Dóms- og kirkjumálaráðuneyti

304/2000

Reglugerð um menntun fangavarða og skilyrði þess að vera ráðinn fangavörður. - Brottfallin

I. KAFLI

Skilyrði þess að vera ráðinn fangavörður.

1. gr.

Umsækjandi um embætti fangavarðar, hvort heldur í fasta stöðu eða til afleysinga, skal fullnægja eftirtöldum skilyrðum:

a. Vera á aldrinum 20-40 ára og hafa ekki hlotið refsiviðurlög samkvæmt almennum hegningarlögum.

b. Vera andlega og líkamlega heilbrigður og standast læknisskoðun trúnaðarlæknis og þrekpróf.

c. Hafa lokið a.m.k. tveggja ára almennu framhaldsnámi eða öðru sambærilegu námi með fullnægjandi árangri og hafa gott vald á íslensku.

Heimilt er að víkja frá ofangreindum skilyrðum um aldur eða menntun ef sérstaklega stendur á.

Skólanefnd fangavarðaskólans metur umsóknir um fangavarðastörf. Skólanefnd er heimilt að láta umsækjendur gangast undir inntökupróf og önnur próf sem rétt þykir að framkvæma til að meta hæfni umsækjenda.

2. gr.

Áður en maður hefur störf sem fangavörður skal hann sækja viku námskeið í fangavarðafræðum. Innihald námskeiðsins skal taka mið af námsgreinum í fangavarðanámi skv. 8. gr., en einkum skal leggja áherslu á fangelsisfræði, samskipti, skyndihjálp og öryggismál.

Áður en bóklegt nám hefst skal viðkomandi standa a.m.k. tvær dagvaktir og eina næturvakt með vönum starfsmönnum á vakt í fangelsi.

Heimilt er að veita undanþágu frá 1. mgr. í allt að 6 mánuði ef sérstaklega stendur á, svo sem vegna ófyrirsjáanlegra forfalla fangavarða og eins með tilliti til þess hvenær námskeið verður haldið.

Þeir einir geta hlotið skipun í embætti fangavarðar sem lokið hafa námi í fangavarðaskólanum, hafa staðist þær kröfur sem gerðar eru skv. 7. gr. og hafa að öðru leyti sýnt að þeir teljist hæfir til að gegna starfi fangavarðar skv. 1. gr.

II. KAFLI

Hlutverk fangavarðaskólans, stjórn og starfslið.

3. gr.

Fangavarðaskólinn heyrir undir Fangelsismálastofnun ríkisins.

Hlutverk skólans er fyrst og fremst að veita fangavörðum almenna menntun er lýtur að hlutverki og starfsemi fangelsa, fullnustu refsinga svo og endur- og sérmenntun í hinum ýmsu greinum fangavörslunnar.

4. gr.

Umsjónarmaður, sem Fangelsismálastofnun ræður, annast daglega stjórn skólans.

Skólanefnd, sem skipuð er forstjóra Fangelsismálastofnunar, eða fulltrúa hans, fulltrúa dóms- og kirkjumálaráðuneytis og fulltrúa fangavarðafélags Íslands, er stofnuninni til ráðgjafar um fagleg málefni skólans, innra skipulag hans og inntöku nemenda.

Umsjónarmaður situr fundi skólanefndar og hefur þar tillögurétt og málfrelsi en ekki atkvæðisrétt.

5. gr.

Fangelsismálastofnun ákveður hverjir skuli stunda nám í fangavarðaskólanum.

Heimilt er að auglýsa eftir nemendum í skólann sem ekki eru starfandi fangaverðir. Skulu þeir sækja um skólavist á þar til gerðum eyðublöðum sem skila ber til Fangelsismálastofnunar. Slíkir nemendur stunda fyrsta hluta fangavarðanáms á eigin kostnað. Áður en umsækjandi fær skólavist skal skólanefnd meta hvort hann fullnægir skilyrðum þess að vera ráðinn fangavörður skv. 1. gr. reglugerðarinnar.

6. gr.

Fangavarðanám skal vera þrískipt þ.e. tvær bóklegar annir og starfsþjálfun, samtals 9 mánuðir.

