Menntamálaráðuneyti

335/1999

Reglugerð um reiknilíkan til að reikna út kennslukostnað framhaldsskóla.

1. gr.

Hlutverk reiknilíkansins er að tryggja jafnræði skóla til fjárveitinga í samræmi við stærð, gerð, staðsetningu og samsetningu náms. Líkanið skal tryggja eftir því sem frekast er unnt faglegt starf skólanna um leið og það stuðlar að aðhaldi í meðferð fjármuna vegna kennslu, rekstrar og stofnkostnaðar. Í gerð líkansins skulu felast möguleikar til þess að auka eða draga úr stuðningi við tiltekin markmið skólastarfs með samræmdum hætti um leið og unnt verði með hliðstæðum hætti að taka tillit til sérstakra aðstæðna.

2. gr.

Reiknilíkanið tekur til fjárveitinga til kennslu, kennslutengdra starfa, annarra starfa í skólum og rekstrarþátta sem skólar geta óhindrað fært á milli fjárlagaliða.

3. gr.

Reiknilíkanið skal vera í formi tölvuforrits, aðgengilegt öllum skólum og opið þeim sem vilja kynna sér hvernig það vinnur.

4. gr.

Forsendur reiknilíkansins eru hinar sömu fyrir alla skóla en greinast í tvennt; annars vegar þær sem hafa sama tölugildi fyrir alla skóla en hins vegar sérstakar forsendur fyrir hvern skóla.

5. gr.

Almennar forsendur líkansins skulu taka til eftirfarandi:

Kennslustundafjölda pr. nemenda á viku; almennrar bekkja- og hópstærða; almennrar nýtingarkröfu eða meðalfjölda nemenda í bekk eða hópum; launatengdra gjalda; hlutfallstengingar kennslutengdra starfa við kennslukostnað; hlutfallslegrar skiptingar útreiknaðs kennslustundafjölda milli dagvinnu og eftirvinnu.

6. gr.

Sérstakar forsendur hvers skóla skulu vera:

Skráðir nemendur næstliðins almanaksárs eftir önnum (höfðatala); áætlaður nemendafjöldi næsta fjárlagaárs, meðaltal beggja anna; nemendur kvöldskóla (öldungadeilda), meðaltal beggja anna næsta fjárlagaárs, hlutfall kennslustunda nemenda í fornámi eða hægferðum af heildarnemendastundum skólans; fermetrar húsnæðis skólans eftir bóknáms- og stjórnunarhluta, verknámshluta, heimavist og mötuneyti; leigugjöld vegna kennsluhúsnæðis, verð á rúmmetra heits vatns, verð á kílówattstund raforku; fjarlægð frá Reykjavík, meðalárslaun kennara; árslaun og yfirvinnu skólameistara/rektors.

7. gr.

Um skil skóla á upplýsingum um kennslu, skráða nemendur og prófaða eftir áföngum/bekkjum, fjölda hópa/bekkja og annað er viðkemur árangri skólastarfsins skal nánar kveðið á í skólasamningi.

8. gr.

Reiknilíkanið skal endurskoða í heild eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti. Þess á milli má fella niður einstakar almennar og sértækar forsendur eða auka við eftir umfjöllun á samstarfsnefndarfundi framhaldsskólastigsins. Einstökum tölulegum viðmiðum líkansins getur ráðherra breytt í fjárlagaundirbúningi hverju sinni.

9. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 39. gr. laga nr. 80/1996 um framhaldsskóla og öðlast þegar gildi.

Menntamálaráðuneytinu, 7. maí 1999.

Björn Bjarnason.

Þórunn J. Hafstein.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica