Landbúnaðarráðuneyti

132/1999

Reglugerð um aðbúnað og heilbrigðiseftirlit hrossa. - Brottfallin

132/1999

REGLUGERÐ
um aðbúnað og heilbrigðiseftirlit hrossa.

1. gr.
Yfirstjórn og eftirlit.

Landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála sem reglugerð þessi tekur til. Yfirdýralæknir er ráðherra til aðstoðar og ráðuneytis og hefur undir sinni stjórn dýralækni hrossasjúkdóma sem starfar samkvæmt erindisbréfi sem staðfest er af landbúnaðarráðherra. Dýralæknir hrossasjúkdóma skal stuðla að góðri meðferð og heilbrigði hrossa í samvinnu við dýralækna, ráðunauta, búfjáreftirlitsmenn og hrossaeigendur. Hann skal með almennri fræðslu og leiðbeiningarstarfi auka skilning á hrossasjúkdómum og vinna að vörnum gegn þeim og gera í samvinnu við dýralækna árlega skrá um hrossasjúkdóma.

Héraðsdýralæknar og búfjáreftirlitsmenn skulu hver í sínu umdæmi hafa eftirlit með því að ákvæðum þessarar reglugerðar sé fylgt.


2. gr.
Umhverfi.

Umhverfi hrossa skal vera þrifalegt. Í gerðum skal afrennsli vera svo gott að ekki myndist svað og skipta skal um yfirborðslag eftir þörfum. Girðingar skulu vera traustar og þannig gerðar að þær valdi ekki slysum. Óheimilt er að nota gaddavír í girðingar umhverfis gerði og hólf þar sem hross hafa ekki aðgang að beit eða í aðhald fyrir hross. Sama á við um háspenntar rafgirðingar.

Frágangi taðþróa og haughúsa skal þannig háttað að ekki valdi mengun umhverfis eða hættu fyrir menn og skepnur. Frárennsli frá salernum og vöskum í hesthúsum skal leiða í sérstaka rotþró.


3. gr.
Aðbúnaður og innréttingar.

Aðbúnaði hrossa skal haga þannig að þörfum þeirra og eðli sé fullnægt hvort sem þau eru á húsi eða á beit. Í húsum þar sem hross eru hýst skal frágangur dyra og ganga vera þannig að fljótlegt sé að rýma þau í neyðartilvikum. Innréttingar og annar útbúnaður skal vera þannig að hross verði ekki fyrir meiðslum eða heilsutjóni. Í byggingar og innréttingar skal nota efni sem auðvelt er að þrífa og sótthreinsa. Óheimilt er að nota hættuleg efni, svo sem fúavarnar- eða sótthreinsiefni, sem eru heilsuspillandi. Hrossum á húsi skal hleypt út daglega nema sjúkdómar eða óveður hamli.

Loftræsting skal vera góð og koma skal í veg fyrir dragsúg í húsum, en loftskipti næg til að magn skaðlegra loftegunda sé að jafnaði innan viðurkenndra hættumarka sbr. viðauka I með reglugerð þessari. Hita og rakastigi skal haldið jöfnu og innan þeirra marka sem tilgreind eru í viðauka I með reglugerð þessari. Á hesthúsum skulu vera gluggar sem tryggja að þar gæti dagsbirtu. Önnur lýsing skal vera næg svo að ávallt sé hægt að fylgjast með hrossunum. Glugga, ljós og rafmagnsleiðslur skal verja þannig að ekki valdi hrossum skaða. Óheimilt er að hafa hross í stöðugum hávaða og varast ber að þau verði fyrir óvæntum hávaða. Hljóðstyrkur skal vera innan þeirra marka sem um getur í viðauka I með reglugerð þessari.

Gólf skulu vera með óskreipu yfirborði sem auðvelt er að þrífa. Steypt gólf í básum skulu klædd mjúku undirlagi, þar sem hrossin standa, svo sem gúmmímottum eða sambærilegum efnum. Í stíum skal borið undir hrossin til að koma í veg fyrir bleytu og hálku. Ganga skal frá niðurföllum þannig að þau valdi ekki slysum eða óþægindum.

Í eða við hesthús skal vera hlaða eða geymsla, þar sem hey eða annað fóður er geymt svo að það skemmist ekki vegna raka eða á annan hátt. Heimilt er að geyma utandyra plastpakkað hey og önnur vel frágengin hey, enda séu þau varin skemmdum og ágangi dýra.


4. gr.
Fóðrun og umhirða.

Hross skulu ávallt hafa nægan aðgang að hreinu og ómenguðu drykkjarvatni. Fóður skal að magni, gæðum og næringarinnihaldi fullnægja þörfum hrossa til vaxtar, viðhalds og framleiðslu. Forðast skal allar snöggar fóðurbreytingar, sérstaklega þegar sleppt er eða tekið á hús og þegar flutt er á milli beitarhólfa. Myglu í heyi skal fjarlægja sem kostur er og mjög rykugt hey skal bleytt fyrir gjöf. Hrossum ber að gefa ormalyf eftir þörfum, a.m.k. einu sinni á ári, og ungviði oftar. Hrossum skal haldið hreinum og þau varin óværu, einnig skal fax og tagl klippt og hófar snyrtir.

Óheimilt er að hafa hross í gerði eða gróðurlitlum hólfum lengur en 12 klst. án fóðurs. Standi hross í gerði lengur en fjórar klst. skulu þau hafa aðgang að drykkjarvatni. Um folaldshryssur gildir að óheimilt er að hafa þær í gerði lengur en tvær klst. án vatns og fóðurs. Eftir notkun skulu hross ávallt fá aðgang að nægu drykkjarvatni.


5. gr.
Útigangur hrossa.

Hross sem ganga úti að vetri til skulu geta leitað skjóls í sérstöku húsi, eða skýli sem hefur þrjá veggi hið minnsta nema jafngilt náttúrulegt skjól sé fyrir hendi að mati eftirlitsaðila sbr. 1. gr. Þar skal vera nægilegt fóður og vatn. Umhverfi, hönnun og viðhald húsa og skýla skal vera þannig að ekki valdi slysum og gripir haldist hreinir. Ætíð skal vera aðstaða innanhúss fyrir hross á útigangi sem þurfa sérstaka aðhlynningu. Á vetrum skal fylgjast daglega með hrossum í girðingum í heimalöndum og vikulega á sumrum. Þar sem hross eru í hagagöngu, skal eigandi þeirra tilkynna viðkomandi sveitarstjórn skriflega um nafn þess aðila innan sveitarfélagsins, sem er ábyrgur fyrir eftirliti og umsjá hrossa hans, og skal sá aðili vera samþykktur af sveitarstjórninni. Sveitarstjórn er heimilt að fengnum tillögum búfjáreftirlitsmanns og héraðsdýralæknis að banna útigöngu á svæðum þar sem framangreind skilyrði eru ekki uppfyllt.


6. gr.
Beit og landvernd.

Við beit hrossa skal þess ætíð gætt að næringaþörf þeirra sé fullnægt í hvívetna, að þau fái næga hreyfingu og ekki sé of þröngt í högum. Sérstaklega skal þess gætt að folaldshryssur, folöld og tryppi eins til þriggja vetra, hafi ávallt aðgang að nægu beitilandi. Allir sem nýta land til beitar skulu gæta þess að beit rýri ekki landgæði og ekki sé beitt á land sem er illa farið vegna jarðvegsrofs eða er hætt við rofi. Við mat á beitarþoli hrossahaga og aðgerðum til úrbóta skal taka mið af ástandsflokkun lands samkvæmt mati Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Landgræðslu ríkisins, sbr. viðauka II með reglugerð þessari.

Búfjáreftirlitsmenn sveitarfélaga skulu fylgjast með ástandi hrossahaga í byggð, einnig á eyðibýlum og öðrum stöðum þar sem ekki er stöðug búseta.


7. gr.
Rekstur og flutningur.

Eingöngu skal nota heilbrigð hross til reiðar, burðar eða dráttar. Álag á hross má aldrei vera meira en þrek þeirra leyfir.

Við rekstur eða flutning skal ávallt sýna hrossum fyllstu nærgætni svo að þeim líði eins vel og kostur er. Þurfi að reka hross um langan veg skal járna þau áður en lagt er af stað. Óheimilt er að ofgera hrossum í rekstri eða flutningi. Þau skal hvíla reglulega. Í flutningum skal litið til hrossanna á a.m.k. fjögurra klst. fresti og oftar við erfiðar aðstæður. Við flutning á hrossum skal flutningatæki vera með traustum hliðum og yfirbyggt. Gæta skal þess að loftræsting sé góð. Ef hálka er á flutningapalli skal strá sandi, heyi, hálmi eða tréspónum á pallinn.

Graðhestum og ógeltum folum eldri en 12 mánaða skal haldið sér og þeir bundnir ef þörf krefur. Folaldshryssum og sjúkum hrossum skal ávallt haldið sér í flutningum. Sérstök aðgæsla skal höfð við flutning á merum nærri köstun og fyrstu fjórar vikurnar á eftir og þær ekki fluttar nema brýna nauðsyn beri til. Skal brynna þeim a.m.k. á þriggja stunda fresti. Bundin hross og hross í stíum skulu geta hreyft sig svo að þau haldi jafnvægi.

Á gangbrettum sem notuð eru þegar hross eru leidd af eða á flutningatæki skulu vera þverrimlar til að koma í veg fyrir að hrossin skriki eða renni út af brettinu. Halli gangbrettis skal ekki vera umfram 30°, bil milli efsta hluta brettisins og flutningapalls ekki vera meiri en 6 sm og hæð frá enda brettis og upp á pall vera mest 25 sm.


8. gr.
Refsiákvæði og gildistaka.

Brot á ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum samkvæmt 13. gr. laga nr. 46/1991 um búfjárhald, með síðari breytingum. Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 46/1991 um búfjárhald, með síðari breytingum, lögum nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og lögum nr. 66/1998 um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr og öðlast þegar gildi.


Ákvæði til bráðabirgða.
I.

Frestur til að uppfylla skilyrði 1. málsliðar 5. gr. þessarar reglugerðar um hús eða skýli fyrir hross, sem ganga úti að vetri til, skal vera til ársloka 2000.


II.

Eigendur hesthúsa sem uppfylla ekki kröfur þessarar reglugerðar varðandi básastærðir og rými í hesthúsum sbr. viðauka I skulu breyta þeim til samræmis við þær fyrir árslok 2003.


Landbúnaðarráðuneytinu, 19. febrúar 1999.

Guðmundur Bjarnason.
Hjördís Halldórsdóttir.VIÐAUKI I

A. Básastærðir og rými í húsum (lágmarksmál):

Básar þar sem hross eru bundin:
Lengd 165 sm
Breidd 110 sm

Stíur þar sem hross eru laus:
Hross, fjögurra vetra og eldri 3,0 m²
Tryppi 2,2 m²
Folöld 1,8 m²
B. Básastærðir og stíurými í flutningum á landi (lágmarksmál):

Fullorðin

Básar
hross þar sem hross eru bundin
Lengd 180 sm.
Breidd 60 sm.

Stíur
1 m²

Folöld

Stíur skulu það rúmar að þau geti lagst og staðið upp.
C. Loftræsting o.fl.
Magn eftirtalinna loftegunda skal að jafnaði ekki vera meira en hér segir:
Ammóníak (NH3) 10 ppm
Koltvísýringur (CO2) 3000 ppm
Brennisteinsvetni (H2S) 0,5 ppm

Við hönnun loftræstiskerfis skal leitast við að lofthraði umhverfis hrossin fari ekki yfir 0,2 m/sek.
Rakastig í einangruðum húsum skal ekki fara yfir 80%.
Rakastig í óeinangruðum húsum skal að jafnaði ekki fara umfram 10% þess sem er úti.
Hljóðstyrkur skal ekki fara yfir 65 dB (A).


VIÐAUKI II
Hrossahagar.

Aðferð til að meta ástand lands:

Flokkur
Ástand Einkenni Aðgerðir
0
Ágætt Rofdílar eru nær engir (0-2% þekja).
Þúfur eru vart merkjanlegar.
Lítil eða engin ummerki beitar,
(svarðhæð ~ 20-50 sm).
Land er loðið.
Puntur er mikill að hausti.
Sina er mikil í sverði.
Uppskera er mikil (gróðurnýting < 10%).
1
Gott Rofdílar eru hverfandi litlir (< 5% þekja).
Þúfur eru vart merkjanlegar.
Gróður er rjóðurbitinn og toppóttur,
(svarðhæð minnst 15 sm).
Puntur er áberandi að hausti.
Sina er talsverði í sverði.
Uppskera er talsvert mikil (gróðurnýting < 40%).
Engar sérstakar.
2
Sæmilegt Rofdílar eru hverfandi litlir (< 5% þekja).
Þúfur eru nokkuð áberandi.
Gróður er jafnbitinn,
(svarðhæð ~ 10-20 sm).
Puntur er nokkur að hausti.
Sina sést í sverði.
Uppskera er nokkur (gróðurnýting 40-60%).
Ekki nauðsynlegar.
Aðgátar þörf, t.d. í köldum árum.
3
Slæmt Rofdílar eru merkjanlegir (~ 5-10% þekja).
Þúfur eru áberandi.
Gróður er snöggur og jafnbitinn,
(svarðhæð ~ 5-15% sm).
Puntur er lítill að hausti.
Land er nær sinulaust.
Uppskera er lítil (gróðurnýting 60-80%).
Dregið úr beit.
Áburðargjöf.
4
Mjög slæmt Rofdílar eru nokkuð áberandi (~ 10% þekja).
Þúfur eru mjög áberandi.
Gróður er mikið bitinn,
(svarðhæð < 10 sm).
Puntur er lítill sem enginn að hausti.
Land er sinulaust.
Uppskera er lítil sem engin (gróðurnýting > 80%).
Friðun.
Dregið verulega úr beit.
Áburðargjöf.
5
Land óhæft til beitar Rofdílar eru mjög áberandi (> 10% þekja).
Þúfur eru mjög áberandi.
Gróður er allur rótnagaður,
(svarðhæð ~ 5 sm).
Puntur sést ekki að hausti.
Land er sinulaust.
Uppskera er lítil sem engin (gróðurnýting > 80%).
Friðun.
Uppgræðsla þar sem við á.

Word útgáfa af reglugerð


Þetta vefsvæði byggir á Eplica