Innanríkisráðuneyti

339/2015

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 155/2007 um stærð og þyngd ökutækja.

1. gr.

2. gr. breytist þannig:

  1. Skýring á "liðvagni" orðast svo:
    Liðvagn: Hópbifreið sem sett er saman úr tveimur ósveigjanlegum hlutum, tengdum saman með liðamótum, sem innangengt er á milli. Einungis skal vera unnt að tengja eða frátengja hlutana tvo á verkstæði.
  2. Hugtakið "jafnhitavagn" verður að: jafnhitaökutæki.
  3. Á eftir skýringu á "heildarþyngd ökutækis" kemur ný skýring sem orðast svo:
    Óskiptanlegur farmur: Farmur sem er ekki unnt að skipta í tvo eða fleiri hluta til að flytja hann á vegum án ótilhlýðilegs kostnaðar eða hættu á skemmdum og sem af ástæðum sem varða stærð hans og þyngd er ekki unnt að flytja með ökutæki eða vagnlest án undanþágu samkvæmt 13. gr. reglugerðar þessarar.

2. gr.

5. gr. breytist þannig:

E-liður 1. mgr. 5. gr. orðast svo: eftirvagn, 12,00 m,.

3. gr.

7. gr., með fyrirsögninni "Breidd ökutækis", orðast svo:

Leyfileg breidd bifreiðar og eftirvagns er 2,55 m með þeirri undantekningu að yfirbygging jafnhitaökutækis má vera 2,60 m.

Leyfileg breidd vinnuvélar, eftirvagns hennar eða tengitækis til landbúnaðarstarfa eða vegavinnu er 3,30 m. Lögreglan getur bannað akstur slíkra ökutækja þegar sérstaklega stendur á.

Leyfileg breidd ökutækis með áfestan búnað til snjómoksturs er 3,50 m.

Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. er ökutæki með áfestan búnað til snjómoksturs heimilt að fara umfram leyfilega breidd þegar nauðsyn krefur vegna snjómoksturs utan þéttbýlis og innan þéttbýlis á stofnbrautum að næturlagi þegar umferð er í lágmarki. Óheimilt er þó að nýta heimild þessa til að stunda snjómokstur á einu ökutæki á tveimur heilum akreinum samtímis, hvort sem þær eru í sömu akstursstefnu eða gagnstæða.

Breidd ökutækis skal mæld milli þeirra hluta þess sem standa lengst til hliðar. Speglar eða ljósker, önnur en aðal-, vinnu- og hliðarljósker, svo og keðjur á hjólum, eru ekki talin til breiddar ökutækis. Sama gildir um festingar fyrir yfirbreiðslu og vörn þeirra.

4. gr.

Við 12. gr. bætast nýjar 4.-7. mgr. sem orðast svo:

Ökutæki, sem notað er við snjómokstur og/eða hálkuvörn og er með áfestum búnaði í því skyni, er þó undanþegið ákvæðum um ás- og heildarþunga þegar það er notað við snjó­mokstur og hálkuvörn og við akstur sem því tengist þegar ekki eru í gildi þungatakmarkanir.

Undanþága skv. 4. mgr. er bundin þeim skilyrðum að þungi fari ekki yfir leyfðan ás- og heildarþunga ökutækis samkvæmt skráningu í ökutækjaskrá.

Undanþága skv. 4. mgr. gildir ekki þegar ökutæki er notað í öðrum tilgangi en snjómokstri og hálkuvörn, s.s. til almennra farmflutninga.

Undanþága skv. 4. mgr. fellur úr gildi þegar ás- og heildarþungi ökutækja á vegum er takmarkaður skv. 11. gr. reglugerðarinnar, sbr. viðauka VI.

5. gr.

Viðauki VI breytist þannig:

  1. Í fylgiskjali 1 kemur nýr málsliður aftast í 1. mgr. sem orðast svo:
    Loftþrýstingur má þó aldrei vera utan þeirra marka sem framleiðandi hjólbarða gefur upp hverju sinni.
  2. Í fylgiskjali 2 kemur nýr málsliður aftast í 1. mgr. sem orðast svo:
    Loftþrýstingur má þó aldrei vera utan þeirra marka sem framleiðandi hjólbarða gefur upp hverju sinni.

6. gr.

Í fylgiskjali reglugerðarinnar sem nefnist "Lengd, breidd og hæð bifreiða og vagnlesta sam­kvæmt reglum um stærð og þyngd ökutækja", skal í stað núgildandi skýringarmyndar, koma skýringarmynd skv. viðauka I við reglugerð þessa.

7. gr.

Í fylgiskjali reglugerðarinnar sem nefnist "Undanþáguvagnlest fyrir 44/49 tonna heildar­þunga" kemur nýr málsliður aftast í 1. mgr. sem orðast svo:

Loftþrýstingur má þó aldrei vera utan þeirra marka sem framleiðandi hjólbarða gefur upp hverju sinni.

8. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 68., 75. og 76. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, öðlast þegar gildi.

Innanríkisráðuneytinu, 24. mars 2015.

Ólöf Nordal.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

VIÐAUKI
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica