Leita
Hreinsa Um leit

Menntamálaráðuneyti

125/1990

Reglugerð um Rannsóknastofu í kvennafræðum við Háskóla Íslands - Brottfallin

REGLUGERÐ

um Rannsóknastofu í kvennafræðum við Háskóla Íslands.

1. gr.

Rannsóknastofa í kvennafræðum við Háskóla Íslands fæst við rannsóknir og miðlun þekkingar á sviði kvennafræða. Rannsóknastofan lýtur yfirstjórn háskólaráðs.

 

2. gr.

Hlutverk rannsóknastofu í kvennafræðum er að:

a) efla og samhæfa rannsóknir í kvennafræðum,

b) hafa samstarf við innlenda og erlenda rannsóknaraðila á sviði kvennafræða,

c) koma á fót gagnabanka um kvennarannsóknir,

d) vinna að og kynna niðurstöður rannsókna í kvennafræðum,

e) veita upplýsingar og ráðgjöf varðandi rannsóknir í kvennafræðum,

f) leita samstarfs við deildir háskólans um að auka þótt kvennafræða í kennslu fræðigreina,

g) gangast fyrir námskeiðum og fyrirlestrum um kvennafræði og kvennarannsóknir.

 

3. gr.

Háskólaráð skipar sex manna stjórn til tveggja ára. Félagsvísindadeild og heimspekideild tilnefna einn fulltrúa hvor; tveir fulltrúar eru tilnefndir til skiptis af tveim eftirtöldum deildum í þeirra röð sem þær eru hér taldar: guðfræðideild, lagadeild, raunvísindadeild, viðskipta- og hagfræðideild, og læknadeild (þar með taldar námsbrautir í hjúkrunarfræði og sjúkraþjálfun). Háskólaráð skipar tvo án tilnefningar.

 

4. gr.

Stjórnin skiptir með sér verkum og setur sér vinnureglur. Stjórnin ákveður m.a. rannsóknastefnu stofunnar og veitir fé til einstakra rannsóknaverkefna.

 

5. gr.

Stjórnin ræður forstöðumann rannsóknastofunnar til tveggja ára í senn og setur honum erindisbréf. Forstöðumaður hefur umsjón með daglegum rekstri, annast áætlanagerð og hefur umsjón með fjármálum stofunnar. Forstöðumaður er í starfi sínu ábyrgur gagnvart stjórn. Hann situr stjórnarfundi með tillögurétt en án atkvæðisréttar.

 

6. gr.

            Tekjur rannsóknastofu í kvennafræðum eru:

a) fjárveitingar á fjárlögum,

b) styrkir til einstakra verkefna,

c) greiðslur fyrir umbeðin verkefni,

d) gjafir.

Reikningshald stofunnar skal vera hluti af reikningshaldi háskólans. Fjárlagatillögur stofunnar skulu vera hluti af fjárlagatillögum háskólans.

 

7. gr.

Reglugerð þessi er sett sbr. heimild í 9. gr. laga nr. 77/1979 um Háskóla Íslands, sbr. háskólareglugerð nr. 78/1979, 66. gr., og öðlast þegar gildi.

 

Menntamálaráðuneytið, 7. mars 1990.

 

Svavar Gestsson.

 

Árni Gunnarsson.

 
Þetta vefsvæði byggir á Eplica