Á milli bóklegra anna skulu nemendur hljóta starfsþjálfun í fangelsi í allt að 3 mánuði.

Starfsþjálfun fer fram undir eftirliti forstöðumanns viðkomandi fangelsis og skal henni hagað í samræmi við reglur sem Fangelsismálastofnun setur. Í lok starfsnáms skal forstöðumaður gera skýrslu um nemandann þar sem fram kemur m.a. hvort hann teljist hæfur til að gegna fangavarðastöðu. Skýrsla þessi skal send skólanefnd. Teljist nemandi að mati forstöðumanns óhæfur til að gegna fangavarðastöðu skal skólanefnd meta hvort hann eigi rétt á að halda áfram námi.

Hafi nemandi starfað sem fangavörður lengur en 6 mánuði samtals er hann undanþeginn starfsþjálfun. Hins vegar skal skólanefnd óska eftir skýrslu forstöðumanns fangelsis um starfshæfni í upphafi skólavistar.

7. gr.

Í lok hvorrar námsannar skulu nemendur prófaðir í námsgreinum og þeim gefnar einkunnir í hverri grein í heilum og hálfum tölum frá 0-10 eða staðist/ekki staðist. Á fyrri önn skal tekið áfangapróf í þeim námsgreinum sem einnig eru kenndar á síðari önn, en lokapróf í þeim námsgreinum sem eingöngu eru kenndar á fyrri önn. Lokaeinkunn í hverri námsgrein skal færð í prófskírteini. Til þess að standast próf í námsgrein þarf lágmarkseinkunnina 5,0. Nemanda er heimilt að endurtaka próf í tveimur námsgreinum hljóti hann ekki tilskilda lágmarkseinkunn. Standist hann ekki próf í þremur námsgreinum telst hann ekki hafa staðist önnina.

Vilji nemandi eigi una mati kennara skal kvaddur til prófdómari. Prófdómari metur viðkomandi úrlausn og skilar áliti sínu til skólanefndar sem tekur ákvörðun um endanlega einkunn nemandans.

Við munnleg próf eða þar sem skriflegu prófi verður ekki við komið skal kvaddur til prófdómari.

Umsögn forstöðumanns skv. 6. gr., um frammistöðu í starfsþjálfun, skal færa í prófskírteini.

Nemandi sem ekki hlýtur tilskilda lágmarkseinkunn getur ekki lengur starfað sem fangavörður.

8. gr.

Fangelsismálastofnun skal í samráði við skólanefnd ákveða námsgreinar í fangavarðanámi og markmið þeirra. Í meginatriðum skulu námsgreinar þó vera eins og hér segir:

Afbrotafræði.

Markmið: Að nemendur öðlist þekkingu á refsingum og eðli þeirra og þróun fangelsa og fangelsismála á Íslandi. Leggja ber áherslu á hagnýta afbrotafræði, þ.e. atriði er tengjast beint framkvæmd refsinga og ennfremur að nemendur öðlist þekkingu á helstu kenningum afbrotafræðinnar varðandi afbrot, afbrotamenn og refsingar.

Enska.

Markmið: Að nemendur geti átt samskipti við enskumælandi fanga sem vistaðir eru í fangelsum.

Fangelsisfræði.

Markmið: Að nemendur fái innsýn í starfsemi og hlutverk fangelsa og Fangelsismálastofnunar. Ennfremur að þeir öðlist þekkingu á lögum og reglum er varða störf og starfsskyldur fangavarða og annarra opinberra starfsmanna.

Félagsleg aðstoð við fanga.

Markmið: Að nemendur öðlist þekkingu á möguleikum fanga á að fá félagslega aðstoð, einkum eftir að afplánun lýkur.

Fíkniefni í fangelsum.

Markmið: Að nemendur öðlist þekkingu á mismunandi fíkniefnum, útliti þeirra og einkennum, hegðunareinkennum fíkniefnaneytenda, líkamlegum einkennum fíkniefnaneytenda, fráhvarfseinkennum, smyglaðferðum í fangelsi, hvernig eigi að umgangast fanga sem eru undir áhrifum fíkniefna, svo og meðferðarúrræðum sem til eru innan og utan fangelsa.

Heilsufræði og skyndihjálp.

Markmið: Að nemendur öðlist skilning á sýkingarhættu og smitleiðum í starfi sínu og læri aðferðir til þess að verjast smiti. Einnig að þeir læri um almenna heilsurækt er tengist starfinu. Þá ber að leggja áherslu á þjálfun í meginatriðum almennrar skyndihjálpar.

Íslenska.

Markmið: Að nemendur öðlist færni í málbeitingu, réttritun og skriflegri tjáningu.

Líkamleg þjálfun.

Markmið: Að byggja upp þol og líkamshreysti nemenda. Sérstaka áherslu skal leggja á að þeir þjálfist í að takast á við mismunandi aðstæður, sem upp geta komið í fangelsum.

Lögfræði.

Markmið: Að nemendur öðlist þekkingu á lagalegu umhverfi fangavarða; uppbyggingu stjórnkerfisins, meginreglum stjórnsýsluréttar, réttindum afplánunar- og gæsluvarðhaldsfanga, grundvallaratriðum refisréttar, réttarfars og meðferð opinberra mála.

Mannréttindi og siðfræði.

Markmið: Að nemendur öðlist þekkingu og skilning á meginreglum um mannréttindi fanga, mannréttindaákvæðum íslensku stjórnarskrárinnar, mannréttindasáttmála Evrópu og Sameinuðu þjóðanna og ákvæðum alþjóðlegra stofnana og nefnda sem láta sig varða málefni fanga.

Sálfræði.

Markmið: Að nemendur öðlist þekkingu á hlutverki sálfræðinga og sálfræðinnar í fangelsum og aðferðum til þess að fást við sálræn vandamál fanga. Sérstaka áherslu ber að leggja á sjálfsvígshættu í fangelsum og viðbrögð við henni.

Þeir skulu öðlast þekkingu á kenningum um afbrot, afbrotahegðun og kynnast rannsóknum á afbrotamönnum. Þjálfa skal nemendur í samtalstækni og persónulegum samskiptum við fanga. Jafnframt skulu þeir fá þjálfun í að takast á við streitu sem fylgir starfinu.

Skýrslugerð.

Markmið: Að nemendur öðlist færni í að skrifa einfaldar og skýrar skýrslur og að þeir þjálfist í yfirheyrslutækni og nauðsynlegum formsatriðum varðandi skýrslugerð.

Tölvunotkun.

Markmið: Að nemendur læri grundvallaratriði tölvunotkunar og ritvinnslu.

Öryggismál.

Markmið: Að nemendur þekki öryggismál fangelsa, geti framkvæmt leit á fanga og í klefa, kunni að nota samskiptatæki rétt og þjálfist í notkun öryggistækja.

9. gr.

Fangavörðum ber að viðhalda þekkingu sinni svo sem með þátttöku í námskeiðum sem haldin eru og varða starf þeirra á einn eða annan hátt. Þeir skulu ávallt vera vel á sig komnir hvað varðar líkamlegt atgervi. Trúnaðarlæknir Fangelsismálastofnunar getur reglubundið skoðað og metið fangaverði að því er snertir líkamlegt eða andlegt ástand.

Endurskipun eða setning fangavarða, sem látið hafa af störfum, er heimil allt að fimm árum eftir að þeir hurfu úr starfi. Að öðru leyti miðast hún við að fangaverðir standist þær kröfur sem gerðar eru í reglugerð þessari.

10. gr.

Fangavarðaskólinn skal hlutast til um að reglubundið verði haldin námskeið fyrir fangaverði til að stuðla að stöðugri endurmenntun þeirra og sérhæfingu. Þátttöku í endurmenntunarnámskeiði sem gefa einingar samkvæmt kjarasamningi skal staðfesta með vottorði.

11. gr.

Reglugerð þessi sem sett er með heimild í 36. gr. laga nr. 48/1988 um fangelsi og fangavist, sbr. lög nr. 22/1999, öðlast þegar gildi.

Jafnframt er felld úr gildi reglugerð nr. 11/1996 frá 8. janúar 1996.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, 10. apríl 2000.

Sólveig Pétursdóttir.

Hjalti Zóphóníasson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica