Landbúnaðarráðuneyti

463/2003

Reglugerð um merkingar búfjár. - Brottfallin

463/2003

REGLUGERÐ
um merkingar búfjár.

1. gr.
Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að tryggja rekjanleika búfjárafurða frá upprunahjörð og/eða fæðingu viðkomandi dýrs til sölu afurða og skapa með því grundvöll að markvissu matvæla- og búfjáreftirliti, skráningu búfjársjúkdóma og meðhöndlun þeirra.


2. gr.
Orðskýringar.

Í reglugerð þessari hafa eftirtalin orð merkingu sem hér segir:

1. Búfé: Hross, nautgripir, svín og alifuglar.
2. Búsnúmer: Landnúmer auk býlisskotts.
3. Eftirlitsaðili: Héraðsdýralæknir eða hver annar sem hefur með höndum eftirlit með framkvæmd ákvæða reglugerðar þessarar.
4. Einstaklingsnúmer: Einkvæmt númer/bókstafir fyrir hvern ásetningsgrip á landsvísu.
5. Eldisnúmer: Fjögurra stafa númer grísa samsett af tveggja stafa framleiðandanúmeri og tveggja stafa vikunúmeri.
6. Framleiðandanúmer: Tveggja stafa númer svínahjarðar ákveðið af landbúnaðarráðuneytinu.
7. Vikunúmer: Tveggja stafa númer vikunnar sem spenagrísinn er fæddur í.
8. Gripanúmer: Númer grips innan hjarðar sem jafnframt er síðasti hluti einstaklingsnúmers.
9. Grís: Spenagrís, fráfærugrís eða eldisgrís.
10. Gylta: Gylta sem hefur gotið.
11. Heilsukort: Safn upplýsinga með gögnum um meðhöndlun sjúkdóma og fyrirbyggjandi aðgerðir.
12. Hjarðbók: Gagnagrunnur eða skýrsluhaldsform sem umráðamanni búfjár, að alifuglum undanskildum, er skylt að skrá í tilgreindar upplýsingar um dýr í hans umsjón.
13. Hjörð: Hópur tiltekinnar búfjártegundar frá sama býli.
14. Hópnúmer: Ellefu stafa númer hóps í alifuglabúi.
15. Landmarkaskrá: Sjá reglugerð nr. 200/1998 um búfjármörk, markaskrár og takmörkun á sammerkingum búfjár.
16. Líf-/ásetningsdýr: Dýr sem sett eru á til undaneldis og/eða nytja.
17. Merki: Plötumerki, frostmerki, örmerki, rafræn merki, húðflúr eða önnur skráning sem yfirdýralæknir viðurkennir fyrir einstakar búfjártegundir.
18. Skráningaraðili: Aðili sem annast skráningu upplýsinga í umboði landbúnaðarráðuneytisins, samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar.
19. Stofn: Sérstök ræktunarlína innan sömu búfjártegundar.
20. Tölvuskráningarkerfi: Skráningarkerfi sem yfirdýralæknir hefur eftirlit með.
21. Svín: Ásett lífdýr, gyltur og geltir.
22. Valnúmer: Númer sem umráðamaður nautgripa velur.
23. Umráðamaður búfjár: Eigandi búfjár eða aðili sem er ábyrgur fyrir fóðrun, aðbúnaði og vörslu þess í samræmi við lög nr. 103/2002 um búfjárhald o.fl.
24. Slátrun: Varðar bæði slátrun í sláturhúsi og heimaslátrun til eigin nota á lögbýli.


3. gr.
Skráningarskylda.

Umráðamaður búfjár skal senda upplýsingar til skráningaraðila í samræmi við ákvæði viðauka I við reglugerðina.

Allir umráðamenn búfjár skulu vera skráðir í tölvuskráningarkerfi fyrir merkingar búfjár, sbr. ákvæði 4. og 13. gr.

Skráningaraðili skal hafa lokið skráningu upplýsinga innan 5 virkra daga frá móttöku þeirra.


4. gr.
Merkingarskylda.

Umráðamaður búfjár ber ábyrgð á að allt búfé sem alið er á hans vegum sé merkt innan tilskilins tíma frá fæðingu með viðurkenndu merki, sem fylgir dýrinu alla ævi þess, sbr. ákvæðin fyrir einstakar búfjártegundir.

Ákvæði þessi gilda ekki um merkingar sauðfjár og geitfjár.

Óheimilt er að breyta eða fjarlægja einstaklingsnúmer/merki dýrs eða eldishóps, nema það sé orðið ólæsilegt eða skemmt. Missi dýr merki, glatist það, eða það er orðið ólæsilegt, skal umráðamaður án tafar endurmerkja dýrið með sams konar merki og sama númeri. Nýja merkið skal vera forprentað með upplýsingunum skv. a-d lið 6. gr. og með bókstafnum N aftan við búsnúmer, sem sýnir að um nýtt merki sé að ræða. Ef dýr ferst eða týnist skal það tilkynnt skráningaraðila.


5. gr.
Kröfur um gerð plötumerkja fyrir ásetningsdýr.

Plötumerki skulu þannig gerð að ekki sé unnt að nota þau aftur eftir að þau hafa verið fjarlægð. Upplýsingar á merkjum skal prenta fyrirfram með skýru letri sem ekki er hægt að breyta. Plötumerki til notkunar samkvæmt reglugerð þessari skulu viðurkennd af yfirdýralækni.


6. gr.
Kröfur um upplýsingar á plötumerkjum ásetningsdýra.

Eftirfarandi upplýsingar skal forprenta á merki fyrir nautgipi og svín:

a. YD-einkennisstafi embættis yfirdýralæknis.
b. IS-einkennisstafi Íslands.
c. Búsnúmer, þ.e. landnúmer og býlisskott.
d. Gripanúmer. Fyrir framan gripanúmer svína má þó prenta tveggja stafa framleiðandanúmer.
e. Heimilt er að litaskipta merkjum svína eftir stofni skv. reglum sem landbúnaðarráðuneytið setur.

Ekki er krafist einstaklingsmerkja á sláturgrísi og alifugla. Hafi grís/grísir fengið lyfjameðhöndlun skulu þeir auðkenndir við upphaf lyfjagjafar og skulu þær upplýsingar aðgengilegar eftirlitsaðila.

Heimilt er að nota eigin valnúmerakerfi fyrir nautgripi til viðbótar forprentuðum upplýsingum.

Óheimilt er að nota númer sem þegar eru í notkun innan hjarðarinnar. Líða skulu 10 ár milli notkunar á sama einstaklingsnúmeri innan hjarðar.


7. gr.
Hjarðbók.

Umráðamaður búfjár er ábyrgur fyrir færslu upplýsinga um öll dýr hjarðarinnar, annaðhvort í gagnagrunn eða á skýrsluform, sem skráningaraðili lætur í té, og viðurkennt er af yfirdýralækni.

Eftirfarandi upplýsingar um nautgripi skal skrá:

a. Fæðingardag/fæðingarmánuð og ár.
b. Einstaklingsnúmer dýrs.
c. Valnúmer, ef um slíkt er að ræða.
d. Kyn og stofn dýrsins. Einstaklingsnúmer móður og föður.
e. Dagsetningu slátrunar og ef dýrið ferst eða glatast.
f. Alla flutninga lífdýra til og frá hjörð, bæði varanlega og tímabundna og auk þess;
i) nafn, heimilsfang og eigenda- eða bæjarnúmer sendanda og móttakanda;
ii) fjölda dýra sem flutt/seld eru;
iii) einstaklingsnúmer dýra sem eru flutt.
g. Dagsetning flutnings.
h. Móttekin plötumerki.


Eftirfarandi upplýsingar um svín skal skrá í hjarðbók:

a. Einstaklingsnúmer.
b. Fæðingardag.
c. Einstaklingsnúmer móður og föður.
d. Stofn.
e. Dagsetningu dauða eða slátrunar.
f. Alla svína og grísaflutninga til og frá hjörð, bæði varanlega og tímabundna og auk þess;
i) nafn, heimilisfang og framleiðandanúmer sendanda og móttakanda;
ii) fjölda dýra sem flutt/seld eru;
iii) dagsetningu flutnings;
iv) nafn og kennitölu flutningsaðila.

Þegar nýtt svín kemur inn í hjörð skal skrá einstaklingsnúmer þess. Þegar nýir grísir koma inn í hjörð skal skrá eldisnúmer þeirra.


8. gr.
Heilsukort.

Umráðamaður búfjár er ábyrgur fyrir að sjúkdómar í búfé hans og meðhöndlun þeirra sé skráð, sem og fyrirbyggjandi aðgerðir. Upplýsingar skulu skráðar á eyðublöð sem yfirdýralæknir viðurkennir eða í tölvuskrár. Við flutning dýra milli hjarða skal afrit heilsukorts fylgja dýrinu til móttakanda.


9. gr.
Varðveisla hjarðbókar og heilsukorta.

Hjarðbækur og heilsukort skulu umráðamenn búfjár varðveita í a.m.k. 10 ár. Sama gildir þótt framleiðslu sé hætt. Umráðamaður búfjár, skal að ósk héraðsdýralæknis, veita allar umbeðnar upplýsingar um uppruna, númer og eftir því sem við á, áfangastað þeirra dýra sem hann hefur átt, alið, selt á fæti eða slátrað.


10. gr.
Ábyrgð sláturhúsa.

Að dagsslátrun lokinni tilkynnir umsjónarmaður sláturhúss skráningaraðila á tölvutæku formi, hvaða dag slátrun fór fram, númer dýrs eða dýra, fjölda, uppruna þeirra, auk nafns og heimilisfangs sláturhúss.

Svínaafurðum sem fluttar eru frá sláturhúsi til frekari vinnslu og sölu í heilum skrokkum og/eða skrokkhlutum skal fylgja eldisnúmer, eða einstaklingsnúmer dýrs.

Kjúklingaafurðum sem fluttar eru til frekari vinnslu, sbr. 2. mgr. skal fylgja hópnúmer.

Hrossa- og nautgripaafurðum sem fluttar eru til frekari vinnslu, sbr. 2. mgr., skal fylgja einstaklingsnúmer dýrs, eftir því sem við á.


11. gr.
Óskráð dýr.

Komi í ljós að skráningu dýra í tiltekinni hjörð sé ábótavant skal stöðva allan flutning dýra frá hjörðinni þar til úr hefur verið bætt.


12. gr.
Grunur um smitsjúkdóm.

Vakni grunur um smitsjúkdóm í hjörð skal umráðamaður búfjár þegar í stað tilkynna það héraðsdýralækni, sbr. ákvæði 5. gr. laga nr. 25/l993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og ákvæði reglugerðar nr. 665/2001, um viðbrögð við smitsjúkdómum.


13. gr.
Tölvuskráningarkerfi.

Vegna skráningar á upplýsingum samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar skal vera til staðar samræmt tölvuskráningarkerfi sem aðgengilegt er öllum sem ala dýr til slátrunar og skulu umráðamenn búfjár hafa aðgang að upplýsingum er varða eigin gripi.

Landbúnaðarráðuneytið hefur yfirumsjón með rekstri skráningarkerfisins en felur Bændasamtökum Íslands eða öðrum til þess bærum aðilum að hafa umsjón með skráningu upplýsinga í tölvuskráningarkerfið skv. ákvæðum reglugerðar þessarar. Yfirdýralæknir hefur eftirlit með skráningu upplýsinga í kerfið f.h. landbúnaðarráðuneytisins.

Upplýsingar úr skráningarkerfi skv. 1. mgr. skulu heimilar yfirdýralækni, og öðrum aðilum, að fengnu leyfi frá landbúnaðarráðuneytinu.


14. gr.
Merkingar nautgripa.

Nautgripi skal merkja með plötumerki eða rafrænu merki innan 30 daga frá fæðingu eða áður en þeir eru fluttir frá viðkomandi hjörð. Kálfar sem slátrað er fyrir þann tíma skulu auðkenndir þannig að númer móður sé gefið upp við slátrun.


15. gr.
Merkingar alifugla.

Framleiðandi skal einkenna hvern alifuglahóp í útungunarstöð með sérstöku hópnúmeri. Númer þetta skal vera minnst ellefu tölustafir og þannig uppbyggt að fyrstu þrír tölustafirnir merkja alifuglaframleiðandann, síðan koma tveir tölustafir fyrir árið, tveir fyrir vikuna sem ungarnir eru klaktir í, tveir fyrir raðnúmer eldishópsins innan viku og loks tveir fyrir húsnúmer.


16. gr.
Merkingar grísa og svína.

Allir spenagrísir skulu merktir innan 20 daga frá fæðingu með fjögurra stafa eldisnúmeri (húðflúri) í eyra. Húðflúrið skal vera sýnilegt alla ævi dýrsins. Aðkeypt svín skulu merkt skv. 6. gr. í upprunahjörð. Heimaaldar ásetningsgyltur skal merkja skv. 6. gr. við tilhleypingu. Heimaalda ásetningsgelti skal merkja skv. 6. gr. eigi síðar en við 6 mánaða aldur.


17. gr.
Merkingar hrossa.

Öll ásetningsfolöld skulu einstaklingsmerkt við hlið móður fyrir 10 mánaða aldur. Folöld sem slátrað er fyrir þann tíma skulu auðkennd þannig að fæðingarnúmer móður sé gefið upp við slátrun.

Ekki er gerð krafa um að hross sem fædd eru fyrir 1. janúar 2003 séu merkt samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar nema sérstakar markaðsaðstæður krefjist.


18. gr.
Eftirlit.

Eftirlit með framkvæmd ákvæða reglugerðar þessarar er í höndum yfirdýralæknis.


19. gr.
Kostnaður.

Kostnað sem hlýst af framkvæmd ákvæða reglugerðar þessarar bera eigendur búfjár, þó bera sláturleyfishafar þann kostnað sem af ákvæðum 2. mgr. 10. gr. hlíst.


20. gr.
Refsiákvæði.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum skv. 18. gr. laga nr. 103/2002 um búfjárhald o.fl.


21. gr.
Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 1. tl. 17. gr. laga nr. 103/2002, um búfjárhald o.fl., lögum nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr og lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, ásamt síðari breytingum.

Reglugerðin er auk þess sett með hliðsjón af reglugerð þingsins og ráðsins, nr. 1760/2000/EB, reglugerðum ráðsins nr. 2628/1997/EB og 2629/1997/EB, reglugerðum framkvæmdastjórnarinnar nr. 2630/1997/EB og 494/98/EB, tilskipunum ráðsins nr. 64/432/EBE og 92/102/EBE.

Reglugerðin öðlast þegar gildi. Við gildistöku reglugerðarinnar fellur jafnframt úr gildi eldri reglugerð um sama efni nr. 427/2002.


22. gr.
Ákvæði til bráðabirgða.

Gildistaka fyrir nautgripi: Allir kálfar, fæddir eftir 1. september 2003, skulu merktir samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar. Frá 1. janúar árið 2005 skulu allir nautgripir merktir samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar.

Gildistaka fyrir alifugla: Allir alifuglar, sem slátrað er eftir 1. september 2003, skulu merktir samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar.

Gildistaka fyrir svín og grísi: Allir grísir, sem slátrað er eftir 1. september 2003 skulu merktir samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar.


Landbúnaðarráðuneytinu, 11. júní 2003.

Guðni Ágústsson.
Atli Már Ingólfsson.


VIÐAUKI I
Skráningarfrestir/tímamörk.


Í eftirfarandi töflu er ávallt miðað við virka daga:
Fæðingar Dagar eftir fæðingu
Kálfar 30
Grísir 7
Folöld 30
Alifuglar Enginn, nema meðhöndlaða.
Sendingar af búi Dagar eftir sendingu
Nautgripir 7
Hross 7
Svín 7
Alifuglar Enginn
Móttaka á bú Dagar eftir móttöku
Nautgripir 7
Hross 7
Svín 7
Umráðamannaskipti
Dagar eftir skipti 7
Hver skráir Seljandi
Slátrun
Dagar eftir slátrun 1
Hver skráir Sláturleyfishafi
Dauði gripa
Dagar eftir dauða/týnist/brottskr. 30
Sjúkdómsgreining
Dagar eftir greiningu 2
Meðhöndlun dýralæknis
Dagar eftir meðhöndlun 2
Hjarðmeðhöndlun
Dagar eftir meðhöndlun 2
Sláturfrestur/nýting afurða
Dagar eftir slátrun 2
Flutningsfrestur gripa
Dagar eftir flutning 2
Flutningsfrestur á bú
Dagar eftir flutning 2
Einstaklingsnúmeramerking
Aldur lífdýra Innan
Nautgripir 30 daga
Hross Fyrir 10 mánaða aldur
Svín 7 daga eftir tilhleypingu
Alifuglar Enginn, nema meðhöndlun
Slátrun á óinnskráðum unggripum
Nýskráðir dagar eftir slátrun: 30


Þetta vefsvæði byggir á Eplica