Menntamálaráðuneyti

896/1999

Reglugerð um Raunvísindastofnun Háskólans - Brottfallin

REGLUGERÐ

um Raunvísindastofnun Háskólans.

1. gr.

Heiti stofnunarinnar og tengsl hennar við Háskóla Íslands.

Stofnunin heitir Raunvísindastofnun Háskólans og heyrir undir raunvísindadeild Háskóla Íslands. Fjallar deildin um málefni stofnunarinnar, eins og nánar er kveðið á um í reglugerð þessari.

2. gr.

Starfssvið.

Aðalstarf stofnunarinnar er undirstöðurannsóknir í raunvísindum, sbr. 3. gr. Auk þess skal stofnunin hafa samvinnu við raunvísindadeild um háskólakennslu í raunvísindagreinum. Jafnframt stuðli stofnunin eftir föngum að hagnýtingu nýjunga á fræðasviðum sínum, veiti sérfræðiaðstoð og annist fræðslustarfsemi, samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar hennar. Stofnunin er rannsóknarvettvangur þeirra fastráðinna kennara í raunvísindadeild, sem ráðnir eru til kennslu og rannsóknarstarfa á sviðum stofnunarinnar, nema annað þyki betur henta.

3. gr.

Rannsóknarstofur.

Stofnunin skiptist í sex rannsóknarstofur:

1.

Eðlisfræðistofu

2.

Efnafræðistofu

3.

Jarðfræðistofu

4.

Jarðeðlisfræðistofu

5.

Reiknifræðistofu

6.

Stærðfræðistofu

Stjórn stofnunarinnar er heimilt með samþykki deildarráðs raunvísindadeildar að stofna fleiri rannsóknarstofur eða skipta rannsóknastofum í deildir. Stjórn stofnunarinnar kveður á um skiptingu fræðigreina milli stofa.

4. gr.

Flokkun starfsliðs og hæfniskröfur.

A. Kennarar í raunvísindadeild sem hafa starfsaðstöðu við stofnunina.

B. Sérfræðingar sem ráðnir eru tímabundið til sjálfstæðra rannsókna. Sérfræðingar sem ráðnir eru með þessum hætti skulu að jafnaði hafa lokið doktorsprófi.

C. Sérfræðingar með sjálfstætt verksvið. Sérfræðingar ráðnir með þessum hætti skulu hafa lokið doktorsprófi, eða hafa jafngilda menntun.

D. Verkefnaráðnir sérfræðingar. Sérfræðingar ráðnir með þessum hætti skulu hafa lokið meistaraprófi hið minnsta.

E. Annað starfslið, þ. á m. tæknimenntaðir starfsmenn við rannsóknastörf og starfslið á skrifstofu.

F. Skammtímaráðið starfslið þ. á m. stúdentar í sumarvinnu eða framhaldsnámi. Einstaklingar sem stjórn stofnunarinnar veitir starfsaðstöðu um takmarkaðan tíma.

5. gr.

Forstöðumenn.

Fyrir hverri rannsóknarstofu skal vera forstöðumaður, sem ásamt varamanni er kjörinn af deildarráði raunvísindadeildar, úr hópi prófessora, dósenta eða sérfræðinga úr flokki C, sbr. gr. 4, til fjögurra ára í senn. Deildarráð leitar skriflegra tillagna frá starfsmönnum viðkomandi stofu í flokki A-E, sem starfað hafa við stofnunina í eitt ár eða lengur.

Forstöðumaður annast daglegan rekstur stofunnar þ. á m. eftirlit með starfsmönnum stofunnar og fjármálum og hefur á hendi stjórnsýslu rannsóknarverkefna. Ef ágreiningur rís milli forstöðumanns og starfsmanns rannsóknarstofu, skal leita úrskurðar stjórnar. Forstöðumaður efnir til reglulegra funda með starfsmönnum stofunnar eigi sjaldnar en einu sinni á misseri.

Forstöðumaður er ábyrgur gagnvart stjórn stofnunarinnar í starfi sínu.

6. gr.

Stjórn.

Stjórn stofnunarinnar er skipuð forstöðumönnum rannsóknarstofa, einum manni kjörnum til fjögurra ára af deildarráði raunvísindadeildar og varamanni hans kjörnum úr hópi forstöðumanna, og einum fulltrúa kosnum, ásamt varamanni, til fjögurra ára, á almennum fundi allra starfsmanna í flokkum A-E, sbr. 4. gr. Stjórnarmaður sá, sem kjörinn er af deildarráði, er formaður stjórnarinnar, og skal hann vera prófessor eða dósent við deildina á einhverju af sviðum stofnunarinnar, eða sérfræðingur úr flokki C við stofnunina. Deildarráð lætur fara fram skriflega atkvæðagreiðslu meðal starfsmanna stofnunarinnar í flokkum A-E, sem starfað hafa við stofnunina eitt ár eða lengur, um það hver gegna eigi stjórnarformennsku. Er niðurstaða þeirra kosninga ráðgefandi fyrir deildarráð. Fulltrúi starfsmanna skal hafa starfað samfleytt a.m.k. eitt ár við stofnunina. Skipti í stjórninni fara fram í upphafi háskólaárs. Varamenn taka sæti í stjórn í forföllum aðalmanna.

Stjórnin fjallar um öll sameiginleg málefni rannsóknarstofa, samþykkir rekstraráætlanir stofanna, tillögur um fjárveitingar og skiptingu þeirra milli stofa og staðfestir reikningsyfirlit liðins árs. Stjórnin markar stofnuninni stefnu í rannsóknum, hvað snertir val meiri háttar verkefna. Hún skipuleggur samstarf stofanna eftir aðstæðum og tekur ákvörðun um sameiginleg rannsóknarverkefni. Stjórnin sker úr vafaatriðum um skiptingu verkefna milli rannsóknarstofa. Stjórnin ráðstafar húsnæði því sem stofnunin hefur til afnota til einstakra stofa og sameiginlegra þarfa.

Stjórnin fjallar um ráðningu starfsfólks að stofnuninni. Sé rannsóknarstofu skipt í deildir skal stjórnin tilnefna deildarstjóra.

Stjórnin skal standa að útgáfu ársskýrslu stofnunarinnar.

Nú verða atkvæði jöfn á stjórnarfundi, og ræður þá atkvæði formanns. Skylt er að halda stjórnarfund um tiltekin mál, ef tveir eða fleiri stjórnarmenn óska þess.

Fundargerðir stjórnar skulu liggja frammi og fundarsamþykktir kynntar starfsmönnum. Þær skulu ennfremur sendar deildarráði raunvísindadeildar. Stjórnin skal reglulega kynna starfsliði stofnunarinnar, með fundum eða útgáfustarfi, helstu atriði í starfi og rekstri stofnunarinnar. Stjórnin skal boða til almenns starfsmannafundar um tiltekin málefni óski a.m.k. þriðjungur starfsmanna eftir því.

7. gr.

Formaður stjórnar og framkvæmdastjóri.

Formaður stjórnarinnar kemur fram fyrir stofnunina í heild og er málsvari stjórnarinnar og fulltrúi hennar innan stofnunarinnar og utan. Hann hefur eftirlit með framkvæmd á ákvörðunum stjórnarinnar og boðar stjórnarfundi með dagskrá.

Framkvæmdastjóri veitir sameiginlegri skrifstofu rannsóknarstofanna forstöðu og annast almennan rekstur stofnunarinnar. Hann skal hafa háskólapróf. Framkvæmdastjóri sér um framkvæmd þeirra mála, sem stjórnin felur honum og hefur umsjón með allri starfsemi, sem heyrir ekki undir einstakar rannsóknarstofur. Hann sér um ráðningu lausráðins aðstoðarfólks í samráði við forstöðumenn og í samræmi við fjárveitingu. Framkvæmdastjóri er ritari stjórnar.

Stjórnin setur framkvæmdastjóra erindisbréf þar sem nánar er kveðið á um verksvið hans. Framkvæmdastjóri er ábyrgur gagnvart stjórn í starfi sínu.

8. gr.

Fjármál.

Stofnunin hefur sjálfstætt fjárhald og ber sjálfstæða fjárábyrgð. Fjárlagatillögur stofnunarinnar skulu kynntar forseta raunvísindadeildar og háskólarektor, áður en þær eru sendar ráðuneyti. Rekstur stofnunarinnar er kostaður af ríkisfé, samkvæmt því, sem veitt er í fjárlögum hverju sinni, og eigin tekjum hennar.

Ef starfsemi stofnunarinnar er í samkeppni við atvinnustarfsemi annarra aðila skal gæta ákvæða 2. mgr. 14. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 og sá þáttur starfseminnar skal vera fjárhagslega aðskilinn frá annarri starfsemi stofnunarinnar og ekki niðurgreiddur af tekjum af annarri starfsemi stofnunarinnar eða fjárframlögum til hennar.

Stjórnarformaður, forstöðumenn og fulltrúi starfsmanna skulu fá greidda þóknun fyrir störf sín í samræmi við reglur Háskóla Íslands og þær venjur sem skapast hafa um greiðslur fyrir slík störf.

9. gr.

Aðild að fyrirtækjum.

Stofnuninni er heimilt, að fengnu samþykki menntamálaráðherra, að eiga aðild að rannsókna- og þróunarfyrirtækjum, sem eru hlutafélög eða önnur félög með takmarkaðri ábyrgð, er þrói hugmyndir og hagnýti niðurstöður rannsókna- og þróunarverkefna sem stofnunin vinnur að hverju sinni.

10. gr.

Ráðningar.

Við ráðningu starfsmanns í flokki B og C skal fylgt reglum Háskóla Íslands um ráðningu sérfræðinga. Stjórn stofnunarinnar ræður starfslið í flokkum D og E og framkvæmdastjóri starfslið í flokki F. Ráðning sérfræðinga skal vera til rannsóknarstarfa. Kennsla þeirra við háskólann skal háð samkomulagi milli deildarráðs og stjórnar stofnunarinnar, og skal þá m.a. ákveðið, hvort kennslan skuli teljast hluti af starfsskyldu viðkomandi sérfræðings.

11. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi öðlast gildi 5. september 1999 og fellur þá jafnframt úr gildi reglugerð nr. 537/1975 með áorðnum breytingum.

Háskóla Íslands, 16. desember 1999.

Páll Skúlason.

Þórður Kristinsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica