REGLUGERÐ
um Rannsóknarstofnun í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands.
1. gr.
Við námsbraut í hjúkrunarfræði starfar Rannsóknarstofnun í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands skv. 3 mgr. 9. gr. laga um Háskóla Íslands, nr. 131/1990.
2. gr.
Hlutverk stofnunarinnar er:
a. Að annast rannsóknir í hjúkrunarfræði.
b. Að sinna þeim verkefnum sem henni kunna að vera falin til úrlausnar skv. ákvörðun stjórnar stofnunarinnar.
c. Að gangast fyrir ráðstefnum, námskeiðum og fyrirlestrum til kynningar á fræðilegum nýjungum og fást við hver önnur verkefni, er stuðlað geta að því að efla rannsóknarstarfsemi í hjúkrunarfræði og kynningu á hjúkrun í skólum og stofnunum landsins.
d. Að veita stúdentum þjálfun og reynslu í vísindalegum vinnubrögðum með því að gefa þeim tækifæri til að vinna rannsóknarstörf á vegum stofnunarinnar, eftir því sem kostur er og fé er veitt til.
e. Að veita rannsóknaraðstöðu fyrir lausráðna kennara í hjúkrunarfræði, eftir því sem kostur er og fé er veitt til.
f. Að hafa samvinnu við aðrar rannsóknarstofnanir er starfa á skyldum sviðum.
g. Að stuðla að útgáfu rita á sviði rannsókna í hjúkrunarfræði.
3. gr.
Starfslið stofnunarinnar er:
a. Prófessorar, dósentar, lektorar, fastráðnir stundakennarar og aðjúnktar við námsbraut í hjúkrunarfræði.
b. Gistiprófessorar, sérfræðingar, stundakennarar og styrkþegar, sem sinna tímabundnum verkefnum eða kennslu í hjúkrunarfræði, eftir því sem aðstæður leyfa og stjórn stofnunarinnar heimilar. Auk þeirra er heimilt að fastráðnir kennarar eða sérfræðingar í skyldum greinum starfi við stofnunina.
c. Sérfræðingar, aðstoðarmenn og stúdentar sem stjórn stofnunarinnar veitir starfsaðstöðu til rannsóknarverkefna og aðrir starfsmenn.
4. gr.
Í stjórn stofnunarinnar skulu sitja fjórir fastráðnir kennarar námsbrautar í hjúkrunarfræði, sbr. a-lið 3. gr. reglugerðar þessarar, kjörnir af stjórn námsbrautarinnar til tveggja ára í senn, svo og einn stúdent í hjúkrunarfræði kosinn af samtökum stúdenta í hjúkrunarfræði til eins árs í senn. Ný stjórn hefur störf um áramót.
Stjórnin kýs sér formann úr hópi fastráðinna kennara, sbr. a-lið 3. gr., til tveggja ára í senn og er hann jafnframt forstöðumaður stofnunarinnar. Hann skal hafa umsjón með framkvæmd á ákvörðunum stjórnarinnar og hafa eftirlit með allri starfsemi stofnunarinnar.
Ráða skal framkvæmdastjóra þegar fjárveiting fæst til stöðunnar, og setur stjórnin honum erindisbréf.
Stjórn stofnunarinnar er heimilt að skipta stofnuninni í deildir eftir því sem þörf er.
Verði stofnuninni skipt í deildir, skal fyrir hverri þeirra vera deildarstjóri sem hefur með höndum stjórn rannsókna og stendur fyrir daglegum rekstri undir yfirstjórn forstöðumanns stofnunarinnar og stjórnar hennar. Deildarstjóri skal valinn af stjórn stofnunarinnar úr hópi fastra starfsmanna, sbr. a-lið 3. gr.
Stjórnin fjallar um öll sameiginleg málefni stofnunarinnar, hefur umsjón með fjármálum hennar, semur rekstraráætlanir og tillögur um fjárveitingar til hennar og til einstakra deilda er þeim hefur verið komið á, og semur ársskýrslu um starfsemina. Afl atkvæða ræður úrslitum mála sbr. 34. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Fundagerðir stjórnar stofnunarinnar skuli sendar til námsbrautarráðs.
Stjórnin getur skotið málum til námsbrautarráðs til samráðs eða úrskurðar. Verði þá ágreiningur, má skjóta honum til námsbrautarstjórnar.
5. gr.
Stjórn stofnunarinnar ákveði greiðslu þóknunar til stjórnarformanns, deildarstjóra og annars starfsliðs eftir gildandi reglum innan Háskólans, eða eftir nánari ákvörðun.
Námsbraut í hjúkrunarfræði sér starfsliði fyrir vinnuaðstöðu.
6. gr.
Rekstur stofnunarinnar er greiddur af fjárframlögum til Háskóla Íslands á fjárlögum. Aðrar tekjur stofnunarinnar eru:
a. Styrkir til einstakra verkefna.
b. Greiðslur fyrir umbeðin verkefni.
c. Tekjur af útgáfustarfsemi.
d. Aðrar tekjur, t.d. gjafir.
Fjármálin heyra endanlega undir rektor og háskólaritara, sbr. 3., 4. og 5. mgr. 2. gr. laga nr. 131/1990, um Háskóla Íslands. Skal reikningshaldið vera hluti af heildarreikningi Háskólans, sjá þó 7. gr. reglugerðar þessarar.
7. gr.
Nú er starfsemi Rannsóknarstofnunar í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands í frjálsri samkeppni við atvinnustarfsemi annarra aðila og skal þá gætt ákvæða 2. mgr. 14. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 og sé sá þáttur starfseminnar fjárhagslega aðskilinn annarri starfsemi Háskóla Íslands og ekki niðurgreiddur hvorki af tekjum af annarri starfsemi háskólans né fjárframlögum til hans.
8. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 3. mgr. 9. gr. laga um Háskóla Íslands, nr. 131/1990, sbr. 65. gr. reglugerðar fyrir Háskóla Íslands, nr. 98/1993, með áorðnum breytingum, og öðlast þegar gildi.
Menntamálaráðuneytinu, 28. janúar 1997.
Björn Bjarnason.
Þórunn J. Hafstein.