsemi skal koma fram stefna um útlán ársins og rekstrar- og fjárhagsáætlun fyrir lánastarfsemina. Þar skal m.a. sundurliða nauðsynleg framlög í afskriftareikning útlána vegna almennra lána og áhættulána. Með áhættulánum er átt við lán með meiri áhættu en vaxtamunur þeirra getur greitt.

Í áætlun um fjármögnun verkefna skal gerð grein fyrir þeim verkefnum sem stofnunin hyggst vinna að á árinu og þeim markmiðum sem stefnt er að með þeim. Þar skal gerð grein fyrir því hvert framlag stofnunarinnar er til einstakra verkefna og hvert framlag samstarfsaðila er.

III. KAFLI Atvinnuráðgjöf.

8. gr. Efling atvinnulífs.

Byggðastofnun vinnur að aukinni fjölbreytni atvinnulífsins á landsbyggðinni og aðlögun þess að breyttum aðstæðum, m.a. með eflingu rannsóknar- og þróunarstarfs og aukinni notkun upplýsingatækni í starfsemi fyrirtækja.

Byggðastofnun gerir samninga við atvinnuþróunarfélög, stofnanir, sveitarfélög, sjálfstætt starfandi ráðgjafa eða aðra um að annast atvinnuráðgjöf á tilteknu sviði, atvinnugrein eða landsvæði. Þá skal stofnunin vinna að því að efla samstarf og samhæfingu í atvinnuþróunarstarfsemi.

Byggðastofnun veitir atvinnuþróunarfélögum faglega aðstoð við atvinnuþróun og nýsköpun, miðlar upplýsingum, aðstoðar við endurmenntun, samræmingu á starfsemi atvinnuþróunarfélaganna og eflingu samstarfs þeirra á milli. Hún myndar tengsl við stofnanir sem vinna að atvinnu- og byggðaþróun, skipuleggur samstarfsverkefni og aðstoðar við leit að samstarfsaðilum varðandi sérhæfð mál.

9. gr. Efling búsetuþátta.

Byggðastofnun hefur samvinnu við atvinnuþróunarfélög, sveitarfélög og opinberar stofnanir og aðra aðila um eflingu búsetuþátta. Þar má telja menntun og menningu, samgöngur, umhverfismál og þjónustu.

Byggðastofnun getur tekið þátt í gerð svæðisskipulags samkvæmt skipulags- og byggingarlögum.

Byggðastofnun tekur þátt í samstarfshópum og aðstoðar við greiningu vanda dreifbýlla svæða, þar sem veruleg röskun hefur orðið á atvinnuháttum og búsetu.

10. gr. Rannsóknir, upplýsingar og umsagnir.

Byggðastofnun vinnur að gagnasöfnun og rannsóknum og fylgist með atvinnu- og byggðaþróun og helstu áhrifaþáttum hennar og árangri opinberra stuðningsaðgerða á sviði atvinnumála og byggðaþróunar, jafnt á Íslandi sem í löndum þar sem svipaðar aðstæður eru. Stofnunin getur tekið þátt í alþjóðlegum rannsóknarverkefnum og gert samninga við háskóla, rannsóknastofnanir og aðra um rannsóknir á þessu sviði.

Byggðastofnun metur áhrif lagasetningar og annarra stjórnvaldsaðgerða á byggðaþróun. Byggðastofnun veitir umsagnir og getur unnið greinargerðir og tillögur fyrir Alþingi ráðuneyti, stofnanir, sveitarfélög og aðra á verkefnasviði sínu.

11. gr. Samstarf og samskipti.

Byggðastofnun vinnur að myndun samstarfsneta og getur tekið þátt í og skipulagt innlend og erlend samstarfsverkefni á sviði byggða- og atvinnumála. Byggðastofnun aðstoðar atvinnuþróunarfélög og aðra samstarfsaðila við gerð og öflun slíkra verkefna.

12. gr. Stefnumótandi byggðaáætlun.

Iðnaðarráðherra leggur fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir fjögurra ára tímabil. Áætlunin skal lýsa markmiðum og stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum, áætlunum um aðgerðir á sviði atvinnumála, opinberrar þjónustu o.fl. Koma skal fram með hvaða hætti einstakar aðgerðir skulu fjármagnaðar, tímasetning þeirra og hver ber ábyrgð á framkvæmd þeirra.

Í byggðaáætlun skal gerð grein fyrir ástandi og horfum í þróun byggðar og framvindu gildandi byggðaáætlunar.

Iðnaðarráðherra skal vinna að byggðaáætlun í samvinnu við Byggðastofnun og leita faglegrar ráðgjafar hjá stofnuninni um rannsóknir og úttektir til undirbúnings gerð byggðaáætlunar. Við gerð byggðaáætlunar hafi iðnaðarráðherra samráð við önnur ráðuneyti, sveitarfélög og aðra aðila eftir þörfum.

Byggðaáætlun skal endurskoða á tveggja ára fresti.

Byggðastofnun fylgist með framkvæmd þeirra þátta stefnumótandi byggðaáætlunar sem ráðherra felur henni.

IV. KAFLI Fjármögnun verkefna og veiting lána og ábyrgða.

13. gr. Fjármögnun verkefna.

Byggðastofnun veitir framlög til verkefna vegna atvinnuuppbyggingar og á sviði nýsköpunar. Stjórn stofnunarinnar ákveður verkefnin og leitar eftir samstarfsaðilum um þau. Við umfjöllun um einstök verkefni getur stjórn, ásamt samstarfsaðilum, sett á fót verkefnanefndir til ráðgjafar. Byggðastofnun getur einnig falið atvinnuþróunarfélögum úthlutun fjár til einstakra verkefna.

14. gr. Veiting lána og ábyrgða.

Byggðastofnun veitir lán og ábyrgðir. Stjórn stofnunarinnar getur falið forstjóra að ákveða einstakar lánveitingar samkvæmt reglum sem stjórn setur. Lánskjör skulu ákveðin af stjórn. Lánstími skal ekki vera lengri en 25 ár.

Markmið lánastarfseminnar er m.a. að tryggja fyrirtækjum og einstaklingum í atvinnurekstri á landsbyggðinni aðgang að langtímalánum á sem hagstæðustum kjörum, stuðla að vexti framsækinna fyrirtækja, nýsköpun í atvinnulífi og eflingu byggða.

Fjárhaglegt markmið lánastarfseminnar er að varðveita eigið fé að raungildi.

15. gr. Umsóknir um lán.

Við mat á umsóknum skal hafa til viðmiðunar rekstur og rekstrarhorfur fyrirtækis, fjárhagsstöðu, reynslu og þekkingu fyrirsvarsmanna þess, tryggingar fyrir lánum, nýsköpunargildi, samkeppnissjónarmið og gildi fyrir uppbyggingu atvinnulífs á landsbyggðinni. Þá skal lögð áhersla á samstarf við aðrar lánastofnanir og stuðla að því að þær láni til fyrirtækja á landsbyggðinni. Öll lán skal áhættuflokka við afgreiðslu, m.a. miðað við rekstrarhorfur fyrirtækis, fjárhagsstöðu og tryggingar fyrir lánum.

Umsóknir um lán skulu að jafnaði vera á umsóknareyðublöðum sem fást hjá stofnuninni og atvinnuþróunarfélögum.

16. gr. Eftirgjöf lána.

Óheimilt er að gefa eftir veitt lán. Frá þessu má þó gera undantekningar þegar sérstakar ástæður mæla með, svo sem þegar lán eru ekki með haldbærum tryggingum og það samræmist innheimtuhagsmunum stofnunarinnar. Leita skal umsagnar ríkisendurskoðanda áður en einstök lán eru gefin eftir.

17. gr. Takmarkanir.

Byggðastofnun er heimilt að fjármagna verkefni, veita lán og ábyrgðir á landsbyggðinni, þ.e. ekki í eftirtöldum sveitarfélögum: Hafnarfjarðarkaupstað, Garðabæ, Bessastaðahreppi, Kópavogskaupstað, Seltjarnarneskaupstað, Reykjavíkurborg og Mosfellsbæ.

Um fjármögnunar- og lánastarfsemi Byggðastofnunar gilda ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993.

Aðstoð sem fellur undir c-lið 3. mgr. 61. gr. EES-samningsins vegna fjárfestinga skal ekki nema hærri fjárhæð en svarar til 17% að teknu tilliti til tekjuskatts, af upphaflegum stofnkostnaði vegna starfsstöðvar eða breytinga á henni. Til viðbótar er heimilt að veita smáum og meðalstórum fyrirtækjum aðstoð er svarar til allt að 10% af sömu kostnaðarþáttum, sbr. skilgreiningu 10.2 í leiðbeiningarreglum Eftirlitsstofnunar EFTA um ríkisaðstoð, sem birtar eru í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi EB. Framangreindir hundraðshlutar eru hámarksviðmiðanir fyrir alla opinbera fjárhagsaðstoð til sama verkefnis.

Við útreikning og mat á veittri aðstoð skal miða við þá ávöxtun sem fengist hefði við eðlilegar markaðsaðstæður hverju sinni.

V. KAFLI Þátttaka í atvinnurekstri.

18. gr. Stofnun fyrirtækja.

Byggðastofnun getur, í samræmi við hlutverk sitt, stuðlað að stofnun nýrra fyrirtækja samkvæmt ákvörðun stjórnar. Höfð skal hliðsjón af byggðaáætlun við slíkar ákvarðanir.

Til að stuðla að stofnun nýrra fyrirtækja getur Byggðastofnun veitt aðstoð og ráðgjöf við undirbúning, svo og veitt ábyrgðir og lagt fram fjármagn. Almennt séð skal fjárhagsleg fyrirgreiðsla miðast við að stofnunin sé ekki sjálf beinn þátttakandi í atvinnurekstri. Þó er stofnuninni heimilt að taka þátt í félagi með allt að 30% hlutafjárframlagi ef ríkar ástæður eru til að mati stjórnar stofnunarinnar. Byggðastofnun er þó ávallt heimilt að taka þátt í félagi með hlutafjárframlagi eða öðrum stofnframlögum sem eigandi ef um er að ræða eignarhalds-, fjárfestingar- eða þróunarfélag, þar með talin atvinnuþróunarfélög.

Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. er Byggðastofnun ætíð heimilt að verja kröfur sínar með því að breyta þeim í hlutafé. Þá er Byggðastofnun heimilt að breyta fullnustueignum í hlutafé þegar það er talið vera fjárhagslega hagkvæmasta leiðin til að verja innheimtuhagsmuni stofnunarinnar.

19. gr. Sala hlutabréfa (eignarhluta).

Bjóða skal til sölu á almennum markaði þau hlutabréf sem Byggðastofnun á og skal við það miðað að hlutabréfin séu auglýst til sölu eigi sjaldnar en einu sinni á ári. Heimilt er einnig að setja bréfin í sölu á viðurkenndum hlutabréfamarkaði.

Ákvæði þessarar greinar taka ekki til hlutafjáreignar Byggðastofnunar í eignarhalds-, fjárfestingar- og þróunarfélögum, þar með talið atvinnuþróunarfélögum, en stjórn Byggðastofnunar er heimilt að selja hlutabréf stofnunarinnar í slíkum félögum.

20. gr. Eignarhalds-, fjárfestingar- og þróunarfélög.

Með vísan til hlutverks Byggðastofnunar er stjórn stofnunarinnar heimilt að ákveða að stofnunin taki þátt í eignarhalds-, fjárfestingar- og þróunarfélögum með allt að 40% eignaraðild. Skilyrði slíkrar aðildar er að fagfjárfestar, fyrirtæki í einkaeigu og einstaklingar eigi a.m.k. 10% hlutafjár í slíkum félögum. Þá skal stofnunin hafa samstarf við fjárfestingarsjóði og lánastofnanir, eftir því sem við á, um fyrirgreiðslu til verkefna sem samrýmast hlutverki hennar.

VI. KAFLI Önnur ákvæði.

21. gr. Upplýsingar um starfsemi.

Iðnaðarráðherra skal gefa Alþingi árlega skýrslu um starfsemi Byggðastofnunar og framvindu byggðaáætlunar.

22. gr. Tekjur.

Tekjur Byggðastofnunar eru framlag úr ríkissjóði og fjármagnstekjur.

23. gr. Lántaka.

Byggðastofnun er heimilt innan ramma fjárlaga að taka lán til starfsemi sinnar innan lands eða erlendis, annaðhvort í eigin nafni eða fyrir milligöngu annarra aðila.

24. gr. Þagnarskylda.

Stjórnarmenn og allir starfsmenn Byggðastofnunar eru bundnir þagnarskyldu um atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirboðara eða eðli málsins. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.

25. gr. Hæfi stjórnarmanna.

Stjórnarmaður skal ekki taka þátt í meðferð máls er varðar fyrirtæki ef hann situr í stjórn þess eða er starfsmaður þess. Hann skal einnig víkja ef hann er verulega fjárhagslega háður fyrirtæki vegna eignaraðildar, viðskipta eða af öðrum ástæðum. Sama gildir um þátttöku stjórnarmanns í meðferð máls er varðar aðila sem eru honum svo persónulega tengdir að hætta sé á að hann fái ekki litið hlutlaust á málið. Við upphaf stjórnarsetu ber stjórnarmanni að leggja fram yfirlit yfir þau fyrirtæki sem hann telur að svo sé ástatt um að hann geti ekki tekið þátt í afgreiðslu á málefnum þeirra. Hann skal einnig tilkynna ef breytingar verða á högum hans að þessu leyti.

26. gr. Reglugerðarheimild.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 106/1999 um Byggðastofnun, svo og með vísan til 61. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 2/1993, um lagagildi samningsins hér á landi.

Reglugerð þessi öðlast gildi við birtingu.

Iðnaðarráðuneytinu, 16. maí 2000.

Valgerður Sverrisdóttir.

Þorgeir Örlygsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.