Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

340/1997

Reglugerð um öryggisþjónustu.

1. gr.

                Til að annast öryggisþjónustu í atvinnuskyni þarf leyfi ráðherra. Samkvæmt reglugerð þessari getur öryggisþjónusta falist í eftirfarandi:

a.             eftirliti með lokuðum svæðum og svæðum opnum almenningi, hvort heldur er með eftirlitsferðum vaktmanna eða myndavélum,

b.             flutningi verðmæta,

c.             taka við og sinna boðum frá einstaklingum um aðstoð,

d.             taka við og sinna boðum frá viðvörunarkerfum vegna eldsvoða, vatnsleka, innbrots, hitastigs, rafmagnsleysis eða dæluvirkni,

e.             vernd einstaklinga með lífvörðum.

 

2. gr.

                Umsókn um leyfi til að annast öryggisgæslu skal vera skrifleg. Í henni skal eftirfarandi koma fram:

a.             nafn umsækjanda og kennitala hans. Þegar umsækjandi er einstaklingur skal einnig koma fram lögheimili hans og hvar hann hafi starfstöð. Ef umsækjandi er skráð félag skal enn fremur koma fram nafn og kennitala framkvæmdastjóra og þeirra sem eiga sæti í stjórn félagsins og hvar það hafi starfstöð,

b.             hvaða öryggisþjónustu umsækjandi hyggst hafa með höndum og ítarleg greinargerð um framkvæmd hennar,

c.             yfirlýsing um hvort umsækjandi fullnægi skilyrðum til að fá leyfi til að annast öryggisþjónustu.

                Með umsókn um leyfi til að annast öryggisþjónustu skulu fylgja eftirfarandi gögn:

a.             sakavottorð umsækjanda ef hann er einstaklingur. Þegar umsækjandi er skráð félag skulu fylgja sakavottorð framkvæmdastjóra og þeirra sem eiga sæti í stjórn félagsins.

b.             önnur gögn sem þykja nauðsynleg til að mat verði lagt á umsókn um leyfi til að annast öryggisþjónustu.

                Nú er nýr framkvæmdastjóri ráðinn eða breyting verður á stjórn félags og skal þá senda dómsmálaráðuneytinu tilkynningu þess efnis innan 14 daga auk þeirra gagna sem um getur í 2. mgr.

                Umsókn um endurnýjun á leyfi til að annast öryggisþjónustu skal skilað inn í samræmi við 1. og 2. mgr.

 

3. gr.

                Þegar starfsmaður er ráðinn til að sinna framkvæmd öryggisþjónustu skal hann afhenda leyfishafa sakavottorð og önnur þau gögn sem nauðsynleg þykja til að mat verði lagt á hæfni starfsmanns til að gegna því starfi sem honum verður falið. Starfsmaður skal einnig afhenda leyfishafa nýtt sakavottorð á tveggja ára fresti eða oftar ef efni eru til.

                Samkvæmt ósk ber leyfishafa að veita dómsmálaráðuneytinu upplýsingar um hvaða starfsmenn hans sinna öryggisþjónustu og afrit af þeim gögnum sem getur í 1. mgr.

 

4. gr.

                Leyfishafi skal sjá til þess að starfsmaður hans, sem sinnir framkvæmd öryggisþjónustu, fái nauðsynlega fræðslu til að hann geti rækt starfann með viðunandi hætti. Skal slíkur starfsmaður leyfishafa einnig hafa fengið viðeigandi fræðslu um hjálp í viðlögum.

 

5. gr.

                Starfsmaður leyfishafa, sem sinnir framkvæmd öryggisþjónustu, skal í störfum sínum klæðast einkennisklæðnaði eða bera á sér greinilegt merki sem gefur starf hans til kynna. Skal þess gætt að einkennisklæðnaði svipi ekki til einkennisbúnings lögreglumanna.

                Leyfishafi skal gefa út skilríki til starfsmanns, sem sinnir framkvæmd öryggisþjónustu, og skal starfsmaðurinn bera það á sér við framkvæmd starfa sinna. Í slíku skilríki skal meðal annars koma fram hver sé leyfishafi og nafn starfsmanns ásamt mynd.

 

6. gr.

                Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 6. gr. laga um öryggisþjónustu, nr. 58 22. maí 1997, öðlast gildi 1. júlí 1997.

 

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 6. júní 1997.

 

Þorsteinn Pálsson.

Benedikt Bogason.

 

 

 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica