Menntamálaráðuneyti

914/2002

Reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra stúdentsprófa í framhaldsskólum. - Brottfallin

914/2002

REGLUGERÐ
um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra stúdentsprófa í framhaldsskólum.

1. gr.

Námi á framhaldsskólastigi er veitir undirbúning til náms á háskólastigi lýkur með stúdentsprófi sem skal samræmt í tilteknum námsgreinum. Samræmd stúdentspróf eru hluti af skilgreindum námslokum til stúdentsprófs.

Með samræmdum stúdentsprófum er átt við yfirlitspróf í tilteknum námsgreinum miðað við námsmarkmið í kjarna, sbr. aðalnámskrá framhaldsskóla. Prófin eru lögð fyrir alla nemendur á viðkomandi námsbrautum og aðra þá er þreyta prófin, sbr. 3. og 4. gr. þessarar reglugerðar, á sama tíma, við sömu eða sambærilegar aðstæður og með sama hætti, sbr. 11. gr.


2. gr.

Tilgangur samræmdra stúdentsprófa er m.a. að:

a. veita nemendum og viðkomandi skóla upplýsingar um námsárangur nemenda og námsstöðu í þeim námsgreinum þar sem haldin eru samræmd stúdentspróf,
b. veita viðtökuskólum upplýsingar um námsstöðu einstakra nemenda og vera viðmið fyrir inntöku í einstakar deildir á háskólastigi,
c. veita fræðsluyfirvöldum upplýsingar um námsárangur, m.a. eftir framhaldsskólum, og hvort markmiðum aðalnámskrár hafi verið náð.


3. gr.
Samræmd stúdentspróf skal halda í þeim framhaldsskólum sem útskrifa stúdenta og þeim framhaldsskólum sem bjóða upp á skilgreint viðbótarnám til stúdentsprófs að loknu námi á starfs- eða listnámsbrautum. Þessum skólum er skylt að leggja til húsnæði vegna fyrirlagnar prófanna.


4. gr.
Samræmd stúdentspróf skulu vera markmiðsbundin skv. aðalnámskrá og skulu þau haldin einu sinni á ári, á tímabilinu 4.-10. janúar. Menntamálaráðherra leggur framhaldsskólum til samræmd próf og tilkynnir dagsetningu prófa með að lágmarki eins árs fyrirvara.

Samræmd stúdentspróf skulu haldin í íslensku, ensku og stærðfræði.

Menntamálaráðherra getur einnig lagt fyrir samræmd stúdentspróf í náttúrufræðigreinum og samfélagsgreinum. Skal slík ákvörðun tilkynnt með a.m.k. tveggja ára fyrirvara.

Öllum nemendum er þreyta stúdentspróf, þ.e. nemendum af félagsfræðabraut, málabraut, náttúrufræðibraut, upplýsinga- og tæknibraut og starfs- eða listnámsbrautum með viðbótarnámi er skylt að ljúka samræmdu stúdentsprófi í tveimur námsgreinum skv. 2. mgr.

Heimilt er nemanda að þreyta fleiri samræmd próf en honum er skylt.

Heimilt er einnig öðrum að þreyta prófin enda hafi þeir til þess gilda ástæðu vegna áframhaldandi náms.


5. gr.
Einkunnir á samræmdum stúdentsprófum skulu vera sambærilegar milli prófa hvers árs og milli ára.

Einkunnir á samræmdum stúdentsprófum skulu gefnar í heilum tölum á einkunnakvarðanum 1 til 10. Lágmarkseinkunn til að standast samræmt stúdentspróf er 5 og verður sú einkunn ákvörðuð með greiningu á prófverkefnum þannig að einkunnin endurspegli skilgreindar lágmarkskröfur. Ágætiseinkunn verður skilgreind með sama hætti.


6. gr.
Nemandi skráir sig í samræmt stúdentspróf þegar hann telur sig hafa náð þeim markmiðum námsgreinarinnar sem prófkröfur miðast við, sbr. 1. og 4. gr. Fer skráning fram á tímabilinu 15. september til 15. október á því skólaári sem prófið er þreytt.

Skólameistarar bera ábyrgð á skráningu nemenda í skóla sínum og einnig á því að framkvæmdaaðila prófanna séu sendar upplýsingar um próftaka eigi síðar en 1. nóvember á því skólaári sem prófið er þreytt.

Hætti nemandi við próftöku ber honum að tilkynna það skriflega viðkomandi skóla eigi síðar en fjórum vikum áður en prófið er haldið. Skólameistari ber ábyrgð á að koma upplýsingum um skráningu úr prófi til þess aðila sem annast framkvæmd prófanna. Misbrestur á því að skrá sig úr prófi jafngildir falli á prófinu, mæti nemandi ekki til prófs.


7. gr.
Sjúkrapróf skulu haldin í maí fyrir þá nemendur sem samkvæmt læknisvottorði eru veikir á prófdegi og eru þeir sjálfkrafa skráðir til sjúkraprófs.

Sjúkrapróf eru jafnframt endurtökupróf fyrir þá nemendur sem þess óska og hafa til þess rétt.


8. gr.
Standist nemandi ekki lágmarkskröfur á samræmdu stúdentsprófi, sbr. 5. gr., eða fullnægi ekki kröfum viðtökuskóla eða háskóladeildar er honum heimilt að endurtaka prófið tvisvar. Nemendur sem óska að endurtaka próf í maí skrá sig til prófs innan þeirra tímamarka sem framkvæmdaaðili prófanna setur.

Velji nemandi að endurtaka próf sem hann hefur staðist skal síðari einkunnin gilda.


9. gr.
Menntamálaráðherra felur Námsmatsstofnun eða öðrum hæfum aðila framkvæmd samræmdra stúdentsprófa með sérstökum samningi. Í samningi þessum skal m.a. kveðið á um samningu, fyrirlögn og úrvinnslu samræmdra stúdentsprófa. Jafnframt skal í samningnum kveðið á um ráðningu eftirlitsmanna með fyrirlögn prófanna í framhaldsskólum.

Ekki er heimilt að ráða kennara til að semja samræmt stúdentspróf ef hann kennir þeim nemendum sem þreyta prófið það skólaár sem prófið er haldið.


10. gr.
Þagnar- og trúnaðarskylda hvílir á þeim sem bera ábyrgð á, semja og/eða meta úrlausnir á samræmdum stúdentsprófum. Þeim er óheimilt að fjalla um eða birta, að hluta eða í heild, úrlausnir nemenda.


11. gr.
Við fyrirlögn samræmdra stúdentsprófa ber að fara nákvæmlega eftir þeim fyrirmælum sem fylgja prófi. Frávik frá reglum um fyrirlögn eru ekki heimil nema með samþykki þess aðila sem ber ábyrgð á framkvæmd prófanna. Eftirlitsmenn, sbr. 9. gr., fylgjast með fyrirlögn prófanna.

Heimilt er að víkja frá almennum reglum um fyrirlögn samræmdra stúdentsprófa þegar um er að ræða líkamlega fötlun, langvarandi veikindi eða aðra erfiðleika af líffræðilegum orsökum enda séu þessar aðstæður nemandans staðfestar af sérfræðingi á viðkomandi sviði. Framkvæmdaaðili prófanna setur reglur um slík frávik og um staðfestingar sérfræðinga í samráði við menntamálaráðuneytið.

Sá nemandi sem í hlut á sækir sjálfur um frávik frá reglum um fyrirlögn og skulu umsóknir sendar þeim aðila sem ábyrgð ber á framkvæmd samræmdra prófa. Umsókn um frávik frá reglum um fyrirlögn skal fylgja staðfesting skólameistara og sérfræðings á viðkomandi sviði. Sérfræðingar teljast eftir atvikum læknar, sálfræðingar og námsráðgjafar, en þeir síðastnefndu skulu hafa samráð við sérmenntaða aðila á viðkomandi sviði. Framkvæmdaaðili tekur ákvörðun um heimild til fráviks á grunni upplýsinga í umsókn nemanda, sérfræðingsmats og frammistöðu á fyrri samræmdum prófum, eftir því sem við á.

Þeir sem ekki eru skráðir í framhaldsskóla en óska eftir að þreyta samræmt stúdentspróf með fráviki frá fyrirlögn, skulu sækja um frávik til framkvæmdaaðila. Umsókn skal fylgja staðfesting sérfræðings.


12. gr.
Eigi síðar en 24 dögum eftir að síðasta samræmt stúdentspróf er haldið sendir framkvæmdaaðili prófanna niðurstöður til viðkomandi skóla í ábyrgðarpósti eða á annan tryggan hátt.

Skólar skulu birta nemendum einkunnir úr samræmdum stúdentsprófum eigi síðar en 2 virkum dögum eftir að einkunnir úr öllum greinum sem prófað er úr samræmt hafa borist viðkomandi skólum.


13. gr.
Sætti nemandi sig ekki við niðurstöðu námsmats á samræmdu stúdentsprófi getur hann óskað skýringa frá framkvæmdaaðila innan þriggja vikna frá því að niðurstöður voru birtar nemanda. Sætti nemandi sig ekki við fram komnar skýringar getur hann fengið afrit af prófúrlausn sinni og telji hann niðurstöður matsins rangar færir hann rök fyrir því í umsókn sinni um endurmat. Skal sú umsókn hafa borist framkvæmdaaðila prófanna innan þriggja vikna frá því skýringar bárust nemanda. Framkvæmdaaðili lætur innan tveggja vikna frá því umsókn barst honum fara fram endurmat á prófúrlausn nemandans.

Nemandi sem þreytti samræmt stúdentspróf getur í fyrsta lagi tveimur mánuðum frá því að niðurstöður prófsins voru birtar honum krafist þess að fá úrlausn sína afhenta enda fer þá ekki endurmat fram á prófi hans eftir það. Framkvæmdaðili prófanna skal halda eftir afriti af úrlausn sem afhent er nemanda. Úrlausnir nemenda teljast vera svarblöð og þau prófhefti sem þeir skrá svör í.

Framkvæmdaaðili prófanna er ábyrgur fyrir því að öllum prófúrlausnum sé eytt á tryggilegan hátt að einu ári liðnu frá því að prófið var haldið, þ.m.t. öllum vinnublöðum sem fylgja prófúrlausn.


14. gr.
Framkvæmdaaðili samræmdra stúdentsprófa skal eigi síðar en þremur mánuðum eftir að próf eru haldin gefa út yfirlit yfir heildarniðurstöður prófanna og senda menntamálaráðuneyti, skólameisturum og skólanefndum framhaldsskóla og skólum á háskólastigi. Þar skulu koma fram meðaltöl einstakra skóla eftir prófum, fjöldi og hlutfall nemenda með hverja einkunn, meðaltöl allra skóla og aðrar þær upplýsingar sem þarf til að skýra niðurstöðurnar og auðvelda túlkun á þeim.

Ef 10 nemendur eða færri þreyta tiltekið samræmt stúdentspróf í framhaldsskóla skulu meðaltöl viðkomandi skóla ekki birt í þeirri námsgrein.


15. gr.
Óheimilt er að veita öðrum en viðkomandi nemanda upplýsingar um einkunnir hans á samræmdum stúdentsprófum, nema með samþykki hans.

Þó skal heimilt að veita þessar upplýsingar vegna kannana sem fræðsluyfirvöld standa fyrir og vegna fræðilegra rannsókna enda sé krafist fullrar þagnarskyldu og fengin heimild Persónuverndar.


16. gr.
Reglugerð þessi, sem er sett samkvæmt 24. gr. laga nr. 80/1996 um framhaldsskóla með áorðnum breytinum, öðlast þegar gildi og skal koma til framkvæmda skólaárið 2003-2004.

Ákvæði til bráðabirgða.
Þrátt fyrir ákvæði 16. gr. skal einungis halda samræmt stúdentspróf í íslensku í janúar 2004 og sjúkra- og endurtökupróf í maí sama ár.

Þeir nemendur sem ljúka stúdentsprófi í lok haustannar 2003 eru undanþegnir samræmdum stúdentsprófum skv. reglugerð þessari.


Menntamálaráðuneytinu, 17. desember 2002.

Tómas Ingi Olrich.
Guðmundur Árnason.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica