Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 29. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 30. jan. 2021

335/1993

Reglugerð um starfsháttu örorkunefndar.

1. gr.

Örorkunefnd gefur álit um miskastig eða örorkustig eftir 4. og 5. gr. skaðabótalaga. Í áliti nefndarinnar skal að jafnaði koma fram hvenær nefndin telur að tjónþoli hafi ekki getað vænst frekari bata af afleiðingum líkamstjóns, sbr. 2. og 3. gr. laganna.

2. gr.

Auk tjónþola og þess sem krafinn er um greiðslu vegna tjóns geta dómstólar leitað álits nefndarinnar. Vátryggingafélag sem selt hefur bótaskyldum aðila ábyrgðartryggingu getur einnig óskað eftir áliti nefndarinnar um tjón sem vátryggingin tekur til.

3. gr.

Beiðni um álit skal vera skrifleg og rituð á eyðublað sem nefndin lætur í té. Með beiðni skulu fylgja skýrslur um atvik að tjónsatburði og afleiðingar hans. Einnig skulu fylgja ítarleg vottorð lækna sem stundað hafa tjónþola vegna tjóns hans. Þá skulu og fylgja staðfest endurrit skattframtala tjónþola síðustu tvö almanaksár fyrir tjónsatburð og skattframtal eftir að tjón varð. Nefndin getur að auki lagt fyrir matsbeiðanda og eftir atvikum tjónþola sjálfan að leggja fram viðbótargögn eftir því sem nefndin telur ástæðu til.

Í beiðni um álit skal koma fram hver tjónþoli er og að hverjum kröfu um bætur verði beint, sé það vitað. Skal örorkunefnd kynna aðilum fram komna beiðni og fylgigögn og gefa þeim kost á að koma skriflega á framfæri við nefndina gögnum og sjónarmiðum sínum varðandi matsmálið, innan hæfilegs frests.

Beiðni um álit og fylgigögn skulu send nefndinni í svo mörgum eintökum að nægi til að senda öðrum aðilum máls eitt eintak hverjum.

4. gr.

Álit nefndarinnar samkvæmt 1. gr. skal vera skriflegt. Þar skal getið þeirra gagna sem liggja til grundvallar niðurstöðu. Niðurstöðu skal fylgja stuttur rökstuðningur.

5. gr.

Örorkunefnd skal halda málaskrá og gerðabók.

Nefndin skal árlega senda dómsmálaráðherra stutta skýrslu um starfsemi sína á liðnu almanaksári. Fyrsta skýrsla hennar skal þó taka til starfsemi hennar á árunum 1993 og 1994.

6. gr.

Gjald fyrir álitsgerð um mat á afleiðingum slysa samkvæmt 1. gr. greiðist í ríkissjóð og skal vera sem hér segir:

  1. Gjald fyrir álitsgerð um mat á afleiðingum slyss þegar aðilar eru sammála um að leggja matsbeiðni fyrir örorkunefnd án undanfarandi mats annarra kr. 306.000.
  2. Gjald fyrir álitsgerð um mat á afleiðingum slyss þar sem óskað er endurskoðunar á mati sem aðrir hafa framkvæmt kr. 433.000.
  3. Gjald fyrir álitsgerð um mat á afleiðingum tveggja slysa þar sem óskað er endurskoðunar á mati eða mötum sem aðrir hafa framkvæmt kr. 433.000 fyrir fyrra slys og kr. 390.000 fyrir seinna slys.
  4. Gjald fyrir álitsgerð um mat á afleiðingum slyss vegna endurupptöku máls kr. 145.000.

Greiðsla skal fylgja beiðni um álitsgerð. Sé beiðni vísað frá skal gjaldið endurgreitt.

7. gr.

Dómsmálaráðherra ræður nefndinni starfslið og getur einnig falið sjálfstætt starfandi aðila að sjá um skrifstofuhald fyrir nefndina.

Nefndinni er heimilt án atbeina ráðuneytisins að kveðja lækna og aðra sérfróða menn til starfa í þágu nefndarinnar, hvort heldur er við meðferð einstaks máls eða um tiltekinn tíma. Örorkunefnd og starfsmönnum hennar ber að gæta fyllstu þagmælsku um öll einkamál

sem þeir komast að í starfi eða tengslum við það.

8. gr.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt heimild í 10. gr. skaðabótalaga, nr. 50 19. maí 1993, öðlast þegar gildi.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.