Menntamálaráðuneyti

371/1998

Reglugerð um starfslið framhaldsskóla. - Brottfallin

Reglugerð

um starfslið framhaldsskóla.

1. gr.

Starfslið skóla starfar samkvæmt lögum, reglugerðum, erindisbréfi, kjarasamningi og gildandi fyrirmælum á hverjum tíma svo og ákvörðun skólameistara um skiptingu starfa milli starfsmanna.

2. gr.

Auglýsa skal öll laus störf innan framhaldsskólans.

Um skilyrði til þess að vera skipaður skólameistari eða ráðinn framhaldsskólakennari fer eftir ákvæðum laga um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra.

Við ráðningu alls starfsfólks framhaldsskóla og val á milli umsækjenda er skylt að taka tillit til menntunar og starfsreynslu auk annarra verðleika.

Gera skal skriflegan ráðningarsamning um öll störf í framhaldsskólum.

3. gr.

Menntamálaráðherra skipar skólameistara við framhaldsskóla til fimm ára í senn að fengnum tillögum hlutaðeigandi skólanefndar og setur honum erindisbréf.1)

Skólameistari skal m.a.:

 a.            bera ábyrgð á starfsemi skólans, menntunar- og uppeldishlutverki, þróunarstarfi innan hans, gerð skólanámskrár og innritun nemenda,

 b.            bera ábyrgð á eignum, fjárreiðum og öðrum rekstri skólans,

 c.            vinna með skólanefnd að gerð fjárhags- og starfsáætlana til lengri og skemmri tíma og sjá til þess að þeim sé framfylgt,

 d.            sjá um að lögum, reglugerðum og námskrá sé framfylgt,

 e.            ráða, að höfðu samráði við skólanefnd, starfsfólk skóla eftir því sem gildandi lög segja til um og skipta með þeim verkum,

 f.             hafa yfirumsjón með starfi kennara og annarra starfsmanna skólans og fylgjast með því að þeir ræki skyldur sínar og njóti þeirra réttinda sem þeim ber,

 g.            sjá til þess að fylgst sé með því að nemendur stundi nám sitt, hlíti þeim reglum sem settar eru og njóti þeirra réttinda sem þeim ber,

 h.            taka afstöðu til og úrskurða um álitamál vegna innra starfs og starfstíma skólans,

 i.             sjá um tengsl skólans út á við, m.a. við aðstandendur nemenda, aðra skóla og aðila á öðrum sviðum atvinnulífsins,

 j.             vera framkvæmdastjóri skólanefndar með málfrelsi og tillögurétt,

 k.            vera oddviti skólaráðs,

 l.             kalla saman kennarafundi,

 m.           bera ábyrgð á innra mati á starfi skólans,

 n.            bera ábyrgð á að starfsemi skólans sé kynnt,

 o.            sjá til þess að fyrir liggi upplýsingar um skólastarfið og að nauðsynlegar skýrslur um það séu gerðar.

1) Sbr. auglýsingu um erindisbréf skólameistara í framhaldsskólum nr. 453/1997.

4. gr.

Skólameistari ber ábyrgð á að upplýsa forráðamenn ólögráðra nemenda um námsástundun, námsgengi og önnur atriði er varða skólavist nemandans og velferð hans.

5. gr.

Skólameistari ræður aðstoðarskólameistara að höfðu samráði við skólanefnd til allt að fimm ára í senn að undangenginni auglýsingu. Aðstoðarskólameistari skal uppfylla skilyrði í ákvæðum laga um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra. Endurráðning er heimil að undangenginni auglýsingu.

Aðstoðarskólameistari er staðgengill skólameistara og vinnur með honum við daglega stjórn skólans og rekstur.

Nánar má kveða á um starfsskyldur aðstoðarskólameistara í erindisbréfi er skólameistari setur.

6. gr.

Skólameistari ræður áfangastjóra að höfðu samráði við skólanefnd til allt að fjögurra ára í senn úr hópi framhaldsskólakennara við skólann eftir að starfið hefur verið auglýst innan skólans. Endurráðning er heimil að undangenginni auglýsingu.

Áfangastjóri skal m.a.:

 a.            hafa umsjón með rekstri áfangakerfis við skólann,

 b.            sjá um skráningu upplýsinga um nemendur er innritast í skólann, færslu námsferilsskrár og miðlun slíkra upplýsinga,

 c.            hafa umsjón með fjarvistarskráningu,

 d.            hafa yfirumsjón með námsvali nemenda í samráði við námsráðgjafa skólans og umsjónarkennara,

 e.            hafa umsjón með gerð stundaskrár, prófstjórn og úrvinnslu einkunna.

7. gr.

Skólameistari ræður, að höfðu samráði við skólanefnd, deildarstjóra í námgreinum eða greinaflokkum þannig að allar greinar séu á verksviði ákveðins deildarstjóra. Ennfremur getur skólameistari með sama hætti ráðið deildarstjóra til að hafa umsjón með skipulagningu og kennslu á ákveðnu starfssviði skólans. Deildarstjóri er ráðinn úr hópi framhaldsskólakennara skólans til tveggja ára í senn að undangenginni auglýsingu innan skólans. Endurráðning er heimil að undangenginni auglýsingu. Fagkennurum skólans í viðkomandi námsgrein eða greinum skal gefinn kostur á að veita umsögn um ráðninguna.

Deildarstjóri skal m.a.:

 a.            hafa umsjón með gerð kennsluáætlana, kennslu, vali á námsefni, námsmati og samvinnu kennara í grein sinni eða greinum,

 b.            gera áætlanir um störf deildarinnar ásamt kennurum og skrifa skýrslur um starfsemina í lok skólaárs,

 c.            hafa umsjón með þróunarstarfi og innra mati á sínu sviði,

 d.            veita upplýsingar um nám, kennsluefni og kennsluhætti og aðstoða nemendur varðandi nám í greinum sem eru undir hans stjórn,

 e.            halda fundi með kennurum um mál viðkomandi greina(r), setja nýja kennara inn í störf og vera til ráðuneytis um kennsluhætti,

 f.             hafa samstarf við aðra deildarstjóra skólans um námsefni, kennsluhætti og námsmat,

 g.            hafa umsjón með kennslugögnum og tækjum,

 h.            vera skólameistara til ráðuneytis um ráðningu kennara í viðkomandi grein eða greinum.

Deildarstjóri í verklegum greinum skal ennfremur hafa yfirumsjón með samstarfi við vinnustaði sem hafa nemendur deildarinnar í starfsþjálfun.

8. gr.

Skólameistari ræður kennara við framhaldsskóla að höfðu samráði við skólanefnd. Öllum kennararáðningum skal lokið eftir því sem kostur er fyrir 1. júní ár hvert.

Kennari skal m.a.:

 a.            kenna og meta nám í kennslugrein sinni samkvæmt markmiðum aðalnámskrár og markmiðum skv. skólanámskrá,

 b.            gera kennsluáætlanir í samráði við samkennara og deildarstjóra,

 c.            veita viðkomandi aðilum innan skólans upplýsingar um námsgengi nemenda,

 d.            veita upplýsingar um námsefni og námsskipan í grein sinni,

 e.            taka þátt í gerð skólanámskrár, þróunarstarfi og innra mati á starfi skólans,

 f.             fylgjast með í kennslugrein sinni, stuðla að þróun hennar og huga að tengslum við aðrar greinar.

9. gr.

Skólameistari getur í upphafi skólaárs falið kennara að hafa umsjón með nemendahópi eða bekkjardeild. Nefnist hann þá umsjónarkennari.

Umsjónarkennari skal m.a.:

 a.            fylgjast með ástundun og námi nemendahópsins og koma ábendingum um námsvanda á framfæri við námsráðgjafa og skólameistara eða staðgengil hans,

 b.            vera nemendum til ráðuneytis um mál er tengjast skólavist þeirra,

 c.            aðstoða nemendur við námsval og vinna námsáætlanir með þeim,

 d.            leiðbeina nemendum um vinnubrögð í námi,

 e.            vera talsmaður nemenda sinna gagnvart skólayfirvöldum og öðrum kennurum,

 f.             miðla upplýsingum frá stjórnendum skóla til umsjónarnemenda sinna.

10. gr.

Skólameistari ræður námsráðgjafa í samráði við skólanefnd. Námsráðgjafi skal hafa lokið námi í námsráðgjöf frá háskóla og hafa kennsluréttindi eða kennslureynslu á framhaldsskólastigi.

Námsráðgjafi veitir nemendum leiðsögn í persónulegum málum sem snerta námið og skólann. Námsráðgjafi metur hvort unnt sé að leysa úr málum innan skólans eða hvort leita þarf eftir sérhæfðari meðferð til viðeigandi sérfræðinga eða stofnana. Hann kemur upplýsingum þar um til skólameistara.

Námsráðgjafi skal m.a.:

 a.            skipuleggja og sjá um framkvæmd náms- og starfsfræðslu í skólanum,

 b.            annast ráðgjöf um náms- og starfsval,

 c.            taka þátt í að skipuleggja ýmsar aðgerðir til að stuðla að betri líðan nemenda í skólanum,

 d.            fylgjast með námsgengi nemenda sem til hans leita eða til hans er vísað og gera tillögur til úrbóta gerist þess þörf,

 e.            liðsinna kennurum vegna námsvanda einstakra nemenda og vera þeim til aðstoðar við skipulagningu og umsjón með nemendahópum,

 f.             hafa samband við forráðamenn nemenda þegar þörf er á,

 g.            fylgjast með nýjungum á sviði námsráðgjafar,

 h.            taka saman skýrslu um starfsemina í lok hvers skólaárs.

Fara skal með vitneskju sem námsráðgjafi öðlast um persónuleg mál einstaklinga sem trúnaðarmál.

11. gr.

Skólameistari ræður starfsfólk skólasafns að höfðu samráði við skólanefnd. Yfirmaður skólasafns skal vera bókasafnsfræðingur. Yfirmaður skólasafns situr fundi deildarstjóra og annarra stjórnenda skólans þegar fjallað er um málefni er snerta skólasafnið sérstaklega.

Yfirmaður skólasafns skal m.a.:

 a.            gera áætlanir um starfsemi safnsins og hafa umsjón með daglegum rekstri þess, bóka- og gagnakosti svo og tækjum og lestrarsölum,

 b.            annast skráningu safnsins og sjá um að halda henni við,

 c.            annast val og innkaup bóka og annarra gagna til safnsins í umboði skólameistara,

 d.            leiðbeina nemendum og kennurum um notkun safnsins og aðstoða við upplýsingaöflun,

 e.            kynna starfsemi safnsins innan skólans,

 f.             fylgjast með nýjungum á sviði bókasafns- og upplýsingafræða,

 g.            skila skýrslu til skólameistara um starfsemi safnsins í lok skólaárs.

12. gr.

Þar sem ekki teljast efni til að ráða í allar þær stjórnunarstöður sem nefndar eru í reglugerð þessari, t.d. vegna smæðar framhaldsskóla, getur skólameistari að höfðu samráði við skólanefnd skipað störfum með öðrum hætti, s.s. með því að sameina störf með einni ráðningu, telji hann það henta.

Hafi skólar formlegt samstarf sín á milli um námsframboð er þeim heimilt að ráða sameiginlega í þau störf sem nefnd eru í 6., 7., 10. og 11. gr.

13. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 11. gr. laga um framhaldsskóla nr. 80/1996 og öðlast þegar gildi.

Menntamálaráðuneytinu, 22. júní 1998.

Björn Bjarnason.

Stefán Baldursson.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica