Menntamálaráðuneyti

296/1989

Reglugerð um Sjávarútvegsstofnun Íslands - Brottfallin

REGLUGERÐ

um Sjávarútvegsstofnun Háskóla Íslands.

 

1. gr.

Sjávarútvegsstofnun Háskóla Íslands er rannsóknastofnun á sviði sjávarútvegs og fiskeldis og lýtur yfirstjórn háskólaráðs.

 

2. gr.

Markmið Sjávarútvegsstofnunar er:

a) að efla og samhæfa rannsóknir í sjávarútvegsfræðum við Háskóla Íslands;

b) að stuðla að samstarfi við innlenda og erlenda rannsóknaraðila á sviði sjávarútvegsfræða;

c) að gefa út og kynna niðurstöður rannsókna í sjávarútvegsfræðum;

d) að veita upplýsingar og ráðgjöf í sjávarútvegsmálum;

e) að styðja kennslu og þjálfun í sjávarútvegsfræðum, einkum til meistaraprófs;

f) að gangast fyrir námskeiðum og fyrirlestrum í sjávarútvegsfræðum.

 

3. gr.

Menntamálaráðherra skipar forstöðumann stofnunarinnar til þriggja ára í senn, að fengnum tillögum háskólaráðs, sem setur forstöðumanni erindisbréf. Háskólaráð skipar fimm manna stjórn til þriggja ára. Félagsvísindadeild, raunvísindadeild, verkfræðideild og viðskipta- og hagfræðideild tilnefna einn hver, en hinn fimmta skipar háskólaráð án tilnefningar.

 

4. gr.

Forstöðumaður stofnunarinnar hefur umsjón með daglegum rekstri hennar. Jafnframt annast hann áætlanagerð, hefur yfirumsjón með fjáröflun og samræmir fjáröflunarleiðir. Forstöðumaður er í starfi sínu ábyrgur gagnvart stjórn. Hann situr stjórnarfundi með tillögurétt en án atkvæðisréttar.

 

5. gr.

Stjórnin kýs úr sínum hópi formann og varaformann. Formaður boðar stjórnarfundi. Falli atkvæði jöfn á stjórnarfundi, ræður atkvæði formanns.

Stjórnin ákveður m.a. rannsóknastefnu stofnunarinnar og veitir fé til einstakra rannsóknaverkefna.

 

6. gr.

Stjórninni er heimilt að kveðja til sérstaka ráðgjafarnefnd með þátttöku aðila og stofnana í sjávarútvegi og fiskeldi sér til ráðuneytis um rannsóknastefnu stofnunarinnar.

 

7. gr.

Tekjur Sjávarútvegsstofnunar eru:

a) fjárveitingar á fjárlögum;

b) styrkir til einstakra verkefna;

c) greiðslur fyrir umbeðin verkefni; d) gjafir.

Reikningshald stofnunarinnar skal vera hluti af reikningshaldi háskólans. Fjárlagatillögur stofnunarinnar skulu vera hluti af fjárlagatillögum háskólans.

 

8. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 9. gr. laga nr. 77/1979, um Háskóla Íslands, sbr. reglugerð fyrir Háskóla Íslands nr. 78/1979, 66. gr., og öðlast þegar gildi.

 

Ákvæði til bráðabirgða.

Eigi síðar en þremur árum eftir gildistöku þessarar reglugerðar skal háskólaráð skipa nefnd til að endurskoða reglugerðina og gera tillögur um breytingar á henni í ljósi þeirrar reynslu, sem þá hefur fengist af starfi Sjávarútvegsstofnunar.

 

Menntamálaráðuneytið, 8. júní 1989.

 

Svavar Gestsson.

Árni Gunnarsson.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica