Viðskiptaráðuneyti

307/1994

Reglugerð um útibú og umboðsskrifstofu lánastofnunar með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins.

I. KAFLI

Almenn ákvæði.

1. gr.

Í reglugerð þessari merkir hugtakið lánastofnun viðskiptabanka og sparisjóð, sbr. lög nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði, og aðra lánastofnun, sbr. lög nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði.

Lánastofnun með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins og undir eftirliti lögbærra yfirvalda í heimaríki sínu getur að fengnu leyfi viðskiptaráðherra stofnsett hér á landi útibú eða umboðsskrifstofu.

2. gr.

Ákvæði XVII. kafla laga nr. 32/1978, hlutafélagalaga, um erlend hlutafélög skulu eiga við um útibú erlendrar lánastofnunar eða umboðsskrifstofu samkvæmt þessari reglugerð, eftir því sem við á. Hið sama gildir um ákvæði laga nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði, og ákvæði laga nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði.

II. KAFLI

Starfsleyfi.

3. gr.

Í umsókn um leyfi til stofnunar útibús eða umboðsskrifstofu skulu koma fram upplýsingar um þau atriði sem upp eru talin í 2. mgr. 83. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði.

Með umsókn um leyfi til stofnunar útibús eða umboðsskrifstofu skal fylgja ársreikningur lánastofnunar fyrir þrjú sl. reikningsár og önnur þau gögn sem upp eru talin í 3. mgr. 139. gr. hlutafélagalaga.

Heimilt er að krefjast þess að gögn sem fylgja umsókn samkvæmt þessari grein séu afhent í þýðingu löggilts skjalaþýðanda.

Í umsókn skal einnig greint frá því hvernig stofnfé skal innborgað og hver heildarfjárhæð þess verður.

4. gr.

Áður en leyfisumsókn er afgreidd skal leitað umsagnar bankaeftirlits Seðlabanka Íslands.

Í starfsleyfi útibús skal tilgreina starfsskilyrði. Þau skulu vera hin sömu og lánastofnana sem hlotið hafa starfsleyfi viðskiptaráðherra og eru með höfuðstöðvar á Íslandi. Með starfsskilyrðum er átt við að útibú skal lúta íslenskum lögum og lögsögu, svo sem skattalögum, lögum um stjórn efnahagsmála og neytendamálefni, svo og reglum vegna peningamálastjórnunar.

Öll lögskipti sem leiðir af starfsemi umboðsskrifstofa erlendra banka hér á landi skulu lúta íslenskum lögum og lögsögu.

Umsókn skal hafnað ef ástæða er til að efast uM að fjárhagsstaða lánastofnunar, stjórnun hennar eða aðrir þættir sem hafa áhrif á grundvöll fyrirhugaðrar starfsemi séu fullnægjandi.

ðrir þættir sem hafa áhrif á grundvöll fyrirhugaðrar starfsemi séu fullnægjandi.

5. gr.

Stofnfé útibús skal nema 400 milljónum króna að lágmarki og skal aldrei nema lægri fjárhæð. Fjárhæð þessi skal bundin gengi evrópsku mynteiningarinnar ECU miðað við kaupgengi hennar 11. maí 1993. Starfsleyfi verður ekki gefið út fyrr en stofnfé hefur verið innborgað.

6. gr.

Útibú eða umboðsskrifstofa má ekki hefja starfsemi fyrr en leyfi til þess hefur verið veitt.

III. KAFLI

Stjórnun og starfsemi.

7. gr.

Stjórnandi erlends útibús eða umboðsskrifstofu skal fullnægja skilyrðum 138. gr. hlutafélagalaga og 38 gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði, auk þess að vera mæltur á íslenska tungu.

8. gr.

Útibúi er heimilt að veita hverja þá þjónustu sem 44. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði tekur til, enda sé hlutaðeigandi lánastofnun heimiluð slík þjónusta í heimaríki hennar.

Umboðsskrifstofu er heimilt að miðla upplýsingum og veita ráðgjöf hér á landi á vegum erlendrar lánastofnunar. Umboðsskrifstofu er óheimilt að taka við innlánum, veita útlán, stunda verðbréfaviðskipti eða aðra þá starfsemi sem greinir í 44. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði.

IV. KAFLI

Eigið fé og ársreikningur.

9. gr.

Útibú skal ávallt uppfylla ákvæði 54. og 55. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði um eigið fé og eiginfjárhlutfall.

Fyrir utan þá liði sem draga skal frá eiginfjárþætti A samkvæmt 5. tölul. 54. gr. tilvitnaðra laga skal draga frá kröfur og inneignir útibús í lánastofnun sem rekur útibúið, óháð umsömdum uppsagnarfrestum. Hið sama á við um kröfur og inneignir í öðrum fyrirtækjum samsteypu ef um slíkt er að ræða.

10. gr.

Útibú og umboðsskrifstofa skulu færa sérstakt bókhald.

Útibú sem starfar hér á landi samkvæmt reglugerð þessari skal birta eftirtalin gögn vegna þeirrar lánastofnunar sem útibúið er hluti af innan fjögurra mánaða frá lokum reikningsárs:

1. Ársreikning ásamt ársskýrslu.

2. Samstæðureikning ásamt samstæðuársskýrslu.

3. Álit þess aðila sem ber ábyrgð á endurskoðun árs- og samstæðureiknings.

11. gr.

Séu gögn samkvæmt 10. gr. í samræmi við eða jafngild þeim gögnum sem samin eru í samræmi við tilskipun 86/635/EBE um ársreikninga og samstæðureikninga banka og annarra fjármálastofnana, sem birt er í sérriti EES-gerða nr. 36, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 31/1993, og skilyrðum um gagnkvæmni fyrir lána- og fjármálastofnanir innan Evrópska efnahagssvæðisins er fullnægt í því ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins þar sem aðalstöðvar lánastofnunar eru staðsettar þarf útibúið ekki að birta ársreikning um starfsemi sína en eftirfarandi upplýsingar skulu þó birtar:

1. Tekjur og gjöld útibús, sem rekja má til atriða 1, 3, 4, 6, 7, 8 og 15 í 27. gr. eða atriða 4 og 9 í lið A og atriða 1- 4 og 7 í lið B í 28. gr. fyrrgreindrar tilskipunar 86/635/EBE.

2. Meðalfjöldi starfsmanna útibús.

3. Heildarkröfur og skuldbindingar tengdar útibúi, sundurliðaðar annars vegar í þær sem varða lánastofnanir og hins vegar í þær sem varða aðra viðskiptavini, ásamt heildarfjárhæð slíkra krafna og skuldbindinga tilgreindra í íslenskum krónum.

4. Heildareignir og fjárhæðir er samsvara atriðum 2-6 um eignir, 1-3 um skuldbindingar og 1-2 um liði utan efnahagsreiknings eins og skilgreint er í 4. gr. og hliðstæðum greinum fyrrgreindrar tilskipunar 86/635/EBE og - í þeim tilvikum sem greinir í atriðum 2, 5 og 6 um eignir - sundurliðun verðbréfa eftir því hvort þau hafi verið talin til áhættufjármuna eða ekki skv. 35. gr. fyrrgreindrar tilskipunar 86/635/EBE.

5. Stofnfé útibús.

Upplýsingar skv. 1.-5. tölul. 1. mgr. skulu staðfestar af endurskoðanda, sem öðlast hefur löggildingu samkvæmt íslenskum lögum, um réttmæti þeirra og hvort þær samræmist ársreikningnum. Senda skal upplýsingarnar til bankaeftirlitsins innan tíu daga frá áritun en í síðasta lagi þremur mánuðum eftir lok reikningsárs.

12. gr.

Uppfylli útibú ekki skilyrði 1. mgr. 11. gr. skal semja og birta ársreikning fyrir hvert reikningsár í samræmi við reglur um gerð ársreiknings viðskiptabanka og sparisjóða, sbr. 57. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði. Ennfremur skal semja ársskýrslu um starfsemi útibúsins. Ársreikningur ásamt skýrslu stjórnar skal undirritaður af stjórnanda útibús. Ársreikningur útibús skal janframt áritaður af löggiltum endurskoðanda.

13. gr.

Bankaeftirlitið getur krafist þess að gögn og upplýsingar skv. 10.-12. gr. séu birt á íslensku í þýðingu löggilts skjalaþýðanda.

V. KAFLI

Eftirlit.

14. gr.

Bankaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur með höndum eftirlit með útibúum og umboðsskrifstofum, sem starfa samkvæmt þessari reglugerð, í samræmi við ákvæði laga nr. 36/1986, um Seðlabanka Íslands, laga um viðskiptabanka og sparisjóði, laga um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði og eftir atvikum annarra starfsheimilda sinna.

Útibú og umboðsskrifstofa skal láta Seðlabanka Íslands í té allar þær upplýsingar, sem hann þarf á að halda vegna hagskýrslugerðar í samræmi við ákvæði laga um Seðlabanka Íslands.

VI. KAFLI

Slit útibúa og umboðsskrifstofa o.fl.

15. gr.

Útibú skal lagt niður uppfylli það ekki lengur skilyrði fyrir því að öðlast starfsleyfi nema viðskiptaráðherra veiti sérstaka undanþágu. Hið sama gildir um umboðsskrifstofu.

Verði útibú eða umboðsskrifstofa svipt starfsleyfi skulu þau lögð niður.

16. gr.

Fari eigið fé útibús undir það lágmark sem kveðið er á um í 9. gr. reglugerðar þessarar skal með það fara í samræmi við VIII. kafla laga um viðskiptabanka og sparisjóði. Hið sama á við ef þau atvik verða sem 68. gr. þeirra laga tilgreinir.

17. gr.

Verði lánastofnun gjaldþrota, henni slitið eða hún lögð niður með öðrum hætti skal stjórnandi útibús eða umboðsskrifstofu þegar í stað og í síðasta lagi innan fjórtán daga tilkynna um það til bankaeftirlits og eftir atvikum til hlutafélagaskrár eða firmaskrár. Bankaeftirlitið hefur eftirlit með því að útibúið eða umboðsskrifstofan verði lögð niður.

18. gr.

Stjórnandi útibús eða umboðsskrifstofu skal þegar tilkynna bankaeftirlitinu ef starfsleyfi lánastofnunar er afturkallað í heimalandi hennar. Bankaeftirlitið sér til þess að starfsleyfi útibúsins eða umboðsskrifstofunnar verði afturkallað hér á landi.

VII. KAFLI

Gildistaka, viðurlög o.fl.

19. gr.

Láti stjórnandi eða endurskoðandi útibús eða umboðsskrifstofu hjá líða að fullnægja þeim skyldum sem á þá eru lagðar í lögum eða reglugerð þessari getur bankaeftirlitið með heimild í 41. gr. laga um Seðlabanka Íslands ákveðið viðurlög í formi dagsekta.

20. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 2. mgr. 85. gr. laga nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði, og 3. mgr. 13. gr. laga nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 230/ 1987, um umboðsskrifstofur erlendra banka.

Viðskiptaráðuneytið, 25. maí 1994.

F. h. r.

Þorkell Helgason.

Finnur Sveinbjörnsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica