Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 19. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 28. nóv. 2023

303/2008

Reglugerð um úrvinnslu ökutækja.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að stuðla að endurnotkun, endurvinnslu eða annars konar endurnýtingu úr sér genginna ökutækja og íhluta þeirra til að draga úr förgun úrgangs.

2. gr. Gildissvið.

Reglugerðin tekur til ökutækja og úr sér genginna ökutækja, þar með taldir íhlutir og smíðaefni.

Ákvæði 6., 7. og 8. gr. eiga einungis við um ökutæki í flokki M1 eða N1, sbr. 1. gr. reglugerðar um gerð og búnað ökutækja, sem og létt bifhjól á þremur hjólum.

3. gr. Skilgreiningar.

Endurnotkun: Hvers kyns notkun þar sem úr sér gengin ökutæki og íhlutir þeirra eru notaðir í sama tilgangi og þeir voru upphaflega ætlaðir.

Endurnýting: Hvers kyns nýting á úr sér gengnum ökutækjum eða íhlutum, önnur en endurnotkun, þ.m.t. endurvinnsla, orkuvinnsla og landmótun.

Endurvinnsla: Endurframleiðsla vegna úr sér genginna ökutækja eða íhluta til upprunalegra eða annarra nota, þó ekki orkuvinnsla.

Förgun: Aðgerð eða ferli þar sem úr sér gengnum ökutækjum er umbreytt og/eða komið fyrir varanlega s.s. brennsla og urðun úrgangs.

Hreinsun: Aðgerðir sem miða að því að fjarlægja spilliefni og hættuleg efni úr úr sér gengnum ökutækjum.

Móttökustöð: Staður og aðstaða þar sem tekið er við úrgangi til geymslu til lengri eða skemmri tíma, til umhleðslu, flokkunar eða annarrar úrvinnslu. Þaðan fer úrgangurinn til förgunar, endurnýtingar, endurnotkunar eða honum er fargað á staðnum. Undir móttökustöð falla flokkunarmiðstöðvar og förgunarstaðir.

Söfnunarstöð (gámastöð): Staður og aðstaða þar sem tekið er við úrgangi frá almenningi og/eða smærri fyrirtækjum. Þaðan fer hann til endurnotkunar og endurnýtingar eða er fluttur til móttökustöðva. Dæmi um söfnunarstöðvar eru gámastöðvar sveitarfélaga þar sem einungis er tekið á móti úr sér gengnum ökutækjum og þau síðan flutt þaðan til úrvinnslu.

Tætari: Hvers kyns búnaður sem er notaður til að tæta ökutæki í stykki eða brot, þar með talið í þeim tilgangi að fá brotamálm beint til endurvinnslu.

Upplýsingar um sundurhlutun: Allar nauðsynlegar upplýsingar varðandi rétta og umhverfisvæna úrvinnslu úr sér genginna ökutækja.

Úr sér gengin ökutæki: Ökutæki sem eru úrgangur.

Úrgangur: Hvers kyns efni eða hlutir sem úrgangshafi ákveður að losa sig við eða er gert að losa sig við á tiltekinn hátt og skráðir eru á lista í reglugerð um skrá yfir spilliefni og annan úrgang.

Úrvinnsla úr sér genginna ökutækja: Hvers kyns aðgerðir sem eru framkvæmdar til endurnotkunar, endurnýtingar og/eða förgunar úr sér genginna ökutækja og íhluta þeirra s.s. hreinsun, sundurhlutun, sundurskurður, tæting, endurnýting og meðhöndlun tætaraúrgangs (tróðs).

Ökutæki: Öll ökutæki sem bera úrvinnslugjald, sbr. lög um úrvinnslugjald, og létt bifhjól á þremur hjólum.

4. gr. Söfnun ökutækja.

Skráður eigandi eða sá sem hefur skriflegt umboð hans skal skila úr sér gengnu ökutæki til söfnunar- eða móttökustöðvar sem hefur starfsleyfi til að meðhöndla slíkan úrgang.

Sveitarstjórn skal tryggja aðgang að söfnunar- eða móttökustöð fyrir úr sér gengin ökutæki sem falla til í sveitarfélaginu.

5. gr. Starfsleyfi.

Móttaka og úrvinnsla úr sér genginna ökutækja er háð starfsleyfi.

Umhverfisstofnun veitir starfsleyfi fyrir móttökustöðvar. Viðkomandi heilbrigðisnefnd veitir starfsleyfi fyrir söfnunarstöðvar og bílapartasölur.

6. gr. Úrvinnsla ökutækja.

Geymsla og úrvinnsla úr sér genginna ökutækja skal vera í samræmi við almennar kröfur í lögum um meðhöndlun úrgangs, s.s. er varðar forgangsröðun við meðhöndlun úrgangs, reglugerðir settar samkvæmt þeim lögum og í samræmi við lágmarks kröfur sem settar eru fram í I. viðauka. Þeir sem einungis taka á móti úr sér gengnum ökutækjum skulu uppfylla kröfur sbr. 1. lið I. viðauka en þeir sem sjá um úrvinnslu úr sér genginna ökutækja, þ.m.t. hreinsun sbr. 3. lið, skulu uppfylla kröfur sbr. 2. lið, I. viðauka.

Hreinsun úr sér genginna ökutækja skal framkvæma eins fljótt og mögulegt er.

Fylgja skal að lágmarki þeim kröfum um úrvinnslu úr sér genginna ökutækja sem getið er um í 3. og 4. lið I. viðauka áður en ökutækið er sett í tætara til endurvinnslu, eða sent til útlanda í sama tilgangi. Fjarlægja skal lausa hluti með þeim hætti að tryggt sé að hægt sé að endurnota eða endurnýta þá. Hættuleg smíðaefni og íhluti skal fjarlægja og aðgreina á þann hátt að tætaraúrgangur mengist ekki.

7. gr. Upplýsingar um sundurhlutun ökutækja.

Framleiðendur eða innflytjendur ökutækja og íhluta þeirra skulu koma á framfæri upplýsingum varðandi sundurhlutun þeirra, t.d. með handbókum eða rafrænum miðlum, til aðila sem sjá um úrvinnslu úr sér genginna ökutækja. Þessar upplýsingar skulu vera tiltækar í síðasta lagi 6 mánuðum eftir að ökutæki eða íhlutir þeirra eru settir á markað til að tryggja rétta úrvinnslu úr sér genginna ökutækja sem ekki skaðar umhverfið. Í þessum upplýsingum skal auðkenna hættuleg smíðaefni, íhluti og staðsetningu allra spilliefna í ökutækinu til að auðvelda þeim sem sjá um úrvinnslu úr sér genginna ökutækja að fara að ákvæðum þessarar reglugerðar, m.a. með hliðsjón af meginreglum í reglugerð um meðhöndlun úrgangs.

8. gr. Upplýsingagjöf.

Þeir sem taka á móti eða sjá um úrvinnslu úr sér genginna ökutækja og íhluta þeirra skulu halda skrá yfir fjölda og þyngd þeirra. Einnig skal halda skrá yfir magn, tegund og samsetningu úrgangs sem fellur til og hvernig honum er ráðstafað. Heimilt er að nota upplýsingar um þyngd ökutækja sem gefin er upp í skráningarskírteini þess.

Halda skal skrá yfir gerð og magn spilliefna og ráðstöfun þeirra. Skrárnar skulu vera aðgengilegar eftirlitsaðila.

Aðilar samkvæmt 1. mgr. sem eru með verksamning við Úrvinnslusjóð um úrvinnslu ökutækja skulu fyrir 1. maí ár hvert senda Úrvinnslusjóði útfyllt eyðublað, sbr. II. viðauka, þar sem gerð er grein fyrir fjölda úr sér genginna ökutækja sem tekið var á móti á almanaksári þar á undan, heildarþyngd þeirra, hreinsun og sundurhlutun. Tilgreina skal hvaða efni voru hreinsuð úr ökutækjum og hvernig úrgangi var ráðstafað. Heimilt er að styðjast við skilagreinar Úrvinnslusjóðs í stað framangreindra eyðublaða, enda komi sambærilegar upplýsingar þar fram. Úrvinnslusjóður skal senda upplýsingar þær sem getið er um í þessari málsgrein til Umhverfisstofnunar og viðkomandi heilbrigðisnefndar eigi síðar en 1. maí ár hvert í samræmi við leiðbeiningar stofnunarinnar.

Aðilar samkvæmt 1. mgr., aðrir en þeir sem tilgreindir eru í 3. mgr., skulu fyrir 1. maí ár hvert senda Umhverfisstofnun útfyllt eyðublað í töflum 1 og 3 í II. viðauka. Gera skal grein fyrir fjölda úr sér genginna ökutækja sem tekið var á móti á almanaksári þar á undan, heildarþyngd þeirra, hreinsun og sundurhlutun. Tilgreina skal hvaða efni voru hreinsuð úr ökutækjum og hvernig úrgangi var ráðstafað. Afrit skýrslunnar skal senda viðkomandi heilbrigðisnefnd.

8. gr. a. Töluleg markmið og viðmiðanir.

Endurnotkun og endurnýting allra úr sér genginna ökutækja skal vera að lágmarki 95% og á sama tíma skal endurnotkun og endurvinnsla vera að lágmarki 85% af meðalþyngd ökutækis.

9. gr. Förgun.

Um förgun úr sér genginna ökutækja gilda að öðru leyti lög um meðhöndlun úrgangs og reglugerðir settar samkvæmt þeim.

10. gr. Eftirlit.

Umhverfisstofnun hefur eftirlit með móttökustöðvum. Með sérstöku samkomulagi við Umhverfisstofnun, sem ráðherra staðfestir, getur heilbrigðisnefnd tekið að sér að sinna að hluta eða að öllu leyti eftirliti með móttökustöðvum. Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga, undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar, hafa að öðru leyti eftirlit með framkvæmd þessarar reglugerðar.

11. gr. Viðurlög.

Um brot gegn reglugerð þessari fer samkvæmt lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.

12. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 13. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs og 5. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Reglugerðin er sett með hliðsjón af tilskipun 2000/53/EB, sem vísað er til í tl. 32e, V. kafla, XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun nr. 162/2001, þann 12. desember 2001, sem var síðar breytt með ákvörðun nr. 92/2003, þann 12. júlí 2003. Einnig var höfð til hliðsjónar ákvörðun 2005/293/EB, sem vísað er til í tl. 32ed, V. kafla, XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagsvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun nr. 14/2006, þann 28. janúar 2006.

Jafnframt er reglugerðin sett að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað varðar skyldur sveitarfélaga, sbr. ákvæði 3. mgr. 9. gr. laga nr. 7/1998.

Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